Skrímslið undir rúminu

Skrímslið undir rúminu

Skrímslið undir rúminu er raunverulegt á meðan það rænir okkur svefni og þá er ekki mikilvægast að skilja hvernig það komst þangað, heldur að öðlast verkfæri til að horfast í augu við skrímslið.

Sögur af skrímslum, óvættum og illum öndum hafa fylgt manninum frá ómunatíð og þjónað margvíslegum tilgangi í samfélagi manna. Skrímsli vekja óhugnað hins illa og í flestum tilfellum hins óþekkta. Í hafinu býr samkvæmt Gamla testamentinu frumskrímslið Levjatan, sem ýmist er lýst sem ormi eða dreka, og á skyldmenni í sögnum um allan heim, bæði í fornum sögnum Mesapotamíu og á norrænni slóðum, samanber drekann Fáfni og Miðgarðsorm. Við jaðra okkar heims búa jafnframt kynjaverur. Í 1. Mósebók er sagt frá því að þegar Adam og Eva yfirgáfu aldingarðinn og tóku að fjölga sér á jörðinni hafi þar verið risar Nephalim, sem ekki hafi verið mennskir en ógnuðu dætrum mannanna. Slíkar sögur af risum og tröllum við jaðra hins þekkta heims birtast í grískum, rómverskum og germönskum sögnum í formi Títana, jötna og þursa og búa handan landamæra hins þekkta.

Á okkur tímum hafa landamærin færst til, skrímsli hafdjúpanna eru viðfangsefni vísindanna og alþjóðavæðingin hefur gert heiminn að þorpi, sem hægt er að skoða í heild sinni á Google earth. Skrímsli nútímans eru íbúar stjarnanna og flestar skrímslagoðsagnir samtímans vinna á einhvern hátt með þann veruleika. Hetjusagnir af mótum manna við hið óþekkta tilheyra ekki fortíðinni, þó skrímslin hafi breyst, og slíkar sagnir fylgja forskriftum sem birtast í öllum slíkum sögnum. Hetjan er kölluð, treg til, að mæta hinu óþekkta, yfirbugar ótta sinn, mætir skrímslinu og yfirbugar það andstætt öllum líkum.

Sigurinn á skrímslinu er ekki unninn í bardaganum sjálfum í þessum sögum heldur á þeim tíma þegar köllun og undirbúningur hetjunnar á sér stað. Ótti hetjunnar er yfirleitt undirstrikaður með því hugrekki sem hún sýnir í því að horfast fyrst í augu við köllun sína og ótta og síðan er bardaginn sjálfur afleiðing þess sigurs. Drekinn er hið innra og hafi hann verið kveðinn niður er bardaginn unninn, hvernig sem leikar fara.

Uppspretta þess hugrekkis er að finna í bæninni og öll þekkjum við að óttast sem barn þau margvíslegu skrímsli sem búa í myrkrinu eða undir rúminu og verða einungis kveðin niður með kvöldbæn. Þessa upplifun bernskunnar þekkja flestir í einhverri mynd og þau börn sem alast upp við gjöfult bænalíf af hendi uppalanda geta í gegnum lífið sótt í það öryggi sem bænalíf við rúmstokkinn veitir.

Frá barnsæsku minni man ég skýrast óttann við ET, eins kjánalegt og það kann að hljóma. Móðir mín fór með mig, 5 ára gamlan, á bíó að sjá barnamyndina um geimveruna vinalegu og ég varð vægast sagt skelfingu lostinn. Lengi á eftir lá ég andavaka um nætur og sá fyrir mér geimskip lenda í bakgarðinum okkar og þessa skelfilegu skepnu nálgast mig með sinn glóandi fingur. Ég man jafnframt þá stundu þegar ég tók sjálfur ábyrgð á eigin bænalífi með því að læra utan að töfraþuluna Faðir Vor, sem af hendi móður minnar hafði jafnað sefað ótta minn. Bænin hjálpaði ekki síður þegar ég bað hana einn, þó ég hafi á þeim tíma haft takmarkaða þekkingu á inntaki hennar og merkingu orðanna.

Þó bernskuhugurinn upplifi öryggi bænarinnar sterkt er máttur bænarinnar ekki síðri á fullorðinsárum og gjöfult bænalíf í bernsku getur lagt grunninn að bænalífi sem þjónar manni út lífið. Ég hef reynt og séð, bæði í eigin lífi og í gegnum starf mitt sem prestur, hver máttur bænarinnar er. Andspænis skrímslum heimsins, sem birtast í mörgum myndum í lífi okkar, hið ytra í formi áfalla, óréttlæti og aðstæðna sem við ráðum ekki við og hið innra í formi þeirra erfiðu hugsana sem herja á hugann og hindra okkur í að njóta lífsins til fulls.

Guðspjall dagsins segir frá samskiptum Jesú við illa anda, sem hann rekur út úr þeim sem kvaldir eru. Lækningar hans eru dregnar í efa af andstæðingum sínum, líkt og víða í guðspjöllunum, og í þetta sinn er ásökunin að hann reki út hið illa vegna þess að hann sé sjálfur handbendi þess eða ,,með fulltingi Beelsebúl”. Nafn djöfulsins í þessari frásögn var gyðingum þekkt, en Baal Zebul merkir á máli Fílistea Guð hinn hæsti og var því guð nágrannaþjóðar Ísraels á tímum Davíðs konungs. Hér birtist sú forna hugmynd að andstætt hinum eina Guði, sé andstæðingur sem tekur myndir þeirra Guða sem þjóðin á sökótt við hverju sinni, og Jesús er því sakaður um að vera í valdi útlenskra afla að reka út hin illu öfl sem herja á það fólk sem hann er aðstoða.

Sú heimsmynd að í umhverfi okkar séu illir andar á sveimi, sem tekið geta sér bólfestu og kvalið manneskjur að vild, er mér jafn fjarstæðukennd og ET. Sé frásögnin hinsvegar ekki lesin bókstaflega er hún í senn viðurkenning á því stríði sem getur geisað í sálarlífi fólks og vitnisburður um mátt bænarinnar andspænis kvalarfullum hugsunum. Slík sálarangist getur sannarlega staðið undir þeirri líkingu að vera andsetinn.

Ég hef eitt sinn orðið vitni að slíkum bænamætti. Ég var fyrir mörgum árum beðinn um að koma til aðstoðar manni sem vildi komast úr vítahring vímuefnaneyslu og fór með félaga mínum að hitta hann í kjallaraholu í miðbæ Reykjavíkur. Viðkomandi hafði verið í neyslu um nokkurt skeið og var í bráðri hættu, sökum þess að hann hafði notað endurtekið sömu nálar og var með sýkingu í æðum sem mátti sjá með berum augum. Þegar við komum á staðinn var hann hinsvegar í annarlegu ástandi og við skynjuðum það fljótt að þó hann hafi kallað á aðstoð okkar var hann í engu ástandi til að ræða við okkur. Hann skalf og hristist, hreytti í okkur fúkyrðum og var augljóslega í mikilli kvöl. Í stað þess að reyna að yfirbuga manninn, fórum við báðir á hnén og báðum hann um að koma með okkur og biðja til Guðs. Bænin var 12 spora bæn, hin svokallaða 3. spors bæn, sem er ákall um umsjá og vernd Guðs og að leggja líf sig í hendur hans.

Guð, ég fel mig þér á vald svo að þú getir mótað mig og gert við mig það sem þér þóknast. Leystu mig úr fjötrum sjálfshyggjunnar svo að ég megni betur að gera vilja þinn. Taktu frá mér erfiðleikana svo að sigurinn yfir þeim geti orðið þeim sem vil hjálpa vitnisburður um mátt þinn, kærleika og lífið mér. Hjálpaðu mér að fara ævinlega að vilja þínum (AA bókin, 2. útg. s. 60-61).
Friðurinn sem fylgdi þessari bæn var áþreifanlegur og féll á um leið og við hófum að biðja. Maðurinn róaðist og gat þegið aðstoð okkar. Við komum honum undir læknishendur og inn í áfengismeðferð. Hvernig sem skýra má þennan snögga viðsnúning á líðan og háttarlagi mannsins er hann áþreifanlegur vitnisburður um mátt bænarinnar.

Það er flókið að vera manneskja og á hverjum tíma erum við í gegnum lífið að mæta og vinna úr erfiðum tilfinningum, áföllum og reynslum. Hjá því verður ekki komist. Bænin er ekki töfralausn eða endanleg lækning, en hún er sannarlega uppspretta máttar, friðar og hugrekkis, sem reiða má á. Líkt og í hetjusögnum bókmenntanna, er sigurinn unninn í undirbúningi okkar og bænaiðkun.

Óvættir hetjusagna, sæskrímsli, drekar og geimverur, verða sjaldnast á vegi okkar, en tilgangur hetjusagna er ekki að greina frá sagnfræði heldur að miðla táknfræði sem gagnast okkur í lífinu. Skrímslið undir rúminu er raunverulegt á meðan það rænir okkur svefni og þá er ekki mikilvægast að skilja hvernig það komst þangað, heldur að öðlast verkfæri til að horfast í augu við skrímslið. Í erfiðleikum okkar er sjaldnast hægt að fá endanleg svör um tilgang og tilurð þeirra, en sigurinn felst í að þiggja hjálp til að taka slaginn og mæta þeim af hugrekki og þá tapa erfiðleikarnir valdi yfir líðan okkar og lífi.

,,Já, sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það."