Áhættulaust á hliðarlínunni

Áhættulaust á hliðarlínunni

Þess vegna er krossinn svo sterkt tákn í kristinni trú, ekki vegna þess að Guð hafi fórnfært syni sínum, það er ekki skilningur guðspjallanna að Guð hafi fórnfært neinum, Guð krefst ekki blóðs, Guð beitir ekki ofbeldi. En það er Jesús sjálfur sem gengur alla leiðina í heimi sem er svo veikur fyrir ofbeldi og grimmd.

Píslarsaga Jesú er einhver áhrifamesta saga sem við þekkjum. Hún er eins konar spegill sem við bregðum upp um bænadaga og páska. Áhrif þessarar sögu eru sterkari og dýpri en annarra sagna, það segir reynslan okkur. Aftur og aftur er vísað til hennar beint og óbeint, í daglegu tali, á örlagastundum, í samskiptum einstaklinga, í baráttu fyrir mannúð og réttlæti, hún gefur öðrum sögum inntak og merkingu. Engin saga er eins þrungin atvikum sem hitta beint í mark og þarfnast engrar útskýringar – en kalla sífellt á umhugsun og á upprifjun hvort sem er í kvikmyndum, söngleikjum, óperum, eða á tónleikum í kirkjum og tónleikasölum, í ljóðum, í bókmenntum, í daglegu tali í einrúmi. Engin saga hefur sömu stöðu og einmitt þessi saga. Píslarsaga Jesú hefst í loftsalnum. Við sitjum með Jesú og postulunum tólf í loftsalnum þar sem páskamáltíð gyðinga fer fram, síðasta kvöldmáltíð Jesú og þeirra tólf, lítill hópur við matborð, hér er mynd af samfélaginu sem er innsiglað þegar örlagaþrungnir atburðir eru í aðsigi, atburðir sem eiga eftir að breyta öllu.

Og svo er það Júdas sem svíkur Jesúm með kossi í hendur hins grimma valds fyrir 30 silfurpeninga. Við fylgjum hópnum út í grasgarðinn Getsemane þar sem Jesús heyr sálarstríðið sem undirstrikað er með því að sviti hans hafi verið sem blóðdropar – eins og altaristaflan hér í Brautarholtskirkju minnir okkur á. Nánustu lærisveinar hans sofna og afneita honum síðan frammi fyrir herflokki keisarans. Þeir iðrast eins og Júdas sem hendir silfurpeningunum frá sér, Pétur kvelst undir sektinni að hafa afneitað Jesú sem hann hafði heitið trúnaði til síðustu stundar, hann les fyrirgefninguna út úr augum Jesú. Allt þetta þekkjum við sjálf í einhverju samhengi, hér er ekkert yfirnáttúrulegt.

Svo er það krossinn, þangað sem fylkingin stefnir, Golgata, nú er það múgurinn, sem sveiflast frá einni afstöðu til annarrar, sem er í aðalhlutverki sögunnar, nú hrópar hann „krossfestu“, og að baki er miskunnarlaust og grimmt valdið, sem tekur hvern þann af lífi sem berst fyrir góðum málstað og ögrar hinu blinda ofurvaldi hins illa. Hér eru það ræningjarnir tveir á sínum krossum, alls er gætt að hermönnum rómarkeisara sem ræður hér lögum og lofum. Við kross Jesú er María móðir hans og Jóhannes guðspjallamaður. Og nú erum við einnig á vettvangi í huganum.

Hvert atvikið rekur annað í magnþrunginni sögu. Við speglum okkur sjálf í þessari sögu, spyrjum í huganum hvar við hefðum tekið okkur stöðu þegar atburðirnir gerðust. Hvar við erum hér og nú í þessum spegli sögunnar, í þeirri sögu sem setur málstað Jesú á oddinn? Bænadagarnir, skírdagur og föstudagurinn langi, eru dagar íhugunar og hugleiðinga um okkur sjálf, um Jesúm og við þokumst nær kjarna málsins.

Á föstudaginn langa árið 1724 var eitt mesta stórvirki tónlistarsögunnar frumflutt í Nikulásarkirkjunni í Leipzig í Þýskalandi. Höfundurinn var Jóhann Sebastían Bach sem þá var organisti í tveim stórum kirkjum í miðborginni, hin kirkjan var Tómasarkirkjan. Þetta tónverk var Jóhannesarpassían þar sem píslarsaga Jesú er flutt af einsöngvurum, kórum og hljómsveit. Sagt hefur verið að ekkert tónverk Bachs sé eins nátengt leikhúsinu og óperunni og Jóhannesarpassían.

Það þótti því stórviðburður þegar hljómsveitarstjórinn og óperustjórinn Christoph Hagel stjórnaði flutningi á Jóhannesarpassíunni í dómkirkjunni í Berlín í fyrra. Flutningurinn var óhefðbundinn að því leyti að hann minnti á óperu og einnig danssýningu. Öllu var til tjaldað og stjórnandanum var klappað lof í lófa og gefin sú einkunn í gagnrýni dagblaðanna að hann væri meðal merkustu stjórnenda samtímans.

Ekki var síður áhugavert að lesa pistil sem Christoph Hagel skrifaði um sinn eigin skilning á píslarsögu Jesú í Jóhannesarguðspjalli. Hann segir að grimmilegur dauðdagi Jesú hafi markað tímamót í sögu mannkynsins. Atburðurinn leiddi til stofnunar fjölmennustu trúarhreyfingar veraldarinnar og hafði áhrif á þróun vestrænnar menningar og vestrænnar siðmenningar. Með uppfærslunni á píslarsögunni í dómkirkjuni í Berlín segist stjórnandinn hafa gert sér far um að koma þjáningum Jesú til skila fyrir fólki í Berlín á okkar dögum, í þessari borg valds og hámenningar.

Í því efni segir hann að ástin og mannúðin sé það sem allt snúist um, það var kjarninn í orðum og verkum Jesú fyrir rúmum 2000 árum, þegar heimurinn var ofurseldur grimmd, valdafýsn og græðgi.

Orðrétt segir stjórnandinn: Frásögnin um Jesúm er stórbrotin. Hér er konungur, sem aldrei þessu vant er ekki óendanlega fjarlægur fólkinu, heldur er hann allra neðst í stiga mannvirðinganna þegar hann fæðist í jötu. Og lífið á enda berst hann fyrir því að einnig það fólk, sem hafði engan aðgang að stofnunum þeirra tíma, yrði tekið alvarlega í samfélagi, stjórnmálum og trúarlífi.

Stjórnandinn er ekki síður gripinn af þeirri þverstæðukenndu hugsun að „krossfestingin, þessi grimmilegi og niðurlægjandi dauð-dagi, hafi samt orðið sá grunnur sem vestræn siðmenning byggist á.“

Ástæðan er sú að í baráttu Jesú upp á líf og dauða sér hann upphaf samlíðunarinnar eða samúðarinnar. En án hennar hefði félagshyggjan og það samfélag sem byggist á henni aldrei litið dagsins ljós.

Stjórnandinn segist hafa reynt að koma þessari samlíðun til skila í allri uppsetningu verksins og þar segist hann hafa notað spænska orðið ,compasión’ til hliðsjónar því að honum hafi fundist það orð hæfa en það orð merkir samlíðun á íslensku.

Það er kannski tilviljun að einmitt þessi kirkja, Nikulásarkirkjan í Leipzig var kirkjan þar sem friðarbænirnar hófust nokkrum árum áður en járntjaldið féll haustið 1989, fyrir aldarfjórðungi. Það var sóknarpresturinn í kirkjunni, Christian Führer, sem tók upp þessar bænir einu sinni í viku, árum saman voru örfáir einstaklingar sem sóttu bænastundirnar en undir lokin skiptu þeir þúsundum og bænastundirnar breiddust út um allt Austur-Þýskaland og síðan út fyrir kirkjurnar að múrnum í Berlín þar sem fólkið byrjaði að brjóta múrinn niður uns hann var fallinn og járntjaldið allt. Í þeirri sögu getum við séð píslarsöguna verða að veruleika í okkar samtíma þar sem margir einstaklingar tóku mikla áhættu og völdu ekki þann kostinn að ganga með múgnum heldur horfa til hans sem Jóhannesarpassían fjallar um.

Jóhannes guðspjallamaður tengir krossfestingu Jesú páskahátíðinni, hún er umgjörð atburðanna. Á páskum streymdi fólk til Jerúsalem þar sem musterið mikla var, þar var því gífurlegur mannfjöldi saman kominn þegar málaferlin yfir Jesú stóðu yfir.

Jóhannes líkir Jesú við páskalambið: líkt og lambinu var fórnað á þessari hátíð allt frá því Ísraelsmenn flýðu úr ánauðinni í Egyptalandi 1200 árum fyrr þar sem hápunkturinn var slátrun lambsins á hverju heimili og blóðinu síðan roðið á dyrastafi hússins svo að engill dauðans, síðasta plágan, gengi framhjá og frumburðum þess húss yrði þyrmt. En íslenska orðið páskar er komið af hebreska orðinu pascha sem merkir framhjáganga, vegna fórnarinnar gengur engill dauðans framhjá.

Jóhannes guðspjallamaður sér atburðina sem tengjast Jesú og lærisveinunum í ljósi þessa myndmáls. Hann túlkar krossfestingu Jesú eins og nýir páskar séu runnir upp þar sem lambinu er ekki lengur fórnfært heldur Jesús. Nú er það Jesús sem leggur sig í sölurnar fyrir það sem öllu máli skiptir.

Við síðustu kvöldmáltíðina hefði lærisveinunum átt að vera ljóst hvað var að gerast. Á undan máltíð gyðinga var það siður að þjónustufólkið þvoði fætur kvöldmáltíðargestanna. Að þessu sinni gengur Jesús inn í það hlutverk og þvær fætur lærisveinanna. Hér slær hann enn einu sinni þennan streng: hér erum við öll vinir, þjónar hvers annars, hér er það mannúðin og mennskan sem sett er á oddinn.

Og svo er það krossfestingin þar sem við horfum á niðurlægingu mannúðarinnar, hann sem stóð við hlið hinna niðurlægðu og kúguðu, er tekinn af lífi, hér horfum við á mannlegt samfélag leggjast eins lágt og því er unnt.

En á sama tíma horfum við á hann sem krossfestur er, sem afneitar ekki köllun sinni, snýr ekki við blaðinu, gengur ekki í lið með ofurvaldi hins illa heldur gengur alla leiðina varnarlaus en hugrakkur. Þess vegna var þessi atburður í huga hljómsveitarstjórans, Christophs Hagel, upphaf samlíðunarinnar.

Það er út af fyrir sig áhugavert að hljómsveitarstjórinn skyldi nota þetta orðalag upphaf samlíðunarinnar því að sambærilegt orðalag þekkjum við úr Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness þar sem sögumaðurinn í verkinu, skáldið sjálft, kemst þannig að orði: „Samlíðunin er upphaf hins æðsta söngs, samlíðunin með Ástu sóllilju á jörðinni.“

Þess vegna er krossinn svo sterkt tákn í kristinni trú, ekki vegna þess að Guð hafi fórnfært syni sínum, það er ekki skilningur guðspjallanna að Guð hafi fórnfært neinum, Guð krefst ekki blóðs, Guð beitir ekki ofbeldi. En það er Jesús sjálfur sem gengur alla leiðina í heimi sem er svo veikur fyrir ofbeldi og grimmd, svo ístöðulaus þegar honum er boðið að hafna mennsku sinni og mannúð fyrir auð, völd og frægð. Jesús sjálfur gengur alla leiðina til mannúðar og mennsku og sýnir í verki það hugrekki sem til þarf þegar alls er krafist.

Þess vegna er krossinn sterkt tákn, vegna þess að við vitum að málstaður Jesú er málstaður mannúðar, réttlætis og mennsku. Hann er málstaður þar sem öllum er borgið sem leita þess sem gott er, fagurt og satt. Hann er málstaður sem samt á svo ótrúlega erfitt uppdráttar, kannski vegna þess að hann felur í sér kröfu til okkar, hvers og eins, að líta ekki undan heldur horfa á hann sem lét ekki beygja sig í duftið, sem lét hið grimma vald ekki hafa síðasta orðið, sem afneitaði ekki þeim sem áttu vonina í hjarta sínu um betri og fegurri heim.

Þess vegna er málstaður Jesú málstaður sem enginn kemst fram hjá og sem enginn kemst hjá því að taka afstöðu til. Á Golgata eru hlutirnir settir á oddinn, þar liggur allt ljóst fyrir, þar liggur málstaður Jesú ljós fyrir.

Og mannlegi þátturinn er sterkur í þessari sögu. Lítum á móður Jesú. Í Jóhannesarguðspjalli er móðir Jesú hvergi nefnd á nafn, hennar er getið tvisvar í guðspjallinu áður en kemur að krossfestingunni en í bæði skiptin án þess að nafn hennar sé nefnt. En á Golgata, við krossinn, er María komin í sviðsljósið, lokaorð Jesú á krossinum beinast að henni, í guðspjallinu lesum við:

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Allt gildismat okkar er sett í sviðsljósið og við finnum sjálf að athygli okkar beinist að þeim sem þjást, þeim sem eiga á brattann að sækja. Þangað beinir frásögn Jóhannesar af krossfestingu Jesú hverjum þeim sem les eða heyrir þessa frásögn. Þess vegna hefur sagan um þjáningar og dauða Jesú gripið menn svo sterkt, kynslóð eftir kynslóð.

„Ég er ekki sérlega trúuð“ sagði ein söngkonan í Jesus Christ Superstar, sem nú er verið að sýna í Hörpunni, í fréttaviðtali í sjónvarpi í fyrrakvöld. Er þetta ekki ótrúlega algeng setning? Felst ekki í henni freisting mannsins til að standa á hliðarlínunni, taka ekki afstöðu í málum sem krefjast okkar sjálfra? Og hvað er það svo að vera trúuð eða trúaður? Er það ekki einmitt að hafa fæturna á jörðinni, að horfa á veruleika lífsins í ljósi raunveruleikans, að taka afstöðu í málum sem við verðum að taka afstöðu í? Múgurinn í píslarsögunni tók ekki afstöðu, hann var á máli nútímans „ekki trúaður“.

Við þurfum ekki annað en að nefna Passíusálmana á nafn og gera okkur í hugarlund hvers vegna þeir áttu svo sterk ítök í íslensku þjóðinni. Svarið liggur í augum upp, þar erum við ekki aðeins kölluð til að sinna hvert öðru, heldur vitum við einnig að fyrr eða síðar verðum við sjált þurfamenn, stöndum sjálf í sporum Maríu móður Jesú við krossinn, í einum eða öðrum skilningi. Kannski er það þetta sem dregur Megas aftur og aftur að Passíusálmunum.

Píslarsagan opnar djúpa sýn á mannlega tilvist og á mennsku mannsins þar sem hún rís hæst. Við þurfum ekki að vera sérlega trúuð til þess að viðurkenna það, en við getum notað önnur orð eins og t.d. að horfa á málstað Jesú í atburðum þessarar frásagnar og segja í hjarta sínu: ég vildi að hans málstaður móti mig og mín lífsviðhorf í orði og verki. Ω