Og dýrð Drottins ljómar kringum þig

Og dýrð Drottins ljómar kringum þig

Ein hinna fögru jólaminninga okkar hinna eldri er um ljósið. Það loguðu ljós alla nóttina. Líka í kirkjunni. Það loga ljós, af því að ljósið er komið í heiminn.Í tvennum skilningi. Það loga ljós til að tengja saman dag og nótt. Það er gott að vakna jóladagsmorgun og vita að jólin eru ennþá, að hátíðin sem gekk í garð í gærkveldi hún varir ennþá, - ekki bara á almanakinu, heldur einnig í okkur sjálfum, og við ráðum því sjálf hversu lengi hún varir.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
25. desember 2004
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Bæn

Í dag er heimi frelsi fætt, er fær vor mein og harma bætt það barnið þekkjum blessað vér vor bróðir Jesús Kristur er.

Og oss til merkis er það sagt í aumum reifum finnum lagt það barn í jötu er hefur heim í hendi sér og ljóssins geim",.

Því bú til vöggu í brjósti mér Minn besti Jesús handa þér Í hjarta mínu hafðu dvöl Svo haldi ég þér í gleði og kvöl. Amen (Sb 85)

Í hinu síðara guðspjall jóladagsins sem skráð er í upphafi Jóhannesarguðspjalls er ritað:

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Ein hinna fögru jólaminninga okkar hinna eldri er um ljósið. Það loguðu ljós alla nóttina. Líka í kirkjunni. Það loga ljós, af því að ljósið er komið í heiminn.Í tvennum skilningi. Það loga ljós til að tengja saman dag og nótt.

Það er gott að vakna jóladagsmorgun og vita að jólin eru ennþá, að hátíðin sem gekk í garð í gærkveldi hún varir ennþá, - ekki bara á almanakinu, heldur einnig í okkur sjálfum, og við ráðum því sjálf hversu lengi hún varir.

Ljósið er komið. Allt snýst til betri vegar.

Við sem vorum svo heppin að alast upp á svæðum þar sem rafmagnið var ótryggt á vetrum, við skynjuðum þetta með sérstökum hætti. Ljósið fór, og ljósið kom. Kannski fór það strax aftur, en það gerði ekki til, það var vísbending um að bráðum kæmi það til að vera.

Kæri söfnuður, Maður nokkur spurði nýverið: Er ekki löngu búið að segja allt sem segja þarf í predikun á jólum? Er virkilega hægt að bæta einhverju við eftir tvö þúsund ár? Er þetta ekki bara alltaf sama gamla tuggan?

Það mætti þá segja um öll guðspjöll og alla predikunartexta. Og það sem meira er, þetta myndi gilda í yfirfærðri mynd um ýmislegt annað Hversvegna segjum við gleðileg jól, - við gerðum það líka í fyrra?

Það er líka til gamansaga um eiginmanninn sem sagði við konu sína á brúðkaupsdaginn: Ég ætla bara að segja þér það í eitt skipti fyrir öll að ég elska þig, og svo verður ekki minnst á það meir. Hvílík heimska ...

Hver nýr dagur hefur nýja sýn og nýja nálgun. Það sem var í gær er annað en það sem er í dag. Börnin vaxa og ástin þroskast og við eldumst. Það sem var venjulegt í gær er dýrmætt í dag. Það sem ég heyrði sagt í gær fór framhjá mér án þess að ég tæki eftir því, en í dag hittir það hjartað. Í dag er allt nýtt eins og mjöllin.

Og í dag hefur orðið sem var í upphafi verið talað til okkar. Orðið sem skapaði þennan heim og greindi ljósið frá myrkrinu, það er allur sköpunarkraftur Guðs, er orðinn maður, er orðinn barn í jötu. Og þar með er þessi kraftur ofurseldur mannlegum duttlungum og mannlegum breyskleika. Hann er gefinn í hendur mannanna á ótryggum tímum. Heródes bíður skammt undan og vill granda honum, og Herodes er enn að.

Orðið sem er barn í jötu og frelsari heimsins, hann er gefinn í hendur okkar. Orðið sem skapaði þennan heim, sköpunarorðið sjálft er komið til jarðar til þess að vera orð frelsisins, orð hinnar nýju sköpunar.

Það er ekkert nýtt að jólin komi, þau koma á hverju ári á sama tíma eins og líka sól fer hækkandi á sama tíma árs og aftur nú á þessum dögum. Sólin er hin sama og þó er þetta nýtt ljós, og ný jól og ný framtíð handa okkur, ef við viljum, ný framtíð með Jesú Kristi.

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á...

Friður á jörðu. Hvernig geta englar Guðs talað um frið á jörðu, ef hann er ekki á jörðu, heldur ræður ófriðurinn? Friði var ekki jafnað út yfir allan heim hina fyrstu jólanótt, heldur var hann lagður í jötu og það er einungis hægt að taka við honum að gjöf. Persónulegri gjöf. Það er ekki hægt að berjast fyrir honum. Friður fæst ekki með vopnavaldi. Það er ekki hægt að tryggja frið með valdi. Þannig er bara hægt að tryggja ótta og kúgun. Friður jötunnar fæðist hið innra.

Hvernig getur nokkur krafist þess að friður ríki í heiminum ef ekki er sinnt um hann í eigin lífi? Friður á jörðu, fæddur í jötu er persónulegur og persónugjörður, og það verður enginn friður á jörðu fyrr en persónur, eins og við tökum á móti honum og á móti friði hans, í persónulegri trú og trausti á handleiðslu hans. Orðið sem varð hold, það vill setjast að í mönnum eins og mér og þér og hafa áhrif á líf okkar og hugsun, áhrif á afstöðu okkar til annarra manna, - eins og það nær að gera á jólunum.

Boðskapur jólahátíðarinnnar einkennist af skörpum andstæðum eins og myrkri og ljósi. Ljósið skín í myrkrinu. Leggið af verk myrkursins og framgangið í ljósinu.

Ófriður í öllum myndum sínum, heyrir myrkrinu til. Orðið sem í öndverðu skapaði heiminn skildi myrkrið frá ljósinu. Orðið sem í upphafi var, það varð hold á jörð og býr með oss. Í því var líf, og lífið er ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Þessi stóru orð mæta litlu fólki. Hirðarnir á Betlehemsvöllum eru í stóru hlutverki. Ekki hefur þá órað fyrir því í aðdraganda jólanæturinnar fyrstu og ekki einu sinni þegar þeir stundum eins og venja var höfðu á vörum sér spádóminn um konunginn sem fæðast myndi Ísrael.

Þeir voru meðal hinna smáu þessar jarðar. Ósýnilegir menn, allt til þessarar stundar. Hverjir eru þeir? Þeir verða sýnilegir í ljósi himnanna þegar engillinn ávarpar þá, og þegar þeir hafa hlaupið til og séð, hverfa þeir aftur inn í myrkur sögunnar. Hvernig voru þeir? Við höfum séð margar fallegar myndir af þeim. Það eru ekki ósannar myndir, heldur ófullkomnar. Betlehemsvellir eru enginn sælureitur. Þar liggja menn í launsátri eins og vargar og skothvellir berast allt til Íslands.

Þeir voru heldur aldrei sælureitur hvorki fyrir hirða né aðra. Lífsbaráttan var hörð, og þetta voru menn hertir af erfiði daganna og ótta næturinnar. Þeir sátu við eldinn og ornuðu sér, ærnar lágu í kring, hundarnir sváfu með annað eyrað opið vegna villtra dýra næturinnar sem ásældust lömbin, - og hirðisstafurinn með króknum til að krækja fyrir sauðinn sem vildi annað en hann mátti, hann var líka vopn til að verja sig með. Þeir sátu við eldinn hálfsvangir og þreyttir, klæddir lörfum og hefði ekki veitt af jólabaði.

Hann hefur litið til ambáttar sinnar í lítilmótleik hennar,, segir í lofsöng Maríu , þegar Gabríel hafði borið henni boðin um fæðingu Jesú.

Kirkjan, staðurinn þar sem trúin er varðveitt, kirkjan er ambátt Drottins, og Guð lítur niður að henni.

Guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer sagði:

,,Guð skammast sín ekki fyrir lítilmótleik manna. Hann gengur mitt á meðal þeirra, stígur niður til þeirra, velur menn til að vera sín verkfæri og gerir kraftaverk þar sem við eigum alls ekki von á."

Hirðarnir hlupu út í myrkrið með jólaboðskapinn knúðir af eigin gleði og fögnuði. Leyndardómurinn um elsku Guðs til mannanna verður ekki sagður með öðrum hætti.

Þessi boðskapur er í senn elskulegur og ægilegur. Frammi fyrir hátign Guðs verður hver maður smár. Frammi fyrir hinu heilaga og hreina verður saurinn og syndin svo svört.

Líka þegar Guð vil elska það allt saman burt.

Reynsla hirðanna er reynsla allra manna þegar Guð birtist þeim. Hann er tjáður með orðunum: Ótti, undrun, friður, fögnuður.

Hirðarnir reyndu það og síðan allir aðrir. Hinn huldi Guð verður sýnilegur. Sá Guð sem öll á himins hnoss, varð hold á jörð og býr með oss.

Þessvegna segjum við hvert öðru enn þessa sömu sögu. Þessi atburður er ekki fjarlægur - ekki bundinn neinum þeim veruleika sem er frábrugðinn okkar eigin, hverjar svo sem kringumstæður okkar eru, hið ytra eða innra. Engillinn kallar okkur til að koma og sjá og trúa í sömu einlægni og einfeldni og barn.

Og þessvegna ljómar dýrð Drottins einnig í kringum þig og mig á þessum jólum.

Í fæðingu frelsarans steig Guð sjálfur niður til jarðarinnar. Himininn opnast. Guð býr meðal barna sinna. Hann er hér.

Hér við þetta heilaga altari byrjar himininn. Þetta altari Þingvallakirkju, af mannahöndum gjört fyrir hundrað og fimmtíu árum, það er fótskör Guðs og merkissteinn á landamærum himins og jarðar, eins og altari hverrar kirkju.

Sérðu það ekki? Lokaðu þá augunum , svo að þau truflist ekki af jarðneskum hlutum, og bíddu svo á meðan jarðneskar áhyggjur renna framhjá luktum augum þinum, þar til ljósið skín og dýrð Drottins fær að ljóma kringum þig.

Lofið Guð sem gaf þakkið hjálp og hlíf tæmt er húmsins haf allt er ljós og líf. (Sb.74,v.5)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafio er og verður um aldir alda Amen.

Kristján Valur Ingólfsson er sóknarprestur á Þingvöllum. Þessi prédikun var flutt í Þingvallakirkju á jóladag 2004.