Bull, ergelsi og pirra?

Bull, ergelsi og pirra?

Sagan um vitringana er ekki goðsaga heldur helgisaga, sem er ætlað að efla lífsgæði fólks. Í þeim anda ættum við að lesa söguna um vitringana. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
06. janúar 2008
Flokkar

Furður þrettándans Þrettándi dagur jóla, lok jóla. Þrettándinn var og er skemmtilegur dagur. En skelfing getur hversdagsleikinn bak jólum orðið þykkur og janúarmyrkrið svart! Það er því skiljanlegt, að á þrettándanum hafi verið íhugað og skoðað það, sem gat veitt birtu fram á veginn. Og dagurinn heitir á kirkjumálinu birtingarhátíð Drottins. Birting hins guðlega var sögð valda gleðikippum sköpunarinnar. Því varð þrettándinn í þjóðarsögu okkar dagur töfra. Kirkjugarðar lyftust jafnvel á þessum degi, selir fóru úr hömum sínum, álfar fluttu sig um set og kýr töluðu! Slík stórmerki gerast ekki hvunndags! Sögurnar tjá mikilvægi dagsins? Í hálfleik jóla, þegar jólatíð lýkur í vestrænni kristni og hún hefst í austrænni, íhugum við söguna um vitringana. Já, um allan heim er þessi helgisaga skoðuð. En hvað er hún og hvað merkja vitringar og atferli þeirra.

Goðsaga eða helgisaga Íslenskir fjölmiðlar, m.a. tvo dagblöð, höfðu skömmu fyrir áramótin eftir þeim góða erkibiskupi anglikana, Rowan Williams í Kantaraborg, að sagan um vitringana væri goðsaga. Mér þótti ótrúlegt, að hann hefði notað það hugtak um þessa frásögu um  ferðalangana úr Austurvegi. Að mér læddist grunur um, að blaðamaðurinn notaði orðið goðsaga í merkingunni skröksaga, blekkingarsaga, vitleysa. Ég þekki erkibiskupinn, hef oft setið fundi með honum, hlustað á mál hans og dáðst að hve djúpt hann ristir og er nákvæmur - enda fyrrum prófessor í Oxford.

Forystumaður risakirkjusamfélags getur ekki leyft sér fræðilega lausung eða trúarlegan stráksskap. Ég fletti því upp Daily Telegraph á netinu og í ljós kom, að erkibiskupinn hafði ekki sagt að þetta væri goðsaga, heldur að þetta væri helgisögn, hann notaði orðið legend. Blaðamaðurinn hafði greinilega ruglað öllu og fréttin var misvísandi og röng. Þegar grunnatriði fréttar er ruglað verður ekkert úr nema vitleysa, sem er verri en engin frétt. Það skiptir máli hvernig lesið er. Hugtakanotkun skiptir máli og við verðum að lesa bókmenntaform rétt líka til að skilja. Það skiptir t.d. öllu máli að gera sér grein fyrir að sköpunarsagan í Biblíunni er ljóð en ekki pistill í alfræðiriti um þróun vetrarbrautarinnar.

Goðsaga lýsir tilurð heimsins og yfirskilvitlegum verum, en legendur eru sögur á mörkum raunveruleikans, sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á söguferlið sjálft eða ytra form atburðanna, heldur dýpri merkingu og táknmál. Þetta skiptir máli, og svona saga tekur sér mynd í samræmi við inntak. Inntakið kallar á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Reglan er einföld: Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Vitringar? Hvað vitum við um þessa spekinga? Hvað voru þeir margir? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hugsanlega ímyndum við okkur eitthvað um þá, sem Biblían segir ekki og gerum okkur eigin  mynd, sem á ekki við annað en sögusagnir eða ímyndun að styðjast? Hvað voru vitringarnir margir?

Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist, að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir allt að tólf karlar. Ekkert er heldur í guðspjöllunum um nöfn þeirra.

Eru þetta allt karlar? Það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesú myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki fullkomlega ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit sumra kínverskra kristinna, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magus og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum. Líkast til ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið miklir kunnáttumenn í stjörnufræðum og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna, hugsanlega úr einum væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu.

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni eins og við þekkjum hana úr Lúkasarguðspjalli og lesin er á jólunum, en segir hins vegar þessa vitringasögu. Og af hverju sagði hann hana? Í guðspjalli Matteusar er opnun, vitund um, að kristnin eigi ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð velur ekki þröngt, heldur vítt. Guð er ekki smásmugulegur heldur stór. Guð er ekki bara einnar þjóðar Guð heldur allra manna. Guð lætur sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Það er áhersluatriðið og því er ekki einkennilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega.

Kóngavæðingin Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa síðan lesið í táknmálið og útvíkkað söguna. Þegar konungar fóru að trúa á Krist var ekkert einkennilegt, að menn færu að ímynda sér að þessir vitru og góðu menn hefðu verið konungbornir, svona til að ítreka það, að konungum væri ekki stætt á öðru en að lúta Jesúbarninu. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan þýtt (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið konungar, og þar með voru gjafirnar sem gefnar voru konunglega túlkaðar, en ekki tákngjafir presta eða spekinga.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir berlega að þeir hafi verið “Austurvegskonungar.” En hins vegar þýddi Guðbrandur orðið magos sem vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar í nýútkominni Biblíuþýðingu.

Helgisagan og töfraraunsæið Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldi í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir sem við setjum upp t.d. helgileikur Melaskólans, sem sýndur hefur verið í marga áratugi hér í kirkjunni. En helgisagan er sleip, ekkert er sagt í guðspjallinu um, að þeir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Kannski var búið að flytja það eitthvað annað. Ekkert sagt hvenær þeir komu heldur það eitt er sagt að þeir hafi opnað fjárhirslur sínar og gefið gjafir.

Sagan túlkuð Hvað eigum við að gera við þessa sögu og hvernig nýtist hún okkur? Jú hún er skemmtileg. Það er gaman að segja hana og hún kitlar ímyndunaraflið. En sagan um vitringana er á mörkum raunveruleikans. Hún er vissulega helgisaga, táknsaga. Henni er ekki ætlað að tjá sögulega framvindu heldur merkingu eða inntak. Okkur  mannfólkinu þykir skemmtilegra að heyra litríka sögu en einhverjar formúlur. Við leitum flest hins myndræna, dramatíska og sögulega fremur en skilgreininga, hugtaka, og formlegrar framsetningar. Hin formlega og skilgreinandi þekking kemur á eftir og þarf auðvitað að fylgja til að þekking verði rétt meðhöndluð.

Við notum sögur til að kenna börnum okkar góða siði, frekar en þylja yfir þeim siðfræðiformúlur. Við segjum smábörnum, að diskurinn gráti og meiði sig ef hann dettur í stað þess að skýra hvað brothætt merkir eða eðli þyngdarlögmálsins. Eðlisfræðin má og þarf að koma þegar frumnálgun hefur orðið og skilað tengslum og innsæi.

Gjafirnar þrjár Leikskólabörnin, sem komu í kirkjuna nú á aðventunni vissu, að það var gull reykelsi og myrra, sem vitringarnir færðu Jesú. Í barnastarfinu hér í kirkjunni er klókur rebbi, sem sér alltaf nýjar hliðar á öllum málum, spyr erfiðra spurninga og segir margt fyndið. Rebbi var alveg viss um, að vitringarnir hefðu alls ekki gefið Jesú þetta sem sagt var heldur hafi þeir gefið “bull, ergelsi og pirru!” Boðskapur rebba er merkilegur og ég held hann lýsi vel því, sem gerist þegar fólk ekki skilur ekki veru og atferli vitringanna. Þegar menn hafa ekki lotningu í sér gagnvart Jesúbarninu verður bull, ergelsi og pirra gagnvart öllu hinu trúarlega.

Lestur helgisögunnar Birtingarhátíð - þrettándinn birtir hvað? Jú, að í Jesú Kristi opinberar Guð veru sína, kemur í krafti sínum, gerir þennan einstakling að farvegi hjálpar sinnar. Og af því að gagnvirkni er alltaf í Guðsríkinu þá er hann leið okkar til himins, farvegur okkar til lífsins, og vettvangur og viðfang vona manna.

Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að við eigum að nota vitringana sem fyrirmynd og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við þurfum ekki að trúa þessari sögu frekar en við þurfum að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.

Töfraraunsæi 

Í greiningum á suður-Amerískum bókmenntum er stundum talað um töfraraunsæi. Bækur Gabriel Garcia Marquez og Isabel Allende og ég vil bæta við Paulo Coelho líka, lifa á mörkum. Þessar bækur fjalla ekki aðeins um raunveruleikann heldur útvíkkaðan veruleika, sem leyfir hið dásamlega, upphafna, undursamlega, teygir ímyndunaraflið og lífið svo að hægt er að opna fyrir viðbótarmerkingu, sem síðan bætir lífið og vaxtarskilyrði. Legendur eiga að efla lífsgæði og hæfni fólks. Í þeim anda ættum við að lesa söguna um vitringana. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Að lúta barninu með vitringunum Hin táknræna merking guðspjallstextans er þá m.a. að menn séu ferðalangar í tíma. Að markmið lífsgöngu allra manna sé lík langferð vitringanna til móts við barnið, til að mæta manninum Jesú í tíma og í raunveruleika. Okkar köllun er að gefa það, sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf – eins og vitringarnir - og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti. Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa eftir okkar hætti, en tilvera þeirra er tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Því þarftu ekki að trúa að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi - allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra. Þegar þú íhugar sögu þeirra er endursköpuð þín eigin saga. Þegar þeir lúta Jesú í lotningu beygir þú þitt líf með þeim. Helgisaga er utan við lífið ef hún er skilin bókstaflega en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þú verður einn af vitringunum þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu, veruleika Jesú Krists. Þá verður lífið töfrandi raunveruleiki.

Amen

Prédikun í Neskirkju, 6. janúar 2008, þrettándinn. Birtingarhátíð Drottins.

A-röð texta kirkjuársins

Lexía Jes 60.1-6 1Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér. 2Myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum en Drottinn er runninn upp yfir þér og dýrð hans birtist yfir þér. 3Þjóðir munu stefna á ljós þitt og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér. 4Hef upp augu þín og litast um, þeir safnast allir saman og koma til þín, synir þínir koma langt að og dætur þínar verða bornar á örmum. 5Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði því að til þín hverfur auður hafsins og auðæfi þjóða berast þér. 6Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt, drómedarar frá Midían og Efa og allir, sem koma frá Saba, færa þér gull og reykelsi og flytja Drottni lof.

 

Pistill Ef 3.2-12 2Víst hafið þið heyrt um þá náð sem Guð hefur sýnt mér og um það hlutverk sem hann hefur falið mér hjá ykkur: 3Með opinberun birtist mér leyndardómurinn. Um það hef ég stuttlega skrifað áður. 4Þegar þið lesið það getið þið skynjað hvað ég veit um leyndardóm Krists. 5Hann var ekki birtur mannanna börnum fyrr á tímum. Nú hefur Guð látið andann opinbera hann heilögum postulum sínum og spámönnum: 6Vegna samfélagsins við Krist Jesú og með því að hlýða á fagnaðarerindið eru heiðingjarnir orðnir erfingjar með okkur, einn líkami með okkur, og eiga hlut í sama fyrirheiti og við. 7Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis af því að Guð gaf mér þá náð með krafti máttar síns. 8Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists 9og að upplýsa alla um það hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi sem frá eilífð var hulinn hjá Guði sem allt hefur skapað. 10Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum á himnum hve margháttuð speki Guðs er. 11Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. 12Á honum byggist djörfung okkar. Í trúnni á hann eigum við öruggan aðgang að Guði.

Guðspjall Matt. 2. 1-12 1Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem 2og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“ 3Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. 4Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“ 5Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: 6Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“ 7Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. 8Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“ 9Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. 10Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, 11þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. 12En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

1Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem 2og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“3Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. 4Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“5Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:6Þú Betlehem, í landi Júda,ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.Því að höfðingi mun frá þér komasem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“7Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. 8Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“9Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. 10Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, 11þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.12En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.