Hreinskilni

Hreinskilni

Á miðvikudag eftir hádegi keyrði ég sem leið lá frá heimili mínu á Kársnesinu til Hafnarfjarðarkirkju. . Þá kveikti ég á gufunni og hlustaði á athyglisvert viðtal við konu á Akureyri sem rekur þar kaffihús, eða starfar þar. Ég bara man það ekki, hvort er. Þegar hún var búinn að vinna þar um langt skeið þá fór hún að velta fyrir sér hvort hún gæti ekki gert eitthvað annað við afgangs matinn en að henda honum í ruslið.


Ég hlusta oft á útvarpið í bílnum mínum. Síbylja tónlistar fer yfirleitt inn um annað eyrað mitt og út um hitt án þess að það hreyfi við mér. Sérstaklega þegar tónlist á útvarpsstöðinni Bylgjunni er leikin.  Ég er þá yfirleitt fljótur að skipta um rás og hlusta þá á tónlist á gömlu góðu gufunni.  Ég er kannski orðinn svona gamall.

Það er helst að ég leggi við hlustir þegar Sigurður Guðmundsson tónlistarmaður syngur eða þegar falleg gömul klassísk tónlist er spiluð.  Ég sótti orgeltónleika í Hafnarfjarðarkirkju á þriðjudag þar sem Guðný Einarsdóttir, organisti Háteigskirkju lék á bæði orgel kirkjunnar. Tónlist frá 17 öld hreyfði meira við mér heldur en nýrri orgelverk á þessum tónleikum.

Smekkur fólks er misjafn þegar val á tónlist er annars vegar.

Ég hlusta á flest alla fréttatíma í útvarpinu og hlusta og horfi á báða fréttatíma í sjónvarpinu og Stöð 2, svo mjög að konunni minni finnst stundum nóg komið. Hún segir að það sé nóg að hlusta einu sinni á sömu fréttina. En málið er bara að ég næ stundum ekki að meðtaka fréttirnar sem sagðar eru og þarf því stundum að hlusta tvisvar á þær. Konan mín segir stundum í gríni við mig að ég sé haldinn athyglisbresti á háu stigi. Þá velti ég því fyrir mér hvort henni finnist ég ekki husta á sig sem skyldi. Hún segir stundum við mig:  ,,Halló,  ertu þarna minn kæri ?“  Þá hefur hún tekið eftir því að ég er ekki að husta á hana þó að ég sé að tala við hana.  Þá hefur hugur minn kannski hvarflað á braut og ég farið að hugsa um hvenær ég eigi næsta teigtíma á golfvellinum.

Já, það er vandlifað í þessari veröld.

Á  miðvikudag eftir hádegi keyrði ég sem leið lá frá heimili mínu á Kársnesinu til Hafnarfjarðarkirkju. . Þá kveikti ég á gufunni og hlustaði á athyglisvert viðtal við konu á Akureyri sem rekur þar kaffihús, eða starfar þar. Ég bara man það ekki, hvort er. Þegar hún var búinn að vinna þar um langt skeið þá fór hún að velta fyrir sér hvort hún gæti ekki gert eitthvað annað við afgangs matinn en að henda honum í ruslið. Ýmislegt mætti t.d. borða daginn eftir. Hún ákvað að pakka því inn sem ekki seldist og skyldi það eftir við bakdyr. Og lét síðan fólk vita af þessu á samskiptamiðli, t.d. facebook. Það skipti engum togum að maturinn var horfinn þegar hún kom til vinnu daginn eftir. Þetta hefur vakið svo mikla athygli að það rataði í útvarpið. Þessi frétt náði eyrum mínum.

Ég og konan mín vorum stórtækari í innkaupum þegar börnin okkar voru ung á Húsavík. Við erum það ekki lengur því að börnin okkar eru löngu farin að heiman og við erum tvö eftir. Samt er ég full stórtækur í innkaupunum oft á tíðum að sögn konunnar og við komumst ekki yfir að borða allt sem ég kaupi inn áður en síðasti söludagur rennur upp. Ég hef þá komist á raun um það að það er allt í lagi að neyta matarins þó að komið sé fram yfir síðasta neysludag á sumum vörunum. Við hendum þó alltof einhverjum mat, matarafgöngum og  t.d. brauði sem er farið að mygla. Við gætum staðið okkur betur á heimili okkar og minnkað matarsóunina.

Verslanir, kaffihús og veitingastaðir gætu staðið sig betur í þessum efnum og sett sér það markmið að minnka matarsóunina. Við höfum tekið eftir því að margar matvöruverslanir selja vörur á hálfvirði sem komnar eru nálægt síðasta söludegi. Það er vel en þær mættu bara gefa þessar vörur að mínum dómi. Skilja þær eftir í bás innan dyra og utan eftir lokun.

Ég tengi þetta spjall mitt um matarsóunina við lexíu þessa Drottins dags þar sem Drottinn talar við Móse og segir við hann:

,,Þegar þið skerið upp kornið í landi ykkar skaltu hvorki hirða af ysta útjaðri akurs þíns né dreifarnar á akri þínum. Þú skalt hvorki tína allt í víngarði þínum né hirða ber sem falla í víngarði þínum. Þú skalt skilja þetta eftir handa hinum fátæka og aðkomumanninum... Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Við getum bætt hegðun okkar hvað matarsóunina snertir. Sannarlega búum við við nægtaborð í þessu landi og skortir ekkert. Allir ættu að geta setið við þetta sama borð en svo er ekki. Mér finnst skammarlegt hversu margir glíma við fátækt í þessu landi og ná alls ekki endum saman. Ábyrgð okkar sem skortir ekkert er mikil gagnvart því fólki sem býr við skort á lífsins gæðum. Það er siðferðileg skylda okkar íslendinga að útrýma fátækt í þessu landi, stuðla þannig að réttlátara þjóðfélagi þar sem allir fá notið sín.

Kosningar til Alþingis eru afstaðnar. Mér telst til að aðeins einn flokkur hafi haft  á stefnuskrá sinni að afmá fátækt á íslandi en það er Flokkur fólksins sem fékk 6 menn kjörna til alþingis. En orð eru eitt, efndir eru annað. Þótt fleiri flokkar sýni þessu málefni skilning þá virðist skorta sameiginlegan skilning og vilja á hinu háa alþingi til raunverulegra breytinga í þágu þeirra sem minnst hafa úr að spila.

Einföld og skír eru boð Drottins, segir í bæn dagsins, Hann hefur boðið okkur að elska sig og náungann eins og okkur sjálf.

Hvað hefði Jesús gert fyrir fátæka á Íslandi? Við vitum að hann fór ekki í manngreinarálit. Hann sat til borðs með fólki sem litið var hornauga í samfélagi þess tíma, fólki sem elítan jaðarsetti af ýmsum ástæðum og vildi ekki umgangast. Já, það er stutt í hrokann hjá flestum, ef ekki öllum.

Jesús hefði ugglaust reynt að stuðla að meiri jöfnuði í íslensku samfélagi. Hann var jafnaðarmaður af bestu gerð. Hann hefði örugglega minnt okkur íslendinga á að temja okkur meiri nægjusemi til að minnka matarsóunina i landinu en nægjusemin skapar hamingju.

Hin sænska Greta Tunberg hefur vakið heimsathygli fyrir baráttu sína gagnvart loftslagsvánni. Hún hefur reynt að vekja stjórnmálamenn upp af þyrnirósarssvefni sínum. Hún hefur gagnrýnt þá harðlega fyrir að blaðra út í eitt í staðinn fyrir að koma sér saman um aðgerðir og gera eitthvað i málunum. Nú væri nauðsynlegt fyrir okkur öll að bretta upp ermar og hætta að menga andrúmsloftið. Tíminn til aðgerða væri orðinn mjög naumur. Við höfum tekið eftir því að hitastig víða á jörðinni hefur hækkað með geigvænlegum afleiðingum fyrir veðurfar á jörðinni.

Mannkyni var falið af Guði að vera ráðsmenn yfir sköpunarverkinu. Hvernig hefur okkur gengið að gegna því hlutverki?  Höfum við gengið til góðs eða ills í þeim efnum?

Ég tel að mannkynið hafi á margan hátt gengið til góðs í þeim efnum en líka illa. Við höfum gengið á gnægtabúr jarðar. Andrúmsloftið og sjórinn verður súrari með hverju árinu. Líka jarðvegurinn.  Það hefur verið gengið mjög nærri skóglendi í heiminum með ógnvænlegum afleiðingum fyrir súrefnisbúskap heimsins. Skógar eru ruddir í auknum mæli með hverju árinu til að búa til akurlendi. Það þarf að fæða fleiri munna vegna þess að fólki hefur fjölgað gríðarlega á jörðinni undanfarna áratugi.

Postulinn Jóhannes minnir okkur á í pistli dagsins að við séum í skuld við Guð því að við erum ekki fullkomin. Við erum breyskar mannverur og þurfum á fyrirgefningu Guðs að halda. Hann segir að við eigum okkur þó málsvara sem tali máli okkar gagnvart Guði föður en það er sonur hans, Jesús Kristur.  Postulinn segir að , hann sé friðþæging fyrir syndir okkar og ekki einungis fyrir syndir okkar heldur líka fyrir syndir alls heimsins.. Já, Jesús dó fyrir syndir mannkynsins á krossinum þótt saklaus væri, þótt hann hefði ekki syndgað. En sökum elsku sinnar þá ákvað hann að gefa líf sitt til að við gætum lifað fyrir hann, til að við gætum fetað í fótspor hans í trú, von og kærleika.

Við þekkjum boðorðin 10, fyrstu þrjú fjalla um skyldur okkar við Guð og hin fjalla um skyldur okkar við náungann. Jesús dró efni boðorðanna 10 saman í tvöfalda kærleiksboðorðinu þar sem við erum hvött til að elska Drottinn Guð og náungann eins og okkur sjálf.

Postulinn minnir okkur á það að við sem þekkjum og elskum Drottin Jesú Krist eigum að leitast við að breyta eins og Jesús sjálfur breytti þá er hann gekk um grundir og mætti fólki þar sem það var statt hverju sinni og leitaðist við að hjálpa því. Og postulinn minnir okkur jafnframt á mikilvægi heiðarleikans í samskiptum við hvert annað.  Postulinn segir ,,Sá sem segir: „Ég þekki hann,“ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. En hver sem varðveitir orð Guðs, hann elskar sannarlega Guð á fullkominn hátt. Þannig þekkjum við að við erum í honum. Þeim sem segist vera í honum ber sjálfum að breyta eins og Jesús Kristur breytti.

Þegar ég hugleiddi guðspjall dagsins þá kom eitt orð upp í huga minn en það er einmitt heiðarleikinn. Þar er talað um mikilvægi þess að ljósið sé sett upp á ljósastiku en ekki undir borð, til að ljósið geti lýst sem flestum. Þá getur ljósið nefnilega opinberað það sem er hulið og þolir kannski ekki dagsljósið.  Þar segir guðspjallamaðurinn líka.  ,,Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri.“ Hér finnst mér við vera minnt á mikilvægi þess að vera hreinskilin og segja það sem okkur liggur á hjarta og við meinum.

Flækjustigin geta verið af ýmsu tagi vegna þess að fólk meinar ekki það sem það segir. Vinslit, skilnaðir, flokksdeilur og jafnvel þjóðarátök eru oftar en ekki afleiðing af þvi að fólk talar ekki skýrt en sendir misvísandi skilaboð sem valda glundroða og illsku. Þó að við állítum okkur sjálf vera heiðarleg og hreinskilin þá segjum við ekki ætíð það sem við hugsum og meinum alls ekki allt sem við segjum. Í viðleitni okkar til að þóknast öðrum segjum við ýmislegt sem er ekki alveg satt. Þá bjóðum við lyginni heim og syndgum gegn Guði.

Við þurfum að æfa okkur í að tjá okkur hreinskilnislega. Á okkur hvílir sú ábyrgð að vita hvað við viljum og hafa kjark til að tjá það. Stundum er betra  að bíða og hugsa málið frekar en að segja þvert á það sem vil vildum helst segja. 

Höfum hugrekki til þess að tjá það sem í hjarta okkar býr. Verum umfram allt hreinskilin við okkur sjálf og  þorum að vera þau sem við erum jafnvel þó að það falli ekki kramið.

Í dag ætlum við að segja það sem okkur býr í brjósti, jafnvel þó að það sé óþægilegt fyrir okkur. Við ætlum að gera það í kærleika og með virðingu fyrir öðrum. Þannig hlustum við líka á hvert annað með sem heilnæmustum hætti.

Til þess að vita hver vilji Guðs er þurfum við að leita hans í einlægni. Þegar við skynjum rödd Guðs í hjarta okkar og fylgjum henni af einurð þá mun Guð hjálpa okkur á vegferð okkar í gegnum lífið. Ég lít svo á að besta viðtækið sé hjartað sem býr innra með okkur. Hlustum á rödd Guðs innra með okkur. Það fylgir því blessun að gera það á hverjum degi.