Skipperinn í Skálholti

Skipperinn í Skálholti

Á að reisa safn yfir fornleifauppgröftinn sunnan kirkjunnar? Á að efla hótelrekstur í Skálholti? Á að taka gjald af bílastæðum? Á að byggja bókasafn? Hvernig ætti að fjármagna uppbyggingu? Hvernig varðveitum við best sögu og helgi staðarins? Og hvernig má auka samstarf við heimamenn í Biskupstungum og uppsveitum Árnessýslu um Skálholtsstað? Við ferðaskrifstofur? Við ríkisvaldið? Þannig mætti lengi spyrja.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
18. júlí 2017

Að margir hefðu áhuga á Skálholti og framtíð staðarins taldi ég mig vita fyrir. En eftir að ég birti pistil um afmælisár Skálholtsskóla hin nýja hér á tru.is og á pressan.is hef ég fengið það staðfest fyrir mitt leiti. Enda er Skálholtsstaður einn merkilegasti staður íslenskrar sögu.

Um Skálholt liggja auk þess krossgötur kirkju og þjóðar í blíðu og stríðu allt frá kristnitöku. Þar var höfuðborg landsins á miðöldum. Hrun staðarins undir lok 18. aldar varð samhliða mesta hamfaratímabili íslenskrar sögu. Og draumurinn um endurreisn Skálholts, kirkju, skóla og staðar, hélst í hendur við drauminn um endurreisn hér á landi eftir stofnun lýðveldis á Þingvöllum árið 1944 eins og ég gat um í áðurnefndum pistli.

Enn lifir draumurinn um Skálholt. Þar er nú aðsetur vígslubiskups, blómlegt kirkju og tónlistarstarf er rekið í Skálholtskirkju, sumartónleikarnir eru víðfrægir og hafa fyrir löngu fest sig í sessi og skólinn er í forsvari fyrir hvers kyns fræðslu, menningarstarfsemi, ráðstefnur og fundahöld á vegum kirkjunnar.

En samt er eins og eitthvað skorti á.

Skálholtskirkja hefur látið á sjá ef marka má fréttir. Múrar hennir eru rifnir og kjörgripir hennar liggja undir skemmdum, gluggar Gerðar Helgadóttur lekir, altaristafla Nínu Tryggvadóttur sprungin, bókasafnið í turninum kemur engum að gagni. Ekkert fé er til nauðsynlegra úrbóta að því er fréttir herma. Nú er farin af stað söfnun til að hægt sé að bjarga þessum verðmætum. Vonandi verða viðbrögð við henni góð. En miklu styrkari stoðum þarf að skjóta undir rekstur kirkjunnar og staðarins til framtíðar.

Og þó starf skólans sé blómlegt, þá liggur ekki beint fyrir hvert stefna skuli. Enn síður hvað varðar uppbyggingu ferðaþjónustu á staðnum. Á að reisa safn yfir fornleifauppgröftinn sunnan kirkjunnar? Á að efla hótelrekstur í Skálholti? Á að taka gjald af bílastæðum? Á að byggja bókasafn? Hvernig ætti að fjármagna uppbyggingu? Hvernig varðveitum við best sögu og helgi staðarins? Og hvernig má auka samstarf við heimamenn í Biskupstungum og uppsveitum Árnessýslu um Skálholtsstað? Við ferðaskrifstofur? Við ríkisvaldið? Þannig mætti lengi spyrja.

Margir aðilar innan kirkjunnar hafa á hendi þessar og aðrar spurningar er tengjast Skálholti. Þar má nefna biskup Íslands, stjórn Skálholts, Skálholtsfélagið, vígslubiskup í Skálholti, sóknarprest, sóknarnefnd, organista, kirkjuráð, kirkjuþing, framkvæmdastjóra Skálholts, fræðslustjóra kirkjunnar. Að ekki sé minnst á rektor skólans, verði á ný ráðið í þá stöðu. Nú skal tekið fram að allt eru þetta frábærir aðilar sem vilja allt fyrir staðinn gera og hafa sýnt það í bæði ræðu og riti, orði og verki.

En hver á að hafa forsvar um stefnumótun á staðnum?

Hver er skipperinn í Skálholti?

Alveg frá því að endurreins staðarins hófst um miðja síðustu öld, hefur engum einum aðila verið falið með formlegum hætti að vera skipstjóri á staðnum, í þeirri merkingu að vera í forsvari fyrir starfsseminni allri og bera ábyrgð á stefnumótun staðarins í heild.

Sem ef til vill hefur orðið til þess stýrimennirnir hafa á stundum siglt í ólíkar áttir eftir því hver er á vaktinni.

Einhvernvegin finnst manni þó að vígslubiskup sé sjálfskipaður í þetta hlutverk.

Að hann sé skipperinn í Skálholti sem jafnframt starfi með öllum þeim aðilum sem áður voru nefndir – auk annarra sem vilja leggja lóð á vogarskálarnar til að efla Skálholtsstað.

Að vígslubiskup leggi línurnar, sé andlit staðarins utávið, og beri formlega og með skýrum hætti ábyrgð á rekstri hans og kalli aðra aðila til samstarfs.

Kjör vígslubiskups í Skálholti stendur fyrir dyrum. Er ekki kærkomið tækifæri að velta þessum málum upp einmitt nú á slíkum tímamótum, svo renna megi enn styrkari stoðum undir Skálholtsstað til framtíðar?