Vatn er von

Vatn er von

Hjálparstarf kirkjunnar hefur í níu ár starfað með sjálfsþurftarbændum á svæðinu að því að tryggja aðgengi að hreinu vatni, auka fæðuval og efla völd og áhrif kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Starfið hefur borið góðan árangur en svæðið er stórt og íbúar margir.“ Markmiðið er að hjálpa fólkinu til sjálfshjálpar.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nýtt ár er hafið í kirkjunni okkar. 1. sunnudagur í aðventu markar upphaf nýs kirkjuárs og jafnframt árlega söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar, sem í ár ber yfirskriftina „Vatn er von.“ Í fréttablaði Hjálparstarfsins sem birtist í dagblaði í gær má lesa að „Í Sómalífylki í Eþíópíu valda tíðir þurrkar viðvarandi matarskorti og vannæringu. Vatnsskorturinn leiðir til lélegs ástands bústofnsins en dýralæknaþjónusta er stopul. Afleiðingin er fátækt en vegna hennar er skortur á tækjum og tólum og því eru ræktunaraðferðir í jarðrækt takmarkaðar. Allt leiðir þetta til þess að fæðuöryggi er mjög ábótavant og lífsskilyrði eru slæm. Hjálparstarf kirkjunnar hefur í níu ár starfað með sjálfsþurftarbændum á svæðinu að því að tryggja aðgengi að hreinu vatni, auka fæðuval og efla völd og áhrif kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Starfið hefur borið góðan árangur en svæðið er stórt og íbúar margir.“ Markmiðið er að hjálpa fólkinu til sjálfshjálpar. Til þessa verkefnis safnar Hjálparstarfið nú í aðventusöfnun sinni. Okkur gefst tækifæri til að styðja verkefnið með fjárframlagi sem hægt að er að koma til Hjálparstarfsins með ýmsu móti.

Við sem búum hér á landi þekkjum ekki vatnsskort. Oftast er nóg af vatni í ám og lækjum og krönum landsmanna. Vatnsskortur hefur víðtæk áhrif á lífið og lífskeðjuna og veldur fátækt hjá íbúum þeirra svæða sem ekki njóta vatns. Vatnið gerir kraftaverk og bætir líf og lífsskilyrði.

Þegar ég átti þess kost að fara til Malawí og sjá afrakstur vatnsverkefnis Hjálparstarfsins þar gerði ég mér betur grein fyrir því að vatn er von. Vatnið sem pumpað var úr brunnunum bætti heilsufar því það var hreint og tært. Það gerði fólki mögulegt að rækta grænmeti til eigin neyslu og gras fyrir húsdýrin, geiturnar og nautgripina. Áhrifin voru því margþætt, bætandi og lífgefandi. Ég horfði upp í himininn og hugsaði að þetta væri sami himinn og ég leit upp til á Íslandi. Ég horfði á sólina og tunglið og var þess ennþá meðvitaðri að þetta var sama sólin og sama tunglið og við horfum á hér á landi. Jörðin undir fótunum var á sama hnetti og Ísland. Samt var himinn og haf á milli lífsskilyrða í þessum löndum. Sumt má rekja til loftslags en flest til manna. Manna sem hafa tekið landið traustataki í þeim tilgangi að græða á því. Manna sem hafa einhvern hag af því að halda við fátækt og menntunarskorti þess fólks sem landið byggir. Það er skólaskylda í landinu en ekkert er fylgst með því hvort börnin ganga í skóla. Á meðan börnin gengu í slitnum, óhreinum, allt of stórum eða allt of litlum fötum, gengu um berfætt, óku glæsilegir bílar í röðum eftir veginum sem liggur að þorpunum. Ástæðan var heimsókn forsetans til fólksins, en þó bara þeirra sem gátu komið sér sjálf á þann stað sem forsetinn var.

Það hlýtur eitthvað að vera bogið við þann hugsunarhátt sem leyfir slíka mismunun eftir því hvar fólk fæðist hér á jörð. Það er í mannlegu eðli að vilja bjarga sjálfum sér og sínum. En í helgri bók stendur að við eigum að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. Náungi okkar getur verið nágranninn í næsta húsi og náunginn getur verið hvar sem er á þessari jörð. Allir geta hjálpað einhverjum en enginn getur hjálpað öllum er stundum sagt. Við sem höfum meira en nóg skulum muna eftir náunga okkar nær og fjær á aðventunni sem hafin er og endranær. Það er eitt sem aldrei eyðist þá af er tekið og það er kærleikurinn. Hann fellur heldur aldrei úr gildi.

Í ritningartextum þessa fyrsta sunnudags í aðventu erum við minnt á nærveru Guðs og vonina sem Guð gefur. Hann mun fylgja rétti og réttlæti í landinu segir í hinum ævaforna texta Jeremía spámanns. Í guðspjalli Lúkasar segir frá því þegar Jesús kemur til heimabæjar síns eftir að hafa dvalið í eyðimörkinni þar sem hans var freistað en þær freistingar stóðst hann allar. Þangað var hann leiddur eftir skírnina í ánni Jórdan og fór ekki einsamall, því sá andi er yfir hann kom í skírninni fylgdi honum. Þegar hann kom heim lét hann það verða sitt fyrsta verk að fara í guðsþjónustu þar sem hann las sjálfur úr sinni helgu bók Gamla testamentinu um andann sem var yfir honum. Þannig hóf hann starf sitt þegar hann fór og prédikaði komu guðsríkisins eins og það er orðað í guðspjöllunum. Guðspjallstextinn á því vel við sem fyrsti texti nýs kirkjuárs. Nýtt upphaf, ný tækifæri, nýir möguleikar. Sögurnar um Jesú og sögur hans í guðspjöllunum og sögur Biblíunnar eru lítt þekktar nú til dags. Í vetur hefur nokkrum sinnum verið spurt um sögur eða orð úr Biblíunni í spurningaþættinum Útsvari í ríkissjónvarpinu og hafa keppendur ekki getað svarað. Það er kannski eðlilegt að því leytinu til að ekki eru lengur kenndar Biblíusögur í grunnskólum landsins eins og áður var og margir sem hafa verið börn á undanförnum árum hafa ekki sótt sunnudagaskóla í kirkjum landsins. Það blasir við að Biblíukunnátta landsmanna fer þverrandi og þá er stutt í að lífsviðhorf kristinnar trúar, vonar og kærleika víki fyrir einhverju sem fólk almennt gerir sér ekki grein fyrir hvert er. Það er mikil ólga í heiminum í dag, sem birtist í ýmsum myndum. Hér á landi sem í hinum vestræna heimi birtist hún meðal annars í því að fólk vill eitthvað annað en hefur verið og er, en getur ekki skilgreint hvað er. Á stundum er, sem krafa sé uppi um, að breyta breytinganna vegna en ekki til gagns fyrir einstaklinga og samfélag.

Eitt er þó ljóst á fréttum nú um stundir og á tali manna á milli að fólk líður ekki mismunun, órétt, græðgi. Og það gerir Jesús ekki heldur. Hann kom til heimabæjar síns eins og guðspjallið greinir frá „til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Við sem viljum feta í fótspor hans höldum áfram að koma þessum boðskap til skila því verkefnið tekur aldrei enda. Við sem höfum valið að vera hans erum send með erindið í krafti þess sama anda og var yfir Jesú. Nærvera þess anda er stundum mikil, stundum lítil því við erum fólk á ferð með okkar veikleika sem og styrkleika, okkar mannlegu bresti sem nauðsynlegt er að vita af og bregðast við og reynum eftir fremsta megni að verða betri í dag en í gær. Samt er það nú svo að við getum aldrei gert öllum til geðs þó við reynum eftir fremsta megni að leggja okkur fram um það.

Boðskapur Jesú byggist ekki aðeins á því að frá honum sé sagt með orðum heldur á hann einnig að sjást í verkum okkar. Þess vegna ber okkur að muna eftir meðbræðrum okkar og systrum hvort sem er erlendis eða hérlendis. Hjálprstarf kirkjunnar hvetur okkur á aðventunni til að muna eftir systkinum okkar í Jijiga í Eþýópíu sem hafa öðlast von með vatninu sem borað hefur verið eftir í héraði þeirra. Hér heima eru líka margir sem þarfnast uppörvunar og stuðnings á þessum dimmasta tíma ársins. Hjálparstarfið leitast einnig við að vera til staðar fyrir þau. Besta jólagjöfin sem hægt er að gefa er að gefa þeim sem líða skort eða kvíða því að geta ekki glatt börnin sín á hátíð ljóss og friðar. Hjálpum því góða fólki sem starfar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar að hjálpa öðrum með því að gefa gjöf sem gefur.

Við göngum nú inn í undirbúningstíma jólanna, aðventuna, jólaföstuna. Vörður á þeirri leið eru ljósin á aðventukransinum sem setja gönguna, lífið og dagana í samhengi sögunnar um fæðingu Jesú. Spádómanna, sem fyrsta kertið minnir okkur á, fæðingarstaðarins sem annað kertið minnir okkur á, hirðanna sem fyrstir fengu að heyra tíðindin um fæðingu hans, sem þriðja kertið minnir okkur á og boðberanna, englanna, sem fjórða kertið minnir okkur á. Aðventugangan veldur sumum kvíða öðrum gleði. Það eru margar tilfinningar sem bærast í huga okkar og sinni á þessum árstíma. Minnumst þess að andi Guðs er enn með okkar hér og nú eins og með Jesú. Hann mun veita gleði og frið, stuðning og huggun, miskunn og kærleika nú og alltaf. Við þurfum aðeins að vera móttækileg fyrir honum og leyfa honum að koma inn í líf okkar og hafa áhrif á líf okkar og í lífi okkar. Guð gefi gleði og frið í sál og sinni á aðventunni, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.