Mýs og menn

Mýs og menn

Þótt mikill munur sé á músum og mönnum eiga þau það sameiginlegt að vera berskjölduð fyrir margvíslegum skakkaföllum og raunum í oft skjóllítilli tilveru sinni svo að vonarþrá og fyrirætlanir verða æði oft að engu.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
12. febrúar 2013

Mýs og menn. Úr sýningu Borgarleikhússins

Lýsing leiks og túlkun sögu og samhengis

John Steinbeck, nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum, skrifaði skáldsögu sína ,,Mýs og menn” á tíma heimskreppunnar fyrir stríð með það í huga, að hún yrði færð upp á leiksvið. Hann vann upp úr henni leikgerð sem sýnd var á Breiðvangi, Broadway, í lok árs 1937 stuttu eftir að bókin var fyrst gefin út, er hann var aðeins hálffertugur að aldri.

Hugmyndina að heiti verksins mun Steinbeck hafa fengið frá ljóði Robert Burns, ,,Til músar” er lýsir umkomuleysi músarinnar gagnvart skakkaföllum en dregur jafnframt fram mannlegan vanmátt og skjólleysi, sem hindrar svo oft hamingju og lífsöryggi. ,,En mýsla, fleiri finna samt/hve forsjálnin oft hrekkur skammt./Vel ætla mýs og menn sér jafnt,/ svo misferst það./ Vér hreppum sorg og geðið gramt/ í gleði stað” (Þýð. Þórarinn Eldjárn). Efnahagskreppan, er lá sem þungur hrammur á bandarísku samfélagi sem og víðar í veröldinni, gerði marga óvissa um kjör og framtíð sína og afhjúpaði umkomuleysið á ýmsan hátt svo sem vel kemur fram í sögu og leikriti Steinbecks.

Hann hafði sjálfur verið farandverkamaður í Kaliforníu, þar sem hann lætur sögu sína gerast. Hann hafði þá unnið með stórum og kröftugum en vangefnum manni sem varð fyrirmynd hans að Lenna Small, annarri aðalpersónu sögunnar. Sá hafði banað verkstjóranum, sökum þess að hann hafði rekið vin hans og félaga, og verið lokaður inni í geðsjúkrahúsi.

Lenni sögunnar og leikritsins er þrátt fyrir stærð sína og mikla burði, ,Lítill”, Small, svo sem nafn hans gefur til kynna, vanmegna og lítilsmegandi vegna fötlunar sinnar. Hann bjargast í berangri tilverunnar vegna þess eins, að Georg(e) Milton, hin aðalpersóna verksins, hefur tekið hann að sér og verndar eftir lát Klöru frænku Lenna, sem hafði alið hann upp. Georg er algjör andstæða Lenna, lágvaxinn og vel greindur og úrræðagóður. Verkið lýsir vináttu og samferð þeirra félaganna sem farandverkamanna.

Kostulegir og brjóstumkennanlegir í senn minna þeir á sérstaka félaga í kvikmyndasögunni, hina dönsku ,,Litla og stóra, Fyrtaarnet og Bivognen” og svo Hollywood stjörnur fyrri tíðar, Stan og Ollie, Gög og Gokke, er voru fyrr á ferð og svo Abbott og Costello, sem komu fram nokkru síðar. Saga og samleið Lenna og Georgs er samt enginn farsi þótt dragi oft fram bros heldur raunaleg harmsaga um skuldbindingar og vináttu, vonir og vonbrigði.

Leikgerð Jóns Páls Eyjólfssonar og Jóns Atla Jónssonar leikstjóra í sýningu Borgarleikhúss fylgir vel þræði og framvindu sögunnar. Óvita- og skammarstrik Lenna (Ólafur Darri Ólafsson) valda Georg (Hilmar Guðjónsson) áhyggjum og hann lætur Lenna heyra það óþvegið þegar honum verður á í messunni, enda mega tiltektir Lenna ekki koma í veg fyrir að þeir fái vinnu eða valda því að þeir verði reknir.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttir sýnir upphlaðna strigakassa er verða sem klettar og klungur í landslagi, sem þeir félagar og vinir fara um. Kassarnir mynda umgerð um ferð og tilveru þeirra og benda á hve hún er torsótt, einnig vísar hún á byrðar þeirra og erfið störf. Bakhliðin myndar skála vinnumannanna á búgarðinum sem er nýr vinnustaður þeirra. Þangað koma þeir ekki fyrr en degi síðar en þeirra var vænst, því að rútan skilaði þeim af sér fjarri áfangastað.

Leiklýsing

Vinirnir eru kynntir til sögu, er þeir koma sér fyrir í kjarri við á til hvíldar og svefns. Þeir hafa hrakist úr fyrri vinnustað og á flótta fyrir það að Lenni greip í kjól ungrar konu og vildi ekki sleppa og var sakaður um að hafa ætlað að nauðga henni. Það var þó fremur mýkt kjólaefnisins er heillaði hann en konan enda hrífst hann af allri mýkt sem fram kemur í ást hans á feldmjúkum dýrum, sérstaklega kanínum. Hann hefur fangað mús og haft í vasa en í ógáti þrýst fingrum fast á hana og deytt svo sem hent hefur áður.

Samskipti þeirra félaganna og samræður í kjarrinu gefa tóninn fyrir það sem vænta má að síðar gerist, lítið má út af bregða svo að illa fari. Leikarnir Ólafur Darri Ólafsson sem Lenni og Hilmar Guðjónsson sem Georg eru alveg sniðnir fyrir þessi hlutverk sín, Ólafur/Lenni dimmraddaður risi og þéttvaxinn og Hilmar/Georg bjartradda, smár og kvikur. Ólafi Darra tekst frábærlega að sýna barnslegt viðmót og látbragð Lenna og Hilmari velvilja og kjark Georgs sem leggur Lenna lífsreglurnar í von um að hann geri ekki skömm af sér á nýjum vinnustað. Þeim tekst vel að birta togstreituna sín á milli en einkum þó vinaböndin. Lenni býðst til að fara upp í fjöllin og finna sér þar hellisskúta svo að Georg geti losnað við hann. Georg segir honum þá að menn gætu villst á honum og úlfi og skotið hann.

Til þess að breyta umræðuefninu fær Georg vin sinn til að segja sér frá því, svo sem oft áður, hvað þeir eigi í vændum. Sú frásaga yljar þeim. Hún er vonarstefið í framvindu leikverks og sögu og sérlega vel flutt af leikurunum. ,,Þótt strákar sem vinni á búgörðum séu mestu einstæðingar í heimi og stöðugt að þræla og eigi engan góða félaga að spjalla við, gegni öðru máli um þá. Þeir eigi betra í vændum.” ,,Af því að þú hjálpar upp á mig og ég hjálpa upp á þig.” grípur Lenni fram í fyrir vini sínum og fagnar framhaldinu. Þegar Georg kemur að því í frásögninni, að þeir hafi nurlað saman dálitlum peningum og kaupi sér hús og jarðarskika, eina kú og nokkur svín, hrópar Lenni: ,,Og lifum á landsins gæðum og höfum kanínur,” Georg hefur samt varann á og biður Lenna að festa sér áningarstaðinn í minni, ef það skyldi henda að hann þyrfti að forða sér í skyndi.

Þeir félagarnar hitta Kandí fyrstan fyrir á búgarðinum, aldurhniginn og einhentan eftir vinnuslys. Hann vinnur þar sem ræstir og sópari og fer með þá inn í skála vinnumannanna. Kandí er alveg lifandi kominn á sviðið úr sögu Steinbecks, niðurbrotinn og þjakaður en ljúfur og hlýr, í næmri túlkun og góðu gervi Theodórs Júlíussonar. Einfættur hundur Kandís (hundurinn Máni) er þó enn eldri sé miðað við hundsævina. Fötlun þeirra beggja dregur fram hve samstíga og nátengdir þeir eru. Það eykur raunveruleikablæ sýningarinnar að hoppandi einfættur hundur skuli koma á sviðið og standa sig ,,hundslega” vel.

Bústjórinn (Þröstur Leó Júlíusson), sem þykir miður að þeir hafi ekki skilað sér kvöldið áður, er kappsamur en sanngjarn og vel liðinn að sögn Kandís. Sonur hans Körley (Þórir Sæmundsson) er hins vegar spjátrungs- og uppskafningslegur, smár og rindilslegur. Hann gerir sér dælt við vinnumennina, er ögrandi og hvatvís gagnvart sér stærri og meiri mönnum og er laus höndin enda þykist hann kunna töluvert fyrir sér í hnefaleikum.

Þeim Georg og Lenna stendur stuggur af Körley og Georg varar Lenna við því að lenda í útistöðum við hann en segir honum jafnframt að sýna Körley í tvo heimana gangi hann of langt. Kandí hefur á orði að Körley geti leyft sér allt, því að hann skáki í skjóli föður síns og verði aldrei rekinn, Körley sé enn hranalegri en fyrr vegna þess að hann sé nýkvongaður ungri lögulegri ,,dækju” sem daðri við vinnumennina og sé til í tuskið. Þeir félagarnir finna í Slim verkstjóra (Valur Freyr Einarsson), sem kann tökin á aktygjum og vinnudýrum, styrk og öryggi. Hann tekur þeim vel, er mikils virtur, drenglundaður og sanngjarn. Vinnumennirnir Whit (Halldór Gylfason) og Karlsson (Kjartan Guðjónsson) lúta vel valdi hans.

Karlson kemur þó þannig við sögu að hann amast við hundi Kandís vegna aldurs og ólyktar. Hann tekur hundinn frá sóparanum og skýtur hann. Kandí fær ekkert aðhafst í vanmætti sínum og þykir lítil huggun að því að fá nýfæddan hvolp í staðinn frá Slim, enda var sérstakt samband á milli hins bæklaða manns og fatlaða hunds.

En það birtir til hjá Kandí gamla er hann heyrir Georg og Lenna ræða framtíðardraum sinn um að eignast litla jörð og ,,lifa á landsins gæðum og hafa kanínur” svo sem Lenny minnir enn einu sinni á. Georg hefur ákveðið býli í sigti og Kandí býðst til að leggja sparifé sitt, sem fékkst að mestu fyrir það að hann missti höndina, í púkkið hjá þeim, svo að slagar hátt í kaupverðið. Skyndilega er sem ,,áformið sem þeir höfðu aldrei trúað á innst inni væri nærri því orðið að veruleika.” Allt kemur þetta vel fram á leikhússviðinu. Áhorfendur höndlast af eftirvæntingu og spennu sem endurnýjaður vonardraumurinn vekur og lifa sig inn í hugarheim sögu og leiks. Lenní sýnir hve öflugur og afkastamikill hann er við bygghleðsluna en kemst ekki hjá því að lenda í kasti við Körley sem slær til hans í reiðikasti. Lenni lætur í fyrstu blæðandi höggin á sér dynja, en hvattur af Georg kreistir hann svo boxhendi Körleys að hún lemstrast af. Lenni ávinnur sér virðingu fyrir, líka eiginkonu Körleys. Georg telur stöðu þeirra félaganna það tryggja að hann leyfir sér að skilja Lenna eftir á búgarðinum og fer út að skemmta sér á laugardagskvöldi með hinum vinnumönnunum. Hestasveinninn Krúks, Krókur (Sigurður Þór Óskarsson), er þó líka skilinn eftir, svertinginn í sögunni en útlendingurinn í sýningu Borgarleikhússins. Hann er utangarðsmaður og að auki beygður í baki í sögunni og fær af því nafnið, en snúinn á annarri hendinni í sýningunni. Fordómar og fylgjandi fyrirlitning bitna á honum. Hann er vel að sér og lesinn en samt ekki talinn húsum hæfur vegna húðlitar síns og því hafður hjá verkfærum og skepnum.

Þó svo að Georg hafi varað við því sækir Lenni til Krúks einkum þó í nýfædda hvolpana enda hefur Slim gefið honum einn þeirra. Þótt hik sé á Krúks í fyrstu tekur hann Lenna vel enda finna þeir til samstöðu í vanmætti sínum. Hann tekur þó vara á býlis-og kanínudraumi Lenna en metur það að geta spjallað við hann. Krúks á bækur en ,,hvað stoða þær? – Maður þarfnast þess að vera með öðrum” eins og hann segir, ,,geta snúið sér að öðrum manni.”

Er Kandí birtist líka óvænt hjá Krúks í leit að Lenna og segir frá því að þeir geti vissulega eignast jörð, sýnir Krúks því áhuga að fá að vera með þeim og starfa. Kona Körleys kemur þá skyndilega á vettvang og athyglin beinist að henni. Spenna hleðst upp á sviðinu. ,,Þeir hafa þá skilið vesalingana eftir hérna” segir hún lítilsvirðandi. Körley hefur líka skilið hana eftir. Hún er einnig umkomulítil og einmana og harmar hlutskipti sitt og segir þeim að hún hafi átt kost á því að verða leikkona ,,og það vildi maður gera mig að kvikmyndastjörnu.” Hún þráir félagsskap en vekur tortryggni og kvartar undan því: ,,Ef ég hitti einn ykkar svona út af fyrir sig, þá kemur okkur ágætlega saman. En ef þið eruð tveir, þá er engin leið að toga orð út úr ykkur. Þið verðið bara vondir. Þið eruð hræddir hver við annan. Hver einasti skíthræddur við að hinir fái tækifæri til að gera honum eitthvað til bölvunar.” Lenna er órótt og er óöruggur vegna fjarveru Georgs en hann skilar sér með öðrum vinnumönnum, og það er sem hættan sé liðin hjá.

En dauði hvolps Lenna daginn eftir er slæmur fyrirboði og Lenni sveiflast á milli hryggðar og reiði. Kona Körleys kemur að honum í hlöðunni þar sem hann er að fela hvolpinn í heyi. Hann hafði farið að bíta og Lenni gefið honum utan undir ,,Og þá var hann allt í einu dauður.” Hún vil hughreista hann en Lenni vill ekkert með hana hafa því að Georg verði bálvondur ef hann sjái þau tala saman. Hún gæti komið þeim í klandur.

Endalokin eru skammt undan, því að Lenni gerir í ógáti og óvitaskap enn eitt skammarstrikið. Það verður til þess að hann verður að flýja og fela sig kjarrinu við ána. Georg finnur hann þar öðrum fyrr og sýnir honum skilning og umhyggju sína með afar sérstæðum hætti.

Túlkun og sögulegt samhengi Enda þótt skáldsagan og leikverkið ,,Mýs og menn” eigi að gerast í heimskreppunni miðri er það sígilt í áskorun sinni og fjöllun um lífsbaráttu og verðmæti lífsins. Ekkert kemur þeim sem þekkir söguna á óvart í sýningu Borgarleikhússins. Ekkert er farið þar út fyrir hefðbundna túlkun né leikbrögðum beitt, sem færa leikverkið upp úr þekktri rás og fari, enginn fimleika- eða töfrabrögð sýnd og viðhöfð.

Sýningin kemur sögunni vel til skila, svo að átök og atburðarrás verða ljós og glögg. Leikarar verða persónur verksins áreynslulaust og sannfærandi svo að þeir sem þekkja þær þykir ánægjulegt að endurnýja kynnin og hinir hrífast af áleitnu verki.

Á sínum tíma voru skáldsagan og leikverkið ,,Mýs og menn” gagnrýnd vestanhafs fyrir að halda fram réttmæti líknardráps og tengja það vinatryggð, gefa til kynna að gustukaverk gæti verið að flýta fyrir dauða manns líkt og gert er við aflóga hunda. Steinbeck er þó fremur að vísa til þjóðfélagsþrenginga sem skerða kosti og val. Efnahagskreppan varð til þess að frískir og hæfileikaríkir menn gátu lent á vergangi og máttu þakka fyrir hverja þá vinnu sem gafst hvað þá þeir sem voru bjargarlausir án stuðnings og aðhalds, þroskaskertir og vanheilir? Verkið felur leynt og ljóst í sér gagnrýni á samfélagskerfi óhefts viðskiptafrelsis og auðhyggju sem hafði brostið í kreppunni. Það er ákall um samkennd og samstöðu, vinaþel, traust og bræðralag, ákall um félagshyggju.

Einstæðingsskapur og umkomuleysi er eitt megin stefja þess. Lenni er ekki einn um það að þrá að eiga sér samastað og skjól frá ótta og tortryggni og geta notið hlýju og mýktar enda sameinast fleiri um þann draum. Kona Körleys er ögrandi í angist sinni vegna tortryggni hans og afbrýðisemi, er slökkva ástar- og vonardrauma hennar og valda því að hún einangrast og er ýktari í framkomu en annars væri. Í málaðri ásjónu sinni og orðum birtir hún óttann og umkomuleysið er undir niðri móta samskiptin á búgarðinum.

Með lýsingu sinni á Krúks og kjörum hans finnur höfundur að kynþáttaaðskilnaði og sýnir samstöðu með blökkumönnum sem þrátt fyrir hæfni og mannkosti sína eru sviptir mannvirðingu og settir á skör með skynlausum skepnum.

Lenni er sakleysinginn í frásögunni. Hann vill öllum vel. Hann hænist að dýrum, þykir gott að hjúfra þeim að sér og strjúka, en er ávallt í háska staddur, því að komist hann úr jafnvægi gætir hann ekki að afli sínu og getur kramið til ólífis fremur en að strjúka blítt. Höfundur sýnir sálfræðilegt innsæi með því að benda á þýðingu þess fyrir Lenna að fá að snerta og gæla og geta notið mýktar. Hann þráir ást og hlýju og að fá að sýna hana. Dýrin eru honum aðgengilegri en mennirnir og kanínurnar loðnu og ljúfu því sæludraumur hans.

Samspil manns og náttúru er höfundi augljóslega umhugsunarefni, það hlutverk dýra að strita fyrir, fæða og klæða mannskepnuna en líka það að tengja hana við orkulindir lífríkisins, miðla hlýju og öryggi og glæða tilfinningaþroska og þá mennsku sem í samkenndinni felst.

Heimskreppan einangraði og vó að félagslegu öryggi, jók ótta og byrgði hann líka inni, olli óra og spennu, hlóð upp sprengjuefnum í margs konar skilningi. Þau sprungu í logum heimsstyrjaldarinnar síðari. Siðferðileg viðmið og skuldbindingar rofnuðu og umturnuðust. Vinátta á vígvelli gat sýnt sig í náðarskoti til að lina kvalir og stytta dauðstríð. Guð kemur aðeins fyrir í verki Steinbecks sem upphrópun og angistaróp. Og það sker í eyru, þegar komið er að konu Körleys látinni. - Er loksins komið að Guði í dauðanum? eða er hann ef til vill bara vonardraumur sem menn vakna af og finna þá hrollinn af kaldri og guðvana tilveru? Spyrja má í framhaldi ,,Músa og manna” hvar Guð sé á ferð í vergangi fólks, í kreppu og samfélagsupplausn, sem sannarlega er ekki aðeins fortíð og skáldskapur heldur fjölmörgum napur veruleiki og greinilegur á sjónvarpsskjá og af samtímatíðindum? Hvar er Guð í hjálparleysinu, fötlun og þroskahömlun?

Þótt mikill munur sé á músum og mönnum eiga þau það sameiginlegt að vera berskjölduð fyrir margvíslegum skakkaföllum og raunum í oft skjóllítilli tilveru sinni svo að vonarþrá og fyrirætlanir verða æði oft að engu. Músarkvæði Robert Burns er áleitið því það endurspeglar hrjúfan veruleika tilverunnar. Steinbecks lýsir honum með sínum hætti í ,,Músum og mönnum.” Samkenndin einkennir þó bæði kvæði Burns og skáldsögu og leikverk Steinbecks. Hún felur í sér trú og von og einkennir góðan skáldskap. ,,Voðalega áttu bágt, þú vonlausa þrá, og veröldin sem ekkert nema klakahjörtu á ”(Hörður Zophaníasson).

Leiðarstef skáldsögunnar og leikverksins ,,Mýs og menn” er öðru fremur vinátta Georgs og Lenna, samstaða þeirra í gagnkvæmri umhyggju og hlýju. Lenni á allt sitt undir umsjá Georgs komið, er metur einlægni og velvilja Lenna þótt íþyngi sér og ber byrðar hans sem fórnfús hollvinur. Lenni er afkastamikill í vinnu og ber létt föggur þeirra og er með sínum hætti ekki síðri vinur. Sorglegt er, en mikilvægt raunsannri sögunni, að Georg takist ekki að vernda Lenna frá ógæfunni, sem afl hans og áfergja í mýktina valda, sem jafnframt er þó aflgjafi vonardraumsins fagra.

Vinátta og viðleitni til góðs, umhyggja og elska, eru ávallt réttmæt að kristnum lífsskilningi enda þótt dugi ekki nema stundum til björgunar og til að ná farsælu marki. Í fórnfúsri elsku felst ljós sem skín í gengum myrkrið, og í því ljósi er Guð. Golgatamyrkur föstudagsins langa er myrkur hins synduga heims. Guð í Kristi er í myrkrinu miðju til að upplýsa það upprisundri og- bjarma. Þaðan sækir trúin sér hvata og styrk, vonin og elskan, hver sem kjörin eru til að sýna sig og sanna í veruleikanum og lýsa hann upp. Áskorunin er ávallt sú sama að rjúfa ótta og einangrun, glæða samkennd og vinaþel, skapa samfélag þar sem menn miðla gæðum, gæta og bera byrðar hvers annars. Með því uppfylla þeir lögmál Krists (Gal. 6.2).

Stjörnugjöf ****

Gunnþór Þ. Ingason