Undan eða eftir tímanum

Undan eða eftir tímanum

Þjóðkirkjan vill standa vörð um lýðræði og mannréttindi. Hún er skuldbundin því! Og kirkjan vill virða þau faglegu sjónarmið, sem skólarnir eru bundnir í fjölhyggju- og fjölmenningarumhverfi samtímans. Þar er afar mikilvægt að fyllsta tillit sé tekið til ólíkra lífs- og trúarskoðana og sýna virðingu og umburðarlyndi í hvívetna.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“

Matt. 21. 1-9

Gleðilegt nýtt kirkjuár í Jesú nafni.

Aðventa. Nýtt kirkjuár er gengið í garð. Aðventa merkir tilkoma þess sem er í vændum, og uppfyllir vonir manna og þrár. Textar dagsins segja hver með sínum hætti hvað það er: Hjálpræðið kemur, það sem bjarga mun, leysa, frelsa, það kemur! Það fer ekki mikið fyrir því, en áhrif þess leyna sér ekki.

Textar og frásagnir Biblíunnar eru grunntextar okkar menningar og siðar á Íslandi. Þeir eru skráðir inn í almanakið okkar, þess vegna eru rauðir dagar á dagatölunum, helgar og hátíðir þar sem hin Helga saga er sögð sem er grunnmynstur okkar menningar og samfélags. Ýmsir vilja vera láta að þarna sé eitthvað það á ferðinni sem umfram allt verði að bægja frá þeim ungu og ómótuðu. Fjarlægja verði Biblíusögurnar úr skólunum, banna eigi að dreifa Nýja testamentinu til skólabarna, meina prestum aðgang að leikskólunum, hætta að lesa og túlka jólaguðspjallið á litlujólunum. Svona er vaðið áfram með fána umburðarlyndisins og mannréttindanna við hún.

En við, foreldrar og afar og ömmur þessa lands, sem borið höfum börn okkar til skírnar og fylgjum þeim til fermingar og viljum að arfurinn góði berist áfram til komandi kynslóðar, okkur blöskrar, okkur er nóg boðið. Ég þakka stuðning menntamálaráðherra við kirkju og kristni og yfirlýsing um að ekki standi til að visa kristindóminum úr skólunum. Það var mikilvægt að fá þau skilaboð út til samfélagsins. Og ég þakka allt gott samstarf kirkju og skóla um land allt hingað til. Meirihluti landsmanna vill standa við hin kristnu grunngildi og vill að þau fái enn að móta íslenskt samfélag, og það gerist ekki nema sagan sé sögð og lærð og tjáð, sagan um Jesú og boðskapinn hans góða. Gildi eru aldrei í tómarúmi, gildi eru ekki bara falleg orð, þau eru ekki gunnfánar, sveðjur eða svipur. Grunngildi samfélagsins eru vefur verðmæta og viðmiða, og spretta úr samhengi frásagna, minninga, reynslu og sögu, sameiginlegrar vitundar um hvaðan við komum og hvert leið manns er stefnt. Og innst og dýpst er þar lotningin og virðingin fyrir því sem heilagt er og manninum æðra, sá máttur, það vald sem er upphaf og grunnur og takmark veru manns og lífs.

Meir en nokkuð annað hafa frásagnir guðspjallanna og meginstef hins kristna fagnaðarerindis mótað og nært grunngildi íslensks samfélags og á grundvelli þeirra hvílir það sem okkur er dýrmætast og best. Og enginn vafi er á því að af rótum þess mun spretta áframhaldandi farsæld og velferð þjóðarinnar. Ef börnin fá ekki lengur að heyra sögurnar af Jesú og læra boðskap hans, þá verða þau ekki aðeins ólæs á menningu og sögu þjóðarinnar, sem væri sannarlega menningarlegt stórslys, heldur verða þau blind á birtu þess orðs og anda sem eitt megnar að lýsa, leiða og blessa í gleði og sorg, í lífi og í dauða.

Þjóðkirkjan vill standa vörð um lýðræði og mannréttindi. Hún er skuldbundin því! Og kirkjan vill virða þau faglegu sjónarmið, sem skólarnir eru bundnir í fjölhyggju- og fjölmenningarumhverfi samtímans. Þar er afar mikilvægt að fyllsta tillit sé tekið til ólíkra lífs- og trúarskoðana og sýna virðingu og umburðarlyndi í hvívetna. En það er ekki einstefnugata, heldur byggir á gagnkvæmni. Umburðarlyndi er mikilvægt grunngildi, en má ekki leiða til þöggunar og snertifælni við hinn mótandi sið og trú í landinu.

Níu af hverjum tíu börnum á Íslandi eru skírð og fermd, vegna þess að foreldrar þeirra vilja það. Kirkjan er skuldbundin því að styðja þá til að sinna hlutverki sínu að miðla trú og sið. Ég hvet alla foreldra og þau sem ábyrgð bera á börnum og unglingum að minnast ábyrgðar sinnar í þessum efnum.

En víkjum nú að frásögn guðspjalls dagsins. Það er vel þekkt frásaga af innreiðinni í Jerúsalem. Næsta auðvelt að setja sér hana fyrir sjónir.

Ég sé fyrir mér lærisveininn sem flýtir sér af stað með félaga sínum til að fá lánaðan asna. Við vitum ekki hver hann er, heldur það eitt að hann hlýddi rödd meistarans: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“

Og hann fer. Ég veit svo sem hvað ég hefði sagt í þessum sporum, ekki hefði vantað mótbárurnar og fyrirvarana. Ef til vill hefur guðspjallamaðurinn af kurteisi og tillitssemi þurrkað mótbárurnar burt. En kannski voru bara engar mótbárur. Hvað um það, á einn eða annan hátt getur rödd og vilji Guðs náð til manns og mótbárur og fyrirvarar vikið fyrir vissu um að lífið kallar mig nú til verka og viðbragða. Trú er ekki bara hugarstarfsemi, viðhorf og skoðanir. Trú getur verið meir í fótunum en höfðinu. Og þegar Guð kallar þá kallar hann á mig allan. Líka í dag. Og ef til vill segir hann ekki: Farið! Heldur Komið! Komið að borði mínu í dag! Það er ekki endilega víst að hann segi: „Gefðu!“ Heldur:„Þiggðu! Þiggðu það sem ég gef þér, - líf mitt, ljós og anda.“

Og hver er þessi sem Jesús vísar til: „ef einhver hefur orð um“ ? Hver er þessi „einhver?“ einhver ónefndur maður sem er þegar í stað tilbúinn að lána asnann sinn inn til borgarinnar, að láta sitt eigið í té, upp á algjöra óvissu, í trausti og tiltrú. Hamingja er að gefa af sínu, að leggja sig og sitt fram öðrum til hjálpar og gleði. Örlæti, gjafmildi, gestrisni, - þekkjum við ekki öll hve undursamlegt það er? Ég hugsa til hans sem alltaf er reiðubúinn til hjálpar, ég hugsa í dag sérstaklega til þeirra mörgu sem reglulega gefa af sér fé til Hjálparstarfs kirkjunnar. Þar er margur „einhver“ sem vill láta í té það sem Drottinn þarfnast. Það er ómetanlegt. Og ég hugsa til hennar sem aldrei telur eftir sér að koma til liðs við vini sína eða granna þegar á þarf að halda, ég hugsa til hans sem alltaf á ráð í vanda og fúsleik til hjálpar. Guð blessi allar slíkar manneskjur. Ég veit þú sérð fyrir þér andlit slíkra sem þú þekkir. Signdu þær myndir í huga þér og réttu þeim hönd, já, og þakkarorð.

Ég sé fyrir mér borgarbúana sem horfa á asnann feta ofan hlíðar Olíufjallsins þarna forðum, ösnuna með folann litla sér við hlið, og meistarann frá Nasaret á baki. Þeir sjá þegar í stað táknið, vísbendinguna til hinna fornu texta Biblíunnar. Af því að þeir þekktu söguna, sálmana, og skyldu táknið: Hjálpræðið er í nánd, björgunin, frelsið, uppfylling fyrirheita helgra rita og dýpstu vona, konungurinn kominn til borgar sinnar, hógvær, ríðandi á asna, varnalaus, valdalaus með öllu.

Svona vill Guð koma. Það er gegnumgangandi stef í Biblíunni. Einu sinni spurði maður nokkur prestinn sinn:„Hvernig stendur á því að hér áður var til fólk sem sá Guð augliti til auglitis. Hvers vegna er það ekki lengur svoleiðis? Er það vegna þess að menn geta ekki hugsað nógu hátt?“ Og presturinn svaraði:„Nei, Það er vegna þess að nú getur enginn beygt sig nógu djúpt.“

Guð vill komast í augnsamband við þig. Því kemur hann í auðmýkt og hógværð. Hann velur sér asna til innreiðarinnar, en ekki stríðsfák eða rolls. Hógværðin dylur tignina, auðlegðin sanna, gæðin æðstu dyljast í þessu venjulega, hversdagslega, í auðmjúkri umhyggjunni, í hóglátri návistinni, þolgóðri von, í lágværri laðan og mildi.

Kristur er enn á ferð. Þess vegna erum við hér. Við erum ekki að rifja upp gamla sögu, heldur fagna þeim atburði að Kristur kemur. Hann er enn á ferð, um borgarhliðin okkar, götur, stræti og torg, inn á heimilin, stofnanirnar, fyrirtækin, hvarvetna er hann á ferð. Og þau sem sjá tákn hans, og skynja návist hans, þau fagna, veifa pálmagreinum tilbeiðslu og trúar, vonar og kærleika og fagna honum sem konungi í von og þrá að áhrif hans, andi, líf, nái tökum í mannheimi, rými burt því illa og ljóta, kulda, synd og dauða. Aðventustefin, ljósin og ljóðin, kveðjurnar og gjafirnar eru einmitt þessi von og þrá og bæn, þrá okkar og löngun að gleðja og gleðjast og tendra ljós vonar og gleði í umhverfinu. Guði sé lof fyrir það! Guði launi alla viðleitni til þess sem við verðum vitni að og njótum. Að hugsa sér allt tónlistarfólkið um land allt sem þessa dagana leggur svo mikið á sig til að veita okkur hinum gleðistundir og lífsfyllingar. Það er svo ómetanlegt. Og þau ótal mörgu sem á jólaföstu leggja sig fram um að gefa og gleðja þá sem líða skort á einhvern hátt, þvílík blessun eru þau.

Borgarbúarnir lögðu klæði sín á veginn og veifuðu pálmagreinum í fögnuði og líka þakklæti. Þakkir berast að okkur um þessar mundir, ótal þakkir. „989 þúsund þakkir!“ eru skilaboð Hjálparstarfs kirkjunnar á aðventunni. Viðbrögð landsmanna við ákalli Hjálparstarfsins á umliðnum árum hafa verið undursamleg, og blessuð ríkulega. Ímynda þér: 989þúsund manns hefur nú aðgang að hreinu vatni fyrir milligöngu Hjálparstarfs kirkjunnar á undanförnum þremur árum vegna árangurs jólasöfnunarinnar! Vegna framlaga ykkar, kæru landsmenn. Það er ekki lítið. Níuhundruðáttatíu og níuþúsund þakkir! beinast til okkar frá fólki sem finnur hvernig líf þess hefur gjörbreyst til batnaðar. Og enn er á aðventu kallað eftir framlögum okkar í því skyni. Þakkir hinna mörgu sem notið hafa góðs af örlæti Íslendinga hingað til ættu að vera okkur öllum hvatning til að láta fé af hendi rakna til þessa verkefnis líka nú, af engu minna örlæti en fyrr. Guð blessar glaðan gjafara.

Aðventa. Nýtt kirkjuár er hafið. Kirkjuárið hefst mánuði á undan almanaksárinu, eða er það kannski ellefu mánuðum á eftir? Er kirkjan á undan eða eftir tímanum? Ég veit það ekki. En mestu varðar að kirkjan og samtíðin verði ekki viðskila við hann, sem kemur. „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins!“ Söng mannfjöldinn við borgarhlið Jerúsalem, og slóst í för með honum. Sama syngur kirkjan enn. Fólkið söng svo af því að það sá og skynjaði árroða nýs dags. Það sá þennan þarna á asnanum sem uppfylling fyrirheitanna, þann sem innleiða myndi réttlætið, sannleikann. Hvar sjáum við merki þess? Við höfum einn afar traustan mælikvarða til að greina tímanna tákn, það eru það sem postulinn kallar ávexti anda lausnarans:„Kærleikur, gleði, friður, góðvild, trúmennska, hógværð, sjálfsstjórn“(Gal 5) Þetta eru þau gildi sem farsælust eru og best. Og eru ekki kveldroði horfins tíma heldur morgunroði framtíðarinnar. Okkur er ætlað að vera börn ljóssins og dagsins, sem á móti kemur. Þá erum við, þá er kirkjan á undan tímanum, eins og vökumennirnir sem fyrstir allra sjá fyrstu geisla morgunroðans og vita að nú er nóttin á enda, dagur kominn.

Ljósin lýsa upp skammdegið. Birta og gleði lýsa af ásjónum góðvildar, umhyggju, örlætis og kærleika sem við mætum hvarvetna, hús og heimili eru fegruð og prýdd. Mikilvægast er að ljósin logi hið innra, og að í vistarverum hjarta og hugar og sálar sé tekið til, með þakklæti, umhyggju og fyrirgefningu, með bæn, kærleika og trú.

Ó, virstu, góði Guð, þann frið, sem gleðin heims ei jafnast við í allra sálir senda. Og loks á himni lát oss fá að lifa jólagleði þá, sem tekur aldrei enda.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.