Homo hybris

Homo hybris

Skv. kenningu fornerfðafræðingsins Johannesar Krause í nýrri bók hans, Hybris, eða Hroki, áttu sér stað genastökkbreytingar sem skildu homo sapiens frá Neandertalsmönnum og gerðu honum kleift að sigrast á öllum hindrunum og leggja undir sig plánetuna, bæði ólífræna og lífræna hluta hennar, þar til ekkert var lengur eftir til þess að nýta og hann var ekki aðeins homo sapiens heldur homo hybris, hinn hrokafulli maður.
Mynd

Prédikun flutt í Háteigskirkju

Lexía: Sak 12.10; Pistill: Ef 5.1-9; Guðspjall: Lúk 11.14-28

Í bók sinni um dauðasyndirnar sjö segir finnski guðfræðingurinn Jaakko Heinimäki: „Aðeins maðurinn býr yfir grimmd“ og vitnar síðan í sálfræðinginn og félagsheimspekinginn Erich Fromm sem benti á „að mannlegt samfélag yrði frekar friðsamt og ofbeldislaust ef árásarhneigð mannsins væri á nokkurn veginn sama stigi og annarra spendýra, þá einkum simpansa, nánustu ættingja okkar.“ Fromm talar reyndar um góðkynja og illkynjaða árásarhneigð; sú fyrrnefnda sé viðbragð sem styður lífið, tilgangur hennar sé að verjast ógn, annað hvort með því að sigrast á henni eða beina henni eitthvert annað. Hún sé sameiginleg mönnum og skepnum. Aftur á móti sé illkynjuð árásarhneigð bundin við manninn einan. Hún sé hvorki vörn gegn ógn né heldur stuðli hún að viðgangi tegundarinnar.


Hugleiðingar um tilvist hins illa eiga sér eðlilegan stað í dagatali kirkjuársins á föstunni, í aðdraganda píslargöngu Krists og aftöku hins saklausa manns. En sjaldan verða slíkar hugleiðingar eins áleitnar og andspænir stríðsátökum líkt og nú á þessari föstu, andspænis voðaverkum rússneska innrásarhersins í Úkraínu. Hvaðan kemur þessi illska? Hvernig getur maðurinn, þrátt fyrir alla sína háleitu menningu, sýnt af sér slíka grimmd?


Áðurnefndur Erich Fromm telur að rætur tortímingarhvatar og grimmdar liggi djúpt í tilveru mannsins en leyfir sér samt að trúa því að hann geti brotið af sér þá fjötra vegna þess að auk grimmdarinnar hafi hann annan, máttugan hæfileika sem greini hann frá dýrunum – ástina. Kærleikur, samúð og góðvild eru einmitt þau persónueinkenni sem ritningartextar dagsins boða.  Eins og ævinlega vekja textarnir upp ýmiss konar hugrenningatengsl eins og vænta má af textum sem snerta flestar hliðar mannlegrar tilveru, ljósar og dökkar, skærar og myrkar, góðar og vondar. Í guðspjalli dagsins á Jesús í baráttu við illskuna í formi illra anda, sem tekið hafa sér bólfestu í líkama ólánsams manns. Illu andarnir eru hér kannski hvort tveggja í senn táknmynd fyrir allt það sem kemur í veg fyrir að maðurinn lifi heilbrigðu og hamingjuríku lífi sem og forvísindaleg útskýring á sjúkdómum hvers konar. En aðalatriði frásagnarinnar fyrir okkur felst í þeirri staðreynd að Jesús gerir góðverk á hinum mállausa manni af kærleika fyrir honum og auðsýnir honum samúð og góðvild. Og með því er verk Guðs orðið að veruleika í heiminum. Andstæðingar hans láta hins vegar að því liggja að hann hljóti að vera á mála hjá Djöflinum fyrst hann geti rekið út hina illu anda. Þessi viðbrögð sýna að það er gamalkunnug taktík, að saka þann, sem gengur á vegi réttlætisins, um annarlegar hvatir í þeim tilgangi að slá vopnin úr höndum hans eða réttlæta árás á hann. Við höfum t.d. séð þetta í ásökunum rússneskra stjórnvalda í garð Úkraínumanna og í garð stjórnarandstæðinga heima fyrir eins og Alexei Navalní.


Meginglíma þeirra texta, sem varðveittir eru í Biblíunni og hverrar vægi fyrir kirkjuna við undirstrikum með því að nota orð eins heilög ritning eða Guðs orð, hún er í grunninn að reyna að varpa ljósi á eðli mannlegrar tilveru, hvernig hún er og hefur alltaf verið og hvernig hún gæti verið ef hún ætti að vera í samræmi við vilja Guðs. Hvernig fólk þyrfti að hugsa og hvernig það þyrfti að hegði sér svo sem æskilegt væri til þess að það lifði í friði hvert við annað og til þess að allir hefðu nóg að bíta og brenna. Ritningin vitnar þannig um glímu mannsins við sína eigin breyskleika og útgangspunkturinn er frá hinum hæsta sjónarhóli þar sem Guð trónir sem ímynd hins góða, fagra og fullkomna. Með tungutaki Biblíunnar er þetta ástand mannsins, sem m.a. birtist í grimmd hans, kallað synd, sem þýðir einfaldlega það að missa marks og á sér uppruna í veruleika bogmannsins sem spennir boga sinn og beinir örinni að marki sínu. Ef hann hittir ekki syndgar hann. Samkvæmt skilningi biblíulegrar trúar er því hver einasta manneskja bogmaður í táknrænni merkingu og með öllu sínu atferli er hún sífellt að hleypa ör af streng sem ætti að hafa að markmiði það sem vinnur að framgangi lífsins og styður við frið og réttlæti í samfélaginu.


Í sögunni um Adam og Evu og aldingarðinn í Eden í 1. Mósebók er þessu hlutverki mannsins lýst með svohljóðandi orðum: „Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.“ (1M 2.15) Þannig eru á táknrænan hátt í raun öll tengsl mannsins, hvort sem það er manna í millum eða við sköpunina að öðru leyti, skilgreind með því að nota þessa myndhverfingu akuryrkjunnar. Rétt eins og það er heilög skylda okkar að hlúa þannig að náttúrunni að hún viðhaldi frjómagni sínu öllum lífverum til skjóls og fæðu ber okkur að haga samskiptum á milli einstaklinga og hópa á þann veg að til uppbyggingar horfi fyrir einstakling og samfélag og hvert og eitt okkar upplifi sig öruggt og umfaðmað en ekki ógnað eða jaðarsett. Hinu fullkomna ástandi, sem væri í samræmi við vilja Guðs, mætti því kannski lýsa sem ástandi þar sem jafnvægi ríkti, bæði náttúrulegt og félagslegt, í samræmi við hugmynd Aristótelesar um siðfræði meðalhófsins.


Sögnin að syndga er miklu mun flóknari að merkingu en einfaldlega að mistakast. Manni getur mistekist allt mögulegt í leik eða starfi án þess að það teljist vera synd. Manni getur mistekist að ná eigingjörnum markmiðum, sem jafnvel myndu skaða aðra, t.d. í viðskiptum. Í slíku tilfelli væru það markmiðin sem slík, viljinn til þess að ná sínu fram á kostnað annarra, sem væru syndin, því slíkt stríddi gegn Guðs vilja. Syndin felst fyrst og fremst í hvötunum sem leiða til skaðlegra verka.


Í dag er 3. sunnudagur í föstu og föstutíminn er tími iðrunar og íhugunar, þess að líta í eigin barm og gangast við eigin göllum. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég hlustað á fólk hneykslast á eilífu syndatali kirkjunnar og í kjölfarið þá tillögu að í kirkjunni ætti bara að prédika eitthvað jákvætt og skemmtilegt, eitthvað í líkingu við jákvæða sálfræði svo kallaða. Og furða mig alltaf jafn mikið á þessu í ljósi þess að á hinn bóginn hefur sú tilhneiging verið mjög ríkjandi í vestrænum samfélögum síðustu ár og áratugi að stinga á hvers kyns kýlum í samfélaginu, sem er afar þarft og Me too-byltingin er besta dæmið um. Eina skýringin á þessu ósamræmi, sem mér dettur í fljótu bragði í hug, er sú að kröfunni um það að gangast við sekt sinni og iðrast er ávallt beint út á við, gegn öðrum, en aldrei inn á við, að sjálfum sér. Sumir myndu sjálfsagt skrifa þetta á sjúklega sjálfhverfu sem sé innbyggð í vestræna samfélagsgerð – og er ég þar t.d. að hugsa um Horst E. Richter, þýskan heimspeking og sálgreini, sem lýsti því sem svo að hinn vestræni nútímamaður væri haldinn því sem hann kallar guðskomplex. Hann rekur þetta ástand til menningarlegra breytinga á miðöldum og nýöld en nýjustu rannsóknir í fornerfðafræði benda jafnvel til þess að guðskomplexinn sé skrifaður í erfðaefni mannsins.  Skv. kenningu fornerfðafræðingsins Johannesar Krause í nýrri bók hans, Hybris, eða Hroki, áttu sér stað genastökkbreytingar sem skildu homo sapiens frá Neandertalsmönnum og gerðu honum kleift að sigrast á öllum hindrunum og leggja undir sig plánetuna, bæði ólífræna og lífræna hluta hennar, þar til ekkert var lengur eftir til þess að nýta og hann var ekki aðeins homo sapiens heldur homo hybris, hinn hrokafulli maður.


Þörf mannsins til útrásar, til þess að fara sífellt lengra og hærra og taka sér goðumlíkt vald, er nákvæmlega það sem sagan um Babelsturninn í 11. kafla 1. Mósebókar fjallar um. Eftir að mennirnir höfðu byggt sér turn sem náði til himins til þess að verða frægir segir Guð: „Þetta er aðeins upphaf þess sem þeir munu taka sér fyrir hendur. Hér eftir mun ekkert verða þeim um megn sem þeir ætla sér.“ En manninum virðist ómögulegt að sætta sig við að honum séu takmörk sett og því telur Krause að það muni í auknum mæli koma til átaka um takmörkuð gæði, auðlindir sem margir aðilar geri tilkall til. Hann undirstrikar réttilega að vandamálið í þessu sambandi felist ekki í skorti á skilningi mannsins á eðli vandans heldur í eðli hans sjálfs. Við vitum hver vandinn sé en við séum ekki tilbúin til þess að láta náttúrulegar hömlur setja okkur skorður. Við séum of sjálfhverf. Auðlindir Jarðar dugi margfaldlega til þess að fæða og klæða 10 milljarða manns, til þess þurfi einfaldlega að skipta gæðunum jafnt, en það sé víðs fjarri eðli og menningu mannskepnunnar sem sprottin sé af samkeppnishvöt hans og óseðjandi löngun til þess að ná lengra og hærra og gera betur.


En þrátt fyrir þetta kemst Krause að þeirri þversagnakenndu niðurstöðu að einmitt þeir eiginleikar mannsins sem leitt hafa hann í öngstræti geti orðið honum og framtíð jarðar til björgunar; mannkynið geti leyst vandamál sín ef til komi hnattræn samvinna á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar. Með öðrum orðum mætti kannski segja að við þyrftum að losa okkur úr viðjum líffræðilegra hvata okkar og hefja okkur upp yfir þær með siðferðilega meðvitaðri ákvarðanatöku, það sem biblíuleg trú kallar réttlæti.


Það er vissulega nýtt og áhugavert að hægt sé að rekja breyskt eðli mannsins til genabreytinga einhvern tíma fyrir lok síðustu ísaldar og setur hugtakið erfðasynd í nýtt samhengi en um leið ekki ólíkt því sem var þegar fólk trúði því bókstaflega að Adam og Eva hefðu verið frumforeldrar mannkyns. En það er vitanlega ekkert nýtt í hugleiðingum Krause um eðli mannsins því að um þetta hefur trúarleg og heimspekileg hugsun fjallað í árþúsundir.


Gregoríus I. páfi, sem uppi var á 6. öld, fullyrti að ágirndin væri móðir átta annarra synda. Synir og dætur ágirndarinnar væru sviksemi, prettir, tál, meinsæri, ófriðsemi, ofbeldi, miskunnarleysi og forherðing hjartans. Skv. þessu eru stríðsátök líkt og þau sem nú geysa í Úkraínu í raun yfirgengilegasta birtingarform ágirndarinnar en hún birtist einnig í öllu okkar hversdagslega lífi, í neysluþörf okkar og stöðugri löngun til þess að eignast eða reyna e-ð nýtt.


Kristur auðsýndi mállausa manninum kærleika og samúð og rak illa andann á brott svo hann mætti mæla. Á sama hátt þarf manneskjan sem einstaklingur og mannkynið sem tegund að sýna staðfestu í því knýjandi verkefni sínu að hefja sig upp yfir arfbundnar hvatir sínar sem vinna gegn framgangi lífsins. Sú stund er komin í sögu mannkyns að það þarf að fara að temja sér hugsunarhátt föstutímans, hugsunarhátt iðrunar og afturhvarfs, hógværðar og miskunnsemi, ekki 40 daga á ári, heldur alla daga, öll ár.


Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.