„Ég hélt þú værir bara betri“

„Ég hélt þú værir bara betri“

Örlagaríkur hildarleikur heimstyrjaldarinnar síðari og afleiðingar hans eru baksvið leikritsins sígilda ,,Allir synir mínir”eftir bandaríska leikskáldið Arthur Miller. Það var frumsýnt 1947 og kom við kviku bandarísks mannlífs og samfélags og varpaði á það afhjúpandi og gagnrýnu ljósi og gerði Miller bæði umdeildan og víðfrægan.

Allir synir m�nir

Örlagaríkur hildarleikur heimstyrjaldarinnar síðari og afleiðingar hans eru baksvið leikritsins sígilda ,,Allir synir mínir”eftir bandaríska leikskáldið Arthur Miller. Það var frumsýnt 1947 og kom við kviku bandarísks mannlífs og samfélags og varpaði á það afhjúpandi og gagnrýnu ljósi og gerði Miller bæði umdeildan og víðfrægan.  

Bandarísk hergögn og fjármagn réðu mjög úrslitum í stríðinu. Bandaríkin sjálf voru utan beinna átakasvæða, þar var því ákjósanlegt að þróa og framleiða ný vígtól og varahluti og senda á vígstöðvarnar. Fjölmargir bandarískir hermenn féllu þó í stríðsátökunum bæði í Evrópu og á Kyrrahafi. Mannfall flestra annarra styrjaldarþjóða var samt mun meira enda barist innan þeirra landamæra. Eyðileggingin var skelfileg og mikillar endurreisnar þörf. Bandarísk aðstoð og fjármunir komu að góðu gagni við hana og jafnframt jukust viðskiptin við bandarísk fyrirtæki. Ávinningurinn af þeim voru sárabætur fyrir fórnirnar í mannslífum utanlands, angur og raunir,  sem stríðsátökin höfðu kostað Bandaríkjamenn.  

Bandaríkin urðu efnahagslegt stórveldi í stríðinu og áhrif þeirra efldust mjög á stjórnmála- og veraldarsviði. Hugmyndafræði auðhyggjunnar breiddist út og bandarísk stórfyrirtæki teygðu arma sína um lönd og álfur. Öndvert þeim breiddu sovéskir ráðamenn, fyrrum samherjar í stríðinu, út sameignarstefnu sína sem virtist á yfirboði einkennast af félagslegum sjónarmiðum og umhyggju fyrir velferð og hagsmunum almennings og alþýðu en var í reynd knúin af þvingandi valdboði og ógnandi forsjárhyggju.  

Í leikverki sínu rótar Miller upp í viðkvæmum minningum um stríðið, átök þess, raunir og þrautir, missi, sársauka og harm, sem enn hafi áhrif og ekki sé hægt að horfa framhjá. Hann lítur jafnframt gagnrýnum augum á ávinninginn af stríðinu, efnahagsuppbygginguna og gróðann, sem verði mælikvarði alls.  

Gróðasjónarmið hafi ráðið ferð í stríðsrekstrinum engu síður en umhyggja fyrir þeim hermönnum, flestum í æskublóma, sem voru í eldlínunni og fórnuðu þar margir vonum sínum og framtíðardraumum, lífi og limum. Ákvarðanir voru örlagaríkar á vígvellinum en líka í hergagnaframleiðslunni og oft ekki ráðrúm til að gaumgæfa afleiðingarnar. Þá reyndi á manngildi og siðferðisþrek. -Það mun hafa orðið Miller kveikja að leikritinu að ljóstrað var upp um umsvifamikinn athafnamann, sem hafði selt hernum gallaða vélarhluti.-  

Í þessu magnaða verki segir Miller frá uppgjöri í bandarískri fjölskyldu, Keller fjölskyldunni, fáeinum árum eftir stríðið án þess þó að staðsetja hana á landakortinu. Hann lýsir örlagaríkum hálfum öðrum sólarhring í ævi hennar er varpar ljósi á liðna atburði og dregur fram áleitnar spurningar um rétt og rangt, sakleysi og sekt.  

Joe Keller/Killer (Jóhann Sigurðarson) er stöndugur miðaldra iðjuhöldur og verksmiðjueigandi, sem vinnur að gerð fjölbreyttra raftækja en framleiddi vélarhluti í flugvélar á stríðsárunum. Hann ber sig vel þrátt fyrir að hafa verið ákærður fyrir að hafa vísvitandi útvegað hernum gallaðar vélarhlífar/head í flugvélar, sem sprungu í háloftunum og ollu dauða 21 flugmanns. Joe var sýknaður eftir áfrýjun og látinn laus en starfsmanni hans Steve Deeever kennt um glapræðið og hnepptur í fangelsi.  Joe virðist þó umvefjandi og umhyggjusamur gagnvart starfsmönnum sínum og nágrönnum, svo sem vel kemur fram í ágætri túlkun Jóhanns á persónu hans,  kumpánlegur, kátur og hress, býður þeim að spila við sig og fer meira að segja í lögguleik við ungan dreng í hverfinu.(Hringur Ingvarsson/ Grettir Valsson)  Kate kona Joes (Guðrún Snæfríður Gísladóttir) er ljúf og elskuleg en getur þó ekki leynt sorg sinni vegna Larrýs yngri sonar þeirra. Hann var í flughernum í stríðinu en hvarf og týndist í sendiför. Kate rígheldur þó í vonina um að hann muni finnast. Chris eldri bróðir hans (Björn Thors) komst heill úr stríðinu þótt hafi iðulega verið hætt kominn. Hann er ljúflyndur og umhyggjusamur, horfir á björtu hliðarnar og vill gera gott úr öllu.                                                                           Leiklýsing  

Verkið byrjar á því að Kate er úti í næturhúmi og gnauðandi stormi er brýtur eplatréð, sem gróðursett var til að minna á Larrý. Henni hefur ekki orðið svefnsamt og þykir sem hún heyri flugvélagný í stormkviðunum og horfir hrygg á brotna tréð. Morguninn eftir er þó bjartur og fagur. Joe og nágranni hans Jim Bayliss læknir sitja í sólstólum á upphallandi grasflötinni þar sem tréð er enn. Hún er í laginu líkt og flugvélavængur. Þaðan sést vítt út á grassléttu er skyggnumynd birtir og himin fyrir ofan í ýmsum blæbrigðum. Það er sem rák sé á himninum eftir flugvél. Myndin minnir jafnframt á rispað póstkort sem gæti hafa verið frá Larrý og vísar þannig til álitamála og spurna verksins. Frank góður granni og ungur fjölskyldumaður, sem komst undan því að fara í herinn (Hannes Óli Ágústsson) segist ætla að gera stjörnukort fyrir Larrý enda þótt slík kort séu ekki gerð fyrir látna heldur fyrir lifendur, því að Kate hafi viljað vita hvað væri að segja um daginn, þegar Larrý hvarf.  Væri hann happadagur gæti Larrý verið  á lífi.   

Chris hefur boðið Ann Deever, (fyrrum) kærustu Larrýs heim til þeirra, en hún er dóttir Steve Devers, en fjölskylda hans bjó í  næsta húsi, þar sem Jim læknir og Sue eiginkona hans (Edda Arnljótsdóttir) hafa nú komið sér fyrir. Hún er hjúkrunarkona, raunsæ og hagsýn ólíkt draumlyndum lækninum, sem vildi helst sinna vísindarannsóknum.  

Chris segir við föður sinn, að þeir séu óheiðarlegir við móður hans að hafa ekki sagt henni að þeir séu löngu hættir að hafa von um að Larrý sé á lífi. Hann segist jafnframt hafa boðið Ann til að biðja hennar. ,,Ef þú giftist henni lýsir þú yfir að hann (Larrý) sé dáinn en hvað gerir þú mömmu þinni þá?” spyr Joe.  

Kate rifjar upp veðrið um nóttina, er henni hafi fundist eins og allt hafi ákveðið að gerast á sama tíma og það sem gerðist koma aftur, og storminn vera sem flugvélagný. Hún spyr hvers vegna Ann sé komin. Hún sé ekki stúlka Chris. Ann (Arnbjörg  Hlíf Valsdóttir) sveiflar sér í hvítum kjól er hún kemur á sviðið líkt og táknmynd bjartrar framtíðar, en fortíðin fylgir henni. Kate segir uppörvandi, að faðir hennar hafi þrátt fyrir allt verið heiðarlegur maður. ,,Ferð þú mikið út á lífið”, spyr hún Ann. ,,Áttu við hvort ég bíði enn eftir honum? Af hverju segir hjarta þitt að hann sé enn á lífi?”,,Af því að hann verður að vera það eins og sólin kemur upp og Guð er til”, svarar Kate.  

Ann virðist ekki hafa neina samúð með föður sínum. Hann hafi dregið Joe í svaðið og sent frá sér gallaða varahluti enda þótt hann hafi vitað að flugvélarnar myndu farast. Kate telur það ekkert hafa með Larrý að gera enda bendir Joe á að gölluðu gripirnir hefðu bara farið í P- 40 vélar. Larrý hefði ekki flogið þeim. Chris er brugðið við svona tal og segir höstugur. ,,Voru hinir 21 bara svín.”  

Joe tekur upp hanskann fyrir Steve og segir, að verksmiðjan hafi verið eins og geðveikraspítali í stríðinu. Allt í einu hafi komið umgangur með sprungum. Steve hafi verið skíthræddur og haldið að hlífarnar myndu samt duga. Þetta hafi verið mistök af hans hálfu en ekki morð og minnir á hve Steve hafi verið gjörsamlega niðurbrotinn er hann heyrði um Larrý.                  

Ann segir Chris, að hún hafi næstum gifst fyrir tveimur árum en ekkert orðið úr því vegna þess að hann hafi skrifað henni.  Þegar Ann spyr hann að því hvort hann sé með sektarkennd segir hann að hún sé að hverfa og vísar þá eflaust bæði til Larrýs og reynslu sinnar af stríðinu. Chris rifjar það upp fyrir Ann að hann hafi sem yfirmaður herdeildar misst nærri því alla sína menn. Þeir hafi ekki dáið heldur fórnað sér. ,,Ef þeir hefðu verið eigingjarnari hefðu þeir getað lifað enn.” Þegar hann hafi komið heim var eins og það hefði enga merkingu lengur, vinnan hjá pabba hans hafi verið sama lífsgæðakapphlaupið og fyrr og eins og strákarnir hefðu verið hafðir að fíflum. Hann hafi vonast til, að eftir stríðið yrðu menn reynslunni ríkari og betri. Án samkendarinnar væri allt bara ránsfengur.  

Fram að hlé líður leikverkið fram án þess að rykkti  mjög í súðum. Koma Ann veldur þó uppnámi, vekur spurnir og rótar í fortíðinni en stemningin er góð á sviðinu þótt kraumi undir, svo sem leikarnir sýna vel með markvissum og yfirveguðum leik.  

Þegar George, bróðir Ann, sem orðinn er lögfræðingur, hringir frá Columbus- fangelsinu, þar sem Steve faðir hans er í haldi bregður Joe þó við og veltir því fyrir sér hvort hann hafi eitthvað á móti sér og getur þess að Steve hafi allan tímann í réttinum reynt að koma sökinni yfir á sig. Áhorfendur skynja að kvika er að brjótast fram á flekaskilum, þar sem fortíð og samtíð mætast í leikverkinu og umbrot og skjálftar eru í aðsigi.   

Chris sagar niður eplatréð fallna, er sýningin hefst aftur eftir hlé. Sue segir að allir vilji gera Keller fjölskyldunni greiða og Ann svarar, að peningar geri gæfumuninn. Sue getur þess við hana að fólk sem umgangist Chris fari að langa til að verða betri manneskjur. Hann myndi ekki gera neitt sem bogið væri við, en fólk virði Joe fyrir það hve hann sé klókur.  

George kemur í vígahug. Hann ber merki stríðsátakanna því að vinstri handlegginn vantar á hann og er mjósleginn og gugginn. George ber hatt föður síns nýfenginn úr fangelsinu, er vísar til þess að nú sé hann málsvari föður síns enda þótt hafi fyrr ekki einu sinni sent honum kort og þá augljóslega hafnað honum eins og systir hans Ann vegna glæpsins. George hefur haft illan beyg af samdrætti þeirra Chris og því viljað hitta föður þeirra, og er eftir þann fund enn einbeittari í andúð sinni. Þegar Ann spyr hví hann sé svo andsnúinn þeim Chris skellir hann því fram, að Joe hafi lagt fjölskyldu þeirra í rúst og vísar með því í vitnisburð föður þeirra. -Hann hafi komið í vinnuna og séð gölluða gripina og hringt í Joe oftar en einu sinni, sem hefði farið fram á það að hann myndi logsjóða og fela sprungurnar. Hann vildi að Joe kæmi og gerði það með sér, en þá hafi Joe skyndilega verið kominn með flensu, en lofað að taka á sig alla ábyrgðina. Lygum Joes og undanbrögðum hefði verið trúað í áfrýjunarréttinum. George segist sjálfur hafa treyst dómsúrskurðinum, vegna þess að Chris gerði það, en hafi nú heyrt pabba sinn segja sjálfan frá og bætir við: ,,Allt sem þið eigið er atað blóði” Ann lætur sér þó ekki segjast af þessum vitnisburði og minnir á hve faðir þeirra hafi getað verið mikill lygari.  

Kate sýnir George umhyggju og hlýju. Þegar Lydia kona Franks bætist brosandi í hópinn (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) stingur Kate því að George, að hann hefði átt að giftast þessari stúlku ,,en þið voruð með þessar háleitu hugmyndir allir drengirnir” og á þá eflaust við, að þeir hafi látið glepjast af stríðinu.  ,,Frank vann stríðið”, svarar George.   

Þegar Joe spyr George frétta af föður hans, segir George að honum líði ekki vel - í sálinni. ,,Litli kallinn gerði mistök og er fleginn lifandi – stórlaxinn er gerður að sendiherra. Hann getur leitað til mín”, svarar Joe og lætur ekki slá sig út af laginu, en vegur samt harla nærri sjálfum sér.  Það er sem George sé að láta sannfærast. Þegar Kate ætlar að bjóða honum með í kvöldgleðina viðurkennir hann að hafa aldrei fundist sem hann ætti annars staðar heima en hér og hefur á orði hve Kate sé ungleg og Joe sjálfum sér líkur. Joe segist aldrei hafa leyft sér að vera veikur. ,,Nema þegar þú fékkst flensuna í stríðinu”, bætir Kate við. Við þau orð er sem George nái aftur áttum. ,,Hann sagði pabba að kála þessum mönnum og breiddi svo bara sæng yfir höfuð sér.” - Nú verður ekki aftur snúið. Spennan og togstreitan magnast á sviðinu og leikaranir gera þeim umskiptum góð skil.-  

Kate hefur pakkað niður í tösku Ann, og Chris bregður við. Kate segir að hún sé stúlkan hans Larrýs enda segi Frank að stjörnukortið sýni að dagurinn sem Larrý hvarf hafi verið einstakur heilladagur hans. Er Chris finnur að því, að móðir hans haldi þessu til streitu, segist hún aldrei sætta sig við það (fráfall Larrýs) ,,...þá er pabbi þinn dáinn líka. Ef Larrý er dáinn þá hefur pabbi þinn drepið hann.”  

Chris bregst ókvæða við og snýst nú gegn föður sínum, ,,Svo þú gerðir það.” Joe ítrekar, að Larrý hafi aldrei verið á P- 40. ,,Hvernig gastu gert það?, þú drapst 21 manns.” Nú er það Chris sem heldur fram ákærunni og þá þverra varnirnar. Joe segir, að Chris tali eins og krakki. ,,Hvað átti ég að gera? Framleiðslan klikkar og maður fer á hausinn –leggur 40 ár í fyrirtækið og svo er maður sleginn út á fimm mínútum.”- Joe segist hafa haldið að þau (headdin) yrðu aldrei notuð. Vikur hefðu liðið áður en fréttin birtist sem aðalfrétt, að 21 flugmaður hefði farist. – ,,Þú vissir, að þau myndu ekki standast álagið í háloftunum...strákarnir áttu líf sitt undir þessum headum.” Joe getur lítt varist þessum ásökunum sonar síns nema með því að vísa til þess, að hann hafi gert það er hann gerði fyrir Chris, sem er algjörlega miður sín og spyr að vonum: ,,Í hvaða heimi lifir þú?” Chris vísar til þess að hafa sjálfur oft verið nærri dauða en lífi og samsamar sig þannig flugmönnunum sem fórust, en svo sé það bara þetta fyrirtæki sem rúmist í höfði föður hans og spyr sár og hnugginn  ,,Áttu ekkert föðurland- hvað ertu? ”og rýkur svo á brott.  -Það er sem þessi sena og senna milli feðganna, spennuþrungin og átakmikil, skilji eftir sig þrúgandi þögn á sviðinu undan nýjum stormi. -   Kate er ein á sviðinu í næturhúmi líkt og í upphaf verksins en nú gnauðar enginn vindur. Þegar Jim kemur að henni segist hún vera að bíða eftir Chris. Jim róar hana og segist alltaf hafa vitað hvernig málum var háttað en Chris geti ekki lifað við lygi. Að ljúga sé ákveðinn hæfileiki en Chris hafi hann ekki...,,Við erum öðruvísi og sættumst á málamiðlanir. Frank hefur rétt fyrir sér, við eigum öll okkar heillastjörnu en hún slokknar fljótt hjá flestum.”   

Kate vill að Joe viðurkenni hve hræðilegt þetta mál sé og verði við því búinn að gjalda fyrir það og fara í fangelsi. Joe ver sig með því að hún hafi viljað peningana og segist hafa spillt bæði henni og Larrý.  Kate segir það ekki afsaka neitt þótt hann hafi gert það fyrir fjölskylduna.  ,,Hann elskar þig en þú brást honum.”  Hann lokar mig ekki inni?, spyr Joe tvístígandi. Kate getur þess, að þau þekki hann ekki í raun. Hann hafi verið mjög grimmur í stríðinu.  

Ann segir við Kate að Chris vilji, að þau Joe veiti honum frelsi, þá fari allt vel. Ann er knúin til örþrifaráða, þegar Kate svarar hastarlega: ,,Nóttina sem hann sefur hjá þér, deyr hann Larrý. Þú ferð í fyrramálið og líf þitt verður einmanalegt.” Ann segist vita með vissu um afdrif Larrýs og færir fram sannanir fyrir þeim í þann mund, sem Chris kemur aftur til baka, löðursveittur og örvæntingarfullur, og segist vera gunga því að hann hafi grunað föður sinn en ekkert gert og geti því ekkert annað en grátið þegar hann horfi framan í hann. Chris segist þó ekki geta reist hina föllnu frá dauðum þótt komi föður sínum undir lás og slá. Er þeir hittast feðgarnir, segist Chris ekkert hafa við föður sinn að tala. Joe spyr þá alveg trompaður: ,,Átti ég of mikið af peningum? Gefðu þá, brenndu þeim, fleygðu þeim í ræsið, gefðu þá til líknarmála. Hvað viltu að ég geri? Fari í fangesi? ...Hálf þjóðin ætti heima í fangelsi, ef ég á að fara í fangelsi.” ,,Rétt”, svarar Chris; ,,en ég hélt að þú værir bara betri”,  Joe svarar og segir, að ekki sé hægt að vera eins og Jesús Kristur í þessum heimi.

 

Þegar Ann færir Joe sannindin um hvað varð um Larrý, er hann þó alveg varnarlaus. Það rennur upp fyrir honum, að sonur hans Larrý var ekki sá eini í háloftunum í hildarleik stríðsins, er honum bar að gæta að sem elskandi faðir, heldur voru allir þeir sem fórust og treystu á hann, í þeim skilningi, synir hans. Joe fær ekki afborið þá byrði og hverfur á brott með hvelli  

Við leiklok situr Chris einn eftir á sviðinu úrvinda og hríðskálfandi. Hvað verður um hann og þá sem honum tengjast?  Miller svarar því ekki. Við þá spurn verða áhorfendur að glíma.  

                                     Mat og túlkun

,,Allir synir mínir” er mjög vel skrifað og áhrifamikið leikrit og ekki að undra, að það hafi hrist upp í bandarísku samfélagi á sínum tíma. Texti Millers, sem er bragðsterkur og blæbrigðaríkur, felur auk aðalhljóms í sér yfirtóna og undirraddir. Lipur þýðing Hrafnhildar Hagalín dregur það fram. Skýr framsögn leikaranna með viðeigandi áherslum kemur textanum glöggt til skila, sem færi vel í útvarpsleikriti. Látlaus en táknræn sviðsetning eykur áhrifamátt flutningsins.  Leikstjórn Stefáns Baldurssonar er hnitmiðuð. Hún einkennist af hægum hraða sem eykst við þunga verksins. 

Persónurnar birtast skýrt markaðar á sviðinu. Leikurunum tekst vel að sýna bæði góðar og slæmar hliðar þeirra, yfirborð og ásýnd og einnig hvað undir býr. Joe er aðlaðandi og kröftugur í meðförum Jóhanns, fær í grimman sjó. Hann hefur ráðin og fjármunina og leysir vandamálin með tilstyrk þeirra enda hafa þeir orðið honum dýrmætari en mannslíf og samviskukröfur. Kate vil öllum vel í von sinni og trú, sem er þó ekki byggð á raunhæfari grunni en stjörnukorti. Guðrún Svanfríður birtir vel gjörræði og áhrifamátt hennar en líka hæpnar forsendur. Traust Kate á heiðarleika eiginmannsins er ekki haldbetra en vonin um að Larrý sé á lífi. Björn Thors sýnir vel hve Chris er einlægur og hugsjónaríkur og metur samstöðu og fórnfýsi meir en sérgæsku og ytri gæði og hefur bætandi áhrif á aðra. En undir yfirborði eru djúp sár. Hann var grimmur í stríðinu og er svo óvæginn við föður sinn í dæmandi ,,elsku” sinni, að hann virðist hrekja hann út í algjöra örvæntingu. Ann er einlæg og ljúflynd að sjá en samt hörð af sér, svo sem vel kemur fram í túlkun Arnbjargar Hlífar. Hún útskúfar lengstum föður sínum, heldur örlagaþráðum í hendi sér og veldur mestu. George er heiftúðugur og þráir réttlætið en jafnframt viðkvæmur og hikandi, svo sem Atli Rafn sýnir vel. Jim og Sue eru heldur ekki eintóna í meðförum Baldurs Trausta og Eddu, því að daumsýnir og hagkvæmissjónarmið togast á í þeim. Frank og Lydia, Hannes Óli og Vigdís Hrefna, eru utan við stríðið og bera ekki sár af því en fylla upp í sviðsmyndina og mynda mótvægi við átakapersónurnar.  

Leikverkið fjallar um afleiðingar stríðsins. Fortíðin minnir á sig og óuppgerðar sakir í lífi Keller fjölskyldunnar, sem sogaðist inn í stríðsátökin, svo sem margar aðrar, og ber þeirra merki. Slík fortíðarminni sem rótast upp eru algeng í leikritum Henrik Ibsens enda mun Millir mjög hafa gengið í smiðju hans. Verk Millers hefur jafnframt þjóðfélagslegar skírskotanir og vísar á óuppgerð mál í bandarísku þjóðfélagi. ,,Hálf þjóðin ætti að fara í tukthús”, segir Joe, ,,ef ég á að gera það.” Stríðsrekstur felur óhjákvæmilega í sér banvæn átök, dráp og morð, líka þeirra sem snúast til varnar árás og yfirgangi. Sendiferðir sprengiflugvéla bandamanna heppnuðust hvað best, þegar þær ollu sem mestu tjóni. Kjarnorkusprengjur í Hirosima og Nakasaki sýndu ótvírætt góðan árangur í manndrápum og skelfingum. Eigingirnin virtist borga sig vel í bandaríku auðhyggjusamfélagi og fórnir stríðsins urðu mörgum til mikils ábata.  

Ekki var horft til þess ,,að læra af biturri reynslu átakaáranna og verða betri manneskjur” með því að deila kjörum. Félagslegar hugmyndir um samkennd og samstöðu áttu sér ekki von um framgang og voru stimplaðar sem ,,kommúnismi” á helvegi og sviksamlegar við amerísk lífsgildi. Samkenndin sýndi sig helst innan stétt- og kynþáttaskiptra trú- og kirkjufélaga en náði lítt út fyrir þá múra. Arðrán og ránsfengur í löndum Suður -Ameriku og víðar um heim töldust útbreiðsla frelsisgilda og lýðræðis þótt væri mjög ötuð blóði.  Slíkar lygar ,,slökktu vissulega margar heillastjörnur.”  Augljóslega er ekki hægt að vera eins og Jesús Kristur hér í heimi og fylgja jafnframt svo sjálfumglöðum og tillitslausum forskriftum.    

Hvað er trú og hvers megnar hún? Guðtrú kemur ekki fram í leikverkinu nema sem ótraust haldreipi í ótryggum heimi, þar sem stríð eru háð og hörmungar verða. Að dást að lífsundrum og stjörnuhimni og sjá þar Guðs vilja að baki og reglu, felur í sér trú. En að telja jafnframt, að stjörnuspekikort segi til um heilla- og óheilladaga, er hindurvitni en ekki frelsandi trú að kristnum skilningi enda kemur í ljós í verkinu, að kortið geymir hillingar og blekkingar einar.  

Stríðsátök, skelfingar og hamfarir sýna svo sannarlega að jarðnesk tilvist er ekki Guðsríkið. Andspænis þeim er Guðstrúin þó knýjandi sem ljós í myrkri, vernd og hlíf í þrautum, trúin á Guð í Jesú nafni, hins kvalda og krossfesta frelsara, sem fer inn í syndamyrkrið allt, er skyggir á elsku Guðs, til að yfirvinna það í fórnandi elsku sinni. Hvoru megin við víglínuna, sem barist er, brýst trúarákallið fram úr hjarta og vitnar með sínum hætti í vígaferlum og blóðsúthellingum um þrá eftir bræðralagi og friði.  

Hvernig tekst að vinna úr sorglegri reynslu og hagnýta hana til heilla? Viljinn er oft mikill fyrst eftir hildarleiki að græða sár og bæta samskipti og líðan, jafnvel að skila ránsfeng og nýta til líknarmála og lífsuppbyggingar, en svo fer því miður oftast í fyrra far. Er ekki líkt að gerast eftir efnahagshrun í íslensku samfélagi og víðar í veröldinni? Þótt sviksemi og glæpir hafi uppgötvast í fjármálasýslu hafa leikreglur hennar nær ekkert breyst svo að enn er hægt að hefja skollaleikinn. Þeir sem auðhyggjunni lúta og láta stjórnast af henni ,,eiga sér enn ekkert föðurland”, sýna engu hollustu nema gróðavonum og haga samskiptum við fólk hvarvetna í veröldinni með þær helst í huga. Stríðsrekstur -og framleiðsla gefa mikið í aðra hönd. Hámenntaðir sérfræðingar í tækni- og vélabúnaði gæta þess að framleiða ekki ,,gallagripi.”  

Hvað er það að vera góð manneskja? Leikverkið glímir við þá spurn. - Að sýna heiðarleika, samstöðu, óeigingirni og fórnfýsi, er á reynir, líkt og Chris vísar til af reynslu sinni á vígvellinum? Er það að nýta sér erfiða reynslu til góðs, læra af henni? Er það að hafa kjark til að andmæla sviksemi, lygi og sjálfsblekkingum, líka þeirra sem manni þykir vænst um? Er það að hafa þrek til að knýja ófyrirleitna oflátunga, sem koma öðrum í klandur en sneiða sjálfir hjá allri siðferðilegri ábyrgð, til að gjalda maklega fyrir afglöp sín og illvirki? Allt er þetta rétt að kristnum lífsskilningi svo langt sem það nær. En hluttekningu og fyrirgefningu má ekki vanta, heldur ekki gagnvart augljósum glæpamönnum, viljann og hæfnina til að setja sig í þeirra spor og líka að bera með þeim byrðarnar, syndabyrðarnar, einkum ef þeim fylgir einlæg eftirsjá og iðrun. Chris er óbilgjarn vegna sárra vonbrigða með föður sinn. Chris vill að hann iðrist og sé við því búinn að gefa sig fram. En vill Chris, sem gerir sér grein fyrir því, að hann reisir ekki hina föllnu til lífs með því að föður hans sé refsað, nokkuð meira en einlæga játningu hans og iðrun, svo að honum gefist náð og lækning, fyrirgefning og sátt og löngun hans vakni til að gera gott úr illri og sorglegri reynslu? Joe gætir ekki að því og tekur enn ranga ákvörðun og hafnar þeirri ,,græðandi” líkn og fyrirgefningu, sem gæfi honum frelsi og þeim feðgum báðum.  

Sýning Þjóðleikhússins á leikriti Arthurs Millers. ,,Allir synir mínir” vekur með þakklátum leikhúsgestum þessa áleitnu spurn og margar fleiri.  

Stjörnugjöf ****