Endurfundir

Endurfundir

Það er nauðsynlegt að vita hvert skal stefna, en það er ekki síður mikilvægt að vita og muna hvaðan maður kemur. Það er svo mikið talað um nýtt Ísland og margir bera í brjósti vonir um að á rústum þess hruns sem nú bylur á okkur rísi nýtt Ísland, betrum bætt, siðbætt samfélag. Nýtt Ísland. Einhvern veginn finnst mér þó sem það hafi verið það sem við bjuggum við um skeið, þetta stóra, stóra, nýja Ísland, sem ætlaði sér svo mikinn hlut í hinni djörfu nýju veröld auðsins.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
01. febrúar 2009

Þjóðminjavörður og góðir gestir. Til hamingju með daginn. Þökk fyrir það sem við höfum fengið að njóta hér á þessari vönduðu opnunardagskrá, yndislega tónlist og eftirminnileg og umhugsunarverð orð. Til hamingju með þá sýningu sem hér hefur verið sett upp og þá fallegu bók sem gefin var út af því tilefni. Ég þakka öllum hlutaðeigandi fyrir að stefna til Endurfunda. Með því gefst okkur dýrmætt tækifæri til að skyggnast um gáttir sögunnar í skuggsjá þeirra rannsókna á helgum sögustöðum sem unnar voru með tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs.

Það var mikilvægt að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá kristnitöku með því að leggja fjármuni til rannsókna á menningararfi þjóðarinnar. Og eins og hér hefur komið fram olli það kaflaskilum í fornleifarannsóknum, auk þess sem það stuðlaði að viðamiklu samstarfi þvert á faglegar markalínur. Með því er og lagður grunnur að áframhaldandi starfi að því að skilja og meta sögu okkar og menningu. Sjaldan ef nokkurn tíma hefur það verið þjóðinni mikilvægara en nú að auka skilning sinn á sögunni, og rótum menningar sinnar og samfélags. Okkur er þörf endurfunda.

Því var eitt sinn logið upp á prófessor nokkurn hér við háskólann, sem þótti nokkuð viðutan, að hann hafi hitt mann hér hjá þjóðminjasafninu, þetta var um hádegisbil. Þeir tóku tal saman og var skrafdrjúgt, tíminn flaug frá þeim, þar til prófessorinn lítur allt í einu á klukkuna, bregður við, hann horfir ráðvilltur kringum sig og spyr svo: „Úr hvorri áttinni var ég að koma þegar við hittumst?” „Neðan úr bæ,” svaraði hinn. „Æ, það var gott,” sagði prófessorinn,„ þá er ég búinn að borða!”

Það er nauðsynlegt að vita hvert skal stefna, en það er ekki síður mikilvægt að vita og muna hvaðan maður kemur. Það er svo mikið talað um nýtt Ísland og margir bera í brjósti vonir um að á rústum þess hruns sem nú bylur á okkur rísi nýtt Ísland, betrum bætt, siðbætt samfélag. Nýtt Ísland. Einhvern veginn finnst mér þó sem það hafi verið það sem við bjuggum við um skeið, þetta stóra, stóra, nýja Ísland, sem ætlaði sér svo mikinn hlut í hinni djörfu nýju veröld auðsins. Það reyndist tál, sem hrundi með braki og brestum. Eigi nýtt Ísland, endurbætt, siðbætt samfélag að verða að veruleika þá er mikilvægt að vel sé hugað að grunninum og rótunum, hvaðan við komum og hvaða nesti og næring var í boði. Mér finnst að menning okkar hafi undanfarið verið að mörgu leyti undirlögð minnistapi, andlegu málstoli og virðingarleysi við þau gildi sem umfram allt gera okkur að þjóð. Vissulega er það satt að fortíðin er góður þjónn en einatt slæmur húsbóndi. Til að vera dómbær á tímanna tákn og að geta metið rétt það sem máli skiptir þurfum við söguna og minningarnar, hefðirnar, listina, ljóðið, draumana, já, og trúna og vonina. En umfram allt kærleikann. Sem alltaf er öðrum þræði virðing, virðing fyrir sjálfum sér og öðrum, og því sem er manni æðra.

Mér er það heiður og þakkarefni að fá að opna þessa sýningu. Njótum öll Endurfunda! Flutt við opnun sýningar í Þjóðminjasafninu, 31. jan. 2009