Handritið

Handritið

Í Júdasarguðspjalli er dregin upp önnur mynd af lærisveininum Júdasi en sú, sem við erum vön. Júdas er ekki sýndur þar sem svikari heldur framselur hann Jesú yfirvöldunum í Jerúsalem að beiðni hans sjálfs. Og þetta gerir hann til að bjarga heiminum.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
03. maí 2006

Á 4. öld hurfu mörg trúarrit úr umferð. Yfirstjórn kirkjunnar með tilstyrk Konstantínusar keisara fór þá í herferð gegn ritum, sem stimpluð höfðu verið villutrúarrit. Vitað er að Aþanasíus biskup sendi frá sér bréf þar sem kristnum samfélögum var skipað að brenna og eyðileggja öll vafasöm rit, sem ekki hefðu hlotið náð í augum rétttrúaðra guðfræðinga. Þannig hurfu mörg af þessum ritum úr umferð eða þá að þeim var komið fyrir og þau falin í jörðu í leirkerjum líkt og raunin virðist hafa verið með handritasafnið, sem fannst við Nag Hammadí í Egyptalandi um miðja síðustu öld. Eitt af þessum týndu ritum var Júdasarguðspjall. Vitað var um tilvist ritsins í fornöld því að Ireneus kirkjufaðir, biskup í Lyon, minntist á það í riti sínu Gegn villutrúarmönnum, sem hann skrifaði á seinni hluta annarrar aldar.

Fyrir tæpum þremur áratugum síðan fannst papýrushandrit í skinnbandi í suðurhluta Egyptalands nálægt Al-Minya. Handritið virðist síðan hafa gengið á milli fornmunasala þar til það skaut upp kollinum í Evrópu og Bandaríkjunum. Árið 2000 keypti svo svissneski formunasalinn Frieda Nussberger-Tchacos handritið og er það síðan kennt við hana og nefnt "Codex Tchacos" og mun það í framtíðinni verða varðveitt í Koptíska safninu í Kairó.

[poll=3]

Handritið kom fyrst fyrir sjónir fræðimanna árið 1983 þegar Stephen Emmel, sem í dag er prófessor í koptískum fræðum við háskólann í Münster í Þýskalandi, var boðið ásamt tveimur öðrum fræðimönnum að skoða gamalt handrit á hótelherbergi í Sviss. Handritið var vafið í dagblöð og geymt í skókössum. Fengu Emmel og félagar að skoða papýrusana í hálfa klukkustund en ekki máttu þeir taka myndir eða afrita skjölin. Að sögn Emmels hafði handritið orðið fyrir hnjaski en þó voru einar 30 síður heillegar þá. Verðið var hins vegar geypihátt eða þrjár milljónir bandaríkjadala. Ekkert varð af kaupum í þetta sinn og heldur ekki þegar handritið var boðið amerískum fræðimönnum til kaups á hótelherbergi í New York ári síðar. Eftir þetta virðist handritið hafa verið geymt í bankahólfi í Hicksville í New York næstu sextán árin þar til hin svissneska Frieda Nussberger-Tchacos keypti handritið en þá var ástand þess orðið vægast sagt bágborið. Frieda kom handritinu svo til sérfræðinga hjá háskólanum í Yale og þar var það papýrushandritasérfræðingurinn Robert Babcock, sem uppgötvaði að hér væri komið hið forna og týnda Júdasarguðspjall. Háskólinn í Yale vildi hins vegar ekki kaupa handritið sökum þess hversu upplýsingar um uppruna þess voru allar óljósar. Frieda flutti því handritið til Sviss og það var Maecenas-fornlistastofnunin í Basel, sem hóf að rannsaka handritið í samvinnu við ameríska fræðimenn hjá National Geographic Society og Waitt Institute for Historical Discovery.

Í Júdasarguðspjalli er dregin upp önnur mynd af lærisveininum Júdasi en sú, sem við erum vön. Júdas er ekki sýndur þar sem svikari heldur framselur hann Jesú yfirvöldunum í Jerúsalem að beiðni hans sjálfs. Og þetta gerir hann til að bjarga heiminum. Í 57. versinu í Júdasarguðspjalli mælir Jesús við Júdas: "En þú tekur þeim öllum fram því að þú munt fórnfæra manninum, sem ég er nú klæddur í. Horn þitt er hátt upp hafið, reiði þín er tendruð, stjarna þín skín skært og hjarta þitt…" Hér kemur eyða í handritið en þær eru fjölmargar enda er handritið allt í molum og brotum og því hið mesta vandaverk að koma saman heillegum texta.