Óveður í aðsigi

Óveður í aðsigi

Okkur líður eins og allt sé farið að fjúka en við fengum enga stormviðvörun. Í slíku mótlæti og þjáningu tökumst við á við tilvistarpurningar lífins og glímum við trúna okkar. En hvernig glímum við í trúnni? Erum við tilbúin til að segja það upphátt ef við efumst? Erum við tilbúin til að horfast í augu við það ef okkur líður eins og Guð hafi yfirgefið okkur?
Flokkar

regnbogi.jpg Óveður í aðsigi

Stormviðvörun frá Veðurstofu íslands, óvissuástand vegna jarðskjálfta og hættustig vegna snjóflóðahættu

Veðurstofa Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hafa séð ríkar ástæður til að gefa út ýmiskonar viðvaranir vegna veðurs, yfirvofandi jarðskjálfta og snjóflóðahættu þetta haustið.

Þegar óveður er í aðsigi fer ákveðið ferli í gang. Við skoðum okkar nánasta umhverfi, tökum inn dótið sem enn stendur á svölunum, pallinum eða í garðinum eftir sumarið, festum það sem festa þarf og reynum af fremsta megni að búa okkur undir það sem koma skal. Og eftir því sem líður á haustið og viðvaranirnar verða fleiri gerum við minna veður út af þessu, bæði vegna þess að trúlega er ekkert laust eða í hættu lengur í kringum okkur eða við erum orðin vön ástandinu og kippum okkur lítið upp við eina lægðina í viðbót. Kannski sofnum við pínulítið á verðinum og vöknum upp við það um miðja nótt að eitthvað er að berjast utaní húsvegginn, eitthvað sem við héldum að væri alls ekki þar. En ég get að sjálfsögðu ekki talað fyrir ykkur – en ég veit að ég hef allavega sofnað á verðinum.

Þegar óveðrið er skollið á skynjum við flest að þrátt fyrir tækni og framfarir er ýmislegt sem við höfum enga stjórn á. Við erum berskjölduð, stöndum varnarlaus og vanmáttug frammi fyrir vályndum náttúruöflum. En sem betur fer við höfum lært af forfeðrum okkar og eigin reynslu að bera virðingu fyrir þessum duttlungum náttúrunnar. Við þekkjum okkar hlutverk og vitum hvernig við eigum að bregðast við. Og það myndi varla hvarfla að okkur að líta á tilkynningar almannavarna og veðurstofunnar sem hræðsluáróður eða tilraun til að gera okkur lífið leitt. Nei við vitum að það getur skipt sköpum að sýna fyrirhyggju. Það reddast ekki alltaf allt – svipað og ónefnt tryggingafélag bendir okkur linnulaust á; ,,Við tryggjum ekki eftirá.“

Ég geri mér grein fyrir að fyrir mörgum í þessu bæjarfélagi er fyrihyggja nauðsyn en ekki munaður því það er hún sem leiðir skipin ykkar og bátana í var eða jafnvel til hafnar áður en óveðrið skellur á. Og ég las á vefmiðli að 10 manns hefðu staðið vakt hjá björgunarsveitinni Þorbirni nú í vikunni þegar síðasta óveður gekk yfir. Það kalla ég líka fyrirhyggju. Við sýnum fyrirhyggju en á sama tíma við erum sátt við að finna fyrir vanmætti gagnvart náttúrunni. Okkur finnst eðlilegt eða að minnsta kosti ásættanlegt að standa berskjölduð gagnvart stormum, jarðskjálftum og snjóflóðum.

Hið óvænta gerist Í Dæmisögu dagsins í dag sem lesin var frá altarinu áðan er vísað til fyrirhyggju. Meyjarnar sem höfðu með sér olíu komast inn í brúðkaupið en hinar sem enga höfðu olíuna eru lokaðar úti , jafnvel þó þær hafi á síðustu stundu reynt að redda sér. Þær fyrirhyggnu fengu að njóta, ekki hinar. Hvernig ætli þeim síðarnefndu hafi liðið standandi fyrir utan heyrandi brúðguman segja: ég þekki ykkur ekki. Urðu þær reiðar? Fundu þær fyrir óöryggi? Fundu þær fyrir vanmætti? Og svona, segir Jesús, er himnaríki. Skrítið þetta himnaríki –

Dæmisögurnar sem Jesús sagði fólkinu í kringum sig voru ögrandi, þeim var ætlað að vekja undrun og kollvarpa því sem talið var eðlilegt. Jesús vildi fá fólk til að hugsa út fyrir rammann, sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Flestar dæmisögur Jesú hafa í gegnum tíðina verið túlkaðar á margvíslegan hátt því undir yfirborðinu býr einhvern kjarni, einhver viska eða sannindi sem við getum tengt okkur við. Við getum því sagt að dæmisagan í dag snúist í raun ekki um meyjar, brúðkaup og brúðguma, heldur um okkur, lífið okkar og trú okkar Guð. Marteinn Lúther leit svo á að lampar meyjanna væru tákn fyrir trú þeirra, að þeir væru lampar trúarinnar. Brúðguminn er Jesús – við erum meyjarnar. Og spurningin sem við stöndum frammi fyrir gagnvart þessari dæmisögu er sú hvernig trú okkar reiðir af þegar hlutir sem við höfum enga stjórn á gerast í lífi okkar. Verðum við reið? Finnum við fyrir óöryggi? Eða erum við tilbúin til að horfast í augu við vanmáttinn í lífi okkar ?

Vanmáttur og varnarleysi Í vikunni var mér var bent á fyrirlesara á netinu, konu sem heitir Brené Brown. Brown er háskólaprófessor í félagsráðgjöf og hefur helgað líf sitt rannsóknum á mannlegum samskiptum. Brown segir að það sem gefi lífi okkar merkingu og tilgang sé tengslin sem við eigum hvert við annað. Að við séum einfaldlega hönnuð fyrir tengsl en á sama tíma snúist grundvallar ótti okkar í lífinu um það að geta ekki tengst öðrum.

Hún segir að varnarleysi og vanmáttarkennd sé kjarninn í ótta okkar, skömm og eftirsókn okkar eftir virðingu en hún segir líka að varnarleysið sé upphafspunktur ástar og gleði. Brown er líka sannfærð um að varnarleysið, vanmáttarkenndin sé ekki veikleiki og að mýtan um það sé hættuleg. Á tólf ára ferli hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að hæfni okkar til að horfast í augu við vanmátt okkar og varnarleysi sé besti mælikvarðinn á hversu hugrökk við erum.

Varnarleysi trúarinnar Þegar við mætum mótlæti og þjáningu í lífinu höfum við oft á tíðum ekki tækifæri til að sýna fyrirhyggju heldur finnum við fyrir vanmætti okkar og varnarleysi. Það er svo margt sem getur hent okkur í lífinu sem kemur óvænt og er erfitt. Okkur líður eins og allt sé farið að fjúka en við fengum enga stormviðvörun. Í slíku mótlæti og þjáningu tökumst við á við tilvistarpurningar lífins og glímum við trúna okkar. En hvernig glímum við í trúnni? Erum við tilbúin til að segja það upphátt ef við efumst? Erum við tilbúin til að horfast í augu við það ef okkur líður eins og Guð hafi yfirgefið okkur? Getum við leyft okkur að vera reið við Guð? Erum við tilbúin til að viðurkenna að við höfum lítinn áhuga á að taka að okkur verkefnin sem Guð sendir okkur? Erum við tilbúin til að horfast í augu við vanmáttinn sem við skynjum í trúnni okkar? Hversu hugrökk erum við þegar kemur að trú okkar? Hvað ert þú tilbúin til að kalla eðlilegt eða allavega ásættanlegt í tengslum við trú þína?

Æðruleysi í óveðri Já, andlegu óveðrin gera ekki alltaf boð á undan sér. Við vitum samt af reynslunni að þau koma reglulega og það sem skiptir máli er að vera undir þau búin. Að vita hvaða ferli fer í gang og skilja að það er okkar eigin trú sem hefur úrslitaáhrif. Sambandið sem þú hefur ræktað við Guð. Þá vinnu getur því miður enginn unnið fyrir okkur. Það erum jú alltaf við sem þurfum að taka saman dótið í garðinum okkar. Þess vegna geta meyjarnar sem hafa olíu á lömpum sínum ekki lánað hinum og þess vegna mæta þær sem enga olíu höfðu of seint. Vegna þess að sambandið við Guð verður ekki fengið að láni, ekki ræktað á staðnum – ekki búið til á örskotsstundu. Það þarfnast tíma og umhyggju, þarfnast þess að við leggjum okkur fram – rétt eins og við leggjum okkur fram við að rækta sambönd okkar við fjölskyldu og vini. Því ef við ræktum sambandið við Guð eigum við alltaf snefil af trú þegar óveðrin ganga yfir.

Og það er það sem Guð þráir. Hann þráir ekkert heitara en að trú okkar vaxi og haldi áfram að lýsa þrátt fyrir óveðrin.

Matt 25.1-13 Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.