Hver er hinn þriðji?

Hver er hinn þriðji?

Hvaðan við erum, hver þjóðernislegur eða félagslegur uppruni okkar er, segir ekki mest um það hver við erum; ekki sem einstaklingar og jafnvel ekki sem þjóð; heldur það hvernig við tölum um og við hvert annað og hvernig við búum að þeim sem enga málsvara hafa.


Gleðilega hátíð!

 

Hver er sá þriðji sem þrammar við hlið þér?

Þegar ég tel eru bara þú og ég

En þegar ég lít útundan mér á alhvítan veginn

Er alltaf einhver annar á gangi við hlið þér

Sveipaður brúnum kufli með síðan hött

Hvort það er karl eða kona veit ég ekki

-     En hver þetta við hlið þér?

 

T.S. Eliot yrkir svona í Eyðilandinu í þýðingu Sverris Hólmarssonar. 

Eliot sagði að þessar línur hafi orðið til fyrir áhrif frá lýsingu á einum af leiðöngrunum til Suðurskautslandsins, sennilega leiðangri Shackeltons. Þar var skýrt frá því að þegar leiðangursmenn voru orðnir aðframkomnir af þreytu, þá hafi þeim sífellt fundist þeir vera einum fleiri en hægt var að telja. 

 

En hér er fleira á ferðinni; Eliot er auðvitað að vísa í Emmausgönguna, 

 

Þessa sögu sem er svo hlaðin táknum og kennileitum sem við þekkjum frá okkar eigin lífsgöngu; bæði sem einstaklingar en líka sem þjóð.

 

- - - 

 

Þetta eru bara þú og ég. Við tveir og endalaus ísbreiðan; ekki hið blíðasta umhverfi en ég vil ekki að erfiðar aðstæður skilgreini mig, - Reyndar ekki heldur þægilegar aðstæður, ef því er að skipta -  heldur þú – í samfélagi við mig. Okkar samskipti.  Okkar sem erum saman á veginum. 

 

Ég vil tengjast þér, því þú ert manneskja. Ég vil heldur ekki meta þig sem einhvern hlut heldur lifandi manneskju sem hefur áhrif á mig eins og ég hef áhrif á þig. Og ég get átt í gefandi og skapandi samskiptum við þig.

         Það væri ábyggilega auðveldara fyrir mig að hlutgera þig; sjá þig sem staðalmynd. Hins vegar myndi það ekki skila neinu því samskipti okkar væru þá ekki samtal heldur eintal; Ég myndi þá dósera og þú lætur dóserast;  eða þá á hinn veginn; En hvorugur okkar yrði nokkru bættari.

 

--

Þeir voru á leið frá Jerúsalem sem í þeirra huga var  staður tengdur þjáningu og ósigri Jesú sem þeir höfðu lagt alla sína von á. Þeir eru með ákveðnum hætti að flýja erfiðleikana, eins og þeir sáu það hafði hatrið sigraði og tómið, sem heimta vill alla, beið þeirra. 

Og þeir flýja staðinn; eru á leið til Emmaus en fá samfylgd, sem þeir reiknuðu kannski ekki beint með.

 

Á göngunni hitta þeir þennan mann; þennan þriðja; sem útskýrir allt fyrir þeim; setur í samhengi atburði liðinna daga þannig að saga þeirra og tilvera fær nýja merkingu.  

Dagurinn líður og  þeir vilja ekki að leiðir skilji: 

 

Vertu hjá oss því að kvölda tekur og degi hallar.

Sögðu þeir.

Þeir vissu reyndar ekki að hann var Jesús; þekktu ekki hinn upprisna Krist en uppfylltu samt þarna boð hans um að sjá Krist í náunganum.

 

En þegar hann braut brauðið opnuðust augu þeirra.

 

         Vertu hjá oss.

---

 

Það er gamalkunnug klisja að segja að lífið sé vegferð. En klisjan er merkilega sönn. Við hreyfumst áfram, eftir ákveðinni braut, sem sumir segja að manni sé mörkuð en aðrir segja að við ryðjum sjálf. Í það minnsta veljum við hvaða leið við förum. 

 

En það skiptir líka máli hvaðan við leggjum upp; hvert við reiknum með að stefna og hver það er sem setur þessa göngu í samhengi. Hvernig við teljum tilveru okkar vera saman skrúfaða og hvaða tilgangur og merking það er sem þessari ferð er gefin. 

 

Hver hinn þriðji er sem með okkur gengur?

 

         Sannarlega hefur saga byggðar á Íslandi – okkar gamalgróni söguskilningur -  verið skýr að því leyti að hingað komu formæður og –feður í leit að betra lífi. Að sammerkt hafi þeim verið að leita í frelsi; þeim hafi ekki hugnast að lúta afarkostum konunga. 

 

Mig langar samt að nefna hér tvo sagnaþuli samtíðar sem ögn hafa gengið á svig við hefðbundna söguskoðun; þ.e. þá Bergsvein Birgisson með Leitinni að svarta víkingnum þar sem hann bendir á að Geirmundur heljarskinn hafi ekki fallið að hinum dæmigerða og ákjósanlega landnámsmanni;

og hugsanlega sé það ein ástæða þess að honum er ekki gert hærra undir höfði í Landnámu og fornsögunum; 

- og Bjarna Harðarson sem rýnt hefur í Njálu með gleraugum sem sitja kannski ekki á nefi allra en eru afar athygliverðar. 

Athugagreinar þeirra voru mjög skemmtilegar og áhugaverðar og fékk mig til að velta því fyrir mér hvort íbúar þessa lands og ástæður útkomunnar hingað hafi nú alltaf verið svo mjög sams konar og einróma.

 

Og hvort hugsanlega hafi alltaf verið tvær eða fleiri þjóðir í þessu landi?  

 

Það er alltaf hreint hægt að draga línur milli fólks og skipta upp eftir flokkunum Við og hin.  Ef við viljum frekar draga fram það sem aðgeinir heldur en það sem sameinar. Keltar og norrænir menn; höfðingar og leiguliðar, fátæk – rík, innborin og aðflutt; flokkarnir eru í raun óteljandi. 

 

„Við og hin” 

 

Getur það verið að í þessari aðgreiningu sé einhver djúpstæður frumótti? Í það minnsta hafa ófá stríð verið háð á þessum forsendum.

 

 - Ég trúi því hins vegar að þessi mörk muni dofna og jafvel afmást þannig að til verði „ég og þú – samband,”ef maður þorir að taka skrefið frá ótta til kærleika.

 

Auðvitað geta samskipti fólks verið margslungin og  snúin; og ég er ekki að biðja um heilaga einfeldni eða barnaskap; heldur virðingu og samúð og skilning. Við þekkjum ekki sögu annars fólks til hlítar; en við munum heldur aldrei kynnast henni ef við hlutgerum fólk eða troðum þeim inní staðalmyndir.

 

Hvað er ég að segja með þessu? Jú, að það, hvaðan við erum, hver þjóðernislegur eða félagslegur uppruni okkar er, segir ekki mest um það hver við erum; ekki sem einstaklingar og jafnvel  ekki sem þjóð; heldur það hvernig við tölum um og við hvert annað og hvernig við búum að þeim sem enga málsvara hafa.

 

Hvernig við erum í samskiptum okkar á milli og hverjir þeir siðir eru, sem binda okkur hvert öðru; og það tengist því hvernig við sjáum hvert annað sem persónur en ekki fyrirfram gefnar hugmyndir okkar sjálfra.

 

---

 

Um þetta fjalla pistill og guðspjall þjóðhátíðar­dagsins: Elskaðu Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig; allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. 


         Það er ekkert nýtt í þessu. 

 

Þetta höfum við vitað svo öldum skiptir; Að til þess að samfélag okkar þrífist og dafni þá er brýn nauðsyn á því að tileinka sér þetta viðhorf. 

En það er gjarnan hægara ort er gjört; að elska alla og láta alla njóta virðingar. 

Það er enginn vandi að elska þá sem þig elska en málið vandast þegar við verðum að láta okkur annt um þau sem okkur eru ekkert endilega svo þekk. 

Ég segi ekki að það viðhorf sé of algengt að ekki skuli velja frið ef ófriður er í boði; en gegnt allri átakasækninni er einmitt áskorunin mesta að reyna að lifa þann boðskap Krists að láta sér annt um alla menn og sýna öllu fólki skilning og virðingu.

 

---

Íslensk þjóð hefir í á annað þúsund ár gengið fram veginn með Kristi. 

Stundum þekkt hann og stundum ekki; 

það er eins og gengur; en sú samfylgd hefur að mínu mati haft góð áhrif á þjóðlíf. Ég held að það sé engin tilviljun að t.d. velferðarkerfið sé hvað sterkast þar sem lútherskur siður hefur mótað löggjöf, sið og samfélag eins og hér.  

 

---
Í dag er hátíð. 

Fánar blakta. Við gleðjumst.

Við fögnum 75 ára lýðveldi; Þetta brot af eilífðinni hefur verið íslenskri þjóð viðburðaríkt og að flestu leyti farsælt og við fögnum frjálsu og réttlátu þjóðfélagi. Við þökkum landið sem fóstrar okkur og við höfum fengið að láni; já okkur hefur verið trúað fyrir. Því það er sannarlega bæði gleði- og þakkarefni.

 

Hannes Pétursson yrkir svo í kvæðinu Umhverfi: 

Hve lengi get ég lofsungið þessi fjöll 
lofsungið þetta haf, þessar eyjar og strendur 
já menn og alla hluti, sem huga minn gleðja 
hve lengi, án þeirrar vissu að eitthvað sé til 
ofar sérhverjum stað, hverri reynslu og hugsun 
sem teflir þessum fjöllum fram, þessu hafi 
fjarlægð og nálægð, öllu - lífi og dauða 
leikur því fram fyrir augum mér öruggri hendi? 

 

 

Þetta land er ekki okkar verk, okkar sköpun, en engu að síður er það að nokkru í okkar höndum hvernig komandi kynslóðir munu taka við því.

 

Einnig hér á hvatning Krists við: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

---

Já Kristur hvetur til alvöru samskipta þar sem yfirborðskenndir sleggjudómar eru að engu hafandi.

 

Hvað merkir það svo? Jú, að sjá Krist í náunganum og breytir þá ekki endilega öllu hvort þið séuð sammála í öllu; raunar gengur þetta yfir þann mun sem t.d. trúarskoðanir marka; 

Má í því sambandi rifja upp orð Gruntvigs þegar hann lagði áherslu á að við værum fyrst manneskjur og síðan kristin. 

En það, að sjá guðsmyndina í hverjum manni færir okkur að sínu leyti nær Guði. 

 

Og þá tökum við vonandi eftir því hver Hann er, þessi þriðji, sem gengur við hlið þér.