4, 6 eða 7? Kynferðisofbeldi og boðorð

4, 6 eða 7? Kynferðisofbeldi og boðorð

Í máli sínu lagði dr. Fortune ennfremur áherslu á að kynferðisofbeldi væri nefnt sínu rétta nafni. Þetta á sérstaklega við þegar ofbeldið á sér stað í samhengi kirkju og trúfélaga, vegna þess að þar stangast misbeitingin svo gróflega á við það traust og góðvild sem er forsenda kirkjustarfsins.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
18. október 2011

Marie Fortune at the University of Iceland

Boðorðin tíu komu við sögu á málþingi um kynferðislega misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi í dag. Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir gerði fjórða boðorðið að umtalsefni í erindi um áhrif trúarlegs æskulýðsstarfs á vitund barna um virðingu sína og líkamsrétt. Dr. Marie Fortune færði rök fyrir því hvers vegna sjöunda boðorðið ætti frekar við kynferðisbrot gagnvart börnum heldur en það sjötta.

Virðing frekar en hlýðni

Dr. Sólveig Anna spurði hvernig kristilegt æskulýðsstarf geti verið öflugt forvarnartæki í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Það gerist meðal annars með því að styrkja vitund barna um að þau eigi líkama sinn og ráði honum sjálf. Í starfi með börnum og unglingum þarf að huga að þessu og að þeim dygðum og gildum sem er haldið á lofti.

Órjúfanlegur hluti þess að vaxa upp sem siðferðisvera er að læra að taka ábyrgð á lífi sinu og láta aðra ekki stjórna því. Þessi skilaboð þurfa að vera skýr til barnanna í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar. Í því ljósi þarf að lesa 4. boðorðið sem fjallar um samskipti foreldra og barna:

„Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.“ (2. Mós 20.12).

Í stað þess að leggja áherslu á dygðina að heiðra og hlýða þeim sem fer með vald yfir þér svo þér vegni vel, færi betur á því að ræða samskipti fullorðinna og barna í ljósi gagnkvæmrar virðingar þeirra.

Þannig er þörf barna fyrir öryggi, traust, nánd og ást í heiðri höfð. Þannig er ábyrgð hinna fullorðnu sett í forgrunn. Virðing, umburðarlyndi og skilningur foreldra og annarra fullorðinna á þörfum barna, vegur hér þyngra en krafa fullorðinna um hlýðni barna.

Þú skalt ekki stela trausti og hæfileikanum til að þiggja og veita nánd

Í yfirlýsingu kaþólskra biskupa í Bandaríkjunum um kynferðisbrot innan kirkjunnar, vísuðu þeir til þess að með kynferðisbrotum gegn börnum hefðu prestar gerst brotlegir við sjötta boðorðið: „Þú skalt ekki drýgja hór“.

Dr. Marie Fortune sagði í sínu erindi að í samhengi kynferðisbrota gegn börnum ætti sjöunda boðorðið „Þú skalt ekki stela“ betur við en það sjötta, sem er þó það boðorð sem hefur verið tengt kynferðisbrotum í gegnum tíðina.

Það sem á sér stað þegar fullorðinn beitir barn kynferðisofbeldi í einhverri mynd, er svipting eða stuldur á því sem er barninu nauðsynlegt til þroska og hamingju. Barnið er rænt sakleysi sínu og bernsku sinni.

Þetta á reyndar við í öllum tilvikum þegar aðili í sterkari stöðu beitir undirsáta kynferðisofbeldi. Við eigum því ekki að horfa á slíka atburði og meta þá út frá því kynferðislega heldur út frá valdbeitingunni sem á sér stað. Dr. Fortune nefndi söguna af Davíð og Batsebu sem dæmi um kynferðisofbeldi valdamanns gagnvart undirsáta.

Kynferðisofbeldi er ofbeldi

Í máli sínu lagði dr. Fortune ennfremur áherslu á að kynferðisofbeldi væri nefnt sínu rétta nafni og að því væri mætt sem ofbeldi frekar en afvegaleiddri girnd. Þetta á sérstaklega við þegar ofbeldið á sér stað í samhengi kirkju og trúfélaga, vegna þess að þar stangast misbeitingin svo gróflega á við það traust og góðvild sem er forsenda kirkjustarfsins.

Marie Fortune talar á dagslöngu námskeiði í Neskirkju 19. október sem ber yfirskriftina „Kynferðisleg misnotkun og rétt viðbrögð í samhengi kirkju og trúfélaga“.