Jólin og sorgin

Jólin og sorgin

Jólin eru tími tilfinninga. Það er auðvelt að verða meir og sakna þeirra sem farin eru úr fjölskyldunni. Þessi árstími og hátíðin sjálf er því mörgum erfiður. Sorg, söknuður, kvíði, þessar tilfinningar fylgjast oft að og valda mikilli vanlíðan.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
22. desember 2014

Það er gott að fá að vera með ykkur hér í kvöld í Grafarvogskirkju og fjalla um jólin og sorgina. Söknuðurinn verður hvað sárastur á hátíð sem við höldum með fjölskyldu okkar þegar einhvern vantar í hópinn. Sjálf man ég eftir fyrstu jólunum án föður míns, sem hafði orðið bráðkvaddur um sumarið, daginn áður en ég fæddi frumburð minn í þennan heim. Það var einkennilegt að upplifa dauðann og lífið á sama sólarhringnum og á fyrstu jólunum vantaði mikið. Litla barnið sem heitir eftir föður mínum var mikill gleðigjafi og tók burt sárasta söknuðinn. En ósköp var hjartað samt lítið og stutt í tárin.

Jólin eru tími tilfinninga. Það er auðvelt að verða meir og sakna þeirra sem farin eru úr fjölskyldunni. Þessi árstími og hátíðin sjálf er því mörgum erfiður. Sorg, söknuður, kvíði, þessar tilfinningar fylgjast oft að og valda mikilli vanlíðan.

Í litlum bæjum eins og ég bjó í í mörg ár er samstaða mikil þegar eitthvað bjátar á. Nágrönnum og bæjarbúum er kunnugt um missi fólks og það hjálpar mjög þeim er syrgja. Hér veit ég um dæmi þess að íbúi í fjölbýlishúsi dó og íbúar hússins lásu það í blöðunum. Þess er gætt í plássinu mínu að enginn sé einn á jólum nema viðkomandi vilji það. Sjálfri fannst mér nöturlegt að vita af konu einni sem misst hafði og var ein. Hún vildi fá að vera ein um jólin. Hún sagðist ætla að kveikja á kerti og horfa á það og hugsa um það sem gott væri og hefði verið gefandi. Hún vildi það frekar en vera með fólki sem ekki var fjölskylda hennar. Hún sagðist geta grátið fyrir framan kertið ef tárin rynnu fram en innan um aðra þyrfti hún að hefta þau.

Það er eðlilegt að gráta og hollara en byrgja tilfinningarnar innan í sér. Þær verða að fá að koma fram og tárin geta verið græðandi. Sorgin þarf sinn tíma og hún þarf líka sinn farveg og ekkert er eðlilegra en að syrgja og sakna.

Við óskum hvert öðru gleðilegra jóla. Stundum finnst okkur e.t.v. einkennilegt að taka svo til orða þegar við vitum vel að gleðin býr ekki í hjarta viðkomandi. Á erfiðum stundum lífs okkar finnst okkur jafnvel að við lítum ekki glaðan dag framar eða getum nokkurn tímann hlegið. En það er svo merkilegt að lífið heldur áfram þrátt fyrir áföll og missi og smám saman tekst okkur að finna aftur þá tilfinningu að við getum notið þess. Það getur tekið tíma og krefst vinnu en reynslan mótar og fylgir okkur áfram á lífsins leið. Við verðum reynslunni ríkari er sagt. Það er þó ekki alltaf það ríkidæmi er við óskum okkur, en við sitjum samt uppi með.

Hvernig eigum við að takast á við sorgina og söknuðinn um jólin? Umhverfið kallar á gleði en sálin hrópar á hjálp. Það er erfitt að vera glaður þegar orkan fer í að hefta tárin og sárar tilfinningar. Hver manneskja finnur sína leið, því það sama hentar ekki öllum. Trúin hefur ákveðnar leiðir til að takast á við sorg og missi. Þar koma sterkt inn huggunartextar Biblíunnar og sálmar skáldanna til dæmis vers úr sálmi sr. Páls Jónssonar sem orti:

Í hverju, sem að höndum ber, og hvað sem bágt oss mætir, Þín hjálp oss nálæg ætíð er og allar raunir bætir.

Í Jóhannesarguðspjalli er frásaga um samtal lærisveinana og Jesú. Jesús segir þeim frá því að hann muni fara frá þeim og þeir verða mjög hryggir. En hann segir við lærisveinana: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar“. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu“. Jesús benti þeim líka á bænina, biðjið í mínu nafni, sagði hann. Hin óhjákvæmilega burtför Jesú var lærisveinunum hryggðarefni en vitundin um nærveru Guðs hjálpaði þeim að horfast í augu við hana.

Við getum farið leið trúarinnar. Treyst því að við erum ekki skilin eftir ein og yfirgefin þrátt fyrir allt. Við megum biðja, við megum treysta á nærveru Guðs og við megum koma saman í nafni hans.

Þessi árstími og hátíðin sjálf, sérstaklega aðfangadagskvöld, eru tilfinningaríkur tími. Það er hægt að loka á tilfinningarnar um stund en það verður ekki gert til eilífðar. Tilfinningarnar verða að fá að brjótast út. Sorgarferlið verður líka að fá að ganga sinn gang og ekki er verra að kynna sér það til að styrkjast í þeirri vissu að líðanin er afleiðing sorgarferilsins, þeirrar reynslu sem gengið er í gegnum. Þar koma m.a. við sögu lost og afneitun, útrás tilfinninga, líkamleg einkenni, depurð, sekt og reiði áður en fer að sjá til sólar á ný. Þessar tilfinningar geta svo dúkkað upp aftur og aftur og jafnvel þegar síst varir og við höldum að við séum komin í gegnum sorgina og missinn.

Á jólum þráum við að það ríki friður innra með okkur og friður í umhverfi okkar. Við þráum samvistir við þau sem okkur eru kær, fjölskyldu okkar. Einhverjir kvíða jólum vegna þess að það vantar upp á gefandi samskipti í fjölskyldunni. Það verða líka breytingar og það sem var verður aldrei eins, því börnin stækka, ellin sækir á og mamman sem tók á móti öllu sínu fólki er komin á þann stað að vera þiggjandi en ekki veitandi. Þessar breytingar geta líka valdið kvíða og áhyggjum og jafnvel sorg.

Þegar missir hefur orðið í fjölskyldum og sorgir gert sig heimakomna er gott að vita af góðum vinum og fjölskyldu. Það er það sem gefur kraftinn til að halda áfram og heldur í vonina um að hægt sé að halda áfram veginn. Öflugt stórfjölskyldulíf kallar líka fram þakklæti fyrir það sem við eigum og treystum á. Þrátt fyrir allt er hægt að þakka fyrir eitthvað í þessu lífi. Þakklæti er okkur kannski ekki efst í huga þegar við missum þann er okkur þykir vænt um. En þegar fram í sækir kalla góðar minningar og samheldni þeirra sem næstir standa fram þakklæti í huga. Söknuðurinn fer ekki en hugurinn leitar að því sem gott var og þakkarvert.

Mér skilst að hér í kirkjunni sé bæklingur um jólin og sorgina, sem hægt er að taka með sér heim. Það er gott að eiga lesefni sem hægt er að grípa í því sorgin getur gert vart við sig á ólíklegustu stundum. Það er hvorki einsdæmi né óeðlilegt.

Það er græðandi að treysta því að Kristur skilur okkur ekki eftir ein og yfirgefin frekar en lærisveinana forðum. Þó við bugumst og bognum þá er alltaf von um að við brotnum ekki heldur verðum reist upp og getum aftur tekið þátt í lífinu, glaðst yfir því sem var og treyst því að aftur getum við notið lífsins þrátt fyrir allt. Þó við finnum ekki fyrir gleði í ár er von um að einhverntímann getum við horft með gleði til jólanna og notið þeirra.

Að lokum vil ég lesa lokaerindi Aðventuljóðs Ragnars Inga Aðalsteinssonar sem margir þekkja:

Í myrkrinu aðventuljósin loga sem lýsandi himnesk rós. Ógnþrungnir skammdegisskuggar víkja við skínandi kertaljós. Á jörðinni fölskvast hin andlegu efni og oft er hér þungbær vist. Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun að hugsa um Jesú Krist.

Guð blessi ykkur og gefi ykkur huggun og styrk til að taka á móti jólahátíðinni. Gleðileg jól.

Flutt í Grafarvogskirkju.