Trúin og efinn

Trúin og efinn

Margir álíta efa vera eðlilegan gagnvart öllu sem menn mæta og eiga eða vilja og verða að taka afstöðu til. Þetta á sérstaklega við um stórar yfirlýsingar, sem eiga að búa yfir miklum sannleika. Gagnvart þeim eru menn sérstaklega gætnir. Þetta er eðlilegt og felur ekki í sér neina fordóma, heldur eru menn einungis að tryggja fjarlægð og andrými til að geta metið það sem að þeim er haldið.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
03. apríl 2014

Í þessum greinarstúf eða hugleiðingu er ætlunin að fjalla eilítið um samband trúar og efa. Leitast verður við að sýna hvernig efinn og trúin eru – þegar betur er að gáð – samofinn veruleiki. Báðir þessir þættir eru manninum nauðsynlegir ef hann á að ná tökum á lífi sínu eða áttum í tilverunni. Fyrst verður fjallað um efann og hlutverk hans sem verkfæri mannsins til að greina með heiminn og samfélagið. Í framhaldinu verða skoðuð tengsl efa og trúar. Loks verður hugað að samhengi þeirra við það orð sem Jóhannes sendi Jesú: „Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum við að vænta annars?“ (Mt 11.3).

Efi, mennska og mannlegt samfélag

Margir álíta efa vera eðlilegan gagnvart öllu sem menn mæta og eiga eða vilja og verða að taka afstöðu til. Þetta á sérstaklega við um stórar yfirlýsingar, sem eiga að búa yfir miklum sannleika. Gagnvart þeim eru menn sérstaklega gætnir. Þetta er eðlilegt og felur ekki í sér neina fordóma, heldur eru menn einungis að tryggja fjarlægð og andrými til að geta metið það sem að þeim er haldið. Hluti mennsku mannsins er nefnilega sjálfstæði til að draga eigin ályktanir. Ef þetta er ekki gert þá er vart hægt að greina á milli tálsýnar og sannleika, tískuvinda og veruleika.

Það, sem útilokar frá upphafi allar vangaveltur, spurningar og efa, veitir ekki rými til frelsis heldur kemur í veg fyrir raunverulega tileinkun. Það verður alltaf framandi, kallar fram tortryggni og veldur nauðung. Ef kristin trú felur raunverulega í sér sannleikann, þá þarf hún ekki að óttast sjálfstæða hugsun, heldur þarfnast hún óvissu og leitar, spurninga og efa. Trúin býr í innsta kjarna mannsins og er honum eiginleg en ekki ókunnug, því hún setur sjálf þessa kröfu og gefur efanum rými sér við hlið.

En það sem er sagt getur vakið efa, einfaldlega af því að ekki er ljóst af hverju eitthvað á að vera á þann veg sem fullyrt er. Efinn tengist þannig því sem er áhugavekjandi og beinist að því sem er sagt og vill prófa það (sbr. 1Þess 5.21). Í krafti hans reynir maðurinn síðan að komast að niðurstöðu eða gera það ljóst sem áður var óljóst. Mann reyna þannig að komast að hinu sanna.

En leitin að sannleikanum getur verið erfið, valdið heilabrotum og óróleika. En efinn verður fyrst erfiður, þegar maður reynir og hann grunar að sannleikur þess sem hann er að fást við víkur undan í leitinni og hann kemst að því að sannleikurinn vill hreinlega ekki að maðurinn höndli sig.

Þannig er það oft með samband mannsins við Guð. Margt af því sem sagt er um Guð vekur spurningar, kallar fram óvissu og efa: Það virðist óljóst og svífa í lausu lofti, bara af því að ég get ekki höndlað það. Löng tímabil óróleika fylgja þessari leit og efanum sem henni fylgir.

Efi og hlutlaus skoðun Við sögðum áðan að innihald setningar eða fullyrðingar geti vakið efa. Hægt er að einbeita sér að innihaldinu á þann máta að það snertir manninn ekki persónulega, heldur sé reynt að skoða innihaldið á hlutlausan máta. Við skoðum bara „staðreyndir“ og útilokum öll huglæg áhrif. Þetta er aðferð hinna svokölluðu vísinda og þá aðallega náttúruvísinda. Hér er efinn notaður sem aðferð til að nálgast skipulega viss viðfangsefni og leysa þau.

Efinn er hér notaður sem tæki til að finna grundvöll fyrir líf mannsins og athugana hans á veruleika sínum, sem stenst alla gagnrýni. Hann er tækið sem maðurinn notar í leit sinni að grundvellinum. Hér er ekki um að ræða þann persónulega efa sem getur gripið manninn heljartökum og fyllt hjartað örvæntingu og ótta. Sá efi gerir ásakanir samviskunnar að helvíti og manninn örvinglaðan um stöðu sína frammi fyrir Guði og heimi. Þann efa þekkti m.a. Ágústínus (354–430) kirkjufaðir og Marteinn Lúther (1483–1546) sem reyndi hann í glímu sinni við verkaréttlætingarkerfi miðaldakirkjunnar. Hinn tæknilegi efi vísindanna er fremur hlutlaust tæki er maðurinn beitir á kerfisbundinn hátt í leit sinni að þekkingu. Vísindin vilja hér byggja á hinu röklega og viðleitnin er til að byggja þau á jafntraustum grunni og t.d. stærðfræðin hefur. Innan náttúruvísinda hefur lögum verið leitast við að þau uppfylli sömu kröfur um sannleiksgildi og viðgangast innan stærðfræðinnar.

Efinn er hér verkfærið sem á að nota til að ná þessu marki og það er gert með því að vísa burt öllum fullyrðingum sem röklega er hægt að draga í efa. Þetta gerir vísindamaðurinn markvisst til að komast að þeim fullyrðingum sem ekki var hægt að efast um.

Í þessu samhengi er augljóst að efinn er leystur úr öllum tengslum við tilvistarlega upplifum mannsins og algjörlega settur í röklegt samhengi stærðfræðilegrar hugsunar. Þrátt fyrir það er það einstaklingurinn sem efast og þessum efa geta ekki einhverjir aðrir sinnt fyrir hann eins og t.d. samfélag vísindamanna, stofnanir eða aðrir aðilar. Útgangspunkturinn er hér maðurinn sem hugsandi vera og markmiðið er að allir menn geti fylgt röksemdafærslunni og endurtekið tilraunina sjálfir.

Efi og trúin

Á annan máta er líka hægt að nota, reyna og upplifa efann. Þessu veldur að hann er hluti af lífinu og því sem gerir manninum mögulegt að lifa lífinu á meðvitaðan máta og þar með í trú. Allt sem lifir er eitthvað sem er ekki aflokið, heldur er stöðugt að verða eitthvað – það er á hreyfingu, ólokið, opið og breytilegt. Það er breytingum undirorpið. Maðurinn fer frá einu þroskaskeiði til annars, þar sem farið er í gegnum margar kreppur. Menn verða að setja spurningarmerki við margt, jafnvel allt, til þess að komast í gegnum þær. Efinn drífur manninn svo að segja áfram, lætur hann spyrja, leita og umfram allt setja spurningarmerki við það sem er sjálfgefið. Hér í samfloti trúar og efa skapar maðurinn eitthvað nýtt eða þróast og oftar er það svo að menn komast aftur að gæðum þess sem var álitið sjálfgefið og jafnvel vart virt. Í yfirfærðri merkingu má segja það svo: Stundum þurfa menn að fara að heiman til að komast aftur heim. Efinn getur hér svo að segja opnað augu manna.

Einmitt þeirri trú sem ég hef, lifi í og býr í mér, er aldrei lokið. Þess vegna getur trúaður maður aldrei dvalið í sjálfum sér, því hann mun ætíð hafa nóg að efast um gagnvart sjálfum sér. Og þess vegna trúir hann einmitt. Þannig er innbyggður í trúna viss óróleiki og að sætta sig ekki við það sem er nú einu sinni svona. En ef einhver nær því að ná sátt við sjálfan sig og lífssýn sína, þýðir það ekki að vera hættur að setja spurningarmerki við hlutina og efast. Slíka afstöðu ber að virða þegar hún er orðin að sannfæringu, byggðri á lífsreynslu. Þetta má ekki túlka sem svo að það sé óheilbrigt að vera frá upphafi sáttur við sitt, um það er ekki að ræða. Slíkur einstaklingur dvelur í sátt í trú sinni og við lítum upp til hans, einmitt vegna þess að hann býr í ró og öryggi þess sem kann að spyrja og efast. Efinn er hér ekki örvænting, heldur viðleitni til að sjá m.a. veruleika heimsins í samhengi Guðs. Slíkt fólk kann að skoða margvísleg fyrirbæri í spyrjandi leit sem byggist einnig á trú.

Mikilvægi sambands trúar og efa

Efinn getur líka virkað sem hvati eða truflun í lífi þess sem hefur fjarlægst Guð – hvort sem það er ómeðvitað vegna vinnu, anna, afskiptaleysis eða kæruleysis. Þannig eigum við öll löng tímabil þar sem við gengum í gegnum lífið án þess að setja nokkrar spurningar við eitt eða neitt. Við tókumst bara á við daglegt líf eins og það kom fyrir, eða tókum t.d. öllu sem sjálfgefnu. Í slíkri stöðu líður jafnan ekki á löngu þar til órói gerir vart við sig og lífið verður mönnum innantómt. Þá er eins og þeir séu komir úr takti við sjálfan sig, náungann og Guð. Efinn gerir manninn annars vegar meðvitaðan um tómleikann en hins vegar um andstæðu hans, þörf eigin lífis fyrir kærleika.

Vegna þess að trúin væntir ætíð einhvers af Guði, getur hún vakið efann. Ekki svo að skilja að hún sé nýjungagjörn og geti ekki haldið sig við neitt, eins og barn sem þrífur í eitt leikfang á fætur öðru, heldur í þeim skilningi að náð Guðs er ný á hverjum morgni, sem trúin heldur í á göngu sinni með Guði í gegnum lífið. Maðurinn veit að á henni mun hann efast um sjálfan sig, þá leið sem farin er og um Guð en samhliða því reyna sannleika þeirra orða sem forðum voru sögð við Pál postula: „Náð mín nægir mér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika“ (2 Kor 12. 9).

Jóhannes skírari og trúarefinn

Efinn og tilvistarglíman

Af ofangreindu er ljóst að efinn sem tekist er á við í Ritningunni er mun róttækari en hinn fræðilegi og tæknilegi efi sem stuðst er við í athugunum náttúruvísinda eða sá sem stuðst er við í hugvísindum, sem varðar m.a. sögulegar vangaveltur um hvað sé upprunalegt og hvað ekki. Þessu veldur að samspil trúar og efa snertir þar mat mannsins á eigin lífi og jafnvel uppgjör eigin lífs. Á þessum þætti er einmitt tekið í frásögn Matteusaguðspjalls um spurninguna sem Jóhannesar skírari lagði fyrir Jesú (Mt 11.1–6).

Í Matteusarguðspjalli er greint frá því að Heródes varpar Jóhanesi í fangelsi. Þar gerir Jóhannes upp líf sitt. Hann fer að efast um sjálfan sig og Guð, um boðun sína og örlög. Þegar hann bíður aftöku sinnar kvelur hann spurningin: „Var allt líf mitt á misskilningi byggt?“ Er Jesús sá sem hann hafði boðað. Mannssonurinn sem koma átti að dæma alla menn? Sá sem Jóhannes hafði sagt um: „Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert tré sem ber ekki góðan ávöxt, verður höggvið og á eld kastað.“

Jóhannes hafði predikaði um komu harðs dómara, sem með varpskófluna í hendi sér myndi gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu en brenna hismið í óslökkvandi eldi. Þá myndi réttlætið loks ná fram að ganga. Þegar hismi og hyski, eins Heródes konungur, og allir kúgarar og blekkingasmiðir fengju og tækju út sinn dóm.

En svo kom Jesús frá Nasaret. Hann sveiflaði ekki beittri öxi og hjó hið fúna tré niður og hann notaði heldur ekki harða varpskóflu til að hreinsa hismið frá hveitinu. Nei, Jesús kom sem læknir veikra og boðaði fátækum fagnaðarerindið um fyrirgefningu syndanna.

Og lítt fannst Jóhannesi að heimurinn hefði breyst við komu Jesú? Því sá sem boðaði og ruddi brautina fyrir komu Guðsríkis sat nú í fangelsi spillts harðstjóra. Jóhannes var hugrakkur og hafði nefnt hlutina sínum réttu nöfnum. Hann hafði sagt það beint út – sem fáir þorðu einu sinni að hugsa – að Heródes væri latur, áhrifagjarn sveimhugi sem sveiflaðist sem reyr í vindi hentistefna og duttlunga. Og ekki hafði hann þagað þegar Heródes þverbraut lög Guðs. Fyrir vikið sat Jóhannes nú í fangelsi og efinn kvaldi hann. Átti hann að trúa á Jesú eða átti hann vænta annars? Í efa sínum leitar hann til Krists – sem hann hafði boðað – eftir svari. En efinn getur gripið hvern kristinn mann alveg eins og Jóhannes, enda þekkjum við af eigin reynslu hve breitt bilið á milli vona og raunveruleika getur oft verið. Tvíburarnir trú og efi

En Kristur kemur ekki í mætti og dýrð þessa heims, nei, hann kemur sem barn vafið reifum og lagt í jötu. Hann kemur í veikleika og hógværð. Hann kemur til þeirra sem eru blindir, haltir, veikir og fátækir. Hann kemur til þeirra sem eru hjálparþurfi. Enda sagði hann: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ Við þekkjum sögu Jesú, hann boðaði fagnaðarerindið fátækum og dó loks á krossi í veikleika. Getur hann verið sonur Guð, sá sem kemur í slíkum vanmætti? Hver er þessi sonur Guðs og Guð sem kemur í heiminn sem hjálparvana barn. Hver er sá Guð sem horfir á eftir fylgismönnum sínum í fangelsi eins og Jóhannesi forðum og allar götur síðan til dagsins í dag? Hvers megnugur er þessi Guð ef hann leyfir veikindi og slys, stríð og hungur? Andspænis slíkum spurningum grípur efinn mann. Einnig þann sem er staðfastur í trúnni.

Þessu veldur að Guð hefur kosið að vera okkar Guð eins og hann birtist í Kristi Jesú. Þar lítur maðurinn inn í hjarta Guðs og greinir að hann er hans elskandi faðir. Þetta sér hann og greinir bara í Jesú. Guð vill ekki að við leitum hans í sögunni eða stjörnunum heldur að við leitum til hans í Kristi. Því ber að hlusta vel á orð Jesú. Sá sem berst við trúarefann andspænis þverstæðum heimsins getur heyrt í svari Jesú og séð í lífi hans að tákn guðsríkisins eru þegar að verki hér heimi, en ekki í mætti heldur veikleika. Því svaraði Jesús Jóhannesi forðum: Blindir fá „sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp.“ En allt stendur og fellur með því að þurfandi og „fátækum er flutt fagnaðarerindið.“ Það er vegna þess að einungis orð Guðs til mannsins, „þú ert minn og þú ert mín“, yfirvinnur efa og ótta, þó að hann komi alltaf aftur og aftur. Trú og efi fylgjast alltaf að. Jafnvel þegar Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinn var efinn enn til staðar hjá þeim og var fyrst yfirunninn með orði Jesú (Mt 28.18–20).

Ríki þessa heims byggja á styrkleika þegna sinna, því safna konungar og ríkistjórnir um sig öllu því besta og sterkasta sem til er í hverju landi til að standast. Það er engin tilviljun að opinberar byggingar þurfa alltaf að bera af öðrum byggingum.

Slíkt á ekki við um ríki Krists. Kristur þarfnast ekki styrkleika okkar til að standast, nei, hann kallar okkur til sín, oft hálfblind í leit að tilgangi, hölt eftir áföll í lífi okkar, veik og jafnvel dáin í vonleysi og sárafátæk í eigin réttlæti frammi fyrir Guði. Hann kallar okkur til sín eins og við erum. Og það eina sem hann vill er að við trúum á hann og fylgjum honum. Hann kallar okkur hvert og eitt og ef við höldum í Krist og orð hans, fáum við að reyna að það heldur í efa og í erfiðleikum. Þannig starfar Guð í þessum heimi. Guð er vissulega alls staðar nálægur og hefur allt í hendi sér, en einungis í Kristi og orði hans vill hann birtast manninum eins og hann er. Og þangað eigum við að leita. Guð tekur okkur að sér eins og við erum með allar okkar vangaveltur og efasemdir. Af frásögnum Matteusar er ljóst að Guð eða Kristur hneykslast ekki á manninum og hann efast ekki um hann, því á maðurinn heldur ekki gera það, heldur reyna, og þá hver á sinn máta, að miðla þeirrri fyrirgefningu og náð sem við eigum í Kristi inn í líf sitt og annarra. Og þá geta menn orðið vitni að því hvernig Guð, í hversdagsleikanum, gefur lífi okkar merkingu og tilgang.

Samantekt

Í kristinni trúararfleifð geta trú og efi átt samleið og eiga samleið. Efinn tryggir að maðurinn spyr gagnrýninna spurninga, þá einnig í tengslum við trú sína og innihald hennar. Efinn fylgir trúarglímunni og lýkur jafnframt upp vídd þess veruleika er trúin tengist. Trúin og efinn sem af henni sprettur, snertir beinlínis tilvistarvanda mannsins, sem hún leitast við að orða og leita svara við í þeim tengslum sem maðurinn á í við sjálfan sig, náungann og heiminn en umfram allt við Guð og þá oft í persónulegri glímu við Guð líkt og Jóhannes átti í forðum.