Hermiþrá

Hermiþrá

Ofbeldið er hið sama, þó fórnarlömbin hafi breyst, og nú líkt og þá, er saklausum samfélagshópum og einstaklingum fórnað til að viðhalda friðinn. Þannig eru hópar lofsungnir og krossfestir á víxl í samfélagi manna með skelfilegum afleiðingum, þar sem fólk er tekið af lífi fyrir trú sína, kynhneigð eða þjóðerni.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
25. mars 2016

Hermiþrá er tilraun til að þýða hugtak franska heimspekingsins René Girard, Mimetic Desire, en það er hans mati undirliggjandi straumur í allri mannlegri hegðun. Þrá er að mati Girard afstæð og byggir í eðli sínu á samanburði, við samfélagslegar væntingar okkar og við þrár annara. Við erum í ljósi hermiþrár slíkar félagsverur að innstu langanir okkar og ótti byggja á áliti annarra með beinum og óbeinum hætti.

Hugmynd og hugtakanotkun Girard er öflugt skýringarskema sem nota má til að greina sammannlega þætti í bókmenntum, trúarhefðum og samfélagsgerð, sem að hans mati byggist að miklu leiti á samanburði og eftirhermun. Við erum með öðrum orðum í sífelldri samkeppni og samanburði við aðra.

Hermiþrá liggur jafnframt til grundvallar greiningu Girard á fórnarhugmyndum trúarbragða, sem að hans mati eru arfleifð frá samfélagsgerð sem viðheldur friði og miðlar ofbeldi í gegnum fórnir. Útbreiðsla fórnarhugmynda í samfélögum er sláandi og uppgjör við fórnarhugmyndir liggur til grundvallar píslarsögu Jesú Krists.

,,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn” er tilraun til að koma böndum á réttmætan hefndarþorsta þess sem orðið hefur fyrir ofbeldi, en í hinni fornu samfélagsgerð sem Gamla testamentið lýsir var blóðhefndarskylda trygging fyrir friði. Íslendingasögurnar lýsa slíkri hefndarskyldu meðal forfeðra okkar og Njála teflir fram stigvaxandi blóðhefndum í undirbúningi kristnitökunnar, þegar hefndarhyggjan var afnumin.

Fórnir gegndu í hinum fornu samfélögum því hlutverki að koma á friði og varðveittar eru lýsingar á fórnum manna og dýra sem sáttargjörð í ófriði og til að stöðva vítahring hefnda. Því meiri sem ófriðurinn er, því dýrari er fórnin, en skilyrði fórnar er að fórnarlambið sé saklaust og ófært um að geta valdið ófriði með því að leitað yrði hefnda fyrir það.

Inn í slíkt samhengi talar píslarsaga Krists, þar sem hin forna fórnarguðfræði gyðinga var gerð upp og fórn Jesú endurtúlkaði samhengi tilverunnar í frumkristni. Jesús er hið fullkomna fórnarlamb, sem bindur enda á fórnariðkun með því að ganga ,,í dauðann svo vér mættum lifa”. Friður krossins er endanlegur vegna þess að hann er ekki af þessum heimi og því leysir hann af hólmi þörfina fyrir sí-endurtekna fórn.

Hjarðhegðun hermiþrárinnar birtist í hrópum fólksins, sem söng honum lof á Pálmasunnudegi og kallaði eftir blóði á Föstudaginn langa. Fórnarritúöl fornaldar kunna að tilheyra frumstæðri samfélagsgerð en hermiþráin og hefndarþorstinn eru viðfangsefni mannlegrar tilveru á öllum tímum.

Ofbeldið er hið sama, þó fórnarlömbin hafi breyst, og nú líkt og þá, eru saklausum samfélagshópum og einstaklingum fórnað til að viðhalda friðinn. Þannig eru hópar lofsungnir og krossfestir á víxl í samfélagi manna með skelfilegum afleiðingum, þar sem fólk er tekið af lífi fyrir trú sína, kynhneigð eða þjóðerni.

Túlkunarramma ofbeldisins er snúið á haus í píslarsögu Krists, sem horfir fram í gegnum þjáningu Föstudagsins Langa til sigurs lífsins yfir dauðanum, sigur elsku og náðar yfir ofbeldislögmálum samfélagsins í páskaundri upprisunnar. Í því ljósi megum við opna að sárum okkar, horfast í augu við þjáningu okkar og herma þrá okkar upp á frelsarann Jesú Krist, sem leið í okkar stað og opnaði leið að lækningu meina okkar.