Blinda kýrin og verk ljóssins

Blinda kýrin og verk ljóssins

Jesús er sá sem vill lýsa okkur leiðina áfram og veita birtunni inn í hjarta okkar svo að við getum verið farvegur hennar í kringum okkur, útréttar hendur Krists í heiminum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í vikunni sem leið var ég staddur á Eiðum með fermingarbörnum næsta vors úr prestakallinu. Einn af föstum liðum í fermingarbúðunum er sá að krakkarnir fara út í ratleik síðla kvölds, vopnaðir vasaljósum. Það er upplifun fyrir mörg barnanna, sem langflest búa og hafa alist upp í þéttbýli, að skynja hvað myrkrið getur orðið þétt þegar engin er götulýsingin. Sum þeirra verða jafnvel hálfskelkuð. Við, sem erum fædd löngu eftir að rafmagn varð sjálfsagður hlutur á íslenskum heimilum, við erum einfaldlega vön mikilli birtu, hvar og hvenær sem okkur dettur í hug.

Reyndar er myrkrið í ýmsum myndum að verða eftirsótt söluvara víða um okkar uppljómaða heim. Sem dæmi má nefna veitingastaðinn Blindekuh eða Blinda kýrin í Sviss, en sambærilegir staðir hafa reyndar verið opnaðir í mörgum stórborgum og njóta víst vinsælda. Þar byrja gestirnir á að panta sér mat í upplýstum forsal, en eru síðan leiddir af blindum þjónum inn í almyrkvaðan matsalinn og snæða kræsingarnar í þreifandi myrkri. Hugmyndafræðin er sú að án sjónarinnar starfi hin skilningarvitin betur, bragðlaukarnir fái meira næði til að veita matnum athygli og samræður matargestanna verði innilegri.

Frásögnin úr Jóhannesarguðspjalli, sem við heyrðum hér áðan, segir einmitt frá manni sem þekkti ekki birtuna og var vanur að þurfa að reiða sig á öll önnur skilningarvit en sjónina. Hann vandi þó trúlega ekki komur sínar á fína matsölustaði, enda þurfti hann að betla til að lifa af frá degi til dags. Hann hafði verið blindur frá fæðingu og líklega þorði hann ekki að láta sig dreyma um nokkra breytingu á því máli. Það fyrsta sem vekur athygli í sögunni er einmitt að hann bað Jesú alls ekki um að lækna sig, og það gerði heldur enginn annar. Tökum eftir því sem lærisveinarnir gera þegar þeir sjá hann. Þeir segja ekki: „Meistari, hvernig getum við hjálpað þessum manni?“ Til þess eru þeir of uppteknir af heimspekilegum pælingum um tilgang þjáningarinnar sem refsingar fyrir syndir. Þeir spyrja Jesú: „Heyrðu, meistari, fyrst að maðurinn fæddist blindur, hvort var það þá hann sjálfur eða foreldrar hans sem syndguðu?“

Spurningin hljómar kannski fáránlega í nútímanum, en hún er mjög eðlileg í ljósi hugmyndafræði samtíma Jesú. Og ef dýpra er skoðað er hún líka eðlileg í ljósi okkar mannlegu tilhneigingar til að leita skýringa á því sem er snúið í tilverunni og gerir okkur máttlaus og hrædd. Viljum við ekki öll vita svörin - og hafa þar með stjórnina í okkar höndum?

Jesús svarar því skýrt að þjáningin sé ekki til komin vegna illra verka eins né neins. Það er ekki til neitt „karma“ sem eltir okkur uppi hérna megin eða handan grafar og refsar okkur eða niðjum okkar. Hindranir og áföll eru einfaldlega hluti af mannlegri tilveru. Það er bara ótalmargt sem fellur utan við það sem við fáum skýringar við í þessari jarðvist.

En það er svo merkilegt að í erfiðleikunum geta líka stundum falist möguleikar til góðra verka. Jesús segir í sögunni að verk Guðs hafi átt að verða opinber á blinda manninum. Ég trúi því nú svosem ekki að þarna sé átt við að maðurinn hafi verið blindur í 20 eða 30 ár til þess eins að Jesús gæti komið og læknað hann. Ég held fremur að þarna séum við hvött til að sjá þau tækifæri sem gefast á hverjum degi til að láta gott af okkur leiða og taka þannig þátt í verki Guðs; verkum ljóssins.

Við eigum öll á hættu að verða blind á þann hátt að við sjáum ekki þarfir annarra. Þannig voru lærisveinarnir í sögunni eiginlega blindir á neyð blinda mannsins!

Jesús segir: „Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“

Þetta er áminning til okkar um hvort tveggja; að taka við ljósi Krists inn í líf okkar og hjarta, og einnig að miðla þeirri birtu áfram með viðmóti okkar, orðum og verkum. Þannig verðum við eiginlega eins og útréttar hendur Krists í heiminum.

Í seinni heimsstyrjöldinni vörpuðu nasistar sprengjum í gríð og erg á London. Fyrir framan kirkju nokkra í borginni stóð stór stytta af Jesú með handleggina líkt og útrétta til vegfarenda. Á stöpli styttunnar voru rituð orð Jesú (Mt 11.28): „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin.“ Þegar sprengjurnar féllu var kirkjan gjöreyðilögð og styttan sprengd í sundur. Svo lauk stríðinu og safnaðarmeðlimirnir byrjuðu að endurbyggja kirkjuna og gera við styttuna. Þá kom í ljós að handleggirnir og hendurnar voru svo illa farnar eftir sprengingarnar að ekki var hægt að bjarga þeim. Það hefði auðvitað verið hægt að útbúa bara nýjar hendur, en fólkið í kirkjunni valdi að gera það ekki. Í dag stendur styttan af Jesú Kristi fyrir framan kirkjuna í London með enga handleggi – og það er búið að breyta árituninni á stöplinum. Núna standa þar þessi orð: „Kristur hefur engar hendur aðrar en þínar. Og Kristur hefur enga handleggi aðra en okkar.“

Þetta er þörf áminning til okkar allra. Kristur treystir á okkur til að vinna verk ljóssins, líka þegar okkur finnst við vanmáttug og veikburða. Og okkur er afmældur tími. „Það kemur nótt þegar enginn getur unnið,“ segir Jesús.

Ef til vill getur hin sérstaka aðferð, sem Jesús notar við að lækna blinda manninn, líka minnt okkur á þetta. Jesús skyrpir á jörðina og smyr hrákablandinni moldardrullu á augu mannsins áður en hann segir honum að fara og þvo sér. Það var kannski eins gott að maðurinn gat ekki séð framan í sig!

Moldin bíður líka okkar allra. Við hverja útför heyrum við orðin: Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa. Handan við myrkur moldarinnar bíður ljósið frá Jesú Kristi. Hann hefur lofað okkur sínu eilífa ljósi.

Ég sagði ykkur hér í upphafi frá fermingarbörnunum sem hlupu um í myrkrinu á Eiðum með vasaljósin sín. Kannski þurfum við að þekkja dimmuna til að kunna að meta ljósið í lífinu. Jesús er sá sem vill lýsa okkur leiðina áfram og veita birtunni inn í hjarta okkar svo að við getum verið farvegur hennar í kringum okkur, útréttar hendur Krists í heiminum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.