Þverstæður

Þverstæður

Slíkar yfirlýsingar koma ekki í kjölfar útreikninga gervigreindar á því sem viðtakandanum kann að hugnast. Þá hefði engum dottið í hug að hætta frama og jafnvel lífi til að setja þær fram. Nei, þverstæður eru upphafið að því þegar hugsunin, tíðarandinn, sjálfsmyndin og heimsmyndin taka stakkaskiptum og færast frá einum stað til annars.

Flutt 25. mars 2018 í Neskirkju

„Átök í Neskirkju“ - svona hljóðaði fyrirsögn á netpistli sem birtist í einhverjum fjölmiðlinum nú á síðasta ári.

Deilur selja

Kirkjan var vígð á pálmasunnudegi árið 1957 og fagnaði því 60 ára afmæli á þessum degi í fyrra. Þess minntumst við með ýmsum hætti og fengum ágæta umfjöllun um starfið okkar hér í þessum helgidómi Vesturbæjarins. Engin frétt hlaut þó aðrar eins viðtökur og þessi. Hún tróndi á toppi vinsældarlistans yfir mest lesnu greinar vikunnar í þessum fjölmiðli og var það kannske ekki að undra.

Átök innan kirkjunnar, það er nú eins músarsmells virði að kanna málið betur. Þegar kirkjan er í sviðsljósinu, þá er það sjaldan af nokkru góðu. Það getur verið stormasamt þar sem fólk tekst á um stór málefni. Saga kristininnar ber þess merki. Guðfræðingar hafa þjarkað og rifist um sitthvað sem mörgum þætti langsótt á okkar dögum. Ríki og heimsálfur hafa sundrast vegna slíkra átaka og þá er ekki að spyrja að því í minni einingum.

Fyrirsagnir þurfa að vera ertandi til að fanga athygli okkar. Fátt selur betur en hatrammar deilur, fýluköst og fúkyrði sem menn ausa hverjir yfir aðra. Og þegar slíkt á sér stað í umhverfi þar sem gullna reglan á að vera við lýði og menn tóna friðarkveðju yfir söfnuðinn í messum verður þetta allt fremur öfugsnúið í augum velviljaðra en skemmtiefni fyrir hina.

Skjárinn horfir á móti

Gón okkar á netinu mun vera einhver dýrmætasta auðlind samtímans. Heimspekingurinn Nietzsche sagði á sínum tíma að þegar við störðum niður í tómið þá starði tómið á okkur á móti. Nú vitum við að þessi speki á við um sitthvað fleira sem augu okkar staðnæmast við. Skjárinn horfir á okkur jafnvel af enn meiri athygli en við á hann. Þar er hver hreyfing skráð og grannt er fylgst með öllu.

Ef marka má nýjustu fregnir úr þeirri áttinni er hegðun okkar svo rækilega kortlögð að slyngir sölumenn geta boðið okkur freistingar sem eru sérsniðnar að áhuga okkar, löngunum og jú auðvitað - veikleikum. Svo vel tókst þeim til í kosningunum Vestnhafs nú um árið að það er eins og sagan um Hans klaufa hefði raungerst. Sá lakasti skaut öllum hinum vonbiðlunum ref fyrir rass og hreppti hnossið og konungsríkið með. Við fréttum af því löngu síðar að hann hefði keypt ómetanlegar upplýsingar um kjósendur sem fengnar voru með því að rýna í hegðun þeirra á netinu.

Svo vel hefur tekist til með þessa fjölmiðla- og upplýsingabyltingu að athyglisúthald fólks hefur að meðaltali skroppið saman um röskan helming á fáeinum árum. Það er komið niður í fáeinar sekúndur og þið getið ímyndað ykkur bjartsýnina að ætla að útvarpshlustendur endist predikun þessa á enda sem er þegar löngu búin að sprengja þau mörk. Hvað þá, er ég ljóstra því upp að þessi átök sem greinin fjallaði um og vöktu þvílíka athygli, eru löngu afstaðin.

Framsýni og hugrekki

Átökin í Neskirkju sem urðu fyrirsögn þessarar greinar, áttu sér stað á fimmta áratug síðustu aldar. Það var þegar teikningar Ágústs Pálssonar arkitekts að Neskirkju voru gerðar opinberar og sumir sögðust aldrei hafa séð aðra eins hörmung að kirkju. Við skemmtum okkur yfir orðkyngi Jónasar frá Hriflu og skoðanabræðra hans sem líktu hinni væntanlegu Neskirkju við hrúgald af skúrum sem staflað var hver ofan á annan. Undir þessu mátti Ágúst sitja ásamt Alexander Jóhannessyni formanni byggingarnefndar.

Hún var líka alger bylting þessi kirkja. Það þurfti álit heimsþekkts arkitekts, Eero Saarinen í Kólumbíaháskólanum í New York til að þagga niður í úrtölumönnum. Nú er byggingin að flestra áliti ein af perlum borgarinnar og sómir sér vel innan um aðrar slíkar hér í þessu nágrenni. Það er til marks um breytingar á tíma og tíðaranda að það sem eitt sinn stakk í augun fyrir nýbreytni og framúrstefnu er í dag friðað að lögum.

Það er jú merkilegt til bera saman það hugrekki og þá framsýni sem ríkti í þá tíð við þá stóriðju sem nú veltir meiri fjármunum en allur annar iðnaður. Nefnilega að finna út hvað fellur að smekk viðkomandi og sjónarmiðum og herja svo á þær skoðanir. Þarna er í rauninni ekki verið að segja okkur neitt nýtt, engum er ögrað. Hér eru engar nýjar hugmyndir bornar fram fram heldur er reynt að finna út hvað það er sem neytandinn hugsar og gildir einu þótt þau sjónarmið séu í sumum tilvikum mannfjandsamleg og fasísk.

Nei þessi stórfyrirtæki koma sér fyrir í bergmálshellinum þar sem við heyrum ekkert nema óm eigin skoðana og þaðan berast svo gylliboðin. Sumt af því er varningur sem við kaupum í meiri mæli en okkur er hollt og örugglega miklu meira en pláneta okkar ræður við að skaffa. Annað lýtur að pólitík þar sem auglýsingar eru klæðskerasniðnar að fordómum fólks og smekk.

Þverstæður

Er við rýnum í söguna sjáum við að allar byltingar og öll sköpun eiga sér upptök í því sem við getum kallað þverstæður - en þær eru einmitt staðhæfingarnar sem ögra því sem flestir telja satt og rétt. Vísindasagan er full af þverstæðum. Kópernikus setti allt á hliðina þegar hann sagði að jörðin væri ekki miðja alheimsins, Newton benti á að hreyfing væri hið eðlilega ástand hluta, Einstein sagði ekkert komast hraðar en ljósið. Jesús var meistari þverstæðunnar - bjóðið hinn vangann, elskið óvininn, liljan á vellinum var betur búin en Salómon konungur í allri sinni dýrð. Þetta eru bara öfá dæmi úr þeirri átt.

Slíkar yfirlýsingar koma ekki í kjölfar útreikninga gervigreindar á því sem viðtakandanum kann að hugnast. Þá hefði engum dottið í hug að hætta frama og jafnvel lífi til að setja þær fram. Nei þverstæður eru upphafið að því þegar hugsunin, tíðarandinn, sjálfsmyndin og heimsmyndin taka stakkaskiptum og færast frá einum stað til annars.

Átök og þverstæður í guðspjallinu

Í guðspjalli þessa pálmasunnudags lesum við um slíka atburði og þar eru sannarlega átök. Þverstæður leiða jú oft til ágreinings. Þetta er ein af þessum lykilsögum sem við getum kallað svo. Þarna rákust á tvö sjónarmið - annars vegar er það María sem ber rándýr smyrsl á fætur Jesú og svo er það afstaða Júdasar að nær væri að láta fátæka njóta afraksturs þeirra fjármuna sem smyrslin kostuðu. Við getum auðveldlega skilið afstöðu Júdasar. En þverstæðan er marklaus nema að hún sé sett í stærra samhengi og sú er einnig raunin hér.

Hér eru endalokin framundan. Í upphafi frásagnarinnar er dauða Lazarusar minnst. Þegar Jesús ver aðgerðir Maríu þá horfir hann fram til þess að smyrslin sem hún notar voru líka notuð þegar fólk bjó um lík ástvina. Fáum dögum síðar átti hún eftir að ganga með hinum konunum að gröfinni til að smyrja líkama hans. Sætur ilmurinn af þeim er svo andstæðan við lýsingarnar á Lazarusi sem sagan segir að hafi verið vakinn var upp frá dauðum og vakti viðbjóð meðal nærstaddra.

Umgjörðin, kvöldverðurinn, kallast á við atburði skírdags. Þarna þvær María fætur Jesú og hún þerrar fætur hans með hári sínu sem gefur sögunni nánast erótískan blæ. Sjálfur átti Jesús eftir að lauga fætur lærisveinanna sem þótti mikið hneyksli. Og við sjáum aftur að María verður lykilpersóna í þeirri atburðarrás sem framundan var. Þessi gjörð hennar verður fyrirmyndin að þjónustu Jesú við lærisveinana á skírdegi og svo er það María og hinar konurnar sem fyrstar boðuðu upprisu Krists á páskum.

Í augum samtímamanna Krists og kynslóða þar á eftir hefur þetta líklega verið ein erfiðasta þverstæðan að kyngja - einmitt hlutverk hinnar lágt settu konu sem kemur sér fyrir í sjálfri kviku hjálpræðisins. Jóhannes guðspjallamaður lætur í veðri vaka að Júdasi hafi ekki gengið neitt gott til þegar hann gerði þessar athugasemdir og þar stendur hann sem fullkomin andstæða við þá einlægni sem María sýnir.

Já, þarna voru átök og þau hafa skapandi mátt. Þau skýra línur, skerpa á hugtökum og hjálpa okkur að sjál heildarmyndina. Guðspjallið fjallar ekki um græðgi í þeirri mynd sem okkar kynslóðir þekkja svo vel og hefur skapað áður óþekkta vá í heiminum. Nei, það snýst um hið eilífa og óforgengilega. Það bendir það fram til atburða sem við minnumst á dymbilviku og páskum. Það er sannarlega ekki ein röddin enn sem bergmálar afstöðu okkar og hugmyndir. Nei, það ögrar og hvetur okkur til að raða sjálf í forgang.

Atburðir pálmasunnudags láta okkur leiða hugann að hinum æðstu gildum. Neskirkja er helguð þeirri hugsun, formið á henni var í raun þverstæða og hlutust af þeim harðar deilur. En hún sýnir það vel hvernig hinn sígildi boðskapur kristninnar fellur að nýjum tímum og á erindi við fólk sem leitar svara við spurningum sem vakna um tilvist sína, jafnt ómælisvíddir hennar sem takmörk.