„En skiptir ekki mestu að hæfasti einstaklingurinn sé valinn?“

„En skiptir ekki mestu að hæfasti einstaklingurinn sé valinn?“

Ég tel það vera mikilvægt fyrir kirkjuna að næsti biskup verði kona. Auk þess tel ég mikilvægt að sú kona sé femínisti; þ.e. veit að misrétti kynjanna er staðreynd og vill gera eitthvað til þess að bæta það.

Nú styttist í aðrar biskupskosningarnar af þremur sem haldnar verða á einu ári. Mikið hefur verið rætt um það hvort nú sé ekki kominn tími til þess að velja konu sem biskup í Þjóðkirkjunni og hef ég ekki heyrt neinn mótmæla því upphátt. Í síðustu kosningum munaði litlu að kona yrði biskup í Skálholti.

Nú er annað tækifæri.

Reyndar er nokkuð um að fólk spyrji á móti, hvort kyn biskups skipti nokkru máli svo lengi sem hæfasti einstaklingurinn verði valinn.

Svar mitt er jú, það skiptir máli vegna þess að frá því að biskupsdæmin tvö, Hólar og Skálholt voru sameinuð og biskupinn fluttur til Reykjavíkur hafa 13 karlar gegnt embætti biskups en engin kona. Út frá almennri jafnræðisreglu er einfaldlega kominn tími á það.

Hins vegar er það spurningin sem ég velti vöngum yfir. Er mögulegt að spyrjandinn telji að það sé alls ekki víst að hæfasti einstaklingurinn geti verið kona en að það sé öruggt að hann sé karl? Sé gert ráð fyrir að konurnar séu í það minnsta jafn hæfar og karlarnir þá þyrfti ekki að spyrja á þennan hátt.

Nú hafa aðeins tvær konur gefið kost á sér til embættis biskups Íslands á meðan karlarnir eru sex. Þetta kann að þykja lítið en ef við kyngreinum vígða presta innan kirkjunnar þá kemur í ljós að kynjahlutfall biskupskandídata endurspeglar nokkurn veginn kynjahlutföll presta í þjóðkirkjunni. Reyndar hefði einn karlanna sex þurft að vera kona til þess að þetta endurspeglaði kynjahlutföllin meðal félaga Prestafélags Íslands.

Í Prestafélagi Íslands eru 47 konur og 108 karlar. Þær eru því rúmlega þriðjungur félaga. Af þessum 47 konum eru í það minnsta 7 sem starfa ekki innan þjóðkirkjunnar. Þá eru ekki allir prestar landsins í Prestafélaginu.

Ég tel það vera mikilvægt fyrir kirkjuna að næsti biskup verði kona. Auk þess tel ég mikilvægt að sú kona sé femínisti; þ.e. veit að misrétti kynjanna er staðreynd og vill gera eitthvað til þess að bæta það. Manneskja sem gerir sér grein fyrir að kynjamisrétti er til staðar er einnig líkleg til þess að leggja sitt af mörkum til þess að vinna gegn öllu öðru misrétti, kúgun og ofbeldi. Kynjamisrétti hefur m.a. getið af sér kynbundið ofbeldi, ofbeldi gegn konum og stúlkum sem er eitt útbreiddasta mannréttindabrot okkar tíma.

Það segir sig sjálft að karlar geta verið femínistar jafnt sem konur og ekki eru allar konur sjálfkrafa femínistar. Mér þykir skipta megin máli að biskupinn sé jafnréttissinnaður og best er ef hann er jafnréttissinnuð kona. Og nú er bara að velja!