Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans

Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans

Hvítasunnan er ein af þremur stórhátíðum kristninnar. Hátíð heilags anda, afmælishátíð kirkjunnar, heilagur andi kom yfir lærisveinahópinn samkvæmt fyrirheiti hins upprisna, og hinn kristni söfnuður varð til.

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“

Jóh. 14. 15-21

Biðjum saman: Vertu Guð faðir faðir minn í Frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

Gleðilega hátíð! Hvítasunnan er ein af þremur stórhátíðum kristninnar. Hátíð heilags anda, afmælishátíð kirkjunnar, heilagur andi kom yfir lærisveinahópinn samkvæmt fyrirheiti hins upprisna, og hinn kristni söfnuður varð til. Eitt af því sem einkenndi þennan merkilega dag var, að allir viðstaddir skildu fagnaðarerindið, Guðs orðið varð lifandi og náði hjörtum þeirra sem þarna stóðu, en þeir voru margir, í Postulasögunni segir að um 3000 manns hafi hlotið heilaga skírn þennan hvítasunnudag. Ástæðan fyrir því að svo margir voru í Jerúsalem þennan dag var sú, að þá stóð yfir ein af stórhátíðum Gyðinga, hátíð Orðsins, þ.e. þeir komu saman til að minnast þess, þegar Móse fékk boðorðin 10 á Sínaífjalli. En þar fór fram hátíð, guðsþjónusta, þar sem Guð gerði sáttmála við lýðinn, þ.e. Guð gaf þeim Orðið, fyrirheitin, blessunina og lýðurinn svaraði með sinni trúarjátningu kannski syngjandi: Við viljum gera allt það sem Drottinn býður. Þannig segir í 2. Mósebók. - Þarna var tónninn gefinn, síðan hefur guðsþjónustan þróast öld fram af öld í þessum anda, þ.e. um Guðs orðið, játninguna og samfélagið.

Í upphafsorðum Biblínnar segir: Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Jörðin var auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.

... og andi Guðs sveif yfir vötnunum! M.ö.o. hin heilaga þrenning kom strax til sögunnar. Meðan allt var að verða til, þá var hinn þríeini Guð að störfum. “Hann sveif yfir vötnunum”, - til hvers?, - jú, til að blessa, til þess að gefa líf. Lífið kviknaði jú í vötnunum.

Það hefur oft verið deilt um sköpunarsögur Biblínnar og þróunarkenningar vísindamannanna. Enn í dag heyrast raddir þess eðlis að þetta tvennt sé ósættanlegt. Því fer fjarri, þetta fer raunar vel saman. Sköðunarsögur Biblíunnar, en þær eru tvær í 1. Mósebók og sköpunarstefin í Sálmunum og víðar í Gamla testamentinu eru fyrst og fremst ljóð. Þessir textar eru ekki náttúrufræði eða líffræði, heldur guðfræði, sálmar, ljóð um hið skapaða, ljóð um fegurðina, ort og skrifað í undrun og þakklæti til Guðs fyrir allt sem Guð hefur gefið.

Vísindin eru að gera marga góða hluti og enn er verið að rannsaka upphaf lífsins. Í því sambandi koma iðulega fram nýjar og spennandi kenningar og tilgátur, - það er gott. Ábyrgð vísindamannsins er líka mikil.

En sköpunartrúin byggist á því að á bak við allt líf, á bak við allt sem er, sé Guð, skaparinn eilífi. Það er svo margt í sögunni, í reynsluheimi mannkynsins, í heimspekinni, guðfræðinni, vísindunum, sem styður það, að þekking og trú geti vissulega farið saman, átt uppbyggilegt samtal, nú sem fyrr.

... og andi Guðs sveif yfir vötnunum!

Þetta Guðs orð undirstrikar, að við megum trúa því, að á bak við allt líf á þessari jörð, allt lífríkið, sé helgur vilji, góður Guð, sem elskar sköpun sína, sem hefur gefið okkur hlut í þessu öllu með sér, og meira en það, falið okkur ábyrgð, hvatt okkur til dáða, - að njóta sköpunarverksins, nýta það til góðs, en ekki síst gæta þess, þ.e. vera samverkamenn Guðs í hinu góða og uppbyggilega verki.

Hugsið ykkur þessa litlu jörð, sem er í rauninni ekki nema eins og sandkorn í alheiminum, því hann er stærri en við getum skilið, óendanlega stór. Við þekkjum svolítið okkar vetrarbraut, þekkjum jafnvel stjörnumerki og einstaka stjörnur, en stjörnufræðingar segja okkur að vetrarbrautirnar séu fleiri en 200 milljarðar. Stærðir sem venjulegt fólk nær ekki að átta sig á. Í þessari stjörnumergð er jörðin, eins falleg og hún nú er, okkur gefin til þess að nýta hana til þess að lifa á henni í sátt og samlyndi.

Jörðin er í þróun, náttúruöflin minna rækilega á sig um alla jörðina, eldgos, jarðskjálftar meira og minna í öllum heimsálfum, þurrkar, hvirfilvindar, skriðuföll svo eitthvað sé nefnt. Við þessu getum við lítið gert, annað en að fylgjast grannt með, nota mælitæki og útreikninga til að vara okkur á hættunum hverju sinni. Við þurfum að lifa með þessum hættum. Blessað fólkið á suðurlandinu, sunnan jökla, þar sem askan hefur mest borist um og skapað erfiðleika, hefur sannarlega fengið sinn skerf, ekki bara einu sinni, en nú ár eftir ár. - Maður getur ekki annað en dáðst að æðruleysinu og kjarkinum sem fólkið sýnir og glaðst yfir umhyggjunni og elskuseminni sem svo margir hafa sýnt, já virkilega tekið til hendinni til hjálpar og stuðnings á svo margvíslegan hátt.

Reynslan á þessu landi er sú, að við höfum lifað þetta af, við mætum þessum holskeflum, tökumst á við þær og sigrumst á þeim með Guðs hjálp.

“Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð, vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn... “ Þannig höfum við brugðist við sem þjóð og sem einstaklingar, - Þjóðsöngurinn er gott dæmi um það.

Sköpunarverkið og allt sem því fylgir er eitt, en mannlífið, það, hvernig við notum jörðina og hvernig okkur stöðuglega mistekst að stjórna, skifta gæðunum og láta okkur koma saman, það er annað. Á þeim vettvangi höfum við sannarlega ástæðu til að syrgja vonskuna, ljótleikann í mannlegum samskiftum, styrjaldirnar, ófriðinn, sem fréttir dagana eru yfirfullar af. Þetta er hræðilega dapurlegt ekki síst vegna þess að þetta er okkur að kenna, við mennirnir höfum ekki lært nóg af mistökunum, af sögunni, tökum ekki nægilegt mið af vegvísunum til góðra verka.

Vegvísarnir eru margir og þeir eru ekki síst margir í kristinni trú og hefð. Guðs heilaga orð er vegvísir, enda er það svo að við erum ekki læs á menningu okkar nema að kunna skil á Biblíusögunum. Þess vegna er það afar þakkarvert, að Gidenmenn hafa um áratuga skeið gefið öllum skólabörnum landsins NT, kærleiksverk sem er til fyrirmyndar. Þetta má ekki hindra með miskilinni umræðu um mann-réttindi.

Hvað stóð ekki í guðspjallinu, haft eftir Jesú: Ef þér elskið mig, þá munuð þér halda boðorð mín. Hvað var æðsta boðorðið að mati frelsarans, jú það var, að elska Guð af öllu hjarta, allri sálu og öllum huga, - og náunga þinn eins og sjálfan þig. - Þetta er ekki flókin lagasetning, en hún þarf að vera sífellt fyrir augum okkar, efst í huga okkar, ef hún á að gagnast okkur.

Þegar Jóhannes skírari stóð úti í ánni Jórdan og skírði Jesú, þá ...sveif andi Guðs yfir vötnunum, og rödd af himni sagði: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á, hlýðið á hann.

Þegar ég og þú lágum umlukt vatni í móðurkviði, þá sveif andi Guðs yfir þeim vötnum til þess að gefa líf, - og þegar skírnarvatnið rann um höfðu okkar, sem höfum hlotið skírn, þá var heilagur andi þar til að endurfæða, til að gefa líf, mennsku, von um eilíft líf.

Í guðspjalli dagsins segir Jesús svo fallega: “Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans”. Heilagur andi fær ýmsar fallegar myndir í guðs orði, hann er hjálpari, huggari, hann upplýsir um synd, réttlæti og dóm, hann hjálpar okkur til að skilja Guðs heilagt orð, að sjá það sem skiftir máli í lífi og dauða.

Andi sannleikans gefur frelsi, vísar réttan veg.

Það hafa verið stofnaðar sannleiks-nefndir í þjóðfélagi okkar, rannsóknarnefndir, sem eiga að skýra mál, komast að því sem er rétt og satt. Kirkjuþing stofnaði eina slíka nefnd til þess að rannsaka viðbrögð við ásakanir um kynferðisbrot. Þessari rannsókn er lokið, Kirkjuþing hefur tekið við skýrslunni og mun fara yfir hana og bregðast við eins og unnt er. Við þurfum að læra af henni, skerpa reglur og leitast við að vanda vinnubrögð enn frekar. Skýrslan sýnir okkur að mistök hafa verið gerð, það harma ég, en í því liggur áskorun til okkar í kirkjunni að læra af mistökunum.

Þjóðkirkjan hefur á undanförnum árum aðhafst mikið til að taka á málum sem þessum, með sérstöku fagráði, með strangari reglum um starfsfólk í barna- og æskulýðsstarfi svo eitthvað sé nefnt. Það er leitast við að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir kynferðistlegt áreiti og ofbeldi. Þjóðkirkjan hefur gengið lengra í þessum aðgerðum en margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins hafa gert, og það er vel. En betur má ef duga skal.

Heilagur andi, andi sannleikans og kærleikans er hér í dag til þess að mæta okkur hverju og einu, fylla okkur friði, til þess að veita huggun, styrk og kraft. Guðs orðið og kraftur þess er enn til staðar, því megum við trúa. Sterkasta sönnun þess er, að kirkjan hefur fengið að lifa allar þessar aldir, oft við ofsóknir og erfiða tíma, breyska leiðtoga, mistök og oft röng vinnubrögð og viðbrögð.

Ef þér elskið mig, þá munuð þér halda boðorð mín.

Samkvæmt kristinni kenningu, þá erum við sköpuð til samfélags við Guð, við erum sköpuð í Guðs mynd til þess að hjálpast að í kærleika. Guðs orð varð hold á jörð til þess að gefa líf, andlegt líf. Eins og faðirinn sendi mig, eins sendi ég yður, sagði hinn upprisni við lærisveinahópinn. M.ö.o. Guðs orðið, blessun himinsins á að holdgast í gjörðum okkar, verða virk í verkum okkar, samskiftum okkar, en til þess þurfum við að vera tengd. Þeir sem nota tölvur vita hvað það er nauðsynlegt að vera tengdur, dagurinn verður nánast ónýtur ef nettengingin er ekki í lagi.

Tengingin við Guð er okkur gefin í bæninni, Guðs orðinu, samfélagi kirkjunnar, í sakramentunum, í kærleiksþjónjustunni við náungann.

Við höfum greiðan aðgang að þessu öllu. Köllun kirkjunnar er sú sama í dag og í gær og um aldir, að taka á móti gjöfum Guðs, Guðs orðinu, blessuninni, - en fara svo út í veröldina til að þjóna í anda Krists, taka fullan þátt í þjóðfélaginu, létta undir með þeim sem eru í vanda, leitast við að gera þjóðfélagið manneskjulegra, sannara, réttlátara og friðsamlegra.

... og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Leyfum Heilögum anda Guðs að umlykja okkur á þessari hvítasunnu, já alla daga lífs okkar, þannig að við skiljum Orðið, sjáum skýrar, heyrum skýrar, sjáum í auknum mæli Krist í náunga okkar, mannkyninu og sköpunarverkinu til bjargar. Til þess hjálpi okkur góður Guð. Biðjum með versi úr sálmi Sigurbjörns biskups.

Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta, Heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar, Uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar, Ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig, Anda nú þinni elsku inn í mig.