Klifrað í mórberjatré

Klifrað í mórberjatré

Það er ekki fyrr en við fjórða eða fimmta yfirlestur þessarar stuttu ævisögu, að manni verður ljóst, að Sakkeus er líklega nafn, sem NT notar um mig, þegar það vill minna mig á, að hlutirnir í lífinu geta stundum verið andhverfir.

“Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.” (HP)

Ef einhvern tíma er ástæða til að fara með bæn Hallgríms, Vertu Guð faðir, faðir minn, með tilteknu guðspjalli, þá er það einmitt þegar sagan af Sakkeusi er sögð. Eins og lýðurinn, fyllist maður mikilli vandlætingu yfir Sakkeusi, sem er afskaplega ríkur og valdamikill, og maður fær það líka á tilfinninguna, að lifnaðarhættir hans séu ekki par merkilegir eða siðprúðir. Enda útskúfaður, einangraður, af almennum borgurum sinnar samtíðar. En um leið finnur maður til með honum karlinum, þar sem hann bröltir, virðulegur maðurinn, eins og smástrákur sér upp í tré til þess að leita frelsunar sjálfum sér, sem bendir til þess að hann hafi haft slæma samvisku og sé að einhverju leyti ekki sæll.

Það er ekki fyrr en við fjórða eða fimmta yfirlestur þessarar stuttu ævisögu, að manni verður ljóst, að Sakkeus er líklega nafn, sem NT notar um mig, þegar það vill minna mig á, að hlutirnir í lífinu geta stundum verið andhverfir, - sem þýðir: Það sem ég horfi á og vekur með mér hneykslan, af því að það er vitund minni fjarstætt, fráhrindandi eða siðlaust, getur í einni sviphending snúist gegn mér og orðið mín eigin saga, lífsreynsla eða ástand.

Ég bý við þá lífsins rausn, að vera hvítur karlmaður, sem hlotið hefur alla þá menntun, sem hann hefur sóst eftir, er í góðri og traustri stöðu, er kvæntur maður, á börn og barnabörn, býr sjálfstætt í eigin húsnæði, nýtur allra þæginda rafmagns, hitaveitu og tæknibúnaðar fjarskipta og tölvuheims. Þessi hvíti karlmaður er frjáls innan vébanda lagaramma frjáls og óháðs lýsðræðisríkis, hefur tjáningarfrelsi, trúfrelsi og kynfrelsi, og allt að því ótakmarkað eyðslufrelsi, hann getur ekið um þetta frjálsa og fagra land, óbundinn öllu og öllum, valið sér náttstað og gengið á fjörum og fjöllum, og óbyggðum stöðum, þar sem náttúruundrin eru næst því að vera himnesk, um leið og hann getur veitt sér í soðið ferskmeti og lesið af jörðinni ávexti sér til næringar og fullnægju. Ef hugurinn girnist samfélag og þróaða menningu er auðvelt að kalla saman vini og vandamenn, því þeir búa við sömu kjör, sem frjálst og frískt fólk, eða njóta listgyðjunnar í hvaða mynd sem er. Hér er allt. Umræddur tryggir sig með ýmsu móti fyrir áföllum hjá góðu tryggingarfélagi og fær sér sprautu á heilsugæslustöðinni svo hann fái ekki flensu. Ef eitthvað bjátar annars á í heilsufari er hægt að leita til framúrskarandi vel menntaðra lækna á fullkomnum sjúkrahúsum. Upptalningin getur verið allmiklu lengri, en ljóst er að þessi hvíti maður hefur allt, jafnvel þótt hann væri hvít kona. Miðað við þessa upptalningu, kemst ég að þeirri niðurstöðu, að ég sé bæði ríkur og voldugur. En í allri þessari dýrð og hátign sælunnar veit samt enginn hvað ég hugsa eða hvernig mér líður. Enginn veit í rauninni hvað hrærist innra með mér. Ætli það geti þá verið að nafn Sakkeusar sé ritað á enni mér?

Þegar Selma Lagerlöf skrifar helgisöguna um vitringana 3, eru þeim öllum í einhverju áfátt, einn er betlari, annar holdsveikur og sá þriðji er svartur. Skortur þeirra byggist á dómi þeirrar samtíðar, sem Selma bjó við á sínum tíma fyrir rúmri öld, og þegar lausnin kom yfir vitringana vegna nærveru Betlehemsbarnsins, varð betlarinn ungur á nýjan leik, hinn holdsveiki varð frískur og hinn svarti varð hvítur. Við brosum góðlátlega að þessari viðmiðun frelsunarinnar, en hún er þó mjög raunsæ á því augnabliki menningarinnar. Og ég get ekki betur séð en viðmiðunin sé enn við líði að því leyti að heimsmenningin metur það mest að verðleikum að vera ungur, frískur og hvítur. Ætli þessir verðleikar séu svona mikils metnir í dag? Athyglisvert að þeir snúast allir um það að vera fallegur, heill, fullkominn í hinu ytra.

Skrýtið er þetta allt. Sakkeus tilreiknar ýmsar breytingar á sjálfum sér, eftir að hús hans öðlast hjálpræði Drottins og það er mikil upptalning og langt yfir það, sem vænta mátti af svo veraldlegum manni. En í sögunni segir Jesús þá við fólkið, “...enda er hann líka Abrahams sonur.” (lk. 19:10).

Ég er feginn að Abraham skyldi nefndur á nafn. Hann er stundum nefndur faðir trúarinnar. Og niðjar hans skyldu verða margir, rétt eins og stjörnur himins (1. Mós.15:5). Þegar Abraham tók son upp á Móriafjall til að fórna Ísak syni sínum , af því Guð bauð svo, þá varð það sú trúarraun, sem er fyrirmynd trúarinnar síðan. Erfitt er að setja sig í spor Abrahams, og hver er sá, að treysta sér til þess að uppfylla slíkt boð, að fórna syni sínum. Í því dæmi er ekkert svigrúm fyrir neitt, nema það sem er annaðhvort eða, já eða nei. Og fullvissa vonarinnar á nafn Drottins varð fullkomið traust Abrahams, hin eina trú. Hér birtist sama niðurstaðan og hjá Lúter síðar, þegar hann var búinn að skúra sig hundrað sinnum út úr klaustrinu og búinn að fá x + við allar verklegar dagsskipanir ábótans, að hann fann ekki frið í sálu sinni. Ef ég get ekki treyst á náð Guðs og blessun hans mér til handa, þá fæ ég því ekki framgegnt í verkum mínum, þ.e. í menntun minni, ríkidæmi, völdum, verklegum framkvæmdum eða neinu því, sem ég hef sjálfur til brunns að bera. “Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.”(R.1:17). Lúter komst sem sé að því að maður verður ekki góður fyrir það sem hann gerir, heldur gerir hann góð verk fyrir það að vera góð manneskja og hvað gerir mig að góðri manneskju, nema það eitt að eiga fyrirgefningu og náð. Sakkeus komst að því.

Í öllu því sem ég hef og af öllu því sem ég geri líður mér ekki alltaf vel. Skilyrðin virðast þó vera fullkomin. En þegar öfundin bítur í þjóin á mér eins og úlfur í lambslæri, eða þegar ágirndin blossar upp í augum mér eins eldsprengja gamlárskvölds eða þegar óþolinmæðin grípur heljarklóm um hjarta mitt og sturlar öllum friði innan í mér og umhverfis mig, eða þegar illar hugsanir éta innan úr mér mörinn, þá þarfnast ég sannarlega einhvers sem er mér hjálpræði og sálubót. Og til þess að eignast það, verður hjálpræðið að koma í mitt hús og fylla hjarta mitt mætti trúarinnar svo að það beri ávöxt í lífi mínu.

Í sömu andrá leyfi ég mér að vera þeirrar skoðunar, að Háskóli Íslands, einn máttarstólpi íslenskrar menningar, þurfi að klifra upp í mórberjatré í von um að hjálpræðið finni veginn heim í þá merku stofnun, svo hún þurfi ekki að nærast á veikleika lýðsins, spilafíkn, þeirra, sem standa höllum fæti og kunna sér ekki forráð. Þá gæti hann líka borið meiri ávöxt í lífi sínu og jafnvel orðið einn af bestu háskólum heimsins. Varla fyrr. Að því skulum við stefna og leggjast á eitt um það, - enda er þetta okkar skóli.

Þetta með að vera ungur, frískur og hvítur hefur ekkert með útlitið að gera. Hvorki aldur, líkamlegt heilbrigði né lit. Það varðar allt sálina, andann, - manneskjuna sem slíka. Ef Sakkeus vantaði eitthvað, var það frið í sál. Hann leitaði ákaft og innilega hjálpræðis. Hann rataði rétta leið og tók á móti því glaður. Það vaxa víst ekki mórberjatré á Íslandi, en það hlýtur að finnast leið til þess að hefja sig upp móti hjálpræðinu, - hvern nýjan dag. Hallgrímur leggur okkur til bæn í brjóst.

“Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu, blessuð hans orð sem boðast þér, í brjósti og hjarta festu.” (HP)

Amen.