Jesúbíó og kvikmyndasýningar í kirkju

Jesúbíó og kvikmyndasýningar í kirkju

Eiga kirkja og bíó eitthvað sameiginlegt annað en hreyfanleikann? Já, tengingarnar eru margvíslegar og ekki bara að kvikmyndir hafa í marga áratugi verið sýndar í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Margar myndir hafa verið gerðar um ævi og störf Jesú. Enn fleiri kvikmyndir eru síðan til um Jesútýpur, svonefnda kristsgervinga.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
02. febrúar 2010

Jesus de Montreal

Eiga kirkja og bíó eitthvað sameiginlegt annað en hreyfanleikann? Já, tengingarnar eru margvíslegar og ekki bara að kvikmyndir hafa í marga áratugi verið sýndar í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Margar myndir hafa verið gerðar um ævi og störf Jesú. Enn fleiri kvikmyndir eru síðan til um Jesútýpur, svonefnda kristsgervinga. Flestar kvikmyndir sýna eða snerta eitthvert trúarlegt atriði og margar fjalla beinlínis um mál sem varða siðferði, trúartúlkun og siðfræði. Starf þjóðkirkjunnar verður æ fjölbreytilegra og nýir starfsþættir eru teknir upp. Einn þeirra er sýning kvikmynda í safnaðarheimilum. Tilgangurinn er jafnan að gefa fólki tækifæri að sjá myndir saman, sem hafa einhverja trúarlega skírskotun og eru tilefni íhugunar og umræðu um líf, trú og gildi einstaklinga og samfélags.

Til hvers?

Hið fyrsta nauðsynlega er að íhuga tilgang sýninga. Hver er markhópurinn og hvað þjónar honum best? Hvaða myndir eða myndategundir megna að vekja áhuga og spurningar? Er markmiðið að þjóna þeim sem koma jafnan í kirkju, einhverjum sérstökum aldurshóp. Er markhópurinn fólk sem lítið hefur tekið þátt í hefðbundnu starfi kirkjunnar en gæti hugsað sér að sækja bíósýningu og ræða málin? Jesúmynd hentar einum hóp og gamanmynd öðrum. Möguleikarnir eru margir. James Bond-myndir eru varla fyrstu myndirnar sem mönnum detta í hug að sýna í safnaðarheimili en þó hafa þær verið sýndar í íslensku kirkjusamhengi til að ræða trú og karmennsku. Máli skiptir að greina vel samhengi og hvað gæti kveikt í fólki. Kvikmyndasýningar henta vel í ákveðnum þáttum barnastarfs, í fermingarfræðslu og unglingastarfi. En margt fullorðið fólk, líka aldrað, hefur gaman af að horfa á og ræða kvikmyndir. Það kemur fólki gjarnan á óvart hversu gjöfular kvikmyndir geta verið þegar næði fæst til að greina, skoða og ræða. Jesúbíó á að vera plús í merkingarsókn manna.

Skipulagið

Þegar markmið og markhópar hafa verið greind má huga að myndum, fjölda skipta og fyrirkomulagi. Nota má dag, kvöld en líka heilan dag til sýningar um helgi. Langur laugardagur með tveimur eða þremur kvikmyndum gæti t.d. verið besti kosturinn. Í hugum flestra Íslendinga eru veitingar eðlilegur hluti bíósýninga. Ef sýning er að kvöldlagi má nýta kvöldverð til kynningar. Hvernig kost menn reiða fram er vitaskuld mál hvers og eins – en kirkja ætti jafnan að vera vörður gæða! Til að lengja ekki og spilla sýningarupplifun þarf að hófstilla inngang um kvikmyndafræði og trúartúlkanir. Stuttar kynningar, örfyrirlestrar, eru hentugri við upphaf en langar ræður. Þessar innlýsingar mega gjarnan opna eða kasta upp viðeigandi verkefnum um kvikmyndina. Þeir eiga fremur að minna á túlkunarmöguleika en að loka túlkunarferli með einhverri niðurstöðu. Fjöldi bóka um trúarleg efni í kvikmyndum eru fáanlegar og veraldarvefurinn er náma upplýsinga sem nýta má. Vefur Deus ex cinema er - þrátt fyrir að nafnið bendi til annars - íslenskur vefur um trúarstef í kvikmyndum.

Eftir sýninguna er ráðlegt að ræða um myndina og kalla eftir túlkun og afstöðu áhorfenda. Fyrir sýningu ætti umræðustjóri að undirbúa nokkrar yddaðar spurningar fyrir samræðuna. Markmið umræðna er ekki að skapa einingu um túlkun heldur að veita innsýn og efla skilning einstaklinga á blæbrigðum og tengimöguleikum hins trúarlega við eigin líf og annarra. Samræðurnar eiga að þjóna fólki en ekki kvikmyndinni. Kirkjustarf, líka kvikmyndasýningar í kirkjurými, er í þágu lífs og eflingar fólks en einskis annars.

Hollvinir og hvatar

Eiga margir eða fáir að koma að skipulagi? Vissulega er mjór mikils vísir og engin ástæða er til að láta hugfallast þó frumherjarnir séu fáir. Farsælast er þó ef hópur fólks sammælist um að halda bíósýningar og deilir verkum við undirbúning og framkvæmd. Kvikmyndirnar þarf að ræða og því er gæfulegast að sami kjarnahópur komi á flestar sýningar til að tryggja samræðu og samhengi. Góðir hlutir gerast gjarnan hægt og ekki skyldi byrja með látum eða efna til sýninga í mörg skipti. Frumraunin gæti verið þrjú eða fjögur skipti, með ákveðin markhóp í huga og fólki boðið sérstaklega. Fjöldi gesta skiptir ekki mestu heldur gæði samverunnar og samtalsins. Lítill hópur nær jafnan betri umræðu en stór. Ef margir sækja sýningu getur verið nauðsynlegt að skipta í nokkra hópa þegar samtalið hefst.

Reynið að meta árangur í lotulok, hvort markmið hafi náðst og miðað hafi verið við réttan markhóp. Ákveðið síðan hvort og hvernig næstu skref skuli verða ef niðurstaðan hvetur til framhalds. Látið myndina rúlla og andann kvikna - Verði ljós.

Þar sem ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í söfnuðum víða um land hvet ég lesendur til að miðla okkur hinum ábendingum og reynslusögum í viðbrögðum hér að neðan nú eða með netpósti. Netfang mitt er s@neskirkja.is.