Áður en ég dey

Áður en ég dey

Að við veljum að skapa okkur samfélaög og heim þar sem hin hungruðu fá mat og hin þyrstu fái að drekka. Að gestir okkar, sem eru á flótta undan styrjöldum, mannréttindabrotum og hungursneyð, fái skjól. Að engum þurfi að vera kalt vegna þess að ekki er til peningur fyrir hlýjum fötum eða vegna þess að engin(n) er tilbúin(n) að bjóða faðm eða yl. Að hér fáum við öll aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu hvernig sem efnahagur okkar er og að hér eigi fólk möguleika á öðru tækifæri þrátt fyrir að hafa gert mistök.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
20. nóvember 2016
Flokkar

Áður en ég dey Ef þú ættir aðeins eftir að lifa í átta mánuði og værir við þokkalega heilsu, líkamlega og andlega, hvernig myndir þú verja þessum mánuðum?

Myndir þú gera allt þetta skemmtilega sem þú ert alltaf að fresta eða hefur ekki haft kjark í að framkvæma? Myndir þú sættast við þau sem þú hefur sært eða ert ósátt(ur) við? Myndir þú eyða meiri tíma með fjölskyldunni þinni og vinum. Myndir þú kannski ekki breyta neinu, heldur lifa þínu lífi eins og þú hefur gert hingað til?

Ég rakst á sjónvarpsþátt um daginn sem fjallar um unga konu sem verður hrifin af manni sem sjarmerar hana upp úr skónum. Hann lifir svo spennandi og áhugaverðu lífi. Hann er alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og sniðugt. Fljótlega kemst hún að því að hann er búinn að reikna það út að heimurinn muni farast eftir rúmlega átta mánuði þegar lofsteinn mun granda jörðinni. Hann er búinn að búa til langan lista með öllu því sem hann vill koma í verk áður en hann deyr.

Þegar hún kemst að þessum hugmyndum hans sér hún um leið að hann hljóti að vera eitthvað “klikk” og ætlar að hætta að hitta hann. En, eins og í öllum góðum sögum, þá dregst hún að honum þrátt fyrir skrýtileikann og ákveður að taka áhættuna á að vera með manni sem trúir því að heimsendir sé í nánd. Hún veit svo sem ekkert hverju hún á að trúa sjálf en hallast frekar að því að þessir útreikningur hans séu ekki réttir.

En þrátt fyrir að hún trúi því frekar að hún muni lifa en deyja ákveður hún að útbúa lista sjálf með öllu því sem hún myndi vilja gera ef hún ætti aðeins átta mánuði eftir í þessu lífi.

Listarnir þeirra beggja eru blanda af skemmtilegum og hæfilega brjálæðislegum hlutum eins og að smakka allar ístegundir sem til eru og fara í einhverskonar rallýbíla akstur. En þar eru líka hlutir sem ganga út á að sættast við fólk og aðstæður og biðjast fyrirgefningar.

Hvernig væri þinn listi?

Það er náttúrulega klassískt að setja á listann að hafa meiri samskipti við fjölskyldu og vini. Gefa meira af sér og vera betri við náungann. Það er klassískt vegna þess að það er mikilvægt.

Listinn hans Jesú Síðast sunnudag kirkjuársins eru biblíulestrar dagsins dramatískir. Þeir fjalla um endalok heimsins og lífsins eins og við þekkjum það. Þeir fjalla um það sem við þurfum að gera áður en við deyjum, áður en heimurinn, eins og við þekkjum hann, líður undir lok.

Og það vill svo til að í guðspjalli dagsins er Jesús með lista fyrir okkur yfir það sem við þurfum að gera til þess að vera sátt við líf okkar í þessum heimi. Á listanum hans kemur fram að við eigum að gefa hungruðum að eta, þyrstum að drekka, hýsa gesti okkar sem eru án heimilis, að klæða hin nöktu, vitja hinna sjúku og þeirra er sitja í fangelsi.

Á þessum lista Jesú eru grundvallaratriðin sem við þurfum að uppfylla til þess að sjá til þess að allt fólk eignist verðugt líf. Líf með reisn. Þetta snýst um næringu, umhyggju, mannréttindi, hlýju og mennsku.

Þessu er líka þannig varið að við erum ekki eingöngu gerendur í okkar lífi. Við erum sömuleiðis þiggjendur, náungi einhvers. Við erum ekki aðeins þau sem eiga að fæða hin hungruðu og klæða hin nöktu því það kemur að því í lífi okkar flestra að við verðum þessi hungruðu og þessi þyrstu. Að okkur skorti klæði sem veiti okkur hlýju og að við verðum sjúk og einmanna og gerum jafnvel mistök og lendum í fangelsi. Við erum öll á einhverri stundu náunginn sem getur veitt og náunginn sem þarf að þiggja.

Áður en við deyjum Þegar við íhugum það sem við viljum gera áður en við deyjum þá erum við oftast nær að hugsa það út frá okkur sjálfum, í okkar persónulega lífi. En hvað ættum við sem samfélag að gera áður en við deyjum?

Við erum öll hluti af því samfélagi sem við búum í og tilheyrum og þess vegna getum við ekki hugsað þessa hluti eingöngu út frá okkar persónulega lífi. Hvað ef allt fullorðið fólk í okkar heimi myndi deyja eftir átta mánuði og börnin okkar og barnabörnin myndu þá erfa jörðina. Hvernig myndum við vilja skila þessu samfélagi og þessari jörð til þeirra?

Það hefur verið mikið óöryggi í heiminum okkar undanfarið. Við kusum ekki eins og venjulega á Íslandi því við viljum eitthvað nýtt. Við viljum fallegri stjórnmál og réttlátara samfélag en það hefur oft verið. Í Bandaríkjunum kaus fólk líka eitthvað nýtt. Kannski náði hræðsluáróður og reiðiboðskapur til fólks og því kaus það eins og það gerði. Og þrátt fyrir að mér lítist ekki á blikuna þar þá er ekki hægt að líta fram hjá því að fólk þar kaus eins og það gerði af einhverjum ástæðum. Fólk vildi eitthvað nýtt. Í Bretlandi vildi fólk breytingar og kaus að draga sig út Evrópusambandinu. Í fjölda landa geisa nú skelfileg stríð og hryðjuverk eru að verða daglegt brauð. Heil kynslóð barna er að deyja úr hungri í nokkrum hluta Afríku. Sjaldan eða aldrei hefur fleira fólk verið á flótta í heiminum. Og enn hef ég ekki minnst á hlýnun jarðar og afleiðingar hennar. Það er kannski ekki að undra að við viljum breytingar og kjósum öðruvísi en oft áður.

Hvað ef við ættum aðeins átta mánuði eftir? Myndum við samt hafa kosið Trump? Myndum við áfram fylgja Dyflinnarreglugerðinni eins og við höfum gert hér og senda fólk úr landi af því það lenti annars staðar áður en það komst hingað? Myndum við vera duglegri í umhverfismálum en við erum nú?

Getur verið að ef börnin okkar og barnabörnin ættu að taka við heiminum eftir átta mánuði og við ættum að skilja við heiminn og samfélagið með sama sóma og við líf okkar þegar við sjálf deyjum, þá myndum við haga einhverjum hlutum með öðrum hætti?

Kannski er listinn hans Jesú besti listinn þegar kemur að því hvernig við stýrum samfélaginu okkar, heiminum okkur.

Að við veljum að skapa okkur samfélaög og heim þar sem hin hungruðu fá mat og hin þyrstu fái að drekka. Að gestir okkar, sem eru á flótta undan styrjöldum, mannréttindabrotum og hungursneyð, fái skjól. Að engum þurfi að vera kalt vegna þess að ekki er til peningur fyrir hlýjum fötum eða vegna þess að engin(n) er tilbúin(n) að bjóða faðm eða yl. Að hér fáum við öll aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu hvernig sem efnahagur okkar er og að hér eigi fólk möguleika á öðru tækifæri þrátt fyrir að hafa gert mistök.

Þetta er nefnilega ekkert flókið. Það besta er að lifa þannig lífi að við getum lagst til hvílu að kvöldi, þokkalega sátt við breytni okkar í dag. Það verður alltaf eitthvað sem við munum fresta og við getum alltaf eytt meiri tíma með fólkinu okkar. En samkvæmt þessum lista er mikilvægast að sýna ekki skeytingarleysi gagnvart náunga okkar. Við eigum að láta okkur varða líf og afkomu náungans. Hver sem hann er og hvar sem hann er.

Ég er sannfærð um að ef við reynum eftir bestu getu að lifa eftir listanum hans Jesú þá munum við lifa nær himnaríki á jörðu en ef við skeytum hann engu, hvort sem við deyjum eftir átta mánuði eða 60 ár. En gleymum því ekki að við munum aldrei öðlast fullkomna þjálfun í listanum og þegar okkur mistekst þá er aldrei of seint að rísa á fætur á ný og halda áfram. Og kannski mun þá náungi okkar rétta fram hjálparhönd. Amen