Blessun og barnsfæðing í bíó

Blessun og barnsfæðing í bíó

Svefnherbergi. Dagur. Ung kona er að gera upp gamalt barnarúm. Skrapar af því málningu af því. Svo stynur hún stundarhátt og áhorfandinn áttar sig á tvennu: Hún er barnshafandi og það er komið að fæðingu. Og svo er klippt og barnið fæðist.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
23. september 2009

Blessun - Katrine með barnið

Svefnherbergi. Dagur. Ung kona er að gera upp gamalt barnarúm. Skrapar af því málningu af því. Svo stynur hún stundarhátt og áhorfandinn áttar sig á tvennu: Hún er barnshafandi og það er komið að fæðingu. Og svo er klippt og barnið fæðist. Konan virðist óörugg og kannski fjarlæg meðan á henni stendur. En allt gengur eins og það á að ganga og barnið fæðist og það er lagt í fang móðurinnar. „Þetta er stúlka,“ segir ljósmóðirin. „Þetta er stúlka,“ segir hin nýbakaða móðir og það er ekki laust við að greina megi vonbrigði í röddinni.

Þannig hefst danska kvikmyndin Blessun sem er sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þetta er reyndar verðlaunamynd því hún hlaut fyrr á þessu ári kvikmyndaverðlaun sænsku kirkjunnar. Blessun fjallar um Katrine og hún gerist á fyrstu dögunum eftir fæðingu dóttur hennar og kærastans Andreasar. Dóttirin heitir Rose og barnsfæðingin, sem ætti að vera blessun og gleðigjafi, reynist ekki vera það. Lífið er ekki „dans á rósum“ – að minnsta kosti ekki fyrst um sinn. Barnið tekur ekki brjóst og hún þyngist ekki. Það þyrmir yfir Katrine og hún sefur illa og lífið er erfitt.

Áhorfandinn áttar sig fljótt á því að Katrine ber með sér óuppgerð mál úr eigin fortíð. Samband hennar við sína eigin móður er ekki gott. Það sést strax fljótt eftir fæðinguna þegar Katrine hringir í móður sína af sjúkrahúsinu til að segja henni frá því að Rose sé fædd. Það sem ætti að vera gleðisamtal er það ekki. Hún er hrædd við móður sína, byrjar strax að afsaka sig: „Fyrirgefðu mamma, ég ætlaði að hafa þig með í þessu, en þetta gerðist bara svo hratt, ég ...“ Og þannig heldur það áfram.

Við vitum ekki hvað hefur farið þeim á milli áður, vitum ekki hvernig samband þeirra hefur þróast, en sjáum þarna ákveðna og stjórnsama móður og óákveðna og veikburða dóttur. Ítrekað veður sú eldri yfir þá yngri og virðir hana ekki sem manneskju, virðir ekki tilfinningar hennar. Samband þeirra er ekki heilbrigt og á köflum mætti kalla það ofbeldisfullt. Þegar svo þyrmir yfir dótturina eftir fæðinguna er ekki gott í vændum.

Blessun er kvikmynd sem fjallar á nærfærinn hátt um fæðingarþunglyndi. Þetta er kvikmynd sem varpar kastljósi á samband móður og dóttur, og kannski sambönd mæðra og dætra almennt. Hún áréttar mikilvægi þess að virða einstaklinginn eins og hann er og hún áréttar mikilvægi markanna, ekki síst þegar kemur að samskiptum ungra og aldinna. Það er ekki auðvelt að horfa á þessa mynd, heyra má skerandi barnsgrát í gegnum alla myndina og bjargarleysi Katrine gengur nærri áhorfandanum.

Þetta er kvikmynd sem hreyfir við áhorfandanum og skilur hann eftir með spurningar um það hvernig við nálgumst annað fólk og hvar við stöndum gagnvart okkar nánustu. Þetta er mynd sem óhætt er að mæla með.

Blessun er á dagskrá kvikmyndahátíðar kl. 22 í kvöld, miðvikudaginn 23. september og klukkan 18 föstudaginn 26. september. Nánari upplýsingar er að finna á vef hátíðarinnar.