Heimsendir sem afleiðing synda

Heimsendir sem afleiðing synda

Heimsslitahefðir Biblíunnar tala sterkt inn í þetta samhengi, spámenn samtímans eru vísindasamfélagið sem einróma bendir á vandann, hin synduga kynslóð sem kallar yfir okkur dóm eru hagsmunaöfl í olíuiðnaði og við ... við þurfum að vakna til meðvitundar um að hnattræn hlýnun mun ekki gera Ísland að sólarströnd, heldur óbyggilegt.

Heimsslitahugmyndir hafa fylgt manninum frá fyrstu tíð og sögur af yfirvofandi heimsenda eru jafn algengar í sagnamynni fornþjóða og sköpunarsögur. Áhrifa af heimsendahugmyndum þjóða mið-austurlanda gætir í frásögnum Biblíunnar og lýsingar hennar kallast á við þann menningarheim sem mest áhrif hefur á hverjum tíma. Þannig eru súmerskar frásagnir af syndaflóði í kvæðabálkum Gilgamesh, taldar vera fyrirmynd sögunnar af Nóaflóðinu og persneskar hugmyndir um heimsenda sem afleiðingu af himnesku stríði góðs og ills áhrifavaldar heimslitastefja í spádómsbókum Gamla testamentisins, sem skrifaðar eru eftir hersigra þeirra í Ísrael á 6. öld fyrir Krist.

Á ritunartíma Nýja testamentisins kallast á heimsslitahugmyndir gyðingdóms og grísk-rómverskar hugmyndir heimsspekiskóla á borð við Stóuspeki og Epíkúrista, sem litu á heimsenda sem óhjákvæmilegan hluta af hringrás lífsins. Pistill dagsins, sem fenginn er úr 2. Pétursbréfi á t.d. margt sameiginlegt með ritum hellenískra heimspekinga á borð við stóuspekinginn Seneca (4 f.Kr.-65 e.Kr.) og rómverska lögspekinginn Plinius yngri (63-113).

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar. En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr. (2Pét 3.8-13)

Áberandi þáttur í heimsslitahefðum er sú ábyrgð sem maðurinn er kallaður til í samhengi heimsslita og heimsslitin sjálf eru afleiðing af syndum mannsins. Þannig kom Nóaflóðið til af því að ,,allir menn á jörðinni höfðu spillt líferni sínu” (1M 6.12) og spámenn herleiðingartímans boðuðu að Guð fullnægði refsidómi sínum yfir spilltri kynslóð með myndmáli heimsslita (sbr. Esk 38-39).

Sú hugmynd að heimsendir geti verið afleiðing af syndum manna, virkar framandi okkur sem skoðum trúarheim Biblíunnar frá sjónarhóli nútímans, en slíkar hugmyndir eiga sér þó talsmenn í samtíma okkar. Að frátöldum sértrúaráherslum öðlast sú hugmynd að heimsendir geti verið afleiðing synda, hinsvegar nýja merkingu í ljósi iðn- og vísindabyltingar nútímans.

Hlýnun jarðar er ein birtingarmynd yfirvofandi heimsenda, sem er bein afleiðing af kolefnislosun okkar. Hækkun á hitastigi jarðar hefur þau áhrif að veðurkerfi eru óstöðugri, eins og yfirstandandi hamfarir á Filipseyjum bera vott um, og yfirborð sjávar fer hækkandi, sem þegar fram í sækir mun neyða milljónir manna til að yfirgefa heimili sín. Bráðnun jökla mun að lokum valda því að kerfi sjávarstrauma mun stöðvast og leiða af sér nýja ísöld, sem mun gera landið okkar óbyggilegt.

Þessi þróun er þegar merkjanleg og aðkallandi og vísindasamfélagið er nær einhuga um að sú hnatthlýnun sem hefur verið að aukast stig af stigi undanfarna áratugi, er bein afleiðing af kolefnislosun eldsneytisbruna og matvælaframleiðslu. Meðvitund almennings er því miður ekki í takt við niðurstöður vísindamanna, en á meðan innan við 3% rannsakenda draga það í efa að hnattræn hlýnun sé af manna völdum birtir skýrsla Sameinuðu Þjóðanna að einungis 38% Íslendinga telja að svo sé og enn færri að hnatthlýnun sé alvarleg umhverfisógn.

Nú stendur yfir söguleg Loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna í Varsjá en henni er ætlað að koma á fót alþjóðlegu samkomulagi um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Við opnun ráðstefnunnar benti aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, Ban Ki Moon, á að ef fram fer sem horfir verða jöklar Íslands horfnir innan fárra ára og að þær aðgerðir sem þegar hafi verið gripið til duga hvergi nærri til að hægja á eða snúa við þessari þróun. Ráðstefnan hefur ekki verið átakalaus, enda um mikla hagsmuni að ræða fyrir valdaaðila. Á fimmtudag gengu fulltrúar 133 þjóða af fundi þegar iðnríkin neituðu að borga skaðabætur fyrir þær afleiðingar sem kolefnislosun þeirra hefur haft í för með sér fyrir fátækari þjóðir og sama dag misstu fulltrúar náttúruverndarsamtaka þolinmæðina og sögðu sig frá ráðstefnunni vegna tregðu hagsmunaaðila til breytinga.

Ljóst er að niðurstöður þessara viðræðna varða heimsbyggðina alla og tregðan til að láta af völdum mun koma niðri á komandi kynslóðum. Í þessum aðstæðum öðlast stef spádómsbókmennta Biblíunnar um að syndir mannkyns muni kalla yfir það heimsendi, nýja og aðkallandi merkingu.

Jesús hélt sjálfur á lofti spádómum um að þessi heimur muni að lokum farast og lagði í því samhengi áherslu á að breytni okkar skipti máli. Heimsendaboðun hans er ætlað að vekja okkur til umhugsunar og krefja okkur til ábyrgðar, og þó margir hafi í gegnum tíðina reynt að dagsetja dómsdag er Jesús raunsær á að slíkar spár verða ekki tímasettar með vissu. Í Matteusarguðspjalli segir hann ,,Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn. [...]Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur.” (Mt 24.36-42)

Spálíkönum vísindamanna ber saman um þær alvarlegu afleiðingar sem losun kolefnis hefur á andrúmsloft okkar og hitastig jarðar, en óvissuþættir eru margir. Þeir svartsýnustu segja að það sé þegar of seint að snúa þessari þróun við á meðan aðrir telja að með samstilltu átaki um að minnka losun og auka notkun orkugjafa sem ekki losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið, sé hægt að snúa til baka.

Ábyrgð okkar felst í því að við sem samfélag leyfum ekki peningasjónarmiðum einum að ráða för í umræðunni um umhverfismál og beitum þrýstingi á ríkisstjórnir jafnt sem ólíuiðnað, á að bregðast við af festu. Aðgerðir eins varða hagsmuni allra þegar kemur að mengun jarðar og því er það ekki einkamál ríkisstjórna eða fyrirtækja hvaða kolefnisspor þau skilja eftir.

Siðbreytingarmaðurinn Marteinn Lúther var á sinni öld spurður að því hvað hann mundi gera ef hann vissi fyrir víst að heimsendir væri á morgun. Svar hans var á þá leið að hann myndi gróðursetja eplatré. Í afstöðu hans er í senn fólgið æðruleysi og hugrekki. Okkur er óhætt að lifa og njóta lífsins fullviss um að þó heimsendir komi á einhverjum tíma, ber okkur að nýta daga okkar til að rækta, elska og njóta lífsins. Í þeirri afstöðu að gróðursetja eplatré er jafnframt fólgin lausnin á vanda okkar en eyðing skóga er einn orsakavaldur þess loftlagsvanda sem við stöndum frammi fyrir.

Markmið viðræðnanna í Varsjá var að ná samkomulagi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda að nægilegu marki fyrir árið 2015 til að hitastig jarðar hækki ekki meira en sem nemur 2°C til viðbótar við það sem þegar er orðið. Það markmið náðist ekki, til þess eru of miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Alþjóðasamfélagið gerir sér grein fyrir því að þær áframhaldandi viðræður sem eiga að fylgja í kjölfarið mega ekki bregðast, en á meðan eykst skaðinn og vandinn stækkar.

Heimsslitahefðir Biblíunnar tala sterkt inn í þetta samhengi, spámenn samtímans eru vísindasamfélagið sem einróma bendir á vandann og afleiðingar þess að fljóta sofandi að feigðarósi, hin synduga kynslóð sem kallar yfir okkur dóm eru þau hagsmunaöfl í olíuiðnaði, sem svo mikil völd hafa, og við ... við þurfum að vakna til meðvitundar um að hnattræn hlýnun mun ekki gera Ísland að sólarströnd, heldur óbyggilegt.

Guð veiti okkur náð sína til þess.

Heimild: http://www.undp.org/content/dam/undp/library/corporate/HDR/2011%20Global%20HDR/English/HDR_2011_EN_Complete.pdf, sjá töflu 8.