Helgihaldið í Ríkisútvarpinu

Helgihaldið í Ríkisútvarpinu

Helgihald sunnudagsins skartar gjarnan fjölbreyttri tónlist, framúrskarandi kórum, organistum og hljóðfæraleikurum og útleggingu á kærleiksboðskap kristninnar sem á erindi við hverja manneskju.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
21. nóvember 2016

Kirkjunnar fólk á Íslandi hefur væntingar til Ríkisútvarpsins. Það æskir þess að útvarp allra landsmanna sé vettvangur miðlunar frá helgum og stórhátíðum kristninnar.

Ekki er langt síðan útvarpsstjóri og dagskrárstjóri Rásar eitt brugðust vel við þessu ákalli og ákváðu að halda á dagskrá rótgrónum dagskrárliðum Rásar eitt, morgunbæn og helgihaldi sunnudagsins. Til viðbótar við morgunbænina er nú tvinnuð útlegging á orði dagsins, sem áður var að kvöldi.

Biskupsstofa hefur að beiðni stjórnenda Ríkisútvarpsins tekið að sér að skipuleggja þessa dagskrárliði í samstarfi við dagskrárstjóra. Í því samstarfi höfum við unnið að því að bæta útvarpsefnið og gera það aðgengilegra. Biskupsstofa er í góðum tengslum við söfnuði kirkjunnar, innan þjóðkirkju og utan, við að sinna þessu mikilvæga verkefni.

Helgihald sunnudagsins skartar gjarnan fjölbreyttri tónlist, framúrskarandi kórum, organistum og hljóðfæraleikurum og útleggingu á kærleiksboðskap kristninnar sem á erindi við hverja manneskju.

Þjóðkirkjan ber þær skyldur umfram aðra kristna söfnuði á Íslandi að tryggja þjónustu um land allt. Kirkjunni ber að þjóna fólki jafnt í miðborg Reykjavíkur sem í hinum dreifðu byggðum landsins og þær skyldur axlar hún. Það er fólkið í hverri sókn sem ber uppi starf kirkjunnar. Því má segja að kristin kirkja sé ein stærsta sjálfboðaliðahreyfingin á Íslandi.

Kirkjunnar fólk er stöðugt að eflast að fagmennsku og fjölbreytileika. Sem dæmi um það má líta til framtaks Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefur að leiðarljósi í öllu sínu starfi, innanlands og utan, að styðja fólk til sjálfshjálpar. Framundan er jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefst með guðsþjónustu í Hallgrímskirkju í upphafi kirkjuársins, á fyrsta sunnudegi í aðventu, 27. nóvember nk. kl. 11. Frá því helgihaldi verður útvarpað í Ríkisútvarpi allra landsmanna, á Rás eitt.

Fólkið í kirkjunni sækist m.a. eftir þeirri andlegu næringu sem kirkjan hefur upp á að bjóða. Sú næring veitir frið í órótt hjarta, von þar sem vonleysi blasir við, trú þegar tilgangur lífsins virðist vandséður og kærleika þegar napurt er. Starfið eflir félagsauðinn og gerir samfélagið betra í sveit og borg.

Samstarf kirkju og Ríkisútvarpsins er dýrmætt í þessu ljósi og þakkarvert að Ríkisútvarpið skuli vera farvegur hins góða boðskapar. Það er eins með helgihaldið og aðra góða dagskrárliði Ríkisútvarpsins að unnt er að nálgast þá í hlaðvarpinu. Greinin var fyrst birt í Fréttablaðinu mánudaginn 21. nóvember 2016