Lati þjónninn og hið nýja Ísland

Lati þjónninn og hið nýja Ísland

Þannig varar Páll okkur við að setja allt okkar traust á veraldlegar eignir, sem svo auðveldlega geta brunnið upp. Grundvöllur hins nýja Íslands þarf að vera sá sami og þjónað hefur þjóð okkar í þúsund ár. Betri grunn er ekki hægt að byggja á en trúnni á Jesú Krist. Kærleiksboðorð hans, um að elska Guð af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga og að elska náungan eins og sjálfan sig, mun aldrei falla úr gildi.

Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.

Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.

Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Mt. 25.14 -30

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í starfi mínu tala ég aðallega við börn og unglinga, en ég hef haft umsjón með barna- og unglingastarfi Neskirkju síðastliðin þrjú ár, eða frá því að ég lauk embættisprófi í guðfræði. Starf mitt er knúið áfram af þeirri sannfæringu að í trúaruppeldi barna og unglinga sé unnið forvarnastarf sem er ómetanlegt. Það ungmenni sem gengur út í lífið með þá vissu að það eigi Jesú Krist að, sem vin, frelsara og fyrirmynd, þekkir skjól sem aldrei bregst.

Samhliða starfi mínu í Neskirkju hef ég einnig sinnt rannsóknum á sviði nýjatestamentisfræði og hef hlotið þann heiður þetta misseri að fá að kenna nemendum við guðfræðideild Háskóla Íslands námskeið sem byggir á rannsóknum mínum á Jakobsbréfi og gyðing-kristnum bókmenntum. Nýja testamentið er heillandi viðfangsefni en á sama tíma flókið og krefjandi líkt og guðspjall dagsins ber vitni um.

Á bænastund í unglingastarfi Neskirkju síðastliðinn þriðjudag las ég þessa dæmisögu Jesú fyrir ungmennin og útlagði á þann hátt sem löng hefð er fyrir í kristinni kirkju. Guðspjall dagsins á sér langa og fastmótaða ritskýringarhefð og segja má að hún sé það rótgróin að erfitt er að hugsa sér aðra útlegginga textans. Samkvæmt hefðinni fjallar þessi dæmisaga Jesú um mikilvægi þess að nota þá hæfileika sem að Guð hefur veitt okkur að gjöf, honum til dýrðar.

Sagt er frá auðmanni nokkrum sem úthlutar fé til þjóna sinna, en sjálfur hyggst hann fara í langt ferðalag. Hverjum þjóni úthlutar hann talentum sem þeim er ætlað að ávaxta eftir verðleikum. Þeim fyrsta úthlutar hann fimm talentum, öðrum þjóninum tveimur og þeim síðasta og raunar sísta einni.

Fyrir okkur sem eru ókunnug gjaldeyrismálum á tíma Jesú kann ein talenta að sýnast lítið en þó að erfitt sé að áætla nákvæmt gengi talentunnar er ljóst að um umtalsverð verðmæti er að ræða. Ein heimild greinir frá því að ein talenta hafi jafngilt 600 denörum og að einn denari hafi verið daglaun verkamanns. Önnur heimild gefur til kynna að heildartekjur allrar skattheimtu Rómverja í Palestínu hafi verið um 200 talentur á ári. Sá sem minnstu var treyst fyrir var því látið í tjé tæplega tveggja ára laun verkamanns og þeim sem fékk fimm talentur til vörslu, laun áratugs-vinnu.

Þjónarnir tveir sem vel ávöxtuðu fé sitt fengu að launum inngöngu inn í ,,fögnuð herra síns” eins og guðspjallið lýsir, en lata þjóninum, sem af ótta gróf talentu sína í jörðu, er vísað út í ystu myrkur þar sem hans bíður grátur og gnístan tanna. Talentan er síðan látin í té þeim er mest hafði að spila úr og boðskapur sögunnar útlagður með orðunum ,,hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.”

Sé sagan túlkuð á þann hátt að auðmaðurinn tákni Guð, og talentur það sem Guð hefur gefið okkur í vöggugjöf, hversu mikið eða lítið sem það er, er dæmissagan sterk áminning um mikilvægi þess að nota hæfileika okkar vel. Að leyfa ekki ótta við álit annarra eða vannmáttarkennd um eigin hæfni að hindra vöxt okkar og að beita ávallt hæfileikum okkar Guði til dýrðar og náunga okkar til blessunar. Svo mótuð er þessi túlkunarhefð að orðið talenta hefur í vestrænum tungumálum fengið merkinguna hæfileikar, sem er framandi notkun orðsins miðað við tíma Jesú.

Samkvæmt upphafsorðum guðspjallstextans var markmið Jesú með þessari sögu að lýsa eðli himnaríkis en frásögnin hefst á orðunum ,,Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi.” Þegar Jesús talar um himnaríki talar hann í líkingum og dæmisögum og í Matteusarguðspjalli eru margar líkingar sem ætlað er að lýsa eðli himnaríkis eða ríki Guðs. Þannig þekkjum við dæmisögur sem segja himnaríki líkt húsbónda sem greiðir öllum þeim er vinna í víngarði sínum jöfn laun, óháð vinnuframlagi; dæmisögu sem segir Guðs ríki líkt sáðmanni sem sáir sæði sínu á akur en sumt fellur í grýtta jörð, annað meðal þyrna og það sem fellur í góða jörð ber mikinn ávöxt; og loks þá dæmisögu sem segir himnaríki líkt dýrmætri perlu sem er þess virði að fórna öllum veraldlegum eigum sínum fyrir.

Allar þessar sögur eiga það sameiginlegt að vera torskildari en virðist við fyrstu sýn og erfitt er að átta sig á hvar það ríki sem Jesús talar um er að finna. Er Jesús að tala um lífið handan dauða og grafar, eilífa lífið sem okkur er svo víða lofað í Nýja testamentinu? Er hann að tala um dulinn trúarlegan veruleika, ríki sem við getum stigið inn í hér og nú fyrir trú á hann eða felst í orðum hans þjóðfélagsádeila og spádómur um réttlátari heim sem okkur ber að vinna að sem kristið fólk.

Ég er þess fullviss að í guðspjöllum Nýja testamentisins er að finna allar þessar víddir í orðum Jesú en þegar ég las þessa sögu fyrir unglingana í Neskirkju uppskar ég sterk viðbrögð. Ungmennin héldu því réttilega fram að auðmaðurinn í sögunni samræmdist ekki guðshugmyndum þeirra, að lati maðurinn ætti ekki skilið eilífa útskúfun fyrir framferði sitt og að lýsingin á himnaríki væri ekki mjög himnesk.

Hvað ef hetjan í sögunni er sá sem húsbóndinn harði kallar latan?

Á fyrstu öldinni var hart tekist á um sjálfsmynd gyðinga og Jesús, sem sjálfur er gyðingur, tekur þátt í þeirri umræðu með beittri samfélagsádeilu. Eitt af því sem deilt var um var afstaðan til þess að þiggja vexti af lánum en í lögmáli gyðinga er að finna bann við því að græða á lánastarfsemi. Eins merkilegt og það er hafa kristnir menn litið þetta bann alvarlegri augum en gyðingar sjálfir og því var um langt skeið á miðöldum að kirkjan leitaði eftir lánum hjá gyðingum til að gerast sjálfir ekki brotlægir við lögmál Móse. Þessi áhersla átti síðar eftir að hafa áhrif á Múhameð spámann en strangtrúa múslimum er óheimilt að þiggja eða greiða vexti af lánsfé og því eru í dag starfrækt fjármálafyrirtæki fyrir múslima sem hafa tekjur einungis af þjónustugjöldum.

Í guðspjallstextanum er mögulegt að Jesús sé að gagnrýna þá í gyðinglegu samfélagi sem brjóta gegn lögmáli Móse og græða á því að lána öðrum fé. Þar sem þjóðin var undir harðræðisstjórn Rómverja má ætla að slík gagnrýni hafi beinst að þeirri valdastétt sem naut valda sinna í skjóli rómverska heimsveldisins. Lati þjónninn hafi þannig einn staðið gegn okurlánastarfseminni og verið í kjölfarið sviptur eigum sínum og gerður brottrækur úr samfélagi gyðinga. Þannig snýr dæmisagan viðtektum gildum samfélagsins á hvolf, upphefur þann sem líður þjáningu fyrir að standa gegn óréttlæti og skilur hina auðugu eftir með sekt sem hinum fyrstu áheyrendum væri augljós.

Sjálfur fékk Jesús að reyna það að vera útskúfaður og tekinn af lífi fyrir það að ögra valdastéttinni og ríkjandi hugmyndum síns samtíma. Hann ögraði hinni trúarlegu valdastétt með staðhæfingum um samband sitt við guðdóminn og því fyrirheiti að allar manneskjur eiga skjól hjá Guði án íhlutunar hinnar andlega valdastéttar og hann ögraði stöðu hinnar veraldlegu valdastéttar með kröfum sínum um réttlátt samfélag.

Hvort sem þessi túlkun mín er rétt eður ei, vekur hún upp spurningar um aðstæður okkar í íslensku samfélagi. Sú reiðialda sem farið hefur um þjóðfélag okkar undanfarnar vikur byggir meðal annars á þeirri skynjun almennings að allir sitji ekki við sama borð. Á sama tíma og launafólk og ungar fjölskyldur sem keypt hafa húsnæði sjá ekki fram úr skuldum sínum berast fréttir af bankamönnum og fyrirtækjaeigendum sem koma sér undan því að sæta ábyrgðar.

Davíð Þór Jónsson, skemmtikraftur og guðfræðinemi, kemst vel að orði í janúarhefti Reykjavík Grapevine, þegar hann lýsir efnahagsástandinu með dæmisögu. Hann segir frá því að ef hann ætti vin sem yrði ríkur og kysi að deila ekki auði sínum með sér, tæki hann það ekki nærri sér. En ef hann síðar kæmist að því að hann hefði óafvitandi verið ábyrgðarmaður fyrir skuldum vinar síns og sæti nú uppi með þær, væri ljóst að vináttu þeirra væri lokið. Sú vinátta og sú aðdáun sem að samfélag okkar fyrir skömmu bar fyrir þeim er gátu tvöfaldað talentur sínar hefur á undanförnum mánuðum vikið fyrir kröfunni um réttlátara samfélag.

Sú krafa er tjáð í ritningartextum dagsins. Lexían varðveitir bæn úr fimmtu Mósebók þar sem forskriftin að hinu nýja Íslandi, sem svo tíðrætt er um í fjölmiðlum, kemur fram.

Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum,

Í þessu nýja landi er upphafning á eigin verðgildi og auðæfum óviðeigandi en þess í stað áhersla á að lifa lífi sínu meðvitaður um Guð og náungann. Þannig segir:

Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs, til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.

Á sama hátt áminnir Páll Postuli okkur í Pistli dagsins, að ef hið Nýja Ísland á að standast þau verkefni sem nú bíða þjóðarinnar verður grundvöllurinn að vera réttur.

Sem vitur byggingameistari hef ég lagt grundvöll eftir þeirri náð sem Guð hefur veitt mér en annar hefur byggt ofan á. En sérhver athugi hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun koma í ljós hvernig verk hvers og eins er.

Þannig varar Páll okkur við að setja allt okkar traust á veraldlegar eignir, sem svo auðveldlega geta brunnið upp. Grundvöllur hins nýja Íslands þarf að vera sá sami og þjónað hefur þjóð okkar í þúsund ár. Betri grunn er ekki hægt að byggja á en trúnni á Jesú Krist. Kærleiksboðorð hans, um að elska Guð af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga og að elska náungan eins og sjálfan sig, mun aldrei falla úr gildi.

Ábyrgð okkar sem kristið fólk er að taka þátt í að móta framtíð okkar í ljósi kristinnar trúar. Á ábyrgð kirkjunnar er að vera rödd sem boðar réttlæti og kærleika á tímum þar sem þeirra gilda er þörf sem aldrei fyrr. Og það er sannfæring mín að okkur er sérstök ábyrgð á hendur lögð gagnvart unga fólkinu, börnum og unglingum, sem þiggja vilja uppfóstrun frá kirkjunni. Mikill fjöldi barna og unglinga sækir starf kirkjunnar vikulega og nú þegar þrengir að þurfa söfnuðir að huga enn skýrar að forgangsröðun. Það fé sem veitt er í barna- og unglingastarf mun bera margfaldan ávöxt. Ávöxt í formi ungs fólks sem lætur sig kirkjuna varða og vill eiga með henni samleið á komandi árum. Barna og æskulýðsstarf er mikilvægasta starf kirkjunnar og trúaruppeldi er í eðli sínu forvarnarstarf.

Það ungmenni sem elst upp við þá heimsmynd að að baki tilveru þess leynist máttug og kærleiksrík hönd Guðs getur óhrætt og óhult tekið til starfa á vettvangi lífsins.

Það ungmenni sem lært hefur að leita til Guðs og hefur eignast samfélag við hann veit hvert leita á þegar erfiðleikar sækja að.

Og það ungmenni sem hefur þá sjálfsmynd að verðgildi þess liggji í því að vera dýrmæt sköpun, óendanlega elskuð af Guði, verður ekki afvegaleitt á leiðinni til þroska.

Ungmennunum í Neskirkju fannst guðspjall dagsins ósanngjarnt enda eru þau líkt og flestir unglingar með sterka réttlætiskennd. Það eru forréttindi okkar sem störfum með ungu fólki að skynja skoðanir þeirra og fúsleika til að vinna að málefnum sem hafa manngæsku og sanngirni að leiðarljósi. Hið nýja Ísland er samstarfsverkefni okkar sem fullorðin eru og þeirra sem nú eru að vaxa úr grasi. Saman getum við litið til arfleifðar kristninnar í leit að grundvelli til að byggja samfélag okkar á og leitað leiðsagnar hjá þeim sem allt vald er gefið.

Að lokum vil ég gera orð sem Þjóðsöngur Íslendinga geymir að mínum en í þriðja erindi Þjóðsöngsins er að finna þessa bæn:

Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf, vor leiðtogi í daganna þraut og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf og vor hertogi á þjóðlífsins braut. :; Íslands þúsund ár, ;: verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á guðsríkis braut.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.