Fjólublátt

Fjólublátt

Áður en jól ganga í garð þyrfti fjólublár litur aðventu og jólaföstu að hafa mótað og markað umhverfi og mannlíf, litur íhugunar, endurmats og iðrunar í kristinni arfleifð.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
09. desember 2013

Áður en jól ganga í garð þyrfti fjólublár litur aðventu og jólaföstu að hafa mótað og markað umhverfi og mannlíf, litur íhugunar, endurmats og iðrunar í kristinni arfleifð. Um ár og aldir hafa þau sem stunda hugleiðslu, íhugun og kyrrðarbæn frammi fyrir frelsaranum, jötubarninu og hinum krossfesta og upprisna Drottni, gert sér þess grein, að litir hafa áhrif á sálarlíf og fremstu sálfræðingar eins og Carl Gustav Jung einnig gætt að því. Litir vekja mismunandi hughrif og skynjanir. Fjólublái liturinn róar og kyrrir. Hann er samsettur bæði úr dökkum lit og ljósum og dregur fram í trúarlegu samhengi að sigurljós kristinnar trúar skín í gegnum myrkur þjáninga og rauna. Sé ekki hugað að því, verður viðtaka trúarljóssins grunnfærin og yfirborðsleg.

Það er sem fjólublái litatóninn hvetji til íhugunar, innri skoðunar og gjörhygli, til að hreinsa og helga lífið. Undan bæði jólum og páskum, sigurhátíðum kristinnar trúar, fara því tímabil, aðventa og langafasta, sem eiga að vera sveipuð fjólubláum lit, sé fylgt hefð og táknrænum kristnum viðmiðunum. Boðskapur þessara aðfarartímabila minnir á og miðar að því að hreinsa og helga hug og hjörtu, viðhorf og verk, glæða skilning á þverstæðum og leyndardómum kristinnar trúar. Þeim sem gaumgæfa þá í trúarlotningu, fá öðrum fremur greint að ljósið, sem á jólum skín í gengum næturhúm, er það ljós sem myrkrið tekur ekki við, en er þó eitt varanlega bjart. Þau fá numið, að almætti og æðsta tign opinberast í vanmætti og smæð nýfædds barns, til þess að gefast öllum þeim sem finna sig vanmegna, veika og smáa hér í heimi; þeim er svíður miskunarleysi, rangindi og óréttlæti þessa synduga heims og þrá komandi lausn.

Á aðventukrönsum ættu að vera fjólublá kerti eða áþekk fremur en skærrauð, sem oft eru þó fremur valin, og svipur aðventunnar að vera í öðrum lit og búningi en jólahátíðin sjálf, til þess að skil séu gerð glögg þar á milli. Fjólublátt fer vel við hvítt og silfruð blæbrigði. Sú litasamsetning á aðventukrönsum og skreytingum í hýbýlum og á heimilum gæti létt jólaundirbúninginn, skerpt athygli og yfirvegun, kyrrt huga og stuðlað að nærgætni, hlýju og samræmi í samskiptum.

Ef verslanir, kringlur og kauphallir, væru nú skreyttar litnum fjólubláa og blæbrigðum hans, vínrauðu, rauðbleiku og brúnrauðu, sem líka fara vel á aðventu, fremur en skærrauðum lit jólasveina og danska fánans, gæti verið að þar ríkti aðgæsla og rósemi þrátt fyrir örtröð og mannfjölda. Viðskiptavinirnir veldu þá að líkindum jólagjafir og vörur af meiri íhygli og kostgæfni og freistuðust síður en ella til að ímynda sér, að jólafögnuð og frið sé að finna þar sem munaðarvarningurinn er og veraldlegar lystisemdir.

Þeir tækju þá ef til vill betur eftir tilkynningum, sem sjást í einstaka verslunarglugga frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Rauða krossinum og minna á söfnunina ,,Hreint vatn bjargar mannslífum og benda á ,,að þau sem þjást bíða hjálpar þinnar.” Það gæti þá upplokist fyrir þeim, að enginn á frekar að hljóta gjafir á jólum en sá Jesús Kristur sjálfur, sem ávallt hittir okkur fyrir í þeim er við getum líknað og liðsinnt, hvort sem nær eru eða fjær.

Miður er að sjá aðventukransa með skærrauðum kertum ekki aðeins í blómaverslunum, vinnustöðum og heimilum, heldur líka í kirkjum og safnaðarheimilum. Það vottar að jafnvel þar hafi gleymst og vanrækt verið að glæða aðventublæinn og boðskap hans um innri skoðun og gaumgæfni, sem fjólublái liturinn hvetur til og áþekkir mildir litir.

Hvítir, gylltir og rauðir litir jóla vekja tærustu gleðina, þegar fjölublái liturinn og blæbirgði hans hafa haft sín hreinsandi og helgandi áhrif og minna þá ekki á veraldar lystisemdir og gæði heldur á himneska og ótæmandi fjársjóði komanda Guðs ríkis í Jesú nafni.