Hinir ýmsu heimsendar

Hinir ýmsu heimsendar

Sjá ég skapa nýjan himin og nýja jörð, segir spámaðurinn Jesaja. Hver einasti heimsendir er upphafið að einhverju nýju. Hvort sem það eru áramót, þar sem við horfum fram til nýs árs, eða við endalok lífs hverrar manneskju, þar sem hún horfir inn í eilífðina í faðmi Guðs, - jafnvel þegar öllu lýkur, sólin gleypir jörðina, eða alheimurinn dregst saman inn í eitthvert ógurlegt svarthol, þá verður lífið þar. Því þar sem Guð er, þar er líf, og þar er von...

Í dag ætla ég að tala um heimsendi.

Amina sem býr á Gazaströndinni, upplifði heimsendi á miðvikudaginn var, þegar sprengja hitti íbúðarhúsið hennar og drap hana, manninn hennar og börnin þeirra fjögur. Það síðasta sem hún heyrði var ógurlegur hávaði þegar flugskeytið boraði sig inn í húsið og tætti í sundur allt sem fyrir varð.

Nazir, sem barðist með her stjórnarliða á Sýrlandi, upplifði heimsendi fyrir mánuði síðan, þegar her uppreisnarmanna náði honum og félögum hans á sitt vald og tóku þá af lífi. Það síðasta sem hann sá var hópur manna sem beindi vopnum sínum að honum og skelfingarsvipur félaga hans.

April Jones, fimm ára gömul, upplifði mjög líklega heimsendi þann fyrsta október síðastliðinn. Það síðasta sem til hennar sást var að hún fór upp í gráan sendiferðabíl á götunni við heimili sitt í Wales. Síðan hefur ekkert til hennar spurst.

Sigurður Jóhannesson, 45 ára gamall Hafnfirðingur upplifði heimsendi í síðustu viku. Það síðasta sem hann fann var hlý hönd sem hélt um hans þar sem hann lá á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. En lífið heldur áfram. Fyrir okkur hin. Við heyrum fréttir af hræðilegum hlutum utan úr heimi, við heyrum dánarfregnir í útvarpinu og lesum minningargreinarnar í Mogganum. Við höfum flest reynslu af því að kveðja einhvern sem stendur frammi fyrir heimsendi, og við vitum það mæta vel að einhvern daginn verðum við í sömu sporum.

Samt er eins og hugmyndir um algeran heimsendi, eins og þann sem er búið að spá 21. desember nk. samkvæmt fornu dagatali Maya, séu miklu meira spennandi og veki miklu meiri forvitni og áhuga okkar. Við skrifum bækur, gerum kvikmyndir og heimildaþætti, sem fjalla um heimsendi og við vitum það öll að einhvern tíma mun þessi heimur líða undir lok, ekki bara jörðin okkar, heldur alheimurinn allur. Mannkynið hefur bara takmarkaðan tíma hér á jörð, það var til tími þegar það var ekki til, og sá tími mun koma aftur. En það er samt svo merkilegt að í öllum heimsendakvikmyndum sem ég hef séð, komast einhverjir af. Ég held að metið sé tveir, þ.e, í kvikmyndinni the Knowing, sem skartar Nicholas Cage í aðalhlutverki, þá komast bara tvö börn af, en þeim er bjargað af geimverum sem flytja þau á aðra plánetu til að hefja þar nýtt líf eftir að sólin gleypir jörðina. Og þar erum við held ég komin að kjarna málsins. Mannkynið er, þrátt fyrir vitneskju sína um takmarkaðan tíma hér á jörð, uppteknara af lífinu heldur en dauðanum. Vonin um að lífið sé dauðanum yfirsterkari er þrátt fyrir allt sammannlegur eiginleiki. Lífið finnur sér alltaf einhverja leið. .. * * *

Jesús dregur upp mynd af heimsendi í guðspjalli dagsins. Þar er heimsendir reyndar ekki endir alls, heldur upphafið að einhverju nýju. En fyrst og fremst er heimsendir dómur yfir mannfólkinu. Dómur sem felst ekki í því hvort við höfum lifað guðhræddu lífi, hvort við höfum farið reglulega í kirkju, eða notið virðingar samborgara okkar. Dómurinn veltur á því hvernig við höfum komið fram við aðra. Hvort við höfum sýnt meðbræðrum okkar þá samlíðan að sinna grunnþörfum þeirra um mat, drykk og húsaskjól og sýnt þeim þá samstöðu að vitja þeirra jafnvel þegar samfélagið hefur útskúfað þeim. Við fyrstu sýn virðist Jesús vera fulltrúi hins hefnigjarna Guðs sem vill varpa einhverjum ólánssömum sálum í helvíti, ,,í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans” eins og guðspjallið orðar svo huggulega. En fyrir Jesú vakir fyrst og fremst sú hugsun að taka sér stöðu með hverri einustu manneskju þessa heims. ,,Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér”. Jesús samsamar sig hverju einasta mannsbarni, örlög hverrar manneskju eru örlög Krists. Þess vegna er heimsendir eitthvað sem gerist á hverjum degi, og dóminn sjáum við allt í kringum okkur. Við sjáum hvað gerist þegar við neitum að sjá Krist í hverju mannsbarni, en sjáum í staðinn annað hvort óvin, eða manneskju sem hægt er að nota til að fullnægja eigingjörnum hvötum. Við þurfum ekki annað en að horfa til stríðshrjáðra svæða, eða til allra barnanna sem hverfa, eða til allra þeirra sem beitt eru ofbeldi, jafnvel í okkar nánasta umhverfi, þar horfum við inn í helvíti sjálft.

Við fáum öll okkar dóm í samræmi við það hvernig við höfum hagað lífi okkar. Höfum við sýnt hverju mannsbarni þá samlíðan sem það á skilið? Hvaða augum lítum við á meðbræður okkar og systur, bæði í okkar litla samfélagi, og í hinum stóra heimi? Sjáum við Krist í hverju og einu mannsbarni, eða erum við of upptekin við að huga að okkar eigin spegilmynd, hugsa um hvað við getum fengið út úr lífinu, í staðinn fyrir hvað við getum gefið lífinu? Hvað við getum gefið þeim sem í kringum okkur eru? Við getum kannski ekki breytt heiminum, en hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að sjá Krist í hverju mannsbarni. * * *

Dagatal Mayanna endar þann 21. desember 2012. Þá verður heimsendir skv. þeirra tímatali. Svona svipaður heimsendir og verður þann 31. desember í okkar almanaki, árið rennur sitt skeið og upp rennur nýtt ár. Í kirkjunni okkar verða þessi skil á laugardaginn eftir viku, þá er síðasti dagur kirkjuársins og upp rennur nýtt kirkjuár, með fyrsta sunnudegi í aðventu. Og þá verður einnig heimsendir, sem leiðir til nýs upphafs. Nýrra tækifæra fyrir okkur, tækifæra til að mæta þörfum annarra, sjá Krist í hverri ásjónu. Megi jólaundirbúningur okkar helgast af þeirri hugsun.

Sjá ég skapa nýjan himin og nýja jörð, segir spámaðurinn Jesaja. Hver einasti heimsendir er upphafið að einhverju nýju. Hvort sem það eru áramót, þar sem við horfum fram til nýs árs, eða við endalok lífs hverrar manneskju, þar sem hún horfir inn í eilífðina í faðmi Guðs, - jafnvel þegar öllu lýkur, sólin gleypir jörðina, eða alheimurinn dregst saman inn í eitthvert ógurlegt svarthol, þá verður lífið þar. Því þar sem Guð er, þar er líf, og þar er von...

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.