Að tala og að hlusta

Að tala og að hlusta

Við hlustum á náunga okkar og það er fyrsta skref þjónustu okkar kristins fólks. Það er hlutverk okkar að veita náungum þá þjónustu að hlusta á þá.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
22. júlí 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. – Amen.

1. Það eru 20 ár liðin frá því að ég fluttist til Íslands. Á þessu tímabili hef ég upplifað margs konar menningaráföll eða menningarmun á milli Íslands og heimalands míns Japans, bæði í samfélaginu og í mannlegum samskiptum. Sem dæmi hið síðarnefnda má nefna hvernig maður skilur stöðu annars fólks, t.d. hvort það þarfnist aðstoðar manns, hvort fólk sé þreytt eða hvort eitthvað sé að hjá því og svo framvegis.

Segjum að einhver maður sé upptekinn við ýmislegt og vinkona hans sé í kringum hann. Í japanskri menningu þykir sjálfsagt mál að í slíkum aðstæðum að vinkonan bjóði honum aðstoð: ,,Get ég hjálpað þér?“ En á Íslandi gerist líklega ekkert þangað til maðurinn biður vinkonuna um hjálp. Að sjálfsögðu fer það eftir manneskju hvernig maður bregst við í svona aðstæðum, en þetta er bara almenn tilhneiging.

Að mínu mati, er þetta dæmigerður menningarmunur milli Íslands og Japans. Í Japan á fólk að skilja hvað vantar í aðstæðum án þess að vera sagt frá því. En á Íslandi á fólk að segja það skýrt sjálft ef það vantar eitthvað. Þetta atriði tengist raunar stóru máli sem er hlutverk tungumálsins í menningunni. Í japanskri menningu þykir það betra að hafa í samskiptum sem allra fæst orð. Í íslenskri menningu, ef ég skil hana rétt, eiga samskipti manna að byggjast á tungumálinu. Mig langar að forðast misskilning. Ég er aðeins að benda á menningarmun, en ekki að segja hvor menningin er betri.

2. Að segja frá því ef mann vantar aðstoð. Að krefjast bóta ef maður telur vera troðið á réttindum sínum. Að tjá sig skýrt. Ef við nefnum slík atriði ,,menningu með virka tjáningu“, er hún ekki aðeins menning heldur mótar hún grunn samfélags í svokölluðum háþróuðum löndum í Vestur-Evrópu.

,,Sá sem sefur á réttindum sínum á ekki skilið vernd.“ Þetta er málsháttur í lögfræði og segir að réttur nokkur getur horfið eftir ákveðið tímabil ef réttarhaldari notar ekki þann rétt. ,,Réttindi verða að réttindum fyrst þegar þau eru notuð.“ Þetta er einnig málsháttur sem varðar mannréttindi og þannig getum við séð að grunnur samfélagskerfis okkar er nátengdur við ,,menningu með virka tjáningu“.

Mannréttindi gilda öllum að sjálfsögðu, en þvert á móti verður sérhver maður að gæta réttinda sinna og það er stundum þreytandi og löng leið að fara. Um daginn unnu tvær íslenskar blaðakonur mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu varðandi tjáningarfrelsi. Þær voru dæmdar í aðskildum málum hérlendis fyrir meiðyrði, en þær hvorugar sættu sig ekki við dóminn og báru málin undir Mannréttindadómstól Evrópu. Tilraun til að gæta réttinda sinna krefst stundum þess að fólk þarf að berjast.

Þannig að það er eins og samfélagssáttamáli að við þurfum að segja frá málum okkar til þess að gæta réttinda okkar. En forsenda sáttamála þess er auðvitað að þeir sem hlusta á okkur svara almennilega án tillits þess hvort þeir séu sammála okkur eða ekki. Við tölum og hlustendur svara og bregðast við á rökstuddan hátt. Þetta er forsenda sáttamálans.

Að þessu leyti sjáum við ekki raunveruleikann í samfélagi okkar þessa daga, sem varpar skugga á þennan sáttamála? Starfsfólk í heilbrigðsþjónustunni, sjúklingar, fólk sem er að tapa íbúðum sínum vegna greiðsluerfiðleika, foreldrar skólabarna í skólasameiningarferli eða kirkjufólk sem sér um safnaðarrekstur í sínum söfnuði. Margir segja frá erfiðleikum sínum og leita aðstoðar.

Engu að síður, fá þeir aldrei svar. Ég ætla ekki að segja að ekkert hafi verið gert til að bæta aðstæður. En það sem hefur verið gert er bersýnilega langt frá því að gera fólkið ánægt. Það virðist að enginn eða örfáir í stjórnandi stöðu hlusti á raddir fólksins og óp. Samfélagið virðist hafa hætt að hlusta á fólkið sitt.

Í slíkum aðstæðum sýnist mér eðlilegt að fólk verði þreytt, vonsvikið og tapi trausti til yfirvalda þjóðarinnar, trausti til annars fólks eða sjálfs sín. Meginregla nútímasamfélags ,,að gæta réttinda sinna sjálf“ virðist að hafa komin að enda götu sem er lokuð. Hvað er nauðsynlegt fyrir okkur í þessum aðstæðum?

3. Í pistli dagsins stendur : ,,Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu“(2Kor 9:9). Ég held að það sé forréttindi fyrir okkur kristið fólk að geta trúað á þennan Guð. Ég ætla ekki að segja að við getum leyst vandamálin í þjóðfélaginu, sem við horfumst í augu við, aðeins að halda í trú á Guð. En mig langar að segja samt að trúin okkar er ,,hornsteinn“ lífs okkar. Það skiptir mjög miklu máli hvort við eigum þennan ,,hornstein“ sem við getum byggt líf okkar á eða ekki.

Um daginn las ég gagnrýni gegn kristnu fólki eins og ,,Hvernig er hægt að leggja trú sína á Guð sem veldur stórum hamförum og drepur þúsund manna?“ En þessi gagnrýni er tilgangslaus á grundvelli, að mínu mati. Við lifum öll í raunveruleika á jörðinni og raunveruleikinn ræðst stundum á okkur. Guð leiðbeinir okkur og styður svo að við höldum áfram ferð okkar á jörðinni þrátt fyrir harðan raunveruleikann, en ekki svo að við mætum ekki erfiðleikum í raunveruleikanum. Sálmur 147 er lexía dagsins, en í honum stendur: ,,Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra“(Sl.147:2-3).

Hér langar mig að benda á eitt í viðbót. Gegnum alla sálma sjáum við mörgum sinnum tjáningu eins og: ,,Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.“ (Sl.54:4). Þetta er tjáning um traust á Guð, traust á það að Guð hlustar á okkur. Þess vegna eru skáld sálmanna að segja frá erfiðleikum sínum aftur og aftur og biðja Guð um hjálp.

Slíkt viðhorf er samsvarandi ,,menningu með virka tjáningu“ eins og ég orðaði það, sem sé, að segja skýrt frá stöðu sinni og nauðsyn. Guð hlustar á okkur. Þó að samfélagið hlusti ekki lengur á okkur, hlustar Guð á okkur. Trú á Guð er hornsteinn lífs okkar og við þurfum að staðfesta það fyrst og fremst.

4. Þá kemur annað atriði. Við erum að hugleiða að segja frá nauðsyn okkar sjálfra. Ef við sjáum sama málið frá hinni hliðinni, þýðir þetta að við eigum að hlusta á aðra þegar þeir tala við okkur. Þetta má ekki gleymast. Þegar einhver maður talar við okkur og biður um hjálp, fer það eftir aðstæðum hvort við getum veitt viðkomandi hjálp eins og maður óskar eða ekki. En a.m.k. getum við hlustað á hann.

Að hlusta á aðra er mannleg grundvallarþjónusta og jafnframt er það grunnur samskipta manna. Nýi biskupinn okkar frú Agnes lagði áherslu á að hlusta á fólk í kosningabaráttu sinni og jafnvel eftir að hún tók við biskupsembættið sagði hún að fyrsta verkefnið hjá sér myndi vera að hlusta á fólk, presta og djákna og ég tel það vera mjög gott mál hjá henni.

Í pistli dagsins stendur einnig: ,,Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði“(2Kor.9:12). Þjónusta hjá kirkjunni og okkur kristnu fólki er margvísleg í raun, en að hlusta á náunga okkar, á fólk í samfélaginu er víst grunnur allrar þjónustunnar. Engu að síður gleymist mikilvægi þess oft.

Við búum í samfélagi sem byggist á grunnreglu sem er að ,,gæta réttinda sinna sjálf“ og því er það mikilvægt að segja skýrt frá nauðsyn sinni. Hins vegar lítur út fyrir í raunveruleikanum að allir tali og æpi, en enginn eða örfáir hlusti.

Í þessum aðstæðum skulum við staðfesta tvennt. Í fyrsta lagi: Guð hlustar á okkur. Í öðru lagi: Við hlustum á náunga okkar og það er fyrsta skref þjónustu okkar kristins fólks. Það er hlutverk okkar að veita náungum þá þjónustu að hlusta á þá.

,,Guð ... mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar“(2Kor. 9:10). Ef við stigum smáskref og hlustum á náunga okkar, mun Guð margfalda það og auka ávöxt réttlætis, þangað til við fáum aftur samfélag sem ,,hlustar á“ fólkið sitt.

Dýrð sé Guði, föður og sýni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen

-Texti dagsins er hér -