Er þetta ímynd sönn og rétt?

Er þetta ímynd sönn og rétt?

Við Íslendingar sigruðum í fyrradag ásamt Norðmönnum sem að sjálfsögðu voru aðalsigurvegararnir. Sigur Jóhönnu var sigur fegurðarinnar, hinnar óspilltu hreinu fegurðar, hin unga óspillta fjallkona kom sá og sigraði í líki Jóhönnu Guðrúnar.

Við Íslendingar sigruðum í fyrradag ásamt Norðmönnum sem að sjálfsögðu voru aðalsigurvegararnir. Sigur Jóhönnu var sigur fegurðarinnar, hinnar óspilltu hreinu fegurðar, hin unga óspillta fjallkona kom sá og sigraði í líki Jóhönnu Guðrúnar. Kona ung, fögur og hrein. Hreinleikinn var yfir öllu. Í bakgrunni rann blár himinninn saman við bláhvítan jökulinn og hvarf í bláma hafsins. Yfir bakgrunnssviðið synti höfrungurinn í himinblámanum táknmynd um friðsama sambúð manns og náttúru, seglskipið leið hjá, tákn hinnar sjálfbæru orku. Með hinni glæstu sviðsmynd var dregin upp mynd hinar óspilltu fegurðar. Hins vegar var kvöldið ósigur þeirra sem hafa allt uppumsig, ósigur þess sem gerir út á yfirborðsmennskuna, prjálið, ofboðið. Til hamingju með annað sætið Íslendingar. Er þetta rétt? Is it true? Var þetta myndin af okkur eða var þetta falsmynd? Erum við sú þjóð sem þessi ímynd gekk út á. Lifum við í friðsælli sambúð við náttúruna. Lifum við í óspilltu, fallegu, hreinu samfélagi sem gerir út á sjálfbæra orku? Við ættum að reyna að lifa ímyndina, þessa fallegu ímynd. Stefnum að því! Myndin sem birtist okkur á sviðinu í Moskvu er örugglega það sem við viljum sjá. Norðmenn gerðu út á hið sama- hið einfalda, sanna, tilgerðarlausa og þeir bættu léttleikanum við. Léttleikinn, húmorinn, gleðin er líka nauðsynlegur hluti hins góða og sanna lífs. Þannig er allt. Líf okkar okkar satt eða ósatt, gegnuheilt eða brotið, alvöru eða gervi. Í lífi okkar sjálfra og í lífi samfélagsins eigum við að halda uppá það sanna, heila það sem er rækt af alvöru engri sýndarmennsku, yfirborðsmennsku, prjáli. Þannig var Jesú Kristur sem er höfuðpersónan í okkar samhengi. Boðskapur hans var gegnumheill, gengur út á það góða og sanna. Hann blés á allan umbúnað, sýndarmennsku og óheilindi. Sjálfur var hann hinn gegnumheili maður, ímynd hans einfaldlega í samræmi við raunveruleikann.

Þess vegna er svo mikilvægt að þú fermingardrengur góður, þú unga kona, þú ungi maður, eða hver sem ég er að tala til gerir þér grein fyrir því að þetta þýðir að þú átt að leitast við að fara vel með líf þitt, lifa því til fulls í þeim anda að virkja hæfileika þína sem best sjálfum þér og þeim sem lifa með þér til ánægju og sóma. Skapaðu þér góða ímynd með lífi þínu. Ekki með sýndarmennsku, yfirborðsmennsku eða prjáli. Vertu öðrum góður en umfram allt sjálfum þér trúr, segðu og gerðu það sem þér finnst rétt en legðu þig einnig eftir skoðunum og afstöðu annarra og settu þig í þeirra spor.