Konungur konunganna

Konungur konunganna

Hvað á sér stað þegar Jesú týnist? Leitar þú þá að honum?
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
26. desember 2010
Flokkar

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Vilt þú hitta drottningu?

Hvaða drottningu?

Englandsdrottningu.

Tilefni spurningarinnar var að sendiherra Íslands á Bretlandseyjum átti að afhenta Englandsdrottningu trúnarðarbréf sitt fyrir nokkru síðan.

Englandsdrottning hefur þann hátt á, einn fárra þjóðhöfðingja í heiminum að hitta hvern nýjan sendiherra sendiríkis á sérstökum fundi.

Margir þjóðhöfðingjar taka aftur á móti við nokkrum trúnaðarbréfum sendiherra í einu.

Íslenska sendiherranum bauðst að taka með sér til hallarinnar nokkra starfsmenn sendiráðsins.

Sá sem var spurður hvort hann vildi hitta Englandsdrottningu þáði boðið, hafði aldrei stigið fæti fyrr inn í höll og hlakkaði til heimsóknarinnar.

Vissi að þetta yrði upplifun.

Nokkrum vikum fyrir heimsóknina barst viðkomandi nokkurra síðna bréf frá hirð drottningar þar sem útskýrt var meðal annars; hvaða klæðaburður væri leyfður í heimsókninni, hversu langan tíma heimsóknin myndi vara, hvernig ætti að heilsa drottningu með hneigingu og hvernig skyldi ávarpa hana.

Viðkomandi þurfti að leigja sérstök föt fyrir heimsóknina og hafði aldrei verið í jafn vel bustuðum skóm þegar heimsóknardagurinn rann upp.

Nákvæmlega á tilsettum tíma knúði lávarður drottingar dyra hjá sendiherra, heilsaði með virtum og bauð hópnum að fylgja sér til hallar drottningar.

Lávarður var klæddur í sérstakan viðhafnarbúning með mikinn fjaðrahatt á höfði.

Í fylgdarliði hans voru nokkrir lögregluþjónar meðal annars á hestum.

Einnig voru með í för ökumenn á tveimur hestvögnum og menn sem stóðu aftan á sitt hvorum vagninum.

Síðan var haldið af stað og umferð stöðvuð á leið til hallar.

Þangað var komið rétt fyrir hádegi, á sama tíma og lífvarðarskipti fóru fram og voru því þúsundir fyrir utan höllina.

Einhverjir í mannfjöldanum veifuðu til fólksins í hestvögnunum og síðan var farið í gegnum hallarhlið og inn í hallargarð og lífverðir drottningar heilsuðu aðkomufólkinu.

Staðarfólk fór svo yfir helstu framkomureglur með gestum áður en hennar hátign yrði heilsað.

Salardyr opnuðust og drottning heilsaði af hlýju og spjallaði alúðlega í stutta stund við gesti sína og svo var kvatt.

Hér er um að ræða frásögn af heimsókn til veraldlegar hátignar.

Heimsókn með ákveðnum hefðum og venjum.

Annar atburður tengdur annarri hátign átti sér stað nýverið í húsi í veturbæ Reykjavíkur.

Heimilisfaðirinn þar hafði keypt jötusett í veglegri stærð og sett upp í stofunni.

Fjölskylduboð var svo á heimilinu.

Þegar ættingi var nýkominn í boðið sá hann gestina sem voru komnir og heimilisfólk vera að leita að einhverju.

Greinilegt var að leitað var mikilvægs hlutar.

Ein amman spurði svo eitt barnið á heimilinu: “Mannstu örugglega ekki hvar þú lést hann?”

Og barnið vissi það ekki.

Ástæðan fyrir leitinni nákvæmu var að Jesúbarnið úr jötusettinu, sem nýbúið var að kaupa var týnt.

Hvað á sér stað þegar Jesú týnist?

Leitar þú þá að honum?

Hefur Jesús Kristur merkingu fyrir þig og þitt líf? ______________________ “Sjá konungur þinn kemur til þín” segir í einum sálmanna í Sálmabókinni: “Hallelúja, hallelúja, hallelúja. Ég vil lofa Drottin meðan lifi, meðan ég er til. Sjá, konungur þinn kemur til þín, blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins”.

Það fylgjast ýmsir með konungum, drottningum, prinsum og prinsessum þessa heims.

Ástæður þess eru efalaust margvíslegar.

Í árlegu ávarpi Elísabetar II Englandsdrottingar til þjóðar sinnar í gær ræddi drottning meðal annars um mikilvægi kristins boðskapar og lokaorð ávarps drottningar var Gullna reglan úr sjöunda kafla Matteusarguðspjalls. “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.”

Átt þú hátign?

Átt þú andlega hátign?

Átt þú ljós sem lýsir þér um lífsins veg?

Er það Jesús Kristur? ___________________ Orðið aðventa þýðir konungskoma.

Þessi koungskoma er ekki aðeins væntanleg í framtíð heldur sífersk nútíð segir kristin trú. “Konungur koungunna kemur nú til sinna manna.” er sungið á aðventunni. “Lávarður heims, konungur lífs vors og ljóss, Guð er sjáflur gestur hér”. segja jólin. “Kóngur lífs á krossi deyddur, lífið sanna, sólin manna.” segja páskarnir. ______________________ Og sjá hann kemur einnig til þín.

Þú ferð ekki til hans í hestvagni í höll, klædd eða klæddur í fín föt og vel bustuðum skóm.

Heldur er hann sífellt að koma til móts við þig.

Og hann elskar þig eins og þú ert. Hann lítur á þitt innra.

Hann bíður ekki efstu vegamóta, þegar enginn getur umflúið hann.

Hann er alltaf að leita þín til þess að vekja þig til dagsins, til birtunnar, lífsins, ríkisins eilífa.

Hann kemur.

Allt annað fer.

Það var eitt sinn í fermingarfræðslutíma, seint á föstudegi.

Unglingarnir í fræðlsutímanum voru orðnir þreyttir.

Umræðuefnið var líf og dauði.

Presturinn fann að athygli unglinganna hafði minnkað til muna og sagði þá stundarhátt yfir hópinn: “Ég veit einn hlut um alla hér inni”.

Þögnin varð skyndilega alger og augljóst að allir unglingarnir hlustuðu.

Þessu vildu þau greinilega ekki missa af.

Svo sagði presturinn: “Það er að allar manneskjur munu einhvern tíman deyja”.

Þögnin var algjör og greinilegt að þessi orð náðu til unglinganna.

Hvers vegna náðu orðin til unglinganna?

Burtför er yfirskirf okkar allra og alls, sem er af þessum heimi.

Allt líður undir lok, einnig sá himinn og sú jörð, sem við eigum.

En tilkoma er yfirskirft kirkjunnar, því hún lýtur þeim Drottni, sem ekki fer, ekki fjarlægist eftir því sem aldir líða, heldur kemur.

Hefur til dæmis; tíma, hefur þolinmæði, hefur kærleika, hefur von og tekur þér eins og þú ert.

Drottinn kemur, Jesús Kristur er í nánd.

Hann og hans ríki er framundan.

Hann og hans sigur er framtíðin.

“Heimi í hátíð er ný, himneskt ljós lýsir ský, liggur í jötunni lávarður heims, lifandi brunnur hins andlega seims, :,:konungur lífs vors og ljóss:,:

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen