Ísrael 70. ára – annar hluti.

Ísrael 70. ára – annar hluti.

Síonisminn, eða þjóðernishyggja gyðinga, varð til í lok 19. aldar og það var Austurríkismaðurinn Theodor Herzl sem mótaði stefnuna á fyrsta þingi Síonista í Basel árið 1898 með bók sinni “Gyðingaríkið”.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
11. júlí 2019

Ný gyðingaþjóð.

Síonisminn, eða þjóðernishyggja gyðinga, varð til í lok 19. aldar og það var Austurríkismaðurinn Theodor Herzl sem mótaði stefnuna á fyrsta þingi Síonista í Basel árið 1898 með bók sinni “Gyðingaríkið”. Theodor Herzl var trúlaus gyðingur og skrifaði bókina á meðan hann dvaldi í París sem fréttaritari fyrir Vínarblaðið “Neue Freie Presse”. Hann hafði fylgst með Dreyfusréttarhöldunum svokölluðu árið 1894. Þar var franskur ofursti af gyðingaættum dæmdur saklaus sem njósnari Þjóðverja, bara af því að hann var gyðingur. Gyðingahatur var landlægt í Evrópu og hafði verið það um aldar og það fór vaxandi á 19. öld og í byrjun þeirrar tuttugustu. Herzl komst að þeirri niðurstöðu að eina leiðin burt úr ofsóknum og undan hatri væri ef gyðingar stofnuðu eigin ríki og réðu sér sjálfir. Margir litu svo á að hann væri ekki með öllu mjalla. Áhrifamenn í röðum gyðinga víða um Evrópu hrópuðu líka niður hugmyndina. Ekki væri hægt að endurvekja ríki sem hefði horfið fyrir 1800 árum á tímum Rómverja!

En hugmynd Herzl náði smám saman eyrum gyðinga. Alveg frá upphafi leit Herzl svo á að Palestína væri eina svæðið sem kæmi til greina sem framtíðarríki gyðinga. Palestína, eins og allur Arabíuskaginn, heyrði á þessum tíma undir veldi Tyrkjasoldáns sem stýrði frá Ístanbúl. Honum datt ekki í hug að verða við óskum Herzl og félaga. Herzl velti því þess vegna fyrir sér hvort mögulegt væri að koma ríkinu á fót í Argentínu eða Úrugvæ í Suður –Ameríku. Þar buðu Englendingar honum landsvæði. En á Síonistaþinginu í Basel varð niðurstaðan sú að ekkert landsvæði annað en Palestína kæmi til greina fyrir ríki gyðinga.

 Arabískt svar.

Á þessum tíma bjuggu arabar í Palestínu og voru þar fjölmennastir, en einnig nokkur hópur gyðinga. Í Jerúsalem voru gyðingar þó fjölmennasti hópurinn á tímum Tyrkja – sem oft vill gleymast í dag. Arabar litu svo á að þeir væru hluti af hinni stóru arabísku menningarheild innan ottómanska/tyrkneska ríkisins. Þeir höfðu enga þörf fyrir að skilgreina sig sérstaklega sem Palestínumenn. Hugtakið “Palestína” var fyrst notað í nútímalegri merkingu árið 1911 í tímaritinu Al –Filastin, sem kristnir arabar gáfu út í Jaffa. Um þetta leiti var arabísk þjóðerinshyggja að kvikna sem andsvar við Síonismanum.

Ottómanar studdu Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöldinni og í lok hennar hrundi ríki þeirra, sem var í raun arftaki gamla Aust-Rómverska ríkisins, og hafði staðið frá árinu 1453 þegar Tyrkir tóku Konstantínópel. Bretar tóku Palestínu árið 1917 með hjálp arabískra hersveita. Sama ár samþykkti breska stjórnin yfirlýsingu sem kennd var við utanríksiráðherra Breta Arthur Balfour. Þar tóku Bretar undir sjónarmið Síonista um “þjóðlegt heimili gyðinga”  eins og það kallaðist. Í lok stríðsins flutti sífellt fleiri gyðingar til Palestínu. Þjóðaráðið studdi hugmyndina um ríki gyðinga. Bretar fengu umboð til að stýra Palestínu og hugmyndin um að koma á fót “þjóðarheimili gyðinga” var hluti af umboðinu.

 Innfluttningur gyðinga til Palestínu stöðvaður í aðdraganda WW2

Ætlunin var sú að umboðssvæði Breta yfir Palestínu myndi smátt og smátt þróast yfir í að verða tvö sjálfstæð ríki araba og gyðinga. Án þess að það kæmi niður á réttindum araba. Arabar mótmæltu kröftulega. Deilur blossuðu upp og átök. Illvirki voru framin á báða bóga og Bretar lentu oft mitt á milli. Bretar studdu Síonista allt fram að Síðari heimsstyrjöld. En skömmu áður en styrjöldin braust út breyttu Bretar um áherslu. Árið 1939 talaði breska herstjórnin um eitt ríki araba og gyðinga þar sem arabar yrðu í meirihluta. Ástæðan var auðvitað sú að Bretar vildu ekki hafa araba sem óvini ef til stríðs við Þjóðverja kæmi. Til að ganga enn frekar til móts við araba bönnuðu Bretar innfluttning gyðinga til palestínu umfram 15000 manns á ári síðustu fimm árin allt fram að upphafi stríðins. Eftir það var öllum gyðingum bannað að flytja til Palestínu. Og það á meðan þjóðarmorð Þjóðverja á gyðingum stóð sem hæst! Þá lokuðu Bretar þeirri flóttaleið undan böðlum Þjóðverja. Skömm þeirra er því mikil. Rétt eins og íslenskra stjórnvalda, sem neituðu gyðingum um að koma til Íslands og sendu þá þannig beint inn í gasklefa Þjóðverja.