Ég horfi í nætursýnunum

Ég horfi í nætursýnunum

Ég horfi í nætursýnunum og ég velti því fyrir mér hver þau skrímsli eru sem herja á líf okkar dag frá degi. Sum okkar berjast við stirt kerfi, óréttlæti og bágar tekjur. Önnur kljást við einveru og missi. Hin þriðju búa við einstæðingsskap og einangrun. Hin fjórðu hafa misst trúna, vonina, birtuna og gleðina. Sum hafa gleymt sínum nánustu í annríki dagsins. Sum hafa gleymt sjálfum sér.

Ég horfði á í nætursýnum og sá þá einhvern koma á skýjum himins, áþekkan mannssyni. Hann kom til Hins aldna og var leiddur fyrir hann. Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir. Daníel 7:13-14

I

Ég horfi í nætursýnunum.

Sjúkrabíllinn þýtur áfram áfram eins og blátt strik inn í nóttina. Hann ber dýran farm, um borð er kona alsett snúrum og leiðslum. Hún er umkringd blístrandi tækjum og hjúkrunarfólki sem berst við að halda í henni lífi. Það er um það bil tveggja klukkustundar leið á spítalann og þegar þangað er komið er hinni sjúku komið í aðgerð sem bjargar lífi hennar.

Ég horfi í nætursýnunum.

Dagur er að renna og rétt norðan við sjúkrahúsið þar sem konan í sögunni situr og jafnar sig eftir skyndileg veikindi, er maður andvaka . Hann fer oft fram, svo klæðir hann sig, hitar kaffi. Hann leggur kapal og bíður eftir því að vísarnir hreyfist á klukkunni. Hann er orðin lélegur til heilsunar og treystir sér ekki til að vera einn, en biðin eftir þjónustuíbúðum er óendanlega löng. Hann beinbrotnaði í vetur og þurfti að vera lengi á sjúkrahúsi, það hefur orðið bið eftir sjúkraþjálfun og honum líður ekki vel. Hann er einangraður og honum finnst að hann sé að tapa áttum. Honum finnst að hann sé jafnvel farinn að gleyma einföldustu staðreyndum.

Ég horfi í nætursýnunum.

Allnokkru austan við íbúðina þar sem maðurinn horfir á vísana hreyfast löturhægt á eldhúsklukkunni, teygja hjón úr sér í dagrenning,

Þau sitja í náttsloppunum við eldhúsborðið í rúmgóðri íbúð á 4. hæð.

Þau skiptast á að lesa blöðin.Þau eru bæði nýhætt að vinna og hafa beðið þeirrar stundar með nokkurri eftirvæntingu. Konan ætlar að sinna ritstörfum, en maðurinn hefur mestan áhuga að nota sinn nýja frítíma til að skutla barnabörnunum í tónlistartíma og á íþróttaæfingar, svo og að setja niður gulrætur í garðinum.

Í dag er uppstigningardagur, sá dagur sem kirkjan hefur helgað eldra fólki, dagurinn sem við hugum að þeirra kjörum og líðan. Ég hef dregið upp fyrir ykkur myndir af kjörum fjögurra íslenskra einstaklinga. Þessar myndir eru mín eigin hugarsmíð, En samt gæti fólkið sem þær lýsa auðveldlega verið til. Það er engin ein sönn mynd af því hver hinn dæmisgerði íslenski eldri borgari er. Til að komast nær þeirri spurningu hefði ég þurft að draga upp hundrað myndir, fimmtán hundruð myndir eða fimm þúsund myndir af íslenskum eldri borgurum, vegna þess að kringumstæður og líðan eldra fólks á Íslandi eru ólíkar og mismunandi. Þær tengjast lífsskoðun, áhugamálum, lífsstíl, tengslum og öðrum aðstæðum sem fólk hefur valið sér sjálft. Þær tengjast líka þáttum sem eru ekki eru að öllu leyti á okkar valdi, heilsufari, félagslegum og efnahagslegum kringumstæðum. Þær tengjast sveit og borg, öllu því sem tengir okkur í tíma og rúmi og gefur lífi okkar gildi.

Ég horfi í nætursýnunum á þennan íslenska vef, sem hefur áhrif á okkur og umlykur okkur af öllu því sem við veljum okkur sjálf og öllu því sem kemur fyrir okkur -alveg óvart. Einhver slíkur vefur einkennir sérhvert samfélag. Þegar við veltum fyrir okkur aðstæðum eldri borgara, þá sjáum við bæði ljóma og göt þessa vefs. Þá lítum við til fólks sem stendur á hátindi lífs síns, þeirra sem búa við efnahagslega velsæld, þeirra sem búa við góða heilsu og hamingju, barnalán, mikil og sterk tengsl við annað fólk. En við lítum líka til þeirra sem hafa borið minna úr býtum , búa við fátækt og erfiðar aðstæður. Við lítum við til þeirra sem stríða við heilsuleysi og félagslega einangrun. Þegar við hugum að kjörum og líðan eldra fólks í okkar samfélagi, þá kallast á þakklætið og ergelsið yfir því sem er ábótavant í samfélaginu. Við getum verið stolt yfir öllu því sem áunnist hefur til þess að eldra fólk í upphafi 21.aldar geti lifað sínu lífi með reisn.

Í þeirri breytu koma ekki aðeins fram þau réttindi sem eldri borgarar eiga að geta sótt til samfélagsins, heldur líka allt það sem menn og konur á eftirlaunaaldri halda áfram að gefa til lands og þjóðar. Við getum líka verið þakklát fyrir allt það sem velferðarkerfi, nútíma læknavísindi, fjölskyldur og samfélag geta gert fyrir þau eru komin á eftir ár, fyrir börn, barnabörn og aðra aðstandendur sem heiðra föður sinn og móður og leggja oft mikið á sig til að búa þeim gott ævikvöld og berjast þeirra baráttu í kerfinu.

Það skiptir máli að virða það sem vel er gert. Það líka mikilvægt að horfa með alvöru til þess sem aflaga fer. Í íslenska velferðarkerfinu býr mikill kraftur og umhyggja, þar starfar fólk við umönnunar og lækningastörf sem vill mikið á sig leggja. Við búum að flestu leyti við frábæra bráðaþjónustu, þar sem kraftaverkin gerast dag hvern og þar sem ekkert er til sparað við að bjarga mannslífum. Við eigum mikið af frábæru hjúkrunarfólki. Við eigum mikla sveit af menntuðu og hlýju fólki sem leggur sitt af mörkum við að gera aðstæður eldra fólks sem bestar. Og svo eru líka hroðaleg göt á þessu kerfi, þar sem eldri borgarar bíða ár eftir ár eftir viðeigandi húsnæði, þar sem fársjúkt fólk þarf að tékka sig inn á bráðadeildir vegna þess að það getur ekki verið heima hjá sér lengur, þar sem margir eru einmana og eiga í fá skjólin að sækja.

Í dag er kirkjudagur eldri borgara. Það er líka 1. Maí í dag, baráttudagur verkalýðsins, baráttudagur fyrir mannsæmandi kjörum alls fólks um allan heim.

Það fer vel á því að minnast þeirra sem lagt hafa grundvöll að íslensku samfélagi í dag á 1. maí. Og um leið minnir dagurinn okkur á það að þakklæti og kraftur til umbreytinga heyra saman. Við þurfum að meta það sem áunnist hefur. Ef við erum ekki þakklát og bjartsýn þá ávinnst aldrei neitt. En þakklætið má ekki verða til þess að við leggjum árar í bát. 1.maí kallar okkur til að bíta enn í skjaldarrendur að gera betur og að hlusta betur að eldri borgarar standi saman og berjist saman , að börn þeirra og öll þau sem notið hafa handarverka þeirra standi vörð um þeirra hag.

II

Ég horfi í nætursýnunum.

Þannig er upphaf lexíu dagsins, sem er lesið okkur í dag á uppstigningardaginn, á kirkjudegi aldraðra og á 1. maí. Þessi lestur er úr Daníelsbók, sem er ein af torskildustu og furðulegustu bókum hinna hebresku rita Biblíunnar. Daníelsbók talar inn í aðstæður þjóðar sem býr við ömurlegar aðstæður í útlegð Og þarf á öllu sínu að halda til þess að komast af við óréttlátt stjórnarfar og vondan aðbúnað. Spámaðurinn Daníel fékk vitrun að næturlagi. Hann talar til þjóðar sinnar í undarlegum og goðsagnakenndum myndum af fjórum hræðilegum skrímslum sem að koma upp úr djúpinu. Hið fyrsta leit út eins og ljón en það hafði arnarvængi, annað var í líki bjarnar, hið þriðja var vængjaður hlébarði með fjóra hausa og hið fjórða hafði tennur af járnir og tíu horn á höfði. Spámaðurinn verður hræddur og kjarklítill þegar hann lítur skrímslin fjögur. Hann langar til að læðast burtu, en þá gerist eitthvað, hann sér undarlega sýn í nætursýnunum. Hann sér einhvern koma í skýjum himinsins. Og svo heldur Daníel áfram: Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.

Þennan tvö þúsund og fimm hundruð ára spádóm um Messías, sem kemur og frelsar bergmáluðum við í messujátningunni núna áðan...á ríki hans skal enginn endir verða.

Guðspjallamennirnir gengu í smiðju Daníels spámanns þegar þeir lýstu endurkomu Krists á jörðu og texti pistilsins úr Postulasögunni sækir enn í þennan sjóð. Þar er okkur sagt frá síðustu orðum Jesú við lærisveina sína. Hann segir þeim að vera óhræddir, vegna þess að þeir munu verða skírðir af heilögum anda. Síðan hverfur hann burt – og ský huldi hann sjónum þeirra. Vinir og vinkonur Jesú horfa upp í himininn lengi, lengi. Þau horfa á eftir þeim sem þau elska, þeim sem þau treysta á og velta því fyrir sér hvenær hann komi aftur. Þau stara upp í himingeiminn allt fram til þeirrar stundar sem þau eru trufluð af undarlegum mönnum, sem ávíta þau og segja: Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.

III

Ég horfi í nætursýnunum.

Rétt eins og Daníel sem sá skrímslin fjögur renna upp af djúpinu.

Ég horfi í nætursýnunum og vænti mannsonarins sem er kominn til að frelsa og hjálpa. Hans vald er eilíft vald, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga. Ég horfi í nætursýnunum á eftir Jesú sem er horfinn, ský hylur hann sjónum og hefur lofað því að senda anda sinn til að vera með okkur, anda sannleika, anda friðar, anda kjarks, anda skírnar, anda einingar, anda eilífs lífs.

Ég horfi í nætursýnunum og ég velti því fyrir mér hver þau skrímsli eru sem herja á líf okkar dag frá degi. Sum okkar berjast við stirt kerfi, óréttlæti og bágar tekjur. Önnur kljást við einveru og missi. Hin þriðju búa við einstæðingsskap og einangrun. Hin fjórðu hafa misst trúna, vonina, birtuna og gleðina. Sum hafa gleymt sínum nánustu í annríki dagsins. Sum hafa gleymt sjálfum sér. Illvættirnir okkar eru ólíkir, sumir eru stofnanalegir og ópersónulegir, aðrir naga hjartaræturnar.

Við horfum upp til skýjanna eftir því sem er horfið sjónum, Niður í djúpið eftir frekari illvættum, Eftir ljónum með arnarvængi, eftir hrikalegum björnum, eftir vængjuðum hlébörðum með fjóra hausa, og undarlegum járntenntum skrímslum með tíu horn. Allt þar til potað er í bakið á okkur.

Þar standa tveir menn sem við þekkjum ekki og kalla okkur Galíleumenn. Þessir englar benda okkur á að það er hægt að gera fleira heldur en að horfa upp og bíða eftir því að Guð eða aðrir geri eitthvað í málunum. Eða horfa niður í uppgjöf og skelfingu yfir því er framundan og gæti stigið upp úr djúpinu.

Pistillinn bendir okkur á það að við getum líka horft í kringum okkur.

Við getum horft til manna og málleysingja allt í kringum okkur. Við njótum stuðnings og umhyggju Guðs sem vinnur ekki bara í skýjum og hæðum, heldur blæs sem andi, Guð sem er að verki í hlýju, samúð og kærleika sem við sýnum öðrum og kynnumst í fari annarra. Þetta er andinn, andinn sem Jesús lofaði,

Uns hann birtist í skýjunum.

„Galíleumenn,“ segja verurnar tvær og banka í bakið á okkur: „Hví standið þið og horfið til himins? Hví standið þið og horfið ofan í djúpið á þessi skrímsl? Hafið þið gleymt uppstigningardegi? Hafið þið gleymt því að mannsonurinn kemur aftur? Hafið þið gleymt því að ykkur er ætlað að standa saman og styðja hvert annað? Hafið þið gleymt því að þið eruð skírð í heilögum anda, sem gefur ykkur kraft til að breyta því sem þarf að breyta í okkar samfélagi? Hafið þið gleymt að horfa eftir því sem veitir ykkur Trú, von og kærleik? Hafið þið gleymt honum, hvers ríki skal aldrei á grunn ganga?“

Þessi áminning, þetta pot, kallar okkur frá vitrun Daníels, Frá skýbólstrum Galíleu og sendir okkur á bólakaf inn í hversdaginn miðjan í íslensku samfélagi, frá hinni lóðréttu vídd, til hinnar láréttu víddar. Þar kallast baráttan og þakklætið á. Þar takast á skrímslin og mannsonurinn, nætursýnin og uppgjöfin.

Ég horfi í nætursýnunum þangað sem skírnin, andinn og framtíðarsýnin kalla okkur til nýrra dáða í þágu ungra jafnt sem aldraðra.

Ég horfi í nætursýnunum og sjá! Dagstjarna, vonarstjarna, maístjarna! Á sjúkrahúsinu er kona að koma úr aðgerð. Við rúmið hennar sitja maður hennar og börn og gleðjast yfir því að hafa heimt hana úr helju. Rétt norðan við sjúkrahúsið situr maður yfir kaffi og horfir á klukkuna. Það hringir dyrabjallan og konan úr næstu íbúð kemur inn með Moggann handa honum og þiggur kaffi. Og allnokkru austan við íbúð mannsins sitja hjón yfir morgunmatnum og skiptast á að lesa blöðin.

Eldri borgarar- Til hamingju með daginn!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.