Öll þessi smáatriði lífsins ...

Öll þessi smáatriði lífsins ...

Nýlagað kaffi í könnu og ein brauðsneið – kannski ostur. Næring að morgni dags. Er eitthvað slæmt við það? Nei, þvert á móti, það er frábært. Finna eigin hjartslátt, vera til! Heyra óm af tali eða tónlist? Sjá sól rísa eða virða fyrir sér stálgrá og harðleit ský og spyrja: Hvað er eiginlega í aðsigi?
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
01. nóvember 2005

Hver nýr dagur sem okkur er gefinn opnar mörg tækifæri og vekur upp ýmsar hugsanir, bæði jákvæðar og neikvæðar. Við sjálf höfum daginn að mörgu leyti í okkar höndum og getum unnið úr honum að eigin geðþótta.

Gott er að spyrja sig á hverjum morgni: Hvað á ég að gera við þennan dag sem blasir við? Minna sig á að þegar þessi sami dagur er að kvöldi kominn þá kemur hann aldrei aftur. Hann er farinn og allt það sem fylgdi honum verður okkur minning sem er ýmist kær eða ekki. Minning sem við bjuggum til í félagi við aðra.

Við göngum að morgni dags að svo mörgu sem sjálfsögðum hlutum og viljum helst að allt fari eins og við sjálf kjósum. En svo er ekki alltaf. Þá reynir á hugarstyrk okkar og aðlögunarhæfileika; dagurinn rukkar okkur um markmið og stefnu í lífinu, spyr um skynsaman vilja. Auðvitað getur hver dagur sem rennur upp liðið hjá stefnulaust eins og bátskel í ölduróti - og án sýnilegs tilgangs – okkar er hins vegar að velja – sá á kvölina sem á völina.

Morgunn er nýtt upphaf – þá rís manneskjan upp oftast hvíld og endurnærð. Þessi undarlega vera með höfuð og hendur – með hugsun og vilja. Nóttin er að baki og þetta dularfulla fyrirbæri, svefninn, sem fornmenn sögðu vera bróður dauðans, hefur sleppt hörðu taki sínu. Enn einn ferðadagur á lífsins vegi tekur við. Kannski göngum við um kletta og klungur, eftir dimmum stíg og varasömum. Eða ganga okkar er nokkuð létt í þetta sinnið. Samferðamenn okkar geta verið okkur gleðigjafar eða þolraun. Hvað er þá til ráða? Umburðarlyndi og skilningur? Ónot og illska?

Sjaldan vinna manneskjur stórvirki á einum degi enda ekki heldur til þess ætlast. En þær vinna hins vegar að því smáa í lífinu – og til þess er nefnilega ætlast - lífið er samsett úr aragrúa smáatriða sem gefa okkur heillega mynd þegar búið er að raða þeim saman. Hvert smáatriði er mikilvægt út af fyrir sig – á sama hátt og hver manneskja er mikilvæg út af fyrir sig í spilverki lífsins – án einhvers smáatriðis væri sem eitthvað vantaði í lífið – eins og einn lágvær flaututónn úr einfaldri tréflautu getur gert eitt tónverk að ódauðlegu meistarastykki þá gildir hið sama um smáatriði lífsins. Einn og stakur tónn flautunnar er veikur en í samfélagi tónanna hljómar styrkur hans og tilgangur. Oft viljum við horfa fram hjá þessum smáatriðum og virðum þau ekki mikils – saman komin í eina heild upplýkst tilgangur þeirra. Við sjáum þá mynd af sjálfum okkur.

Hver eru þessi smáatriði lífsins sem hver dagur færir okkur að morgni? Allt þetta hversdagslega sem er hollt að hugsa til með kærleika og þakklæti – opna hugann og bjóða fram hlýjan faðminn í stað þess að saga í sundur sæstreng sálarinnar og ræsa frystikerfi hugans.

Nýlagað kaffi í könnu og ein brauðsneið – kannski ostur. Næring að morgni dags. Er eitthvað slæmt við það? Nei, þvert á móti, það er frábært. Finna eigin hjartslátt, vera til! Heyra óm af tali eða tónlist? Sjá sól rísa eða virða fyrir sér stálgrá og harðleit ský og spyrja: Hvað er eiginlega í aðsigi? Já, geta horft til dags sem er að ganga út úr svörtu bjargi næturinnar, ganga með honum í takti og vona það besta. Finna sig hafa tilgang, búa sér til tilgang, snúa upp á þungan hramm þunglyndis og neikvæðni sem ætlar að draga okkur ofan í Recycle Bin á desktoppnum.

Og allar þessar manneskjur í kringum þig, hver þeirra er sem ævintýri og veröld út af fyrir sig. Við leggum vegi til þeirra og klæðum þá ekki með svörtu malbiki heldur ljúfum orðum. Og vegur sem lagður er til manneskju sem stödd er í vanda þarf að vera traustur en ekki holóttur óvegur. Samband manna eru sem vegir og þeir eiga sér upphaf og einhvers staðar enda þeir eða tengjast öðrum. Eftir þessum vegum ferðumst við hvert til annars og aksturinn gengur yfirleitt vel – stundum lendum við úti í skurði eða förum yfir á rauðu ljósi. En við gefumst ekki upp.

Hver dagur er gjöf. Þú átt hann. Þakkaðu fyrir hann.