Austurvöllur

Austurvöllur

Fyrsta október 2010 mun að líkindum lengi verða minnst í sögu Íslands. Þá gerðist sá einstaki atburður að trúnaðarbrestur varð milli þjóðar og stjórnvalds.

“Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.”

Austurvöllur er sá staður á Íslandi, þar sem almenningur og yfirvöld mætast í eiginlegri merkingu og snerta hvort annað, augliti til auglitis. Alþingishúsið er hús lagasetningar og er máttarstólpi í íslensku samfélagi. Fólkið í landinu safnast saman á Austurvelli, þegar það fagnar forseta sínum, sameiningartákni þjóðar og stjórnvalds, þegar það á við, og hlýðir á ljóð um land og þjóð af munni fjallkonunnar á 17. júní, til þess að ylja sér við sameiginlegan tón sögu og menningar. Og Dómkirkjan, sem þarna hefur einnig verið valinn staður, og ekki fyrir neina tilviljun, er það hús, sem öllum landsmönnum er opið, háum sem lágum, og hjálpar þeim til þess að minna sig á, hvað sé grundvöllur alls, hvaðan lífið sé komið og hvað skipti máli í lífinu og samskiptum manna í millum. Sköpunin er Guðs verk og allt sem verður til í framhaldi sköpunarinnar er tækifæri mannsins til að njóta hennar, vinna úr viðfangsefnum líðandi dags og skapa sér trausta og hamingjuríka tilvist í réttlæti og sannleika.

Fyrsta október 2010 mun að líkindum lengi verða minnst í sögu Íslands. Þá gerðist sá einstaki atburður að trúnaðarbrestur varð milli þjóðar og stjórnvalds.

Söfnuðurinn hefur sjálfsagt veitt því eftirtekt að textar dagsins eru mikil lesning. Ekki aðeins það, heldur fyrst og fremst mikið umhugsunarefni. Í þeim er tekist á við grundvallaratriði mannlegs samfélags. Hvernig á ég að verja lífi mínu? Hvert ætti viðhorf mitt að vera til Guðs, til lífsins og til annarra manna?

Þegar grundvallaratriði eru til umhugsunar og umræðu er gott að finna góða fótfestu. Hvað manneskjuna varðar, þá er það orðið eitt, hugsunin og tungumálið, sem gagnar til þess að vera sú fótfesta, - grundvöllurinn, undirstaðan og upphafið að því, að taka ákvörðun og framkvæma.

Hillel, samtímamaður Jesú og einn áhrifamesti fræðimaður gyðinga fyrr og síðar var eitt sinn spurður að því, hvort hægt væri að segja í svo stuttu máli, hvað fælist í lögmáli Guðs, að það yrði gert meðan staðið væri á öðrum fæti. Þá sagði hann: “Það sem þú vilt ekki sjálfum þér til handa, skalt þú ekki ætla náunga þínum. Þetta er lögmálið allt, annað er útskýring. Farðu og lærðu.” Og Akiba, sem kom til nokkrum áratugum síðar, minnti á sama grunnlögmál, þegar hann vísar í 3ju Mósebók (19:18) : ‘Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Jesús vitnar í sömu grein, en dregur saman í eina, það sem hann taldi vera mikilvægast: Að elska Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti og náungann eins og sjálfan sig. (sbr. Mk. 12). M.ö.o. allt það sem varðar manninn í smáu og stóru þarf að spegla í elsku Guðs, tileinka sér hana og boða öðrum í verkum sínum og viðmóti gagnvart honum. Páll ítrekar þetta í fyrra Tímóteusarbréfi: ‘5Markmið fræðslunnar er að vekja kærleika af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.’ 1.Tím. 1:5

Sannarlega erum við þakklát því að eiga boðorðin tíu og mega byggja á þeim í lífi okkar og samfélagi. Jesús gefur þeim boðorðum öllum nýja vídd og innihald, þegar hann á síðustu dögum sínum í Jerúsalem svarar spurningu fræðimannsins: Hvert er æðst allra boðorða? Elskan til náungans er grundvöllur allrar mannlegrar skipunar, réttlætis, sanngirni, velvildar, umhyggju, hvatningar, alúðar og aðhlynningar. Sú elska sprettur ekki upp í hjarta mannsins af því einu að hann er maður. Enginn getur af sjálfum sér orðið öðrum að liði í fullkomnum kærleika, nema hann hafi eitthvað fyrir sér í því hvað er gott og rétt og hvað reynist vel. Sá sem upplifir elskuna á sjálfum sér fyrir móðurást eða aðra álíka, lærir sjálfur að elska. Þó verður sú elska aldrei hrein og fullkomin, nema fyrir þá elsku, sem er frá Guði komin og birtist í Jesú Kristi, sem er birtingarljós hins fullkomna kærleika Guðs. Þess vegna segir Jóhannes lærisveinn Jesú þetta í fyrra bréfi sínu: ‘Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.’ 1. Jóh. 4:21.

Haft er eftir Símoni vandlætara sem var einn postulanna: Heimurinn á sér þrjár undirstöður: Lögmálið (þ.e. lögin), lofgjörðina (þ.e.a.s. helgihaldið) og kærleiksverkin (þ.e. framkvæmd lögmálsins). Við Íslendingar höfum haft þann skilning frá öndverðu að landslög og guðslög fari saman og vinni saman. Við teljum okkur forystuþjóð í skilningi laga, réttlætis og framkvæmd hvors tveggja. Þannig hefur siðvenjan verið sú hér í landi að hver og einn er jafn fyrir lögum og jafn að réttinum til að lifa og njóta sín og þess sem hann er að gerð og hæfileikum. Við höfum státað okkur af því að hér sé jafnræði meira en annars staðar og stéttaskipting engin. Hafi það tekist, sem virðist vera lengst af, er það okkur til sóma. Til að halda slíkri samfélagsskipan þarf opin huga, víðsýni, hræsnislausa trú og tryggð við grundvallaratriðin. Og um það þarf þá að vera góð samstaða og trúfesti.

Nú 1. október brotnaði rúða í Dómkirkjunni af mannavöldum undir messugjörð, þar sem alþingismenn, samkvæmt ríkri hefð, bjuggu sig undir komandi þingstörf. Slíkur atburður getur aðeins átt sér stað, af því að einhver finnur mikið til og á mjög bágt. Í þessum atburði heyrist harmakvein þjáðs manns, sem er svo illa settur að hann megnar ekki að tjá sig á annan hátt en í reiði og vanstilltum aðgerðum. Er það af því að ekki er skilningur á málstað hans, eða er það af því að hann er svona illa gerður? Svarið liggur ekki í augum uppi, en það er ljóst að hér er eitthvað mikið að, og nauðsynlegt að bregðast við.

Atburðirnir á Austurvelli í fyrradag eru miklu alvarlegri viðbrögð almennings en áður hafa þekkst í undanfarinni “búsáhaldabyltingu” og rista dýpra. Sársaukinn, vonbrigðin og hryggðin eru augljós og harmagráturinn beiskari. Hér þarf kraftmikil viðbrögð og að taka til hendinni til að finna þann framgang laga, réttlætis og siðgæðis, sem sættir þjóðina innbyrðis. Á Alþingi eru 63 valinkunnir einstaklingar, búnir góðum hæfileikum og þekkingu. Þeirra kostir eru nú tveir. Að snúa bökum saman og vinna sem einn maður að sáttargjörð, sem fær sefað harmagrát þjóðarheimilisins og komið á friði í landinu. Ellegar segja sig frá þeirri skyldu, sem þeir hafa verið kallaðir til og gefa landsmönnum svigrúm til að velja nýja sveit alþingismanna í staðinn. Við megum treysta því að hjá þeim sem speglar sig í hræsnislausri trú sinni og samvisku verða verkin góð og í kærleika gerð. Amen.