Við erum ekki gólem

Við erum ekki gólem

eð því að gerast gólem með ritninguna í heilastað værum við að hafna mennsku okkar, segja skilið við guðsmyndina sem einkennir okkur. Við værum að þegja og hlýða í stað þess að pæla og grufla, leita svara og knýja á.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Vitið þið hvað gólem er? Gólem er vera eða skepna úr þjóðsögum gyðinga. Sagt var að helgir menn gætu hnoðað veru í mannsmynd úr leir og kveikt í henni eins konar líf með því að fara með særingar og töfraþulur yfir henni. Samkvæmt sumum útgáfum voru gólemin vakin til lífsins með því að letra hebreska orðið „emeþ“, sem merkir „sannleikur“, á enni þeirra og slökkt á þeim með því að stroka burt fyrsta stafinn þannig að eftir stóð aðeins „meþ“, sem merkir „dauði“. Samkvæmt öðrum útgáfum voru gólem gangsett með því að skrifa töfraþulu á blað og setja í munninn á þeim. Frægasta sagan af gólemi gerist í Prag á 16. öld. Þar á mikill rabbíni, eins konar Sæmundur fróði tékkneskra gyðinga, að hafa skapað gólem til að vernda fólk sitt fyrir ofsóknum sem þá áttu sér stað. Þetta er mjög heillandi hugmynd, enda hafa ýmsir tekið hana upp á arma sína. Til dæmis skilst mér að í þeim vinsæla hlutverkaleik Dungeons and Dragons beri nokkuð á gólemum. Auk þess hefur enski rithöfundurinn Terry Pratchett, einn vinsælasti fantasíuhöfundur nútímans, gert sér mat úr gólemum og í sumum bóka hans koma þau við sögu. Hans gólem erueins konar gangandi keramíkofnar, knúðir áfram af kolaeldi í búknum og „hugbúnaðurinn“, ef svo má segja, er fólginn í formi einfaldra fyrirmæla sem skrifuð eru á blað og geymd í höfði þeirra.

Gólem er ekki manneskja. Gólem er skapað af mönnum og er í mannsmynd. Maðurinn er skapaður af Guði og er í Guðs mynd. Gólem hefur ekki „höfuð sem hugsar og dreymir“, svo vitnað sé í sálminn sem var sunginn hér áðan. Gólem hefur höfuð sem hlýðir umhugsunar- og gagnrýnislaust rituðum fyrirmælum sem geymd eru á blaði í hausnum á því. Gólem hefur enga frumlega hugsun, enga sköpunargáfu. Við erum í mynd skapara okkar, m.a. að því leyti að okkur er ásköpuð sköpunarþörf.

„Guð er kærleikur“ segir á einum stað í Biblíunni. Við erum í Guðs mynd m.a. að því leyti að við höfum þörf fyrir að elska og vera elskuð. Gólem hefur enga þörf fyrir slíkt. Við erum ekki gólem. Eitt enn skortir gólem sem við höfum. Gólem hefur enga rödd. Gólem getur ekki talað. Gólem þegir bara og hlýðir. Við höfum rödd, ef ekki í bókstaflegri merkingu þá í óeiginlegri. Við ekki bara getum tjáð okkur heldur er tjáningarþörfin beinlínis ein af frumþörfum okkar. Fræðimenn hafa sett fram þá kenningu að tal sé manninum jafneðlislægt og það er öpum að klifra í trjám, jafneðlislægt og flugið er heiðagæsinni og kríunni. Þar berum við líka mynd skapara okkar. Guð tjáir sig við okkur. Hann talar til okkar með munni spámanna sinna og í lífi og starfi Jesú Krists. Þá tjáningu varðveitir Biblían. Þess vegna köllum við Biblíuna „Guðs orð“. Af hverju er ég nú að segja ykkur þetta? Hvaða erindi á þetta við ungt fólk á æskulýðsdeginum? Jú, fyrir utan það að gólem eru svolítið sexý, dálítið eins og eitthvað úr ævintýramynd, tölvuleik eða hasarblaði, þá er gólemið um leið táknmynd þess hvað EKKI felst í því að játa Jesú Krist sem sinn persónulega krossfesta og upprisna frelsara; hvað EKKI felst í þeirri yfirlýsingu fermingarbarnsins fyrir altarinu á fermingardaginn að það vilji „leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins“. Takið eftir orðalaginu „leitast við“. Guð fer ekki fram á óskeikulleika. Guð fyrirgefur. Hann biður aðeins um einlæga viðleitni.

Að taka þá ákvörðun að láta líf sitt og vilja lúta handleiðslu Guðs, eins og við erum fær um að skilja hann – að trúa á Guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar eins og segir í trúarjátingunni sem við fórum með hér áðan – felur ekki í sér yfirlýsingu um að við ætlum að gerast sálarlaus gólem með rituð orð í heilastað knúin áfram af kolaeldi í brjóstholinu en ekki eldmóði réttlætiskenndar og sannleiksástar í hjartanu.

Með því að gerast gólem með ritninguna í heilastað værum við að hafna mennsku okkar, segja skilið við guðsmyndina sem einkennir okkur. Við værum að þegja og hlýða í stað þess að pæla og grufla, leita svara og knýja á. Við værum ekki að skapa, tala ... elska – eins og Guð. Við værum bara að gera eins og okkur er sagt án þess að pæla í því, án þess að það hvarflaði að okkur að við gætum haft einhverja skoðun á því. Án þess að hafa neinn skilning eða tilfinningu fyrir merkingu hugtaka á borð við „rétt“ og „rangt“, „gott“ og „illt“, hvað þá hvort hægt væri að nota þau um fyrirmælin sem fyrir okkur væru lögð. Við værum ekkert að velta því fyrir okkur hvort það, sem við værum að gera, þjónaði einhverjum tilgangi eða hvort það að hlýða fyrirmælunum gerði okkur sjálf eða aðra hamingjusöm eða óhamingjusöm. Guð gaf okkur höfuð sem hugsar og dreymir. Hann skapaði okkur með heila sem er sístarfandi, meira að segja þegar við sofum. Hann slekkur aldrei á sér og bíður fyrirmæla sem ræsa hann. Guð gaf okkur ekki kolaeld í brjóstholið, hann gaf okkur „hjarta sem geymir hreina og geislandi frelsarans mynd“, svo aftur sé vitnað í sálminn.

Hver er annars þessi frelsarans mynd? „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið,“ segir Jesús á einum stað. Að elska Jesú hlýtur að vera að elska sannleikann og leita hans. Og það sem Jesús segir við okkur í dag er einmitt þetta: „Leitið og þér munuð finna. Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“ Þetta eru orð Jesú til ungs fólks á æskulýðsdaginn. Þorið að hugsa. Þorið að spyrja. Þorið að gagnrýna. Þorið meira að segja að efast. Þið voruð sköpuð með þessa hæfileika til að þið nýttuð þá, ekki til að þið óttuðust þá og afneituðuð þeim og þar með stórum hluta guðsmyndar ykkar. Jesús segir margar dæmisögur um mikilvægi þess að nota náðargjafir sínar, að grafa ekki talentur sínar í jörð, að setja ekki ljós sitt undir mæliker. Spyrjið. Svarið er þarna einhvers staðar. Leitið og þér munuð finna. Pælið ... og þér munuð fatta. Hvernig ættum við að geta fetað veg sannleikans og lífsins en ekki syndarinnar og dauðans ef við hefðum engan skilning eða þekkingu á þessum hugtökum? Og við öðlumst þessa þekkingu með því að standa frammi fyrir siðferðilegum álitamálum og taka á þeim með þeim verkfærum sem Guð gaf okkur til þess, hans dásamlegu gjöfum. Hann gaf okkur höfuð sem hugsar og dreymir, gruflar og skapar. Hann gaf okkur hjarta sem geymir frelsarans mynd, sannleiksást og réttlætiskennd. Guð í sinni óendanlegu visku skapaði okkur ekki með öll svörin á reiðum höndum, aðeins með allar spurningarnar í hjartanu og höfðinu og verkfærin til að glíma við þær. Þannig má segja að hann hafi gefið okkur verkefni í vöggugjöf ... og það ekkert smáræðis verkefni.

Biblían geymir svörin. Hún er Guðs orð. En hún er ekki pilla við gagnrýnni hugsun. En hvernig má það vera að Biblían sé Guðs orð, án þess að það þýði jafnframt að við eigum að fara möglunarlaust eftir öllu sem í henni stendur?

Umbúðalausa svarið gæti verið: Af því að innan um guðsorðið eru úreltar mannasetningar, miskunnarlaus ákvæði úr lögbók hirðingjaþjóðar frá bronsöld um grimmilegar refsingar við brotum sem okkur finnast sárasaklaus nú á dögum og brjóta auk þess í bága við lágmarksmannréttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að virða.

Praktíska svarið gæti verið: Af því að það er ekki hægt. Þar eru þversagnir. „Ekki fyrirgefa bróður þínum sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö sinnum“ og „Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.“ Ef þú ætlaðir að fara eftir öllu sem í Biblíunni stendur myndirðu annað hvort springa í loft upp eða viðbrögð þín yrðu handahófskennd og færu eftir því hvar þig bæri niður hverju sinni.

Menntaða svarið gæti verið: Af því að meiningin liggur ekki í bókastaflegustu og augljósustu merkingunni sem hægt er að sleikja af ysta yfirborði textans. Eins og allt annað ritað mál eru hin mörgu og ólíku rit Biblíunnar afurðir menningarsamfélagsins sem þau spruttu úr og eins og öllu öðru rituðu máli er þeim beint að tilteknu menningarsamfélagi með ýmiss konar skírskotunum og vísunum í almenna þekkingu og hugmyndaheim fyrirhugaðra viðtakenda. Biblían er ekki stíluð á Íslendinga 21. aldarinnar. Framsetningin á boðskap hennar tekur ekki mið af vestrænu fjölhyggjusamfélagi nútímans. En stóri sannleikurinn í henni á erindi til allra manna á öllum tímum.

Kristilegasta svarið er kannski: Af því að kristinn maður notar gjafir Guðs til að leita sannleikans í Guðs orði; höfuð sem hugsar og hjarta sem geymir frelsarans mynd. Það þýðir að hann les Biblíuna í ljósi þekkingar á tilurð hennar og samfélaginu sem skapaði hana og hún var upphaflega sköpuð fyrir. Hann les hana í ljósi bjarmans af báli kærleikans sem logar í hjartanu á honum, bjarma hinnar geislandi myndar frelsarans. Hann les hana með Jesú Krist sem leiðsögumann. Hann leitar svara – í Jesú nafni ... og finnur þau. Hann knýr á hlið himinsins – í Jesú nafni ... og þeim er upp lokið fyrir honum.

Það er eðlilegt að ungt fólk sé ráðvillt í dag, ekki síst í trúarefnum. Áreitið er yfirþyrmandi og hverjum finnst sitt. Með tilkomu internetsins, að ekki sé talað um sjálfa fésbókina, er engin skoðun lengur of illa ígrunduð né byggð á of mikilli vanþekkingu, fáfræði og fordómum til að geta komið fyrir almenningssjónir. Og þegar fjöldi einstaklinga, sem allir þykjast hafa vit á því sem þeir eru að tala um, tala hver í sína áttina ... hverjum á þá að trúa, ef einhverjum?

Guð gaf okkur verkfærin til að glíma við þetta. Hann gaf okkur höfuð sem hugsar og hjarta sem slær í takt við það sem við finnum innst inni að er satt og rétt. Við getum sjálf kynnt okkur málavöxtu og mótað okkur okkar eigin skoðun, afstöðu upplýsta af viti og kærleika. Við þurfum ekki að láta mata okkur á misvel ígrunduðum skoðunum annarra.

Biblían er almenningseign. Hún er til á flestum heimilum og er ókeypis á netinu. Ef einhver segir okkur að eitthvað standi í Biblíunni getum við athugað það sjálf. Við getum sjálf lesið það í samhengi textaknippisins sem það er í. Við getum sjálf lesið textaknippið í samhengi ritsins sem það er í og við getum lesið ritið í heildarsamhengi testamentisins sem það er í. Og við getum lesið þetta allt í ljósinu af kærleika Jesú Krists. Þannig þurfum við, svo dæmi sé tekið, ekki að láta segja okkur að í Þriðju Mósebók 20.13 sé eitthvað fordæmt, án þess að geta sjálf aflað okkur þeirrar vitneskju að fjórum setningum áður er kveðið á um að hver sá sem bölvar foreldrum sínum skuli líflátinn. Ég hugsa að við værum fá hér í kirkjunni í dag ef þetta textaknippi væri tekið mjög bókstaflega í heild sinni. Að minnsta kosti væri einhver annar að prédika. Og þegar orð Páls postula, þar sem hann varar við stjórnleysi girndar og losta, eru heimfærð upp á fallegar og kærleiksríkar rómantískar tilfinningar fullveðja einstaklinga sem eru í andlegu jafnvægi og hafa stjórn á lífi sínu og hafa aðeins gerst sekir um að elska aðra manneskju ... þá þurfum við ekkert að kokgleypa þann skilning. Við getum borið hann undir vitið í hausnum á okkur og kærleikann í hjartanu á okkur. Við erum ekki gólem.

„Ojæja,“ kunna sum ykkar að hugsa. „Ég hef nú heyrt þetta allt útlagt öðruvísi áður. Er hann ekki bara að mata okkur á sínum eigin skilningi? Er hann ekki að gerast sekur um það nákvæmlega sama og hann er að væna aðra um; að velja og hafna út frá því sem hentar honum?“ Það má vera að ég sé að því. En ég reyni að láta Jesú stýra vali mínu, því ég leitast af veikum mætti við að hafa hann leiðtoga lífs míns. Sem prédikari er verkefni mitt að útleggja fagnaðarerindið. Og þótt ég hafi aflað mér menntunar til að geta skilið það betur þá get ég ekki sagt ykkur hvernig þið eigið að skilja það. Ég get aðeins sagt ykkur hvernig ég skil það og af hverju ég skil það þannig. Ef þið eruð ósammála mér þá er það gott. Því þá eruð þið að gera nákvæmlega það sem ég er að hvetja ykkur til að gera; hugsa. Guð gaf okkur höfuð sem hugsar og dreymir. Við erum ekki gólem.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.