Erfiðar skoðanir

Erfiðar skoðanir

Það er ekki sérlega auðvelt að hafa skoðanir - en það er mikilvægt, ekki síst þegar samfélag stendur á krossgötum eins og nú er. Skoðanalaus maður er eins og villtur ferðalangur með bilaðan áttavita. Hann ráfar um í hringi þar til orkan er á þrotum.

Það er ekki sérlega auðvelt að hafa skoðanir nú á þessum tímum. Í vikunni hlýddi ég á tvo mæta menn deila um hana Ísbjörgu (Icesave). Átti ég í megnustu vandræðum að greina á milli hvorum þeirra ég ætti að vera sammála. Raunar vissi ég enn síður mitt rjúkandi ráð í þessum efnum eftir að hafa fylgst með rökræðum þeirra.

Þetta er ekki eina dæmið um það hversu flókinn veruleikinn getur gert okkur erfitt um vik að komast að afgerandi niðurstöðu. Þrátt fyrir yfirgengilegt upplýsingamagn er oft erfitt að móta sér endanlega skoðun í hinum ýmsu málum. Stundum verður niðurstaðan einhvern veginn á þá leið, að sitt sýnist hverjum. En það er auðvitað engin niðurstaða.

Svona hefur þetta ekki alltaf verið. Á sjöunda og áttunda áratugnum risu ungmenni upp víða um hinn vestræna heim og héldu á lofti mjög afgerandi skoðunum. Þær gengu út á aukið félagslegt jafnrétti, náttúruvernd og umhyggju fyrir náunganum. Veruleikinn stóð hins vegar ekki undir væntingum þeirra, þrátt fyrir að margir úr þessum hópi hefði síðar komist til valda. Ungt fólk í dag virðist ekki jafn brennandi í andanum. Vart er þó minni ástæða til þess að andmæla ýmsu því sem á gengur. En skoðanirnar eru erfiðar þegar upplýsingarnar flæða út um allt.

Það er ekki sérlega auðvelt að hafa skoðanir - en það er mikilvægt, ekki síst þegar samfélag stendur á krossgötum eins og nú er. Skoðanalaus maður er eins og villtur ferðalangur með bilaðan áttavita. Hann ráfar um í hringi þar til orkan er á þrotum.

Ég mæli eindregið með því að við hlúum að skoðunum okkar. Við megum alveg breyta þeim ef okkur sýnist svo - en við skulum ekki gefast upp, og láta eins og það sé valkostur að hafa enga skoðun.

Góð byrjun fyrir þann sem vill rækta skoðanir sínar er Gullna reglan: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Þarna er fín skoðun sem vert er að hafa. Hún er vissulega stundum erfið - en ekki vegna þess hversu flókin hún er, heldur vegna þess að hún gerir kröfur til okkar.

Við getum hins vegar verið þess fullviss að ef við fylgjum henni eftir í lífinu koma aðrar skoðanir okkar af sjálfu sér - og þær verða án nokkurs vafa góðar skoðanir!

Pistill þessi birtist í Suðurnesjatíðindunum