Biblían er huggunarbrjóst

Biblían er huggunarbrjóst

Í hvert sinn sem ég les í Biblíunni minni, hrífst ég af myndunum sem eru dregnar upp af manneskjunni í hendi Guðs. Biblían geymir ekki síst trúarjátningar þeirra sem eru snortin af guðlegri fegurð, gæsku og visku, eins og hún kemur til manneskjunnar í heiminum.

Í hvert sinn sem ég les í Biblíunni minni, hrífst ég af myndunum sem eru dregnar upp af manneskjunni í hendi Guðs. Biblían geymir ekki síst trúarjátningar þeirra sem eru snortin af guðlegri fegurð, gæsku og visku, eins og hún kemur til manneskjunnar í heiminum. Þessar trúarjátningar innihalda myndir og líkingar, sem er ætlað að miðla og lýsa því hvernig Guð er. Engin líking er fullkomin og engin guðsmynd í Biblíunni nær utan um það hver Guð er. En þær ná utan um reynslu manneskjunnar af lífinu í hendi Guðs. Þess vegna eru þær mikilvægar.

Mér finnst sérstaklega gaman að velta fyrir mér kvenlegum myndum af Guði, og hvernig lífs- og líkamsreynsla kvenna verður innblástur hinna helgu rita. Í gegnum tíðina hafa karllegar líkingar átt greiðari aðgang að kirkju og guðfræði og hafa mótað mynd okkar af Guði. Samkvæmt þessu er Guð eins og konungur, faðir og dómari. Gott ef hann er ekki bara með hvítt flott skegg sem undirstrikar visku karl-öldungsins.

Þetta er ekki vegna þess að það vanti hinar kvenlegu myndir af Guði og forsjón Guðs í Biblíunni. Alvöru mannleg reynsla tengir við og miðlar allskonar myndum af umhyggju og forsjón Guðs í heiminum. Hugsum t.d. um þessi fallegu vers í Jesaja um borgina helgu Jerúsalem sem er eins og brjóst sem gefur endalaust af hlýju og næringu.

Gleðjist með Jerúsalem, allir þér sem elskið hana, svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar, svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.Jes 66.10-11

Innileikinn og traustið verður ekki meira en hjá barni sem liggur við brjóst móður sinnar og þiggur líf sitt frá henni. Það er góð mynd af manneskjunni í hendi Guðs.