Að láta höndlast af Guði

Að láta höndlast af Guði

Þó að Jóhannes guðspjallamaður noti orð þeirrar tíðar heimspeki þá er niðurstaða hans um það hver Jesús er ekki fengin með heilabrotum. Nei, Jóhannes hefur séð og heyrt.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
25. desember 2011
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.Amen.

Á þessum jólum höfum við heyrt og notið hinnar einföldu en áhrifaríku frásagnar Lúkasar guðspjallamanns af fæðingunni í Betlehem. Allmörgum árum síðar en Lúkas skrifaði sitt rit hefst Jóhannes handa við að rita guðspjall sitt. Hann endurtekur ekki hina alkunnu frásögn Lúkasar en hann dvelur um stund í upphafi rits síns við íhugun þessara atburða með þeim hætti að engum ætti að dyljast að þar talar lærður kennimaður.

Vitnisburður Jóhannesar um Jesú

Hann talar sem sá sem setið hefur við fætur meistarans frá Nasaret sem fæddist í Betlehem og fylgdi honum eftir til krossins. Hann talar sem sá sem naut fagnaðar upprisu Jesú Krists frá dauðum og sá kristna kirkju breiðast út á upphafsárum sínum í löndunum umhverfis Miðjarðarhafið með mætti sem engar mannlegar hindranir fengu stöðvað.

Hver var hann sem fæddist í fjárhúsinu í Betlehem? Jóhannes útskýrir það, ekki aðeins með Gyðinga í huga sem þekktu spádómana um fæðingu guðs sonarins, heldur beinir hann orðum sínum til upplýstra manna af öllum þjóðum, lærðra sem leikra. Hann talar um að líkt og Guð hafi í árdaga skapað þessa veröld og komið skipan á lögmál hennar með orði sínu þá hefur hann nú gripið inn í rás heimssögunnar á afgerandi hátt.

Hann talar um að máttarorð Guðs, hans skapandi og lífgefandi kraftur sé kominn í heiminn á undursamlegan hátt í þessu litla barni sem lagt var í jötu í fjárhúsi. Hann talar um að sá sem heimurinn hafi orðið til fyrir hafi afsalað sér tignarstöðu í upphæðum til að fæðast sem barn fátæklegrar móður sem bjó meðal hrjáðrar þjóðar sinnar. Hann talar um að Jesús sé ljósið í heiminn komið, ekki aðeins endurskin guðlegs ljóss heldur er hann varanlegt ljós þessa heims og annars sem lýst getur mönnum í lífi og dauða.

Jóhannes hefur séð og heyrt

Þó að Jóhannes noti orð þeirrar tíðar heimspeki þá er niðurstaða hans um það hver Jesús er ekki fengin með heilabrotum. Nei, Jóhannes hefur séð og heyrt. Hann hefur séð máttinn og kærleikann þegar Jesús bjargar þeim sem eru hjálparþurfi líkt og björgunarmaður sem veður út í árstrauminn til bjargar fólki sem er í nauðum statt. Hann hefur séð orð frelsarans lægja æstar öldur og bjarga úr háska. Hann hefur séð bænar-og blessunarorð hans seðja þúsundir af nokkrum brauðum og fiskum og hann hefur séð lamaða og mállausa verða heila fyrir hans líknandi kærleikskraft. Hann talar um að lífið sjálft og kærleikskraftur Guðs hafi komið til manna. Hann sem allir hlutir voru gerðir fyrir og tilheyrðu kom til eignar sinnar.

Sorgarsagan um myrkrið

En þá kemur þessi sorgarsaga um myrkrið í mannheimi sem er svo mikið að það tók ekki við ljósi Guðs því að fólkið vildi ráða sér sjálft og treysta á eigin úrræði. En þegar ljós Guðs tekur að skína svo sterkt í heiminum við fæðingu Jesú þá verður myrkrið líka augljósara. Það verður aðgreining manna í milli og átök verða milli góðs og ills og sú barátta stendur enn yfir um allan heim og tekur á sig ýmsar myndir frá baráttu þjóða á milli til heimila sem eiga að vera sérhverjum einstaklingi sannur griðastaður, ekki síst börnunum sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér en þurfa þess í stað að þola andlegt og líkamlegt ofbeldi. Það finnst mér alveg hræðileg illska sem ég sætti mig engan veginn við.

Hið eilífa sanna líf sem er ljós mannanna skín í myrkrinu en myrkrið er svo svart að það tekur ekki við ljósinu. Í nánd ljóss er alltaf bjart, hvað sem öllu myrkri líður. Við skulum líka muna eftir ljósberunum mörgu sem með lífi sínu og starfi halda ljósi Krists hátt og lofti og lýsa þeim sem dvelja í skuggum þjáningar og myrkurs.

Bandaríkjamenn hafa yfirgefið Írak eftir 9 ára hersetu. Þeir hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar og dauða tvö hundruð þúsunda Íraka sem flestir höfðu ekkert til saka unnið. Ég tel að hatur í þeirra garð í dag sé meira en fyrir 11. September forðum. Þá var betra heima setið en af stað farið. Þá hefði komið í ljós að Írakar bjuggu ekki yfir kjarnorkuvopnum líkt og þeir höfðu lýst yfir. En þá hefðu Bandaríkjamenn sennilega ekki ráðist inn í landið með hervaldi.

Þótt styrjaldarástand ríki og myrkur haturs, eigingirni og ágirndar gangi fram fyrir skjöldu einhvers staðar í heiminum um þessi jól þá heyrast jólasálmarnir einhvers staðar sungnir, jafnt á vígvöllum heimilanna og annars staðar þar sem skotgrafahernaður er stundaður. Vindblærinn ber friðarboðskapinn hvert sem hann vill. Sá friðar-og kærleiksboðskapur fær snúið hatri til kærleika, óréttlæti til réttlætis, ófriði til friðar, óhamingju til hamingju. Því að Guð er að verki í gegnum fólk sem er gyrt sannleika um lendar sínar og klætt réttlætinu sem brynju og skóað á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Það heldur á skildi trúarinnar sem slökkva á logandi skeytum hins vonda. Á höfðum ber það hjálma hjálpræðisins og í höndum ber það sverð andans eins og postulinn segir.

Heimurinn þekkti ekki Jesú þegar hann fæddist sem eingetinn son Guðs. Það voru fáir sem fögnuðu fæðingu hans, foreldrarnir, hirðarnir, vitringarnir. Þrátt fyrir það er kristnin í heiminum með fjölmennustu trúarbrögðum heimsins í dag. Það er í sjálfu sér undursamlegt kraftaverk.

,,Öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að vera Guðs börn,“segir Jóhannes um Jesú. Þetta er fagnaðarerindi kristindómsins. Með þjónustu sinni við myrkrið afsalaði mannkynið sér réttinum til að vera í sannleika börn síns himneska föður. En þennan rétt gefur Jesús öllum sem vilja fylla flokk hans, vera lærisveinar hans og þiggja leiðsögn hans og fyrirgefningu.

Fagnaðarerindið um ljósið sem skín í myrkrinu

,,Ljósið sem upplýsir hvern mann var að koma í heiminn,“ segir Jóhannes. Sú upplýsing í lífi einstaklings á sér ekki stað í eitt skipti fyrir öll. Það þarf að vaka yfir fræðslu þeirra sem fá lítið ljós Guðs náðar í skírnargjöf en sérhver skírður einstaklingur hefur verið ausinn vatni til að lifa því lífi sem aldrei visnar og aldrei deyr, lífi með Guði í lífi og dauða. Það hefur verið vanrækt í okkar heimshluta að sinna trúarlegu uppeldi. Þar af sprettur ráðaleysi og fráfall. Og skil ljóss og myrkurs, rétts og rangs verða óglögg. Af því leiðir hrun í ýmsum skilningi sem við verðum vitni að á vegferð okkar í gegnum lífið. Guð treystir mannkyninu þrátt fyrir mannlega bresti, þrátt fyrir allt myrkrið sem ríkir oft á tíðum í mannheimi.

Mótsagnirnar í mannlegu hátterni

Í mannlegu hátterni gætir mótsagna þar sem sakleysi bernskunnar og siðgæðiskröfur hinna fullorðnu eiga í stöðugu stríði. Kristnar siðgæðiskröfur marka að sönnu leikreglur um breytni manna og ábyrgð í þjóðfélagi sem vill hafa kristinn siðaboðskap í heiðri. Öll mannleg samskipti fela í sér baráttu sem sérhver maður verður nauðugur viljugur að heyja samkvæmt lögmáli náttúrunnar um viðhald lífsins. Enginn fær þó tekið þátt í þeirri viðureign án þess að brjóta þessar reglur og eiga þar með hlutdeild að þeim misgerðum hvers í annars garð sem manninum einum eru eiginlegar allra skepna jarðarinnar sakir vitsmunalegra yfirburða. Siðgæðiskröfunum verður því aldrei fullnægt til hlítar, hversu grandvarlega sem leitast er við að lifa. Sá vanmáttur elur af sér sektarkennd sem sérhverjum manni reynist óhjákvæmileg byrði. Undir fargi þessarar sektarkenndar leynist í hugskoti mannsins áleitin þrá til að mega hverfa aftur til bernskunnar, þessa tímabils ævinnar, þegar sakleysið er veruleiki og lífið Paradís, þar sem allir eru jafningjar og lifa í sátt og samlyndi, úlfurinn hjá lambinu og pardusdýrið hjá kiðlingnum. Eru jólin þessi paradís sem allir þrá innst inni að vari árið um kring en verður ekki að veruleika vegna þess að við brjótum sífellt einhverjar af þeim kristnu siðgæðiskröfum sem eru gerðar til okkar?

Hvað er þá til ráða? Eigum við að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn líkt og strúturinn og líta svo á að við berum ekki ábyrgð á breytni okkar heldur einhverjir aðrir? Það er erfitt að finna til vanmáttar og sektarkenndar árið um kring þar sem við reynum í sífellu að hylja það sem við viljum ekki að nokkur maður sjái eða heyri um að geti birst í dagfari okkar, inni á heimilum okkar eða vinnustað.

Jólin boða fæðingu frelsara mannanna. Jólin boða það að lausnari mannkynsins sé fæddur sem hefur vald til að fyrirgefa syndir. Hann vill gjarna feykja burt misgjörðum okkar og minnast þeirra ekki framar. En við þurfum að iðrast synda okkar, nefna þær frammi fyrir barninu sem hvilir í stalli lágum, hinum krossfesta og upprisna sem þekkir hvert hár á höfði okkar og þekkir hverja synd sem við höfum drýgt. Við þurfum að biðja hann að fyrirgefa okkur syndirnar. Við þetta daglega og reglubundna atferli hljótum við mikla uppörvun og hughreystingu og við lærum jafnframt að þekkja röddu Guðs í skarkala heimsins og skynja kærleika hans í okkar garð, ekki síst í fasi þeirra og orðum sem við umgöngumst frá degi til dags. Það er nefnilega leyndardómur trúarinnar að þeir sem við umgöngumst frá degi til dags eru eins og opið bréf frá Guði sem við getum lesið. Þeir geta t.d. borið brynju réttlætisins eða verið friðsamir og haldnir sannleiksþrá eins og fjölmargir íslendingar eftir hrunið. Sú þrá er reyndar meira af veraldlegum toga en andlegum. Í kærleiksríku viðmóti lærum við t.d. um kærleika sem leitar ekki síns eigin. Sú dygð hefur eflst meðal íslendinga síðustu misserin að mínum dómi.

Að láta höndlast af Guði

Hinar ytri kringumstæður okkar geta verið óbreyttar en kærleikur Guðs kallar á breytni sem hefur aðra stefnu. Guð laðar fram nýja hugsun, nýtt fólk sem megnar að lifa í ljósi hans þótt dimmt sé í okkar jarðnesku veröld. En það að hlýða röddu Guðs og lúta honum er ekki einhvers konar heimsflótti eða hugrækt sem gerir manninn ónæman fyrir neyð náungans. Þvert á móti, eins og kærleikur Guðs beinist til bágstaddra manna, þannig hlýtur sá sem leitar vilja Guðs að verða snortinn af þeim kærleika sem Guð ber til manna. Og sá sem skynjar frið Guðs í lífi sínu finnur hve hatur og ófriður er ósamræmanlegt vilja Guðs. Sá sem lætur höndlast af Guði verður friðflytjandi. Ekki með því að gera háværar kröfur til annarra um friðsemd, heldur með því að láta fyrirgefningu og kærleika stjórna gerðum sínum. Með slíku er verið að gera meira en að boða frið, það er verið að skapa frið.

Jólaguðspjallið greinir okkur frá þeim kærleika sem ekkert illt fær sigrað. Af barninu í jötunni lærum við um kærleika Guðs. Um inn óeigingjarna kærleika sem veriður stærstur þegar þeir sem hann beinist að vilja sem minnst af honum vita. Þennan kærleika vill Jesús vekja með okkur kristnum mönnum og styrkja með návist sinni árið um kring til þess að ást okkar og umhyggja sé ekki háð því að við mætum gæsku frá öðrum. Þannig erum við öll kölluð til þess að auka veg kærleikans á jörðu og vera friðflytjendur meðal manna. Megi góður Guð gefa það að áhrifa jólanna gæti í samskiptum okkar árið um kring.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.