Uppgjöf skulda fátækra ríkja

Uppgjöf skulda fátækra ríkja

Fyrir nokkrum árum tóku kirkjur og alþjóðastofnanir höndum saman í sérstöku átaki til að gefa eftir skuldir fátækustu þjóða heims. Þar er um að ræða ríki þar sem megin þorri þjóðartekna fer til afborgunar vaxta af lánum sem veitt voru til óarðbærra framkvæmda.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
28. janúar 2010

Karl Sigurbjörnsson

Fyrir nokkrum árum tóku kirkjur og alþjóðastofnanir höndum saman í sérstöku átaki til að gefa eftir skuldir fátækustu þjóða heims. Þar er um að ræða ríki þar sem megin þorri þjóðartekna fer til afborgunar vaxta af lánum sem veitt voru til óarðbærra framkvæmda. Þetta heldur fátækustu ríkjum heims í skrúfstykki. Hreyfingin er kennd við Jubilee, sem er skýrskotun til Biblíunnar, til náðarársins sem boðað er í lögmálinu þegar skuldir eru gefnar upp og þrælum gefið frelsi.

Kristnir menn um víða veröld, kirkjuleiðtogar og alþjóðasamtök kirkna og hjálparstofnana vestan hafs og austan hafa látið raust sína heyrast í þágu hinna fátæku þessa heims og hvatt til þess að að lækka verulega ef ekki gefa alfarið upp skuldir þær sem ógna alvarlega framtíð fjölmargra fátækra þjóða. Slík aðgerð verði nátengd beinum aðgerðum til að ekki einasta rjúfa spennitreyju skuldaklafans sem fátækustu þjóðirnar búa við, heldur leggja grunn að raunverulegum endurbótum á sviði heilsugæslu, menntunar og landbóta og mannréttinda.

Þetta er alvarleg siðferðisleg krafa á hendur okkur öllum sem betur eru sett í heimsþorpinu. Alþjóðabankinn og ríkisstjórnir auðugustu landa heims stigu sannarlega ákveðin skref í þessa átt. En afar hægt hefur gengið og iðulega hafa skilmálarnir sem skuldugu þjóðunum voru settir í tengslum við þessa skuldaniðurfellingu eða aðlögun reynst þeim ofviða. Samkvæmt upplýsingum á ráðstefnu Hjálparstarfs norsku kirkjunnar og Lúterska heimssambandsins um þessi mál í fyrra þá hefur um helmingur af 40 örsnauðum ríkjum, sem metin voru í þeim flokki ríkja sem nauðsynlega þyrftu á skuldaniðurfellingu að halda, fengið slíka meðferð á umliðnum 15 árum.

Hin auðugu ríki heims hafa alls afskrifað um 100 milljarða dollara af skuldum þeirra. Það er mikið fé, en betur má ef duga skal. Hitt er samt athyglivert að frá því að fjármálakreppan hófst hafa þær sömu ríkisstjórnir dælt 10 trilljónum dollara í banka og fjármálastofnanir sínar. Það er augljóst að þarfir bankanna og fjármagnsins vega þyngra en fjötrar og neyð skuldarans. Ætli við könnumst ekki við það?

Vonir þeirra sem hafa vænst þess að kreppan væri tækifæri til breytinga og siðbótar hafa óneitanlega daprast. Í uppgangi undanfarinna ára varð hnattvæðing töfraorð, alheimsvæðing viðskipta og fjármagns átti að leysa allan vanda, hinn opni markaður og frjálsa flæði fjármagnsins sem álitið var lúta eigin lögmálum. Þetta varð kennisetning, kredda, sem reyndist fals. Fjármagn er verkfæri fólks en ekki blint afl, markaðurinn er mannlegt samfélag og samskipti. Markaðurinn er vettvangur manna, fjármagnið er verkfæri í höndum manna og því verður að vera stýrt af siðferðislegum meginreglum, en ekki aðeins viðskiptalegum sjónarmiðum eða fjárhagslegum hagsmunum, vegna þess að syndin er að verki í mannlífinu, afl eigingirni, græðgi, fýsnar og valdasýki er ætíð að verki.

Nauðsynlegt er að skoða vanda skuldara og lánadrottna ekki aðeins frá sjónarmiði lögfræði og fjármála, heldur einnig frá siðgæðislegum, mannúðlegum og pólitískum sjónarmiðum. Þar kemur til dæmis til gagnkvæm ábyrgð lántaka og lánveitanda, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki og ríki. Augljóslega þarf mikið til að andæva ofurefli alþjóða fjármálakerfisins. En stofnanir eins og Jubilee, Lúterska heimssambandið og ýmis mannúðar og hjálparsamtök leitast við að taka undir með þeim fátækustu þessa heims og styðja þau í að verjast ofureflinu og efla almenningsálit heimsins til að gefa gaum að hinum siðferðislegu þáttum.