„Kreppur, krakk og kvótabrask“ í Hafnarfirði

„Kreppur, krakk og kvótabrask“ í Hafnarfirði

Nú stendur sjávarútvegsvika Kvikmyndasafns íslands. Hún ber yfirskriftina: ,,Kreppur, krakk og kvótabrask“, sem er vissulega þarft íhugunarefni þegar þjóðin er að reyna að vinna sig út úr áföllum bankahrunsins, sem varð fyrir nær réttu ári, og fylgjandi efnahagskreppu.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
25. september 2009

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar og langt fram á sjöunda áratuginn voru tvö kvikmyndahús í góðum gangi í Hafnarfirði, Hafnarfjarðarbíó og Bæjarbíó. Þar voru sýndar kvikmyndir sem voru töluvert frábrugðnar þeim myndum, sem voru til sýningar í höfuðstaðnum þar sem Hollywoodmyndir voru mjög ráðandi enda komnar annars staðar frá.

Framsæknir menningarfrömuðir réðu ríkjum í þessum kvikmyndahúsum, Níels Árnason í Hafnarfjarðarbíói og Helgi Jónsson í Bæjarbíó. Þeir fluttu inn kvikmyndir frá Norðurlöndum og meginlandi Evrópu. Þótt þær væru ótextaðar og ,,prógrömmin“ ein gæfu innsýn í atburðarrásina kom fjöldi utanbæjarfólks með Hafnarfjarðarstrætó frá Reykjavík og Kópavogi til að sjá þessar myndir.

Margar þessara kvikmynda báru með sér nýjar stefnur og strauma og teljast sígildar í kvikmyndasögunni enda leikstjórarnir frumherjar nýbylgju og framsækinna viðhorfa í kvikmyndagerð, Bunuel, Bergman, Dreyer o.fl. Þokkagyðjur ítalskara og franskra kvikmynda, Gina Lollabrigida, Soffia Loren, Jeanne Moreau voru í áhrifamiklum hlutverkum og einnig hin danska Gitte Norby og hin sænska Liv Ulman svo nokkrar sé nefndar að ógleymdum kvikmyndaleikurunum og sjarmörunum Marcello Mastroani, Jean Paul Belmondo og Max Sydow.

Með tilliti til þessarar forsögu fór vel á því að Kvikmyndsafni Íslands væri valinn samstaður í Hafnarfirði. Það varðveitir allt það efni sem tiltækt er úr íslenskri kvikmyndasögu, innlent efni og erlent og á mikið úrval merkra kvikmynda, sem sýndar hafa verið hérlendis auk þess sem það fær myndir til sýninga frá erlendum kvikmyndasöfnum.

Frá 2000 hefur Kvikmyndasafnið rekið safnabíó cinematec í Bæjarbíói og sýnir þar kvikmyndir að jafnaði tvo daga vikunnar og vel er jafnan staðið að vali á þeim. Þær vekja til umhugsunar, snerta sálarstrengi og fela í sér spurnir um merkingu lífsins og oft kemur trúin við sögu með beinum eða óbeinum hætti.

Vönduð sýningarskrá fyrir sýningatímabilið 2009-2010 er nýkomin út. Kvikmyndirnar verða sýndar í tilteknum efnisflokkum t.d. myndir eftir Óskar Gíslason, austur þýskar kvikmyndir, japanskar kvikmyndir, myndir eftir Orson Welles, myndir Lárusar Ýmis Óskarssonar, svo að nokkrir flokkar séu nefndir.

Nú stendur sjávarútvegsvika kvikmyndasafnsins yfir og lýkur henni á laugardaginn 26. september. Hún ber yfirskriftina: ,,Kreppur, krakk og kvótabrask“, sem er vissulega þarft íhugunarefni þegar þjóðin er að reyna að vinna sig út úr áföllum bankahrunsins, sem varð fyrir nær réttu ári, og fylgjandi efnahagskreppu.

,,Þegar heimildarmyndirnar ,,Lífið er saltfiskur,“,,Silfur hafsins“, og ,,Verstöðin Ísland“ eru skoðaðar rifjast upp sú sögulega staðreynd, “ segir Erlendur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður í kynningu sinni í sýningarskrá safnsins um kvikmyndir sjávarútvegsvikunnar, „að Íslendingar hafa áður lent í hruni og það oftar en einu sinni. Á fyrri öldum af völdum náttúrunnar, á tuttugustu öld af mannavöldum í kjölfar heimstyrjaldarinnar fyrri, í heimskreppunni 1930 fram í heimstyrjöldina síðari og síðan á árunum 1967-68 með framlengingu á síldveiðibannsárum fram á áttunda áratuginn.

Með sjávarútvegsviku Kvikmyndasafnsins vill það leggja sitt að mörkum til umræðunnar um þá kreppureynslu, sem þjóðin er að ganga í gegnum um þessar mundir. Um leið er safnið ef til vill þessa kreppuvikuna að minna okkur á þann grundvöll, sem tilvera og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar hefur hingað til byggst á, fiskveiðarnar, vinnslu sjávarfangs og sölu fiskafurða á erlendum mörkuðum. Back to basics, (aftur til grundvallandi verðgilda) eins og sagt myndi vera á enskri tungu, gæti verið boðskapur mótlætisins.“

Kvikmyndin ,,Hafið“ sem sýnd er í Bæjarbíó föstudaginn 25. september kl 20:00 ,, greinir frá kvótabraski og afleiðingum græðgi og siðleysis á samfélagið í nærmynd sjávarplássins og varpar ljósi á flísina í auga þjóðarinnar sjálfrar, sem þarf að líta sér nær til að gæta réttlætis og sanngirni þegar kemur að skiptingu eigin auðs.“ Myndin Síðasti valsins verður sýnd á laugardaginn 26. september kl 16:00 ,, Hún lýsir sögu landhelgisstríðs Íslendinga og Breta og minnir á að átök milli þeirra eiga sér dýpri rætur en birtast í Icesave málinu og þeirri aðgerð Breta að setja hryðjuverkalög á Íslendinga. Átökin við þá út af útfærslu fiskveiðilandhelginnar á öldinnni sem leið og nú vegna bankahrunsins varða í báðum tilvikum grundvallarhagsmuni Íslendinga.“

Kvikmyndir eru áhrifamikill miðill og túlka þegar best lætur lífsveruleikann í blíðu og stríðu á sannfærandi hátt og varpa ljósi á þætti hans, sem ekki sjást greinilega á yfirborðinu. Því geta þær liðsinnt við að skilgreina og skilja kjör og aðstæður í fortíð og nútíð. Þær geta gagnast þeim vel sem kanna merkingu þeirra og skírskotanir og boða vilja fagnaðarerindi Jesú Krists og kirkju hans, svo að það tengist raunhæft lífi manna hvernig sem gefur á bátinn. Slíkar kvikmyndir hjálpa þannig til við að selta það og lýsa því.

Kvikmyndirnar sem sýndar eru á vegum Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói í Hafnarfirði eru þessarar gerðar. Því er vert að bregða sér í Hafnarfjörðinn til þess að sjá þær, njóta þeirra og læra af þeim.