Biskupsvígðar konur?

Biskupsvígðar konur?

Nú höfum við tækifæri til að styrkja þjóðkirkjuna í því að vera samfélag fólks sem breytir eins og það boðar. Vonandi munum við brátt tala um biskupa í kvenkyni jafnt sem karlkyni.

Biskupsskyrta

Eitt sinn ætlað ég ætlaði að heilsa kollega mínum sem ég var að hitta í fyrsta sinn. Hann var prestur í annarri sókn. En viti menn og konur. Hann tók ekki í framrétta hönd mína! Ég stóð þarna eins og aðskotahlutur, með útrétta hönd en hann gætti sín á því að líta ekki í augun á mér, sneri sér undan og gekk í burtu. Þetta atvik átti sér stað þegar ég starfaði sem prestur í Gautaborgarstifti í Svíþjóð.

Eitt sinn, í sama landi, tók ég þátt í stórri messu þar sem nokkrir prestar þjónuðu saman. Ég hafði það fína hlutverk að blessa efnin, brauðið og vínið. Þegar ég gekk fyrir altarið og hóf að biðja, þá stendur kollegi minn upp og gengur út úr kirkjunni. Hann sat á fremsta bekk og reyndi ekki að láta lítið fyrir sér fara. Eftir messuna var mér tjáð að hann væri mjög á móti prestvígslu kvenna.

Þetta er ekki algengt viðhorf innan sænsku kirkjunnar enda hefur hún markvisst reynt að sporna við þessu. Konum í ábyrgðarstöðum fjölgað hratt í sænsku kirkjunni undanfarna áratugi og þykir það ekki tiltökumál lengur að konur séu biskupar. En því miður eru nokkrir prestar eftir sem telja prestvígslu kvenna vera gegn vilja Guðs og því ekki gilda.

Þetta er ekki vandamál á Íslandi. Í Þjóðkirkjunni er enginn prestur opinberlega á móti prestvígslu kvenna. Staða prestvígðra kvenna í Þjóðkirkjunni endurspeglar aftur á móti stöðu kvenna annarsstaðar í íslensku samfélagi. Hér eru lög og reglur yfirleitt til fyrirmyndar en misbrestur er á að þeim sé framfylgt. Þetta á við um margar stofnanir íslensks samfélags. Ekki síst hinar æðstu.

Þannig er jafnréttisáætlun kirkjunnar góð en þar sem henni hefur ekki verið nægilega framfylgt þá er hún þegar fallin um sjálfa sig.

Brátt kemur að því að stór hluti presta og töluvert af leikfólki muni ganga til kosninga og velja sér vígslubiskup í Skálholtsstifti. Þau sem hafa gefið kost á sér eru öll frambærileg og ég treysti hverju og einu þeirra til þess að sinna embættinu með sóma.

Um leið er það svo að nú höfum við tækifæri til að styrkja þjóðkirkjuna í því að vera samfélag fólks sem breytir eins og það boðar í stað þess að vera samfélag fólks sem gerir fínar reglugerðir og áætlanir en fer ekki eftir þeim.

Vonandi munum við brátt tala um biskupa í kvenkyni jafnt sem karlkyni.