Að rækta eigin geð

Að rækta eigin geð

Líklega er það mikilvægasta vísbendingin um geðheilbrigði okkar, getan til að setja okkur í spor annarra og sjá heiminn í öðru ljósi en okkar eigin. Á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum er það markmiðið, annarsvegar að vekja okkur til meðvitundar um mikilvægi geðræktar og hinsvegar að berjast gegn fordómum í garð geðsjúkra.

Geðheilbrigði er líklega veigamesti þátturinn í velferð okkar og forsenda þess að geta notið og tekist á við lífið af fullum krafti. Hversu gæfusöm sem við erum í lífinu, er varðar líkamlega heilsu og veraldleg gæði, þá skilgreinir geðheilsa getu okkar til að njóta þess og frammi fyrir erfiðum verkefnum hefur geðheilsa okkar úrslitaáhrif á það hvort og hvernig okkur auðnast að takast á við erfiðleika. Geðheilsa er ekki það sama og geðheilbrigði en einstaklingar sem glíma við geðsjúkdóma leggja iðulega mikla rækt við geðheilbrigði sitt og heilbrigðum hættir sannarlega til að vanrækja hana.

Margir eiga á ísskápnum heima Geðorðin 10, sem eru dýrmætar vörður í átt að daglegri geðrækt en líkt og um alla heilsurækt krefst geðheilsa okkar ræktunar. Geðorð Geðræktar eru dýrmæt áminning í amstri hversdagsins um að rækta okkur hið innra og hið ytra dag hvern.

Geðorðin tíu eru eftirfarandi: 1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara 2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um 3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir 4. Lærðu af mistökum þínum 5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina 6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig 8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup 9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína 10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Í gær, þann 10. október, var haldinn Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn en dagurinn er verkefni alþjóðlegrar stofnunar sem á sér yfir 20 ára sögu og ber heitið World Federation for Mental Health. Deginum er ætlað að ,,vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna gegn fordómum í garð geðsjúkra.” Verkefnið er ærið en rannsókn tveggja íslenskra félagsfræðinga, sem bera saman viðhorf í garð geðrænna vandamála í Þýskalandi, Bandaríkjunum og á Íslandi, sýnir að fordómar í garð geðsjúkra eru útbreiddir og alvarlegir í öllum þremur löndunum, en umfang slíkra fordóma er þó marktækt minni hér á landi.

Í skýrslu þeirra Sigrúnar Ólafsdóttur og Jóns Gunnars Bernburg segir m.a.:

Fólk sem á við geðræn vandamál að stríða býr við annan félagslegan veruleika en aðrir. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fordómar, skömm og félagsleg útilokun eru oft hluti af daglegu lífi þessara einstaklinga […]. Fordómar og neikvæð viðhorf gagnvart geðrænum vandamálum móta veruleika þeirra sem glíma við slík vandamál með margvíslegum hætti. Fordómar geta valdið mismunun, til að mynda á vinnumarkaði, auk þess sem neikvæðar hugmyndir almennings um geðræn vandamál, sem birtast til dæmis í fjölmiðlum [...], geta haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra sem við þau glíma. Þá getur ótti þeirra sem greinast með geðsjúkdóm við að upplifa höfnun og skömm orðið til þess að þeir dragi sig úr eðlilegri þátttöku í samfélaginu[...]. Fordómar bitna þannig á lífsgæðum einstaklingsins og fjölskyldu hans [...] og geta dregið úr notkun á heilbrigðisþjónustu [...].

Eins merkilegt og það kann að hljóma benda greinarhöfundar á að fordómar í garð þeirra sem glíma við geðsjúkdóma hafa ekki minnkað í vestrænum samfélögum samfara aukinni þekkingu og fræðslu um geðsjúkdóma. Sú niðurstaða er óásættanleg og kirkjan þarf að leggja sitt af mörkum til að ræða málefni geðsjúkra.

Kristin kirkja er opinn vettvangur, þar sem við ræktum tengslin við Guð og myndum samfélag í kringum köllun okkar í heiminum, að færa fólki von og stuðning í fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Líkt og önnur félagsleg fyrirbæri lúta kirkjur lögmálum og byrja á því að skilgreina sig út frá því hverjir tilheyra og hverjir ekki, hverjir eru vinir hvers, hverjir eru í innsta hring og hverjir standa á jaðrinum ... hver er velkominn og hver ekki. Í guðspjöllum Nýja testamentisins bendir Jesús ítrekað á og rýfur slík félagsleg landamæri, en það gerir hann með því að lyfta þeim upp sem samfélagið hefur jaðarsett og bendir á að við erum öll eitt.

Allar manneskjur bera þungar byrðar og það er köllun okkar að létta undir byrðum hvers annars og þiggja samfélag við þann sem sagði ,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.” Geðsjúkdómar fara ekki í manngreinarálit og öll þekkjum við birtingarmyndir þeirra í einhverri mynd.

Sjálfur glími ég ekki við geðsjúkdóm en ég hef eins og allir reynslu af depurð og kvíða, sem á unglingsárum reyndist mér erfitt viðureignar. Ég leitaði mér aðstoðar við depurð og tókst á við áfengisvanda sem ég hafði þróað með mér og sú ákvörðun að deila vanda mínum með öðrum, að treysta því að ég gæti öðlast aðstoð og biðja um hjálp er dýrmætasta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Um tvítugt kynntist ég góðu fólki sem kenndi mér að iðka trú. Þau höfðu lítin áhuga á að ræða við mig um guðfræði eða skoðanir mínar á trúarbrögðum heldur einfaldlega kenndu mér að biðja, sitja í kyrrð og að hjálpa öðrum. Ég varð fyrir trúarlegri reynslu í kjölfarið, þeirri reynsla að standa ekki einn í lífinu, og ég hef frá þeim degi aldrei efast um tilvist eða gæsku Guðs.

Í æskulýðsstarfi kirkjunnar hef ég séð þetta undur eiga sér stað margsinnis síðan, að ungt fólk sem upplifir sig í erfiðum aðstæðum og vanlíðan öðlist vissu um að það standi ekki eitt í lífinu og megi hvíla í hendi Guðs. Geðsjúkdómar þarfnast faggreiningar og læknismeðferðar en kirkjan er mikilvægur farvegur geðheilbrigðis, jafnt þeim sem glíma við geðsjúkdóma og hinum sem finna þörf hjá sér þörf til að upplifa elsku og eignast samfélag í trúnni á Jesú Krist.

Textar dagsins tala með sterkum hætti inn í slíkar aðstæður. Sálmaskáld 30. Davíðssálms hefur sungið í sig hugrekki með sálmum sínum er hann játar sigur, gleði og óttaleysi mitt í angist sinni ,,Ég lofa þig, Drottinn, því að þú dróst mig upp úr djúpinu”. Páll postuli hughreystir söfnuð Fillipímanna, verandi sjálfur í fangi, og játar í þrengingum sínum ,,allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.”

Loks gefur Jóhannesarguðspjall öfluga frásögn af lækningu blinds manns en Jesús smyr augu hans með hráka sínum og bægir blindu mannsins frá. Umgjörð sögunnar gefur til kynna að sjónblinda mannsins sé tákmynd fyrir þá blindu sem prestarnir og samborgarar Jesú þjáðust af. Blindu á dýrð Guðs, á þann fagnaðarboðskap sem Jesús vildi koma á framfæri og á þarfir annara.

Líklega er það mikilvægasta vísbendingin um geðheilbrigði okkar, getan til að setja okkur í spor annarra og sjá heiminn í öðru ljósi en okkar eigin. Á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum er það markmiðið, annarsvegar að vekja okkur til meðvitundar um mikilvægi geðræktar og hinsvegar að berjast gegn fordómum í garð þeirra sem glíma við geðsjúkdóma. Bæði varðar erindi og köllun kristinnar kirkju.

Samfélag kirkjunnar og kraftur Guðs í lífi okkar getur gert kraftaverk í þá átt að auka gleðina í lífi okkar. Þeirri gleði verður einungis viðhaldið með því að gefa þörfum annarra gaum og láta okkur aðstæður geðsjúkra, sem og allra sem þarfnast aðstoðar við, varða.

Guð veiti okkur náð sína til þess.