Samstarfssvæði kirkjunnar

Samstarfssvæði kirkjunnar

Hugmyndin kemur þannig ekki fram sem viðbrögð við niðurskurði eftir efnahagshrunið heldur sem viðleitni til að efla og tryggja starf og þjónustu um land allt.

Unglingar

Í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi birtist grein undir yfirskriftinni: Bréf frá útgefanda. Þar er meðal annars fjallað um Þjóðkirkjuna og fyrirhuguð samstarfssvæði innan hennar.

Þakka ber þau hlýlegu orð sem í greininni falla um sóknarnefndir og þann skilning sem þar er að finna á því hve grasrót kirkjunnar er mikið lýðræðisafl. Eins og komið hefur skýrt fram í umræðum á kirkjuþingi er eindreginn vilji innan Þjóðkirkjunnar að efla lýðræðið og áhrif almennings á mótun kirkjustarfs og skipulags kirkjunnar. Greinin gefur einnig tækifæri til að fjalla um samstarfssvæðin, útskýra hlutverk þeirra og hvernig þau geti eflt starfið í kirkjum landsins.

Tryggja áfram góða þjónustu kirkjunnar um allt land Árið 2006 samþykkti kirkjuþing að skipa nefnd til að vinna tillögur að heildarskipan þjónustu Þjóðkirkjunnar. Nefndin tók til starfa 2007 og skoðaði þörfina fyrir þjónustu kirkjunnar og hvernig best væri hægt að mæta henni. Markmiðið er að tryggja áfram góða þjónustu kirkjunnar um allt land.

Kirkjustarfið skiptist í nokkra þætti og má þar nefna helgihald, fræðslu, sálgæslu, kærleiksþjónustu og hjálparstarf, kirkjutónlist og ýmsa þjónustu eða starf sem tekur mið af sérstökum aðstæðum sóknar. Í starfi nefndarinnar var gengið út frá því að sóknarbörn eigi rétt á kirkjulegri þjónustu, til dæmis að messað sé reglulega, að barnastarf, æskulýðsstarf og fermingarfræðsla sé til staðar og að sóknarbörn geti leitað aðstoðar í sálgæslu kirkjunnar. Sumt af þessu hlýtur að vera til staðar í hverri sókn, en margar sóknir hafa þó ekki burði til að sinna einar og sér þjónustu eða starfi sem eðlilegt telst að sóknarbörn eigi að geta notið.

Ekki sameining heldur samvinna Ekki er lagt til að sóknir sameinist til að efla getu sína til þjónustu, heldur er lagt til að sóknir vinni saman á samstarfssvæðum. Um skipulagningu starfsins sjá sóknirnar sjálfar í sameiningu. Hér er ekki verið að skapa nýtt lag millistjórnar og miðstýringar heldur er verið að tryggja að sóknarbörnin viti að þau eigi aðgang að þessari þjónustu, ef ekki í eigin sókn, þá í nágrenninu í samstarfi nokkurra sókna.

Hugmyndin kemur þannig ekki fram sem viðbrögð við niðurskurði eftir efnahagshrunið heldur sem viðleitni til að efla og tryggja starf og þjónustu um land allt. Með þessu ættu starfskraftar og fjármunir að geta nýst betur en ef sérhver sókn þyrfti ein og sér að bjóða upp á alla þá þjónustu og starf sem sóknarbörn eiga að geta gengið að.

Víða samstarf nú þegar Sóknir hafa víða séð sér hag í samstarfi og komið því á í einhverri mynd. Með þessum tillögum er það gert markvissara til að tryggja að sóknarbörn geti sem víðast notið þeirrar þjónustu og starfs sem telst til grunnþjónustu kirkjunnar og þá um leið sérhverra sóknar Þjóðkirkjunnar. Sóknarnefndir á hverjum stað munu áfram í samráði við sóknarprest móta og stýra starfinu í sinni sókn og eins mun kirkjustjórnin áfram eiga bein samskipti við einstaka sóknarnefndir. Með skipulegu samstarfi munu sóknarnefndir á samstarfssvæðum hittast, ræða saman um starfið framundan, fara yfir samstarfsmöguleika og upplifa þann kraft og þá gleði sem tilheyrir því að finna að þær eru hluti af stærri heild sem vinnur að sama verki – að vinna heilt kirkju og kristni Guðs á jörð.

Höfundur er verkefnisstjóri á Biskupsstofu var starfsmaður nefndar um þjónustu kirkjunnar. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 25. mars sl.