Glaðvakandi

Glaðvakandi

Hvernig lýst ykkur á að allir ellefu ára krakkar veri í kirkjunni í heilan sólarhring? Glaðvakandi en sofandi líka! Þau verða eins og tákn fyrir nýtt kirkjuár – gleðilegt og kraftmikið.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
28. nóvember 2009

Glaðvakandi krakkar í kirkjunni

Fjöldi bíla við kirkjuna skömmu fyrir hádegi á laugardegi i lok nóvember. Svefnpokar og dýnur er veiddar upp úr bílskottunum. Svo smella bílstjórarnir kossum á krakkakinnar. “Sjáumst á morgun, skemmtið ykkur vel.” Hvað er í gangi? Er einhver óvissuferð að byrja? Já, reyndar. Fjöldi 11 ára barna eru að byrja óvissuferð í heilan sólarhring. Þau fara ekki í rútu eitthvað út í náttúruna eða í skála. Þau fara mð svefnpoka og bakboka inn í kirkjuna. Þar munu þau gista, starfa, borða og vera næstu 24 tíma.

Það er líflegt í norskum kirkjum síðasta laugardag kirkjuársins. Öllum 11 ára skírðum börnum er boðið að koma í kirkjuna sína, vera í henni, njóta fræðslu, undirbúa messu sunnudagsins, taka þátt í leikjum, borða í safnaðarheimilinu, gleðjast á fjörmikilli kvöldvöku og gista. Allt frá Kristiansand í suðri og norður í Kirkenes er efnt til þessarar kirkjuferðar. Eins og á Íslandi hafa börn á milli tíu og þrettán ára aldurs grisjast frá barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Þau finna sig ekki í smábarnastarfinu ekki nægilega gömul fyrir unglingafræðsluna. Því hafa margir spurt um hvað væri til ráða. Hvað skemmtilegast er boðið til ellefu ára barna um sólarhringsveru í kirkjunni á gamlársdegi kirkjuársins.

Dagskráin er sérsniðin að þörfum krakkanna. Þau undirbúa messu sunnudagsins, sem er hátíð, nýársdagur kirkjunnar. Það er tilboð um upplifun í kirkjuhúsinu og á vettvangi kirkjunnar í félagi við jafnaldra. Börn á leið inn í unglingsár. Þau eru nýtt upphaf, eiga í sér nýja skynjun, þarnast nýrrar innsýnar. Lysvåken – glaðvakandi er yfirskrift þessa sólarhrings. “Vakið,” sagði Jesús. “Þér eruð ljós heimsins,” sagði hann líka. “Verið glöð” minnir postulinn á í bréfum sínum. Kristinn maður má við lok kirkjuárs gleðjast og þakka, vaka í vitund um hið stóra samhengi, gjafir, líf og gæði. Trúin hvetur til vöku og gleði. Það er gott veganesti fyrir lífsgöngu barna, unglinga og líka hinna sem eldri eru.

“Glaðvakandi” eru margir í norsku kirkjunni við þessa tímaskil. Við megum gjarnan flytja inn í okkar íslenska kirkjulíf þessa dagskrá og koma henni á. “Fyrir alla muni notið hugmyndina, kirkjan á hana. Þið eruð hluti þeirrar fjölskyldu! Þetta er frábær dagskrá, efnið er allt á netinu” sögðu kollegar mínir í Noregi. Ellefu ára börn mega gjarnan fylla íslenskar kirkjur með orðum, gleði, hugsunum, bænum, áhyggjum lestrum, já veru sinni. Kirkjan er til fyrir Guð og þar með framtíðina. Það er besta ævintýraferðin sem hægt er að fara.