Fjölbreytni

Fjölbreytni

Við erum ekki kölluð til þess að gera alla eins, nei við erum kölluð til þess að hlúa að margbreytileikanum, auðga lífið og fjölga litum í öllum þess tilbrigðum.

Nú er hátíð í bæ. Sumarið er á næsta leyti og ég veit ekki með ykkur, kæru kirkjugestir, en fátt gleður mig meira en það þegar sólin hækkar á lofti og lífið tekur völdin í náttúrunni. Þetta er tími endurnæringar og ævintýra. Minningar okkar eru margar hverjar frá björtum sumardögum, nú eða sumarnóttum þegar enginn vildi leggjast til svefns heldur teyga í sig gróandann og drekka í sig ljósið. Sumarið er tími fjölbreytninnar. Nú fjölgar tegundunum í lífríkinu og litirnirnir verða svo miklu fleiri.

Sumarhátíð kirkjunnar

Þetta er líka stór dagur fyrir kirkjuna. Hvítasunnan er afmælisdagur kirkjunnar – sá eini af hátíðsdögum hennar, sem ber upp á sumar. Já, hvað er það sem einkennir hvítasunnuna – þessa sumarhátíð kirkjunnar? Á þessum degi varð kirkjan til eins og við hlýddum á hér áðan af lestri Postulasögunnar. Þá hófu þeir störfin sín, postularnir. Þeir höfðu orðið vitni að ótrúlegum atburðum – þeir fylgdu frelsaranum eftir á leið hans um vegi Galíleu og heyrðu þar og sáu svo margt sem hugur þeirra átti eftir að meðtaka. Svo vitjaði Drottinn þeirra og brýndi þá áfram í því mikilvæga verkefni sem þeim var falið: að boða fagnaðarerindið til allra þjóða. Hann sagðist mundu yfirgefa þá en þó ekki – því hjálparinn, heilagi andinn yrði með þeim um alla tíð. Því skyldu þeir ekki óttast, örvænta né fyllast einsemd og tómlæti.

Frið læt ég yður eftir, segir Kristur, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

Þetta er boðskapurinn. Þessi hugrakki hópur hittist og nú voru þeir að hefja verkefnið mikla. Þá vitjaði heilagur andi þeirra. Hann kom eins og eldtungur og kvíslaðist um salinn eins og í stórviðri. Þannig lýsir Lúkas, höfundur postulasögunnar því. Og svo gerðist undrið. Kirkjan verður til. Hvernig? Hvað gerðist? Jú því er svo lýst í sögunni með því að þá gátu þeir gert sig skiljanlega á öllum tungum fyrir öllum þjóðum og með þetta vegarnesti fóru þeir af stað út og boðuðu fagnaðarerindið.

Hátíð fjölbreytninnar

Hvítasunnan – sumarhátíð kirkjunnar er hátíð fjölbreytileikans. Hún minnir okkur sem erum kristin á að hlutverk okkar er það að tala inn í ólíkar aðstæður. Við erum ekki kölluð til þess að gera alla eins, nei við erum kölluð til þess að hlúa að margbreytileikanum, auðga lífið og fjölga litum í öllum þess tilbrigðum. En boðskapur kirkjunnar er um leið sá að mitt í allri þeirri litadýrð býr ákveðin eining. Já, við köllum það einingu í litrófinu – að allir menn hafi í sér dýrmætan neista, nokkuð sem er frá Guði komið og verður aldrei frá þeim tekið. Við erum öll dýrmæt sköpun Guðs. Við erum ekki eins en við erum eitt. Snertiflötur okkar er hið skapandi afl Drottins.

Kristur mætti alltaf fólki á þessum forsendum. Hann talaði við fólk af öllum stéttum – þá sem voru svo lágt settir að samfélagið hafði útskúfað þá, þá sem voru í óvinsælum störfum, í þágu setuliðs Rómverja. Hann átti samfélag með þeim. Þeir sem álitnir voru óhreinir áttu greiðan aðgang að Kristi. Það voru hinir holdsveiku, já skækjur og bersyndugir sátu til borðs með honum. Hugsið ykkur þá byltingu sem hann kallar yfir okkur.

Nú er stór hluti mannkyns kristinn. Enn mætir Kristur fólki út um allan heim og segir við það hið sama og sagt var við lærisveinana forðum: „Hjarta ykkar skelfist ekki né hræðist“. Og rétt eins og gerðist á hinum fyrsta hvítasunnudegi þá segir Kristur þetta við þjóðirnar á þeirra eigin tungumáli. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að ef ekki væri fyrir hina fjölþjóðlegu kirkju væru mörg tungumál glötuð – þau ættu sér ekki framtíð, já enginn kynni þau í dag. En vegna kirkjunnar hefur mikið verk verið unnið við að búa til ritmál þjóða sem aðeins gátu talað sín á milli, ekki skrifað neitt á eigin móðurmáli. Biblían hefur verið þýdd á ótal tungumál og hún hefur ferðast um heiminn á öllum tímum.

Fjölskylduhátíð

Loks er þetta hamingjudagur í lífi fjölskyldu, þar sem ungmenni játar það að Kristur eigi að vera leiðtogi lífsins. Já, kæru vinir nú er hátíð í bæ! Hér á eftir kemur fermingarbarnið fram fyrir altari Krists og svarar þar spurningunni um það hver eigi að vera leiðtogi lífsins. Þessi spurning er borin upp á þessum tímamótum þar sem sumar tekur við af vori og kirkjan fagnar afmælisdegi sínum. Er þetta ekki lýsandi fyrir hið gróskuríka tímabil sem nú er í náttúrunni? Vorið og sumarið fagna með þessum hætti, þar sem æskumaður velur sér sannan leiðtoga sem vísar honum leiðina góðu. Kæru vinir, þetta er eitt af því ánægjulegasta sem við gerum í kirkjunni okkar. Þegar ungmenni mætir hingað með þessi stóru fyrirheiti um að leita þeirrar leiðsagnar sem best er. Hann les fyrir okkur textann sem hann valdi og þar er að finna mikinn sannleik.

Fjölbreytt kirkja

Þessi kirkja sem við erum öll hluti af, er mjög merkilegt samfélag. Hún líkist mörgu af því sem við þekkjum – hún er ekki ósvipuð skóla, vegna þess að í henni lærum við mjög margt. Við lærum um vilja Guðs okkur til handa og það hvernig við getum orðið betri manneskjur. Kirkjan er eins og samtök fyrir bættum heimi – sem miðar að því að bæta líf þeirra sem minna mega sín. Hér í Keflavíkurkirkju hefur fólk komið í stórum stíl með gjafir og framlög sem síðan eru afhent fólki sem þarf á því að halda. Kirkjan er eins og íþróttafélag þar sem fólk kemur saman, eflir hvert annað og heldur svo af stað í spennandi baráttu.

Já, hver er þessi barátta sem kirkjan stendur fyrir? Það er baráttan fyrir ríki Guðs sem á að vera „svo á jörðu sem á himni.“ Þetta er barátta sem snertir okkur öll. Þessi kirkja okkar, sem á sinn upphafsreit á hinum fyrsta hvítasunnudegi hélt út af örkinni til þess að boða ríki Guðs. Og þetta ríki snýst um réttlæti, það snýst um kærleika og það snýst um það að hjálpa okkar minnsta bróður. Jesús segir: „Leitið fyrst Guðs ríkis og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ (Matt 6.33)

Nú er hátíð í bæ! Það er sumar í lofti. Garðarnir, göturnar og leikvellirnir iða af lífi. Í náttúrunni er að sama skapi allt að vakna til lífsins. Hvítasunnan er hátíð fjölbreytileikans og henni fögnum við nú þegar allt færist til lífsins með þeim ótrúlega krafti sem í sköpuninni býr.